Pressan - 15.06.1989, Blaðsíða 23

Pressan - 15.06.1989, Blaðsíða 23
Fimmtudagur 15. júní 1989 23 WM SULTUKRUKKUM Þú þarft bókstaflega ekkert að hafa fyrir því að láta bera á þér á Akureyri! En mér þykir samt vænt um Akureyri.“ Auk þess að sauma á sjálfan sig saumaði hann á vinkonur sínar: „Fyrst þegar ég byrjaði að sauma hélt ég að ég gæti eitthvað og þess vegna hélt ég áfram, þótt það sem ég saumaði í upphafi hafi kannski hvorki verið vel gert né merkilegt. En ég var alltaf að leita að nýjum leiðum og byrjaði snemma að sauma kjóla á vinkonur mínar. Ég keypti mér saumavélina sjálfur, því við mamma vorum síður en svo sammála um hvernig gera ætti hlutina! Öll sú kennsla var því af- lögð strax í upphafi — og ekki orð um það meir!“ Saumaði kjól á Nínu Björk — og bankaðiupp á Fljótlega eftir að Rósberg flutti til Reykjavíkur fór hann að sjá sýningu Nem-- endaleikhússins á leikriti Nínu Bjarkar Árnadóttur, „Fugl sem flaug á snúru“. Rós- berg heillaðist svo af verkinu að hann fór heim, saumaði kjól á Nínu Björk og bank- aði upp á hjá henni: „Nína Björk er mjög ljóðræn manneskja og ég fór grátandi út af verkinu. Aðalsöguhetjan í leikritinu hét Rósberg, sem mér þótti nokkuð merkilegt. Nína Björk hafði aldrei áður séð mig og kjóllinn var nokkurs konar skúlptúr, rós og fugl, svo hún hefur aldrei getað notað hann! Við urðum hins vegar góðir vinir, fórum saman í búðir og valhoppuðum niður Laugaveginn. Ég sukkaði voða mikið á tímabili — og Nína Björk fattaði það og skildi. “ Hann segir að daginn sem hann flutti til Reykjavíkur hafi sér liðið eins og „Berlínarmúrinn hefði verið brotinn niður á einum degi“. Hann segir þessa sögu af kjólnum og Nínu Björk sem dæmi um hversu „spont- ant“ hann hafi verið þegar hann var yngri: „Ég hugsaði aldrei um hvað ég ætlaði að fara að gera, ég bara gerði hlutina. Ég er miklu varari um mig núna og ég hugsa að ég myndi til dæmis ekki banka upp á hjá ókunn- ugri manneskju með kjól undir hend- inni. Maður gæti átt á hættu að hurðinni yrði skellt á nefið á manni! Ég hugsaði hins vegar aldrei svo langt þegar ég fór til Nínu Bjarkar. Nína er líka einstök kona og mann- eskja. Lestu ljóðin hennar. — En veistu það, að ég hugsa aldrei um hvort ég þori að fram- kvæma eitthvað. Það er öllu heldur spurn- ing um hvort ég hef tíma eða nennu!“ Með Florence Nightingale-komplexa Eftir að hann hætti að gæta bús og barna vestur á Ránargötu sneri Rósberg sér að því að sinna gömlu fólki. Hann réðst til starfa á vegum Félagsmálastofnunar: „Þeir eru margir, listamenn og aðrir slíkir, sem hafa svona sterkan Florence Nighting- ale-komplex og þurfa endilega að fá útrás fyrir hann einhvern veginn. Eg fór að sjálf- sögðu í gamla fólkið og það starf átti vel við mig. Ég var mest í því að pússa silfrið fyrir það og tala og kynntist til dæmis alveg ynd- islegri 96 ára konu sem ég held enn sam- bandi við. Þótt maður beri aldurinn utan á sér, þá er þessi kona ekki 96 ára fyrir fimm aura. Ég held það sé spurning um að leyfa sér að hugsa áfram, hafa drauma, Ianganir, þrár; ekki falla inn í staðalinn. Annars er ís- lenskt þjóðfélag sérhannað til að ræna sjálfsvirðingu einstaklingsins. Þegar þú ert orðinn fullorðinn á helst að henda þér, eins og ónýtum pappakassa. Hreinlegra væri að hafa löggiltan aftökustað sem væri til dæmis opinn á þriðjudögum." Eftir að hafa synt í gegnum lífið í langan tíma, „stoned, og á mörgu“ eins og hann lýs- ir því, segist hann hafa fengið leið á þannig lífi, og telur sig heppinn: „Ég var að pæla í meðferð, en þá fór allur vinahópurinn í skemmtiferð upp að Vogi. Ég kærði mig nú ekkert um að fara í sama partíi og ég var bú- inn að vera í undanfarna mánuði. Svo ég bara varð að „díla“ við þetta sjálfur.“ Að leita fegurðarinnar handan Ijótleikans Á þessum árum segist hann hafa fengið margar góðar hugmyndir, en aldrei haft eirð í sér til að framfylgja neinni þeirra. Svo var honum falið að hanna búninga fyrir Ieikrit- ið „Nashyrningarnir“, sem Ieikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð setti upp. Hann fékk mjög góða gagnrýni fyrir það verk og segist að sjálfsögðu hafa orðið mjög glaður, „ekki bara fyrir mína hönd, heldur alls hópsins. Ef til vill fékk ég staðfestingu á hvar mitt svið væri, — leikhúsið. Ég er ósam- mála þeim sem halda að allt þurfi að vera svo fallegt í sviðsmyndinni. Mér finnst að maður eigi að leita að fegurðinni þrátt fyrir ljótleikann, handan við hann og jafnvel í honum sjálfum. En maður má í rauninni aldrei leita að því ljóta... Þótt maður sé að búa til sannfærandi leikhús má ekki búa til algjörlega nýjan heim, óskyldan þeim sem fyrir er. Ég meina, maður verður að taka eitthvað úr heiminum sem er í kringum mann, annaðhvort „affectera“ hann eða einfalda eða nota aðra trúverðuga leið til að koma heiminum í kringum okkur inn í leik- húsið. Ég vinn alltaf út frá umhverfinu, því sem ég sé í kringum mig og því sem er næst mér, og það sama held ég að gildi um áhorfendur“. Það fá ekki allir að vinna með pottþéttum listamönnum Hann segir að aðstaða sín í verkinu um Virginíu Woolf sé að mörgu leyti sérkenni- leg: „Ég er að hanna búninga á leikara sem hafa Ieikið þessar persónur á öðru sviði. Þar af leiðandi hafa þeir ákveðið forskot — tím- ann, skilurðu, þekktu karakterana áður en ég „droppaði" inn í gengið. Þá hefði verið fyrirhafnarminnst að spyrja: „Hvaða lufsur viljið þið að ég saumi á ykkur?“ En auðvit- að var það ekki svona. Ég fékk strax mínar hugmyndir og hef fengið frið til að þróa þær. Mér hefur fundist þessi samvinna gef- andi og einlæg, og það eru ekki allir sem fá að vinna með svona pottþéttum listamönn- um. Og ef þú heldur að þetta verði sama sýn- ingin og fyrir norðan, þá vantar eitthvað í þig! Eg held það hjálpi mér í þessu starfi að hafa upplifað lífið eins og það gerist hrika- legast. Ég sá snemma að ég myndi aldrei nenna að gerast fatahönnuður eins og draumur margra ungmeyja er í dag. Ég gæti aldrei gengist undir viðskiptasjónarmiðin, ég verð að hafa einhvern skúlptúr/karakter í flíkunum líka, eitthvað mannlegt, kjöt á beinunum." Á flótta undan klístruðum sultukrukkum Þegar Rósberg fær hugmyndir að búning- um byrjar hann ekki á að koma þeim á blað: „Ég sé búningana fyrir mér sem snið, óháð heild á þessu stigi. Síðan þróast karakterinn í flíkinni með persónunni og heildinni og þá er að pára það niður á blað. Alveg eins er með hattana. Það er sko karakter í öllum mínum höttum. Þú verður að vera mjög ná- kvæmur með hvaða efni og hluti þú notar, og reyna að forðast allan óþarfa." Rósberg er núna með litla vinnustofu, þá fyrstu sem hann hefur haft um dagana, „en að sjálfsögðu hef ég unnið á bókstaflega öll- um eldhúsborðum þessa lands. Ég er búinn að vera á flótta undan klístruðum sultu- krukkum í mörg ár“! Vinnustofan hans er í litlu bleiku bakhúsi hjá Hlaðvarpanum og hefur hlotið nafnið „Hattarí Rósa“ — enda mest um hattasaum á þeim bæ í saumavél sem hann segir að heiti „Brjálaði fanga- vörðurinn“! í framtíðinni segist hann ætla að læra meira: „Það endar náttúrulega með því að maður verður að ná sér í löggild próf. En ég held að þaö sé gott fyrir fólk sem ætlar að Ieggja þetta fyrir sig að kynnast leikhúsinu áður, svo það geti nýtt sér námið betur. Þó maður hafi öðlast ákveðið sjálfstæði getur það orðið að þröngum hugsunarhætti ef maður kynnist ekki öðrum vinnu- brögðum." Fullt starf að vera sukkari Meðal annars til að forðast þannig hugs- unarhátt segist hann velja sér vini úr öllum stéttum og af öllum aldri: „Ég held það sé ekki gott að þekkja of mikið af leikurum,“ segir hann hlæjandi. Bætir við stuttu síðar: „Ef maður vinnur í leikhúsi og lifir og hrær- ist í því sem gerist innan þess, á aðeins vini sem eru leikhúsfólk, hvernig á maður þá að geta komið með eitthvað nýtt inn í leikhús- ið? Við yrðum öll að „fagidjótum“. Það er ágætt að vera kominn út úr hinu svokallaða „ljúfa lífi“ borgarinnar. Þar ríkti endalaust kapphlaup eftir því að láta sér leiðast sem mest. Það er hrikalegt þegar maður áttar sig ekki á því að maður er í kapphlaupi við að láta sér leiðast. Því leiðinlegra og firrtara sem lifiðer þar, því betra.“ Og spurningunni hvernig maður vakni upp svarar hann: „Maður vaknar náttúrlega ekkert upp, nema maður stefni á eitthvað annað. Og maður vaknar ekki upp nema maður átti sig á því að þetta Iíf, sem maður hefur lifað, hindrar mann í því sem mann langar að gera og hefur eitthvað í að gera. Þeir sem eru í vímu sjá aldrei samhengi í neinu. Þeir ein- beita sér að einu litlu atriði og festa sig í því. Það er „full time job“ að vera sukkari. Þetta var grimmt og lærdómsfullt tímabil sem ég vildi ekki hafa misst af, þó ég sé feginn að því er lokið. Ég er bara að tala um tímabil sem flest ungmenni ganga í gegnum." Mín fantasía er svo barnaleg Rósberg hefur verið boðið að hanna bún- inga í leikritið „A Small Family Business", „Lítið fjölskyldufyrirtæki“, eftir Alan Ayckbourn, hjá Þjóðleikhúsinu í haust. „Þá vinn ég í fyrsta skipti með atvinnusauma- konum. Leikhús gengur fyrst og fremst út á samstarf og samstarfsvilja. Sá sem vill til dæmis bara skapa sín eigin myndverk hefur ekkert í leikhús að gera held ég. Þannig fólk verður að finna sér annan farveg. Leikhús er lógík. Það þýðir ekkert að setja nefið upp í loft og þykjast vera listamaður því maður er bara i vinnunni. Maður er að vinna með öðru fólki og verður að taka tillit til allra hinna þáttanna. Á endanum er það leik- stjórinn sem ræður öllu. Búningahönnuður er bara verkfæri með sjálfstæða hugsun.“ Hann segist helst vilja fara til Þýskalands í nám: „Þar eru hefðir og ekki hefðir," segir hann. „Og ef maður ætlar að brjóta upp hefðirnar verður maður að þekkja þær.“ Hann segist ánægður með að vita hvað hann vill, aðeins 22 ára: „Það er til fullt af fimm- tugu fólki sem veit ekki ennþá hvað það vill,“ segir hann. „Ég er búinn að prófa alla skapaða hluti, passa börn og gamalt fólk, vinna á börum og hótelum og í byggingar- vinnu, og þetta er það sem ég vil. Ég veit það,“ segir hann af sannfæringu. Og viður- kennir áður en við kveðjumst að hann eigi þann draum að hanna búninga í barnaleik- rit: „Mér finnst börnin sem úa og klappa svo spennandi hópur. Og þau trúa eða trúa ekki. Það er kannski vegna þess að mín fantasia er svo barnaleg að ég held að ég hafi eitthvað í það að gera að hanna búninga í þannig leiki. Ég er nefnilega svo „childish“ sjálfur..." Fyrsta vinnustofan eftir stöðugan flótta undan klístruðum sultu- krukkum. í þessu gamla húsi hefur Rósberg komið sér fyrir og sett upp saumastofuna /7Hattarí Rósa". Hingað geta allir hatt- unnendur mætt og fengið sér hatt!

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.