Morgunblaðið - 11.03.2005, Side 39
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. MARS 2005 39
MINNINGAR
✝ Bragi Örn Ing-ólfsson flugvirki
fæddist á Sauðár-
króki 27. mars 1940.
Hann lést á krabba-
meinsdeild LSH
fimmtudaginn 3.
febrúar síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Unnur Hallgríms-
dóttir, f. 8.1. 1918, d.
20.10. 1976, og Ing-
ólfur Nikódemusson
húsasmíðameistari, f.
5.7. 1907, d. 31.7.
1991. Systkini Braga
eru Jónína Björg
skrifstofumaður, f. 26.12. 1938,
Þráinn Valur kennari, f. 9.9. 1941,
Gunnar Már mjólkurfræðingur, f.
24.12. 1944, d. 11.5. 2001, Hall-
grímur Þór tæknifræðingur, f.
23.9. 1946, Ingólfur Geir sjúkra-
þjálfari, f. 10.12. 1950, Jón Hallur
bankamaður, f. 10.11. 1957, og
Anna María, f. 5.12. 1960.
Bragi kvæntist 31.12. 1968 Þór-
höllu Harðardóttur sjúkraliða, f.
4.4. 1944. Hún er dóttir Arnbjarg-
ar Davíðsdóttur, f. 13.5. 1917, og
Harðar Bakkmann Loftssonar
vélstjóra, f. 8.5. 1912. Bragi og
þórhalla eiga þrjá syni, þeir eru:
1) Ingólfur Birgir kerfisfræðing-
ur, f. 7.9. 1967, kvæntur Kristínu
Rúnarsdóttur kennara, f. 6.10.
1976. Börn þeirra eru Bragi Örn,
f. 31.7. 1999, og Ey-
rún Arna, f. 6.3.
2002. 2) Axel Örn
sjúkraþjálfari, f.
20.5. 1972, sambýlis-
kona Elva Björk Sig-
urðardóttir, f. 23.10.
1974. Dóttir hennar
er Amalía Rut Birg-
isdóttir, f. 3.2. 1992.
Börn Axels og Elvu
eru Viktor Örn, f.
27.7. 1997, Aron
Freyr, f. 25.5. 2000,
og Dagmar Natalía,
f. 27.11. 2003. 3)
Davíð Þór fallhlífa-
virki, f. 22.2. 1975. Sonur hans og
Hólmfríðar Selmu Haraldsdóttur,
f. 30.3. 1978, er Róbert Máni, f.
17.4. 2001.
Bragi ólst upp á Sauðárkróki en
fluttist til Reykjavíkur 1961 og
hóf nám í flugvirkjun. Hann var
starfsmaður Flugfélags Íslands
og síðar Flugleiða allan sinn
starfsaldur. Bragi var áhugamað-
ur um veiðar, útivist og jarðfærði,
hann tók þátt í ýmsum félagsstöf-
um, m.a. Kiwanisklúbbnum
Elliða, og hafði mikið yndi af tón-
list. Hann söng á tímabili í Skag-
firsku söngsveitinni og lengi í
kirkjukór Seljasóknar.
Bragi verður jarðsunginn frá
Seljakirkju í dag og hefst athöfnin
klukkan 15.
Kæri pabbi.
Í rúmlega 3 ár hef ég kviðið þessari
stund. Eftir fundinn þar sem við
fengum að heyra hvers kyns veikindi
þín voru, var ljóst hvernig hlutirnir
færu. En þér tókst að hafa orð lækn-
isins að engu og vekja undrun og að-
dáun hans með því að lifa þremur ár-
um lengur en venjulegt getur talist
með þennan sjúkdóm. Hvort það var
viðhorf þitt og æðruleysi eða fjalla-
grös og óhefðbundnar lækningar
sem lengdu líf þitt er ekki vitað, en sá
aukatími sem þú fékkst hér með okk-
ur var vel nýttur.
Ekki var hægt að sjá að veikindi
þín hefðu áhrif á veiðigleðina og þeir
voru ófáir veiðitúrarnir sem farnir
voru næstu sumur eftir greiningu. Þó
þrekið hafi ekki verið upp á hundrað,
sýndirðu hina skagfirsku-tvíhendu-
fluguveiði-sveiflu með glans og stóðst
eins og klettur úti í ám og vötnum.
Þegar þú pakkaðir veiðidótinu þínu
niður síðasta haust og sagðir mér að
þú hefðir ekki pantað veiðileyfi fyrir
næsta sumar, var nokkuð ljóst hvert
stefndi. Jafnvel áður en þú fórst nið-
ur á spítala heimtaðir þú að taka til á
náttborðinu, því ef það yrði ekki gert
núna, yrði það einhver annar sem
myndi gera það.
Þegar mamma lét mig vita um
ástand þitt flaug ég suður hið fyrsta
og tókst á við, þó með nokkurra daga
hléum, 5 erfiðustu vikur sem ég hef
lifað. Þennan tíma sem þú lást á
Landspítalanum gátum við rætt öðru
hverju saman. Ástandið bauð ekki
upp á meira en stutt samtöl. En á
þeim tíma rifjuðum við upp mikið af
hlutum sem við höfðum gert saman
og þá sér í lagi hreindýraveiðiferðir
okkar austur á land. Á þessum stund-
um hugsaði ég oft um, að ég hefði
getað eytt meiri tíma með þér en ég
gerði síðustu árin, en ég veit að þú
vildir að lífið gengi sinn vanagang og
ég ætti að hugsa um konu og börn.
Ég mun aldrei gleyma þínum síðustu
orðum, sem þú sagðir við mig áður en
mikil lyfjagjöf fór að spilla máli og
minni. Í þessum orðum kristallast
hugrekki þitt og viðhorf: „Ekki hafa
áhyggjur af mér, þetta verður allt í
lagi.“ Nokkrum dögum síðar er ég
kallaður suður í hvelli. Þinn tími var
kominn og ekki fórstu baráttulaust.
Ég vil trúa því að þú hafir það mjög
gott þar sem þú ert núna og komir
við öðru hverju og sjáir barnabörnin
vaxa úr grasi. Bragi Örn litli saknar
þín mikið og Eyrún Arna minnist á
þig í öllum sínum kvöldbænum.
Ég vil að þú vitir að þú kenndir
mér margt sem gert hefur mig að
betri manni. Allt sem þú tókst þér
fyrir hendur, smíðar og annað, var
gert upp á tíu. Þú leyfðir mér að reka
mig á en stóðst svo við hlið mér þegar
á reyndi. Þú þröngvaðir aldrei nein-
um skoðunum upp á mig, ég veit ekki
enn þann dag í dag þínar pólitísku
skoðanir né hvaða flokkur naut
stuðnings þíns. Þú leyfðir mér að
þroskast og mótast sjálfur og fyrir
það er ég þakklátur.
Ég vil nota tækifærið og þakka;
Kristínu konu minni fyrir ómetanleg-
an stuðning. Valur, í annað skiptið
kemurðu mér til hjálpar með erfitt
verk. Jón Hallur, hvar værum við ef
þú værir ekki til staðar. Föðursystk-
in, ættingjar og vinir, takk fyrir allt.
Vinnuveitandi minn sem gerði mér
kleift að vinna frá Reykjavík þegar
þess þurfti. Starfsfólk krabbameins-
deildar Landspítalans, ég hef ekki
orð til að lýsa ykkar störfum. Og síð-
ast þakka ég þér, pabbi, fyrir að vera
faðir minn, ég hef ekki áhyggjur, ég
veit að þetta verður allt í lagi.
Með söknuði, þinn sonur
Ingólfur Birgir.
Bragi mágur minn er fallinn frá,
löngu fyrir aldur fram. Síst datt
manni í hug að þessi káti og kraft-
mikli maður myndi fara svo ungur
enda barðist hann eins og ljón við
sjúkdóm sinn allt fram í andlátið.
Ég var bara unglingur þegar
Bragi fór að gera hosur sínar grænar
fyrir Höllu systur minni. Það var því
ekki fyrr en ég var sjálf fullorðin að
ég kynntist Braga mági mínum fyrir
alvöru og okkur varð sífellt betur til
vina eftir því sem árin liðu.
Bragi var drengur góður. Hann
var kvikur á fæti og léttur í lund og
allt fas hans vitnaði um þann sterka
og lífsglaða anda sem í honum bjó.
Bragi var hrókur alls fagnaðar á
mannamótum, hann hafði til að bera
notalega og skemmtilega kímni sem
smitaði út frá sér, hann gat rætt um
allt milli himins og jarðar og var mik-
ill söngmaður og félagsvera. Við
Siggi gleymum aldrei ferðinni sem
við fórum fjögur saman til Finnlands
og Eistlands. Þar áttum við systurn-
ar Harðardætur og eiginmenn okkar,
Ingólfssynir nokkra frábæra daga á
þvælingi þar sem mikið var hlegið og
grínast, ekki hvað síst vegna nafna-
ruglingsins sem óhjákvæmilega kom
okkur í undarlegar og neyðarlegar
krísur.
Bragi var skemmtilegur ferða-
félagi, mikið náttúrubarn, veiðimað-
ur og göngugarpur. Hann kunni
manna best þá list að láta sér líða vel
og njóta þess sem lífið býður upp á,
jafnt einn og í fjölmenni. Hann var
mjög fróður og áhugasamur um
menningu, náttúru og lífshætti, gaf
sér góðan tíma til að fræðast og gat
því ævinlega skotið óvæntum fróð-
leiksmolum að samferðamönnum
sínum.
Þannig var Bragi, hann las sig til
um alla hluti og drakk í sig fróðleik.
Hann fór að engu óðslega en vann
verk sín af vandvirkni og nákvæmni
og um það getur hver einasta planta í
garðinum þeirra Höllu vitnað. Hann
bar virðingu fyrir öllu lífi, var óþreyt-
andi við að nostra við plönturnar sín-
ar og ekkert var of seinlegt eða erfitt
fyrir velferð þeirra. Sömu sögu geta
litlu barnabörnin sagt, sem alltaf
hafa átt öruggt og hlýtt skjól hjá afa
og ömmu í Skriðuseli. Bragi og Halla
voru sérstaklega samhent í ástúð
sinni við barnabörnin og þau Amalía,
Viktor, Bragi, Aron, Róbert, Eyrún
og Dagmar litla sjá nú að baki elsk-
uðum og dáðum afa. Það er stórt
skarð höggvið í fjölskylduna okkar
við fráfall Braga og hans verður sárt
saknað. En Bragi skilur eftir sig
bjartar og skýrar minningar. Hann
notaði þverrandi krafta sína til að
sinna ástvinum sínum og minnti okk-
ur þannig á fornt heilræði úr Háva-
málum sem við ættum öll að halda í
heiðri:
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta.
Geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
Ég veit að ég tala fyrir munn allrar
fjölskyldunnar þegar ég þakka
Braga fyrir þær stundir sem við átt-
um með honum. Elsku Halla systir
mín, Ingólfur, Axel, Davíð og fjöl-
skyldur; eins og sólin rís að morgni
mun minningin um góðan mann
verða ykkur öllum styrkur þegar
fram líða stundir og við hin munum
alltaf sjá Braga í sonum hans og
barnabörnum.
Jóhanna G. Harðardóttir.
Orustan er töpuð, vinur og sam-
starfsmaður til margra ára, Bragi
Örn Ingólfsson flugvirki, er allur eft-
ir harða og hetjulega baráttu við ill-
vígan sjúkdóm. Bragi hóf störf hjá
Flugfélagi Íslands árið l962 og síðar
hjá Flugleiðum árið l974. Starfssvið
hans varð fljótlega öflun varahluta í
flugvélar félagsins og segja má að
það hafi verið hans vettvangur um
nær 40 ára skeið og reynslu hans og
þekkingu í þeim efnum viðbrugðið.
Bragi var mjög nákvæmur og sam-
viskusamur í allri sinni framgöngu á
vinnustað og minni hans var með
ólíkindum. Oft var leitað til Braga
þegar minnið brást mönnum og oft-
ast kom Bragi með svarið með slíkri
nákvæmni að menn settu hljóða.
Reyndar má með sanni segja að hann
hafi verið frumherji tölvuvæðingar á
Tæknideildinni, slíkur var minnis-
bankinn og ólíkt skemmtilegra var
nú að leita til hans en ópersónulegs
tæknibúnaðar samtímans. Hann var
víðlesinn og margfróður, grúskari
mikill um allt milli himins og jarðar
og ekkert virtist honum óviðkom-
andi. Eftir að Bragi greindist með
sjúkdóm þann er dró hann til dauða,
varð hann að draga sig í hlé frá vinnu
og hans var sárt saknað. Vinnustað-
urinn var ekki sá hinn sami. Einn
kemur þá annar fer segir máltækið,
en það var ekki til nema einn Bragi
Örn. Hann var þó í góðu sambandi
við gömlu félagana og ávallt bar hann
sig vel þó vitað væri að hann væri
sárþjáður.
Ekkert líf er án dauða og enginn er
dauðinn án lífs, því er það bjargföst
trú mín að þó orustan hafi tapast þá
hafi stríðið unnist. Ég sé Braga fyrir
mér hressan og kátan reiðubúinn að
takast á við ný verkefni á sinn hátt
eins og við munum hann svo vel, stutt
í brosið, húmorinn og hláturinn.
Þannig vil ég muna hann.
Ég votta eftirlifandi eiginkonu
hans, börnum og ástvinum öllum
mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Ólafur Ág. Þorsteinsson.
Leiðir okkar Braga lágu saman er
hann hóf nám í flugvirkjun haustið
1961 ásamt 14 öðrum ungum mönn-
um hjá Flugfélagi Íslands. Strax
komu í ljós eiginleikar unga manns-
ins frá Sauðárkróki, hann var vel yf-
irvegaður, samviskusamur og vand-
virkur í öllu starfi sem og öðru er að
höndum bar. Hann hafði skemmti-
legan húmor svo ekki var hægt að
hugsa sér skemmtilegri vinnufélaga.
Sé minnst á námsárin voru þau við-
burðarík og skemmtileg, alltaf eitt-
hvað nýtt að ske. Þegar ungu menn-
irnir voru að skemmta sér var Bragi
alltaf hafður í forystu með gítarinn
þar sem hann spilaði og söng og hreif
alla með sér, er Bragi fór var
skemmtuninni lokið.
Strax eftir að námi lauk réð hann
sig á innkaupadeild í viðhaldsdeild
Flugfélags Íslands og síðar Flugleiða
er hann starfaði hjá allt til loka.
Þarna var kominn réttur maður á
réttan stað því hann var athugull með
afbrigðum og engin pöntun send fyrr
en hann hafði marg yfirfarið viðkom-
andi pöntun og jafnvel á stundum
rætt við þá menn er höfðu gert kröfu
um viðkomandi hlut. Hann var sér-
stakt ljúfmenni að vinna með, talaði
aldrei illa til nokkurs manns og gerði
alltaf gott úr öllu sem honum líkaði
ekki að heyra.
Í byrjun árs 2000 veiktist Bragi
skyndilega er við vorum á leið til
vinnu í Keflavík. Farið var með hann
á heilsugæslustöðina í Keflavík og
þaðan til Reykjavíkur. Þetta kom
mjög flatt upp á okkur vinnufélagana
því Bragi var að tala við okkur nokkr-
um mínútum áður og virtist hinn
hressasti. Hann kom aftur til vinnu
eftir nokkurt hlé er hann hafði geng-
ið í gegnum ýmsar rannsóknir.
Haustið 2001 var ákveðið að minnast
þess að 40 ár væru liðin síðan við hóf-
um nám í flugvirkjun. Var farið í
vikuferð til Krítar, Bragi virtist ekki
vera eins sprækur og vanalega í ferð-
inni en hann bar ekki á borð veikindi
sín. Er heim kom veiktist hann heift-
arlega, var lagður inn á sjúkrahús og
kom þá í ljós hvað að var og ljóst að
hann átti ekki afturkvæmt til vinnu.
Ég kveð þig, kæri vinur, fyrir hönd
okkar félaganna er hófum nám sam-
an 1961 með ósk um að þjáningar
þínar séu að baki.
Þórhöllu, börnum og barnabörn-
um vottum við dýpstu samúð og von-
um að Guð veri með ykkur öllum.
Hálfdán Hermannsson.
Æskuvinur minn, bekkjarbróðir
og veiðifélagi, Bragi Örn Ingólfsson,
hefur kvatt eftir erfiða baráttu við
andstæðing sem margan góðan
dreng hefur lagt að velli. Við sem
þekktum Braga og vissum um hæfi-
leika hans til að takast á við lífið í
blíðu og stríðu vorum jafnvel undr-
andi á hversu hart hann barðist vit-
andi það að hann hlaut að bíða ósigur.
Hann vissi að hverju fór en missti
samt ekki lífsþorstann og naut hverr-
ar stundar uns yfir lauk.
Milli æskuheimila okkar Braga var
varla meira en svo sem tvö hagla-
byssufæri. Ég, alinn upp sem ein-
birni, sótti mikið heim til hans og
kynntist þar gjörólíkum heimilisbrag
og andrúmslofti sem var frábrugðið
mínu, framandi og heillandi. Þar var
stór fjölskylda sem heiðurshjónin
Ingólfur Nikódemusson og Unnur
Hallgrímsdóttir, foreldrar Braga,
stjórnuðu hvort með sínu lagi sem
var að ég tel góð blanda af hæfilega
ströngum aga föður og blíðu og glað-
værð móður.
Bragi var næstelstur átta systkina,
jafnaldri minn. Ég tel hann hafi tekið
í arf marga bestu kosti foreldra
sinna. Það yrði of langt mál að rekja
þó ekki væri nema lítið brot af því
sem við Bragi brölluðum saman í
æsku og á unglingsárunum. Ég læt
nægja að nefna tvennt, sameiginleg-
an áhuga á tónlist og veiði.
Hvað hið fyrra varðar verður ekki
undan því vikist að nefna gamla
handsnúna grammófóninn sem sá
laghenti vinur okkar Ási Jóns hélt
gangandi með sínum fimu fingrum. Á
hann voru spilaðar löngum stundum í
kjallaranum heima 78 snúninga plöt-
ur með fjölbreyttri tónlist: ,,When
the Swallows come back“ með Gene
Autry, ,,Jingle Bells“ með Fats Wall-
er, ,,Buldi við brestur“ með Karlakór
Reykjavíkur, en mest þó jazz. Svo
kom Presley og um það leyti eign-
aðist Bragi sinn fyrsta gítar. Fram að
því höfðum við sungið mikið saman
án undirleiks en Bragi náði fljótt góð-
um tökum á strengjunum og söng-
urinn varð fágaðri og ekki þurfti
söngvatnsvið í þá daga.
Frá upphafi okkar kynna stunduð-
um við stangveiðar saman, félagarnir
Bragi og Halli. Þetta var frumstæð-
asta útgáfa af slíkum veiðum í fyrstu
þ.e. að skutla smásilunga í Sauðánni
sem þá rann í gegnum bæinn. Síðar
eignuðumst við betri tæki og fjaran
varð helsti vettvangur okkar við sjó-
birtingsveiðar í sjónum. Bragi var
þar fremstur meðal jafningja, það
var oft lyginni líkast hve fengsæll
hann var. Svo gerðist það sem oft vill
verða. Við gömlu félagarnir fórum í
ýmsar áttir til náms og starfa og án
þess að það væri ætlan vor eða nokk-
ur ástæða til, þá slaknaði á gítar-
strengjum okkar og samsöngurinn
hljóðnaði. Að lokum náðum við sam-
an á ný og áttum ári góðan enda-
sprett saman. Svona er lífið.
Við Lísa sendum Höllu og fjöl-
skyldu svo og systkinum Braga okk-
ar innilegustu samúðarkveðjur.
Pétur.
Á tungunni þar sem Sauðáin tók á
sig krók og rann til suðurs og síðan til
sjávar og bærinn dregur nafn sitt af
stóðu æskuheimili okkar Braga.
Heimili mitt Ártunga stóð vestan við
vaðið yfir ána, en Arnarhvoll heimili
Braga er austar á tungunni, nær
sjónum, og gatan sem síðar varð
Freyjugata þar á milli. Á þessari
tungu lifðum við og hrærðumst, lék-
um okkur við ána, við sjóinn og síðar
þegar við urðum aðeins eldri stækk-
aði sjóndeildarhringurinn og allur
Sauðárkrókurinn vað að þekktri
stærð með ótal ævintýrum og leyni-
legum stöðum sem enginn vissi um
nema við. Stórir bardagar voru háðar
með alvæpni úr tré frá pabba Braga
sem var trésmiður með verkstæði á
fjörukambinum, leiksýningar í kjall-
aranum heima, dorg á bryggjunni og
síðar netaveiði með ströndinni og
stangveiði.
Við vorum vinir – frá bernsku og til
þíns síðasta dags.
Þannig liðu æskuárin okkar og
unglingsárin, endalaus ævintýri með
þér og vinum okkar sem fjölgaði
smátt og smátt.
Eftir unglingsárin fór vinahópur-
inn að tvístrast eins og gengur, þú
fórst á vetrarvertíð í Eyjum, ég fór í
vinnu á Króknum, Pétur og Ási í
menntaskóla í Reykjavík og á Akur-
eyri og síðan í háskólann og vorum
við þá allir vinirnir komnir til
Reykjavíkur.
Þér bauðst að fara á samning í
flugvirkjun í fyrsta hópnum hjá
Flugfélagi Íslands og um svipað leyti
fór ég í nám í rennismíði, Ási í ensku í
háskólanum og Pétur í tannlækna-
nám.
Námsárin í Reykjavík skilja eftir
minningar um margar góðar stundir
en örlögin tvístruðu hópnum aftur,
þú varðst eftir í Reykjavík með kon-
unni þinni Höllu og drengjunum ykk-
ar þrem Ingólfi, Axel og Davíð.
Pétur og fjölskylda fóru á Krókinn
þar sem hann varð tannlæknir og Ás-
mundur og fjölskylda fóru til Akur-
eyrar þar sem hann varð mennta-
skólakennari, en ég fór í nám til
útlanda. Eftir að ég kom frá námi
höguðu örlögin því svo að báðir sett-
um við niður heimili okkar sömu
megin við lítinn læk sem rennur eftir
litlum dal og klýfur Seljahverfið í
Reykjavík. Þú reistir ykkur glæsi-
legt hús og garð sem þú gafst allar
þínar frístundir og eftir að þú veiktist
og síðasti bardaginn var hafinn var
það hann sem gaf þér viðbótarkraft
og útiveran sem þú stundaðir af eld-
móði.
Elsku Bragi, þín er sárt saknað og
stundanna sem við hjónin áttum með
þér og Höllu í gegnum árin, guð laun
fyrir þær. Þú varst vel af guði gerður
til líkama og sálar og allt sem hægt er
að segja gott um mann, það gast þú
borið með sóma. Að eiga þig sem vin í
gegnum lífið eru mikil forréttindi
sem ég get aldrei fullþakkað forsjón-
inni. Vertu sæll að sinni og guð veri
með þér og líkni þínum nánustu.
Konunni þinni Höllu og sonum þínum
Ingólfi, Axel og Davíð votta ég mína
dýpstu samúð og guð veri með ykkur
í sorginni.
Þinn vinur
Haraldur.
BRAGI ÖRN
INGÓLFSSON