Morgunblaðið - 11.03.2005, Page 10
!
"
#
!
$ !
STEFNT er að þróun og uppbyggingu
nýs miðbæjar í Garðabæ á næstu mán-
uðum, og hefur samkomulag þess efnis
náðst milli fjárfestingarfélagsins Klasa
hf. og bæjaryfirvalda. Svæðið sem um
ræðir afmarkast af Hafnarfjarðarvegi í
vestri um land Sveinatungu að Garða-
torgi til austurs, Vífilsstaðavegi til suðurs
og Goðatúni til norðurs. Gert er ráð fyrir
500 manna íbúðahverfi með verslunum
og veitingastöðum, þjónustu og menning-
arstarfsemi. Fjármögnun verkefnisins,
sem er metin hátt í 10 milljarða króna,
er í höndum Klasa, sem valinn var úr
hópi þriggja aðila að undangenginni sam-
keppni um eflingu miðbæjarins. Hin tvö
félögin voru Þyrping hf. og Eignarhalds-
félagið Kirkjuhvoll ehf.
Að sögn Ásdísar Höllu Bragadóttur
bæjarstjóra mun á næstu vikum hefjast
víðtækt samráð og samvinna um verk-
efnið sem kynnt verður íbúum og hags-
munaaðilum og er stefnt að því að því að
deiliskipulag fyrir nýjan miðbæ liggi fyr-
ir í haust og að framkvæmdir geti hafist
á næsta ári. Áætlaður framkvæmdatími
er 2–4 ár.
Verslunarkjarni rísi við
Hafnarfjarðarveg
Nokkrar hugmyndir liggja fyrir um
skipulag miðbæjarins. Þá eru framundan
samningaviðræður milli Garðabæjar og
Klasa um uppbyggingu og rekstur svæð-
isins. Að mati forsvarsmanna Klasa fel-
ast mikil fjárfestingartækifæri í nýju
skipulagi miðbæjar. Mikil uppbygging
hafi átt sér stað í bænum, m.a. í
tengslum við uppbyggingu Sjálands, nýs
strandhverfis Garðbæinga, og framundan
sé áframhaldandi uppbygging.
Tillögurnar sem Klasi hefur kynnt
bæjaryfirvöldum verða, sem fyrr segir,
útfærðar nánar á næstu mánuðum. Að
mati forsvarsmanna Klasa munu þær
styrkja grundvöll fyrir verslun og þjón-
ustu í miðbænum, auk þess að skapa
sterkt og einkennandi miðbæjarsvæði í
Garðabæ. Lagt er til að lunginn af dag-
vöruverslun verði færður niður að Hafn-
arfjarðarvegi og að ný miðbæjargata
verði gerð sem tengist Garðatorgi með
tilheyrandi verslun og þjónustu á jarð-
hæð. Garðatorgssvæðið verði aftur á
móti meira tengt stjórnsýslu og menn-
ingu.
Hugmyndir um að rífa húsnæði
Hagkaupa og Vistor
Meðal annars er gert ráð fyrir að þar
verði torg, með veitingastöðum í næsta
nágrenni og að byggt verði nýtt skrif-
stofuhúsnæði og sýningaraðstaða undir
Hönnunarsafn Íslands. Á efri hæðum við
nýja verslunargötu og á hluta Garða-
torgssvæðisins er gert ráð fyrir allt að
200 íbúðum. Hugmyndir Klasa gera ráð
fyrir að 10–15 þúsund fermetra versl-
unarkjarni rísi við Hafnarfjarðarveg, sem
fyrr segir, og að stærstur hlutinn fari
undir matvöruverslun og aðra tengda
dagvöruverslun. Þá er áformað að hús-
næði undir aðra þjónustu á svæðinu
verði allt að 5–10 þúsund fermetrar.
Að sama skapi eru uppi hugmyndir um
að rífa byggingar til að rýma fyrir nýju
skipulagi, með fyrirvara um samkomulag
við eigendur. Rætt er um að rífa bygg-
ingu þar sem lyfjafyrirtækið Vistor er til
húsa og Hagkaup við Garðatog, og auk
þess svonefnt Nýbarðahús og Sveina-
tungu, en tvö síðastnefndu húsin eru í
eigu bæjarins.
Garðabær og Klasi hf. í samstarf um uppbyggingu nýs miðbæjar fyrir 10 milljarða
Stefnt að því að framkvæmdir hefjist 2006
Hér sést hvaða hús rætt er um að víki fyrir nýju skipulagi.
10 FÖSTUDAGUR 11. MARS 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
ÞINGMENN úr öllum flokkum
stjórnarandstöðunnar fóru fram á
það á Alþingi í gær að Markús Örn
Antonsson útvarpsstjóri endur-
skoðaði ákvörðun sína um að ráða
Auðun Georg Ólafsson í starf
fréttastjóra Útvarpsins. „Í þágu
Ríkisútvarpsins og almannahags
fer ég fram á það úr þessum ræðu-
stóli hér að sá maður sem brást í
stöðu sinni sem þjónn almennings
í landinu, útvarpsstjórinn Markús
Örn Antonsson, endurskoði
ákvörðun sína eða axli ábyrgð á
mistökum sínum og undanslætti
við flokksræðið á Ríkisútvarpinu
og segi af sér störfum,“ sagði
Mörður Árnason, þingmaður Sam-
fylkingarinnar og málshefjandi
umræðunnar í upphafi þingfundar
í gær.
Ögmundur Jónasson, þingmaður
Vinstrihreyfingarinnar – græns
framboðs, tók undir þá áskorun að
útvarpsstjóri endurskoðaði afstöðu
sína. Það sama gerði Guðjón A.
Kristjánsson, formaður Frjáls-
lynda flokksins.
Menntamálaráðherra, Þorgerður
K. Gunnarsdóttir, var ekki við-
stödd umræðuna, vegna lögmætr-
ar fjarvistar. Stefnt er að því að
utandagskrárumræða fari fram um
fréttastjóramálið, að ráðherra við-
stöddum, í byrjun næstu viku.
Fréttastofurnar niðurlægðar
Þingmenn úr öllum flokkum
tóku þátt í umræðunni í gær.
Magnús Þór Hafsteinsson, þing-
maður Frjálslynda flokksins, sagði
að með ráðningunni í fréttastjóra-
starfið hefðu fréttastofurnar á
Ríkisútvarpinu verið niðurlægðar.
Gengið hefði verið framhjá mörg-
um af virtustu frétta- og útvarps-
mönnum landsins.
Birgir Ármannsson, þingmaður
Sjálfstæðisflokks, sagði hins vegar
með ólíkindum hvernig stjórnar-
andstaðan reyndi að gera málið
tortryggilegt. „Ég bendi á að þær
dylgjur sem hafðar hafa verið í
frammi um pólitík í þessu máli,
meint pólitísk tengsl nýráðins
fréttastjóra, hafa ekki verið studd-
ar neinum rökum.“
Ásta R. Jóhannesdóttir, þing-
maður Samfylkingarinnar, kallaði
eftir nánari upplýsingum. Til að
mynda hver hefði verið niðurstaða
verktakafyrirtækisins, sem lagði
mat á umsóknirnar um frétta-
stjórastöðuna. „Hver var niður-
staða þess? Hverjir voru taldir
hæfastir?“
Steingrímur J. Sigfússon, for-
maður Vinstri grænna, sagði að
hingað til hefði flokksskírteini í
Sjálfstæðisflokknum nánast verið
skilyrði fyrir ráðningu í yfir-
mannsstöður hjá útvarpinu. Nú
væri hins vegar komið að Fram-
sókn. „Það er með öllu ólíðandi að
menn skuli hegða sér svona
frammi fyrir opnum tjöldum.“ Þá
sagði Helgi Hjörvar, þingmaður
Samfylkingar, að öllum almenningi
blöskraði þessi augljósa misbeiting
valds.
Ekki í Framsóknarflokknum
Dagný Jónsdóttir, þingmaður
Framsóknarflokks, sagði eins og
Birgir að málflutningur stjórnar-
andstöðunnar væri með ólíkindum.
Því væri haldið fram að hinn ný-
ráðni fréttastjóri væri í Framsókn-
arflokknum, en svo væri ekki. „Ég
ræddi við framkvæmdastjóra
Framsóknarflokksins í morgun.
Þessi maður hefur aldrei verið
skráður í flokkinn.“
Að lokum sagði Pétur H. Blön-
dal, þingmaður Sjálfstæðisflokks,
að Ríkisútvarpið væri eign ríkisins
en ekki þjóðarinnar. Á því væri
mikill munur. „Allt tal um það að
menn eigi RÚV, að það sé eign
þjóðarinnar, er náttúrlega alveg út
í hött. Ef menn eiga eitthvað geta
þeir gert eitthvað við það, selt það
eða veðsett. Það geta þeir ekki
með Ríkisútvarpið. Þess vegna
verður RÚV alltaf pólitískt. Það er
pólitík í ríkinu sem er stjórnað af
ríkinu og ríkið á RÚV.“
Ráðning í stöðu fréttastjóra Útvarpsins rædd á Alþingi
Vilja að útvarpsstjóri
endurskoði ákvörðun sína
Stjórnarþingmenn segja ekki um pólitísk tengsl að ræða
ÞAÐ MUN kosta að minnsta kosti
40 milljónir króna á ári að halda
úti sólarhringsvöktum á skurð- og
svæfingarsviði Heilbrigðisstofnun-
ar Suðurnesja. Ráðast þyrfti í um
500 milljóna króna framkvæmdir
við endurbætur á spítalanum fyrst.
Ráðherra segir að ekki sé búið að
tryggja fjármuni til fram-
kvæmdanna ennþá, en unnið sé að
því.
Þetta kom fram í svari heilbrigð-
isráðherra í utandagskrárumræðu
á Alþingi í gær við spurningum
málshefjanda, Jóns Gunnarssonar,
þingmanns Samfylkingarinnar,
varðandi framtíðaruppbyggingu
bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofn-
un Suðurnesja. Benti Jón Gunn-
arsson á að þjónustusvæði Heil-
brigðisstofnunarinnar væri 17
þúsund íbúa byggð og flugvöllur-
inn í Keflavík; starfsmenn og
ferðamenn.
Sagði hann að nefnd sem heil-
brigðisráðherra skipaði árið 2003
hefði komist að þeirri niðurstöðu
að byggja þyrfti upp heildstæða al-
menna sjúkrahúsþjónustu sem
stæði til boða allan sólarhringinn.
„Ekki er enn til staðar samfelld og
stöðug vaktþjónusta á skurðstofu,“
benti Jón Gunnarsson á. „Það hlýt-
ur að vera nauðsynlegt til að geta
veitt örugga og fullkomna bráða-
þjónustu að svo sé, enda segir svo í
helstu niðurstöðum skýrslu nefnd-
arinnar.“ Sagði hann ráðherra hafa
staðfest þá framtíðarsýn sem kom-
ið hefði fram í tillögum nefndar-
innar.
Spurði hann ráðherra hver væri
viðbótarkostnaður við að reka
samfellda vaktþjónustu á skurð- og
svæfingarsviði allan sólarhringinn.
Einnig spurði hann ráðherra hvort
hann teldi nauðsynlegt að þessi
þjónusta væri rekin á stofnuninni
og ef svo væri hvenær mætti
vænta að slík þjónusta kæmist á.
Í svari heilbrigðisráðherra kom
fram að fyrir lægi framtíðarsýn
um uppbyggingu sjúkrahússins,
líkt og Jón Gunnarsson hefði sjálf-
ur bent á. Sú stefnumörkun fæli
m.a. í sér uppbyggingu og end-
urnýjun á skurðstofum stofnunar-
innar, „sem er að mínu mati for-
senda fyrir framtíðarþróun
spítalans,“ sagði Jón Kristjánsson
heilbrigðisráðherra. „Það er hins
vegar rétt að það hefur dregist
lengur en ég hefði óskað að full-
vinna kostnaðar- og framkvæmda-
áætlun sem liggur í tillögunum.
Hönnun er nú komin af stað og
henni gæti lokið á miðju þessu ári.
Það er forgangsverkefni hjá okkur
að skapa svigrúm til útboðs og
framkvæmda við heilbrigðisstofn-
unina.“
Benti ráðherra á að heildarfram-
lög til Heilbrigðisstofnunar Suð-
urnesja hefðu verið 680 milljónir
árið 2001 en væru 1.100 milljónir á
þessu ári. Fjárframlögin hafi auk-
ist verulega umfram verðlags-
breytingar.
Rætt um uppbyggingu bráðaþjónustu
á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
40 milljónir þarf til
að halda úti sólar-
hringsvöktum
OKKUR finnst mikilvægt að hugsa skipulagsmál í
stórum heildum og að það gefist betur fyrir skipulag
og uppbyggingu samfélags að taka stærri svæði undir í
einu í stað þess að skipuleggja hvert frímerkið á fætur
öðru sem kannski hangir ekki nægilega vel saman,“
segir Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri Garðabæjar,
um hugmyndir um nýtt skipulag miðbæjar Garðabæjar.
„Garðabær er mjög vaxandi samfélag sem er að
byggjast upp hratt þessi misserin og það er ekki eftir
neinu að bíða að búa til glæsilegan og skemmtilegan
miðbæ í Garðabæ með öflugri verslun og iðandi lífi. Til
þess að ná því markmiði þá mátum við það svo að það
væri best að gera þetta með þessum hætti, þó að þetta
sé bæði djarft og róttækt,“ segir hún.
Unnið í nánu samstarfi við hagsmunaaðila
Að sögn hennar var ákveðið að ganga til samninga
við Klasa vegna þess að þeir hafi trú á staðnum og
burði til að ráðast í verkefnið af mikilli alvöru. Ásdís
Halla segir aðspurð um hugmyndir um að rífa Hag-
kaup við Garðatorg og byggja verslunarkjarna við
Hafnarfjarðarveg, að mikilvægt sé fyrir dagvöruversl-
un að vera nær fjölmennum gatnamótum, ætli hún að
bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu og úrval. Verslun
Hagkaupa við Garðatorg sé of lítil til að hún geti haft
það úrval sem fólk virðist sækjast eftir. Að sögn Ásdís-
ar er markmiðið að vinna hugmyndir að nýju skipulagi
í nánu samstarfi við rekstraraðila, eigendur fasteigna
og aðra hagsmunaaðila og íbúa.
Fyrstu opnu fundir um nýtt skipulag verða í apríl nk.
og er stefnt að því að deiliskipulag fyrir nýjan miðbæ
liggi fyrir í ágúst. Að sögn Ásdísar Höllu er full eining
meðal bæjarfulltrúa um þetta fyrirkomulag um skipu-
lag bæjarins, en fulltrúar bæði meiri- og minnihluta
áttu sæti í samráðhópi sem valdi tillögu Klasa.
Íbúar Garðabæjar eru nú rúmlega níu þúsund og er
gert ráð fyrir að þeir verði um 10 þúsund á næsta ári
og á bilinu 20–30 þúsund innan nokkurra ára, gangi
áætlanir um uppbyggingu í bænum eftir, að sögn Ás-
dísar Höllu.
Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri
„Mikilvægt að
hugsa skipulag í
stórum heildum“