Morgunblaðið - 09.04.2005, Síða 12
12 LAUGARDAGUR 9. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ÚR VERINU
Úr haga
í maga
á morgun
HINN almenni fiskneytandi lætur
sig umhverfismerkingar á fiski og
öðru sjávarfangi litlu sem engu
skipta. Hann skiptir mestu máli
verð, gæði og hollusta. Milliliðir
milli framleiðenda og neytenda
hafa hins vegar meiri áhuga á slík-
um merkingum.
Það er fyrst og fremst til að
firra sig vandræðum, annars vegar
gagnvart neytendum en enn frek-
ar gagnvart ýmsum frjálsum fé-
lagasamtökum um náttúruvernd
og neytendassamtökum, sem
krefjast í vaxandi mæli vottunar
um það að fiskveiðar séu stund-
aðar á sjálfbæran hátt og vel sé
staðið að veiðum og vinnslu á öll-
um sviðum.
Þetta var í stórum dráttum nið-
urstaða 64. fiskiþings, sem haldið
var í gær. Þar var rætt um upplýs-
ingar í sjávarútvegi og hvernig
eigi að koma þeim til neytenda.
Niðurstaða fundarins var á þá leið
að umhverfismerkingar yrðu nauð-
synlegar í framtíðinni og að
ákvörðun Landbúnaðar- og mat-
vælastofnunar Sameinuðu þjóð-
anna, um að gefa út leiðbeinandi
reglur á því sviði væri grundvall-
aratriði.
Ákveðin þversögn
Einn þeirra sem fluttu erindi á
Fiskiþinginu var Jónas Engil-
bertsson, sölustjóri Iceland Germ-
any, dótturfyrirtækis SH í Þýzka-
landi:
„Ég hef hér bent á ákveðna
þversögn sem við stöndum frammi
fyrir á markaðnum. Annarsvegar
bendir flest til þess að neytendur
hafi ekki mikinn áhuga á umhverf-
isþáttum þegar þeir ákveða hvort
þeir kaupa fisk og hvaða fisk þeir
velja. Verð og gæði eru ráðandi
þættir. Hinsvegar eru milliliðirnir
á milli okkar og neytandans í vax-
andi mæli uppteknir af því að
tryggja sig gegn því að fyrirtæki
þeirra fái á sig vont orð í gegnum
gagnrýni frá umhverfissamtökum
eða öðrum áhugahópum. Mér sýn-
ist að krafan til okkar í framtíðinni
verði um að geta vottað að
vinnslu- og framleiðsluferlið sé í
samræmi við alþjóðlega staðla.
Umhverfisþátturinn verður aðeins
einn margra þátta, en hann verður
mikilvægur,“ sagði Jónas.
Þarf að bregðast við kröfum
Pétur Bjarnason, framkvæmda-
stjóri Fiskifélags Íslands fjallaði
einnig um umhverfismerkingar:
„Fiskifélag Íslands, önnur hags-
munasamtök í sjávarútvegi, fyr-
irtæki í greininni og stjórnvöld
taka með misjöfnum hætti þátt í
baráttunni fyrir hagsmunum sjáv-
arútvegsins. Það hefur verið
stefna félagsins að beina kröftum
sínum aðallega að umhverfismál-
um í einhverjum skilningi þess
orðs. Krafa neytenda og kaupenda
sjávarafurða um að vita hvernig að
veiðum er staðið hefur markað
þróun sjávarútvegs í okkar heims-
hluta undanfarin ár. Það er ljóst
að einhver hluti neytenda gerir
það að skilyrði fyrir kaupum á
sjávarafurðum að vel hafi verið
staðið að veiðum þegar hráefnis,
sem þær voru unnar úr, var aflað.
Við þeirri kröfu þarf að bregðast
enda koma þær kröfur helst fram
á mörkuðum sem best borga,“
sagði Pétur.
Jákvætt
Kristján Þórarinsson, stofnvist-
fræðingur hjá LÍÚ, hefur verið í
fararbroddi þeirra sem lagt hafa
áherzlu á að Sameinuðu þjóðirnar
tæku að sér að setja viðmið og
reglur um vottun sjávarfangs og
unnið að því í um áratug. Hann er
ánægður með árangurinn. Hann
sagði umhverfismerkingar á fag-
legum forsendum jákvæðar fyrir
sjávarútveginn. Alþjóðlegar reglur
kæmu í veg fyrir misbeitingu og
ringulreið á mörkuðum. Reglur
FAO stuðluðu að samræmi í kröf-
um og ljóst væri að þeir sem ekki
fylgdu reglum fengju slæma
ímynd á markaði. Loks leiddu
reglur FAO til þess að einokun
yrði ólíklegri og kostnaður við
vottun minni.
Umhverfismerkingar
varða neytendur litlu
Milliliðirnir vilja vottun af ýmsu tagi til að firra sig vandræðum
Morgunblaðið/Árni Torfason
Fiskiþing Umhverfismerkingar á sjávarafurðir og vottun eru mikið til um-
ræðu nú. Sýnist sitt hverjum um nauðsyn merkinganna.
Eftir Hjört Gíslason
hjgi@mbl.is
„UMHVERFISMERKINGAR fisk-
afurða geta verið undirstöðuatriði í
öflugri upplýsingagjöf. Nær ára-
tugar vinnu fulltrúa sjávarútvegs-
ráðuneytisins að umhverfismerk-
ingum lauk nú í byrjun mars þegar
fundur fiskimálanefndar Matvæla-
og landbúnaðarstofnunar Samein-
uðu þjóðanna, FAO, samþykkti leið-
beinandi reglur um umhverf-
ismerkingar sjávarafurða,“ sagði
Árni M. Mathiesen, sjávarútvegs-
ráðherra á fiskiþingi í gær.
Þema Fiskiþings var: Upplýs-
ingar í markaðssetningu, hvernig á
að láta neytendur vita. Umhverf-
ismerkingar á sjávarfang voru mik-
ið ræddar og sagði sjávarútvegs-
ráðherra meðal annars þetta:
„Norrænu ríkin unnu náið saman
að þessu málum frá upphafi, en
undanfarin fimm ár hefur Ísland
verið megindrifkrafturinn í starf-
inu. Við höfum bæði stýrt starfinu á
norrænum vettvangi og haft for-
göngu um að vinna því braut-
argengi innan FAO. Reglurnar
setja umhverfismerkingum sjáv-
arafurða ramma þar sem meðal
annars er kveðið á um efnisleg við-
mið og lágmarkskröfur, stofn-
analegt skipulag og framkvæmd
slíkra merkinga.
Mikilvægi þessa áfanga fyrir
framleiðendur sjávarafurða er ótví-
rætt. Umhverfismerki sjávarafurða
eru þegar í boði og má í því sam-
bandi nefna Marine Stewardship
Council. Þeir sem bjóða umhverf-
ismerki hafa til þessa geta ákveðið
einhliða hvað felst í merkjunum og
haft sjálfdæmi um skipulag merk-
inga og framkvæmd. Þannig hefur
framkvæmd og eftirlit verið á einni
hendi og slíkt fyrirkomulag gengur
ekki upp.
Með samþykkt FAO var tekið á
þessum þáttum og merkingunum
settar efnislegar reglur. Þrátt fyrir
að reglur þessar séu í grunninn
leiðbeinandi setja þær í raun staðal
því ólíklegt er að kaupendur
merkja fallist á að láta seljendum
þeirra eftir sjálfdæmi um skipulag
og framkvæmd þegar FAO-
reglurnar kveða á um óháða fag-
gildingu og vottun þriðja aðila.
Til þess að neytendur sjávaraf-
urða verði upplýstir um hvort fiski-
stofnar séu nýttir með sjálfbærum
hætti, þarf að tryggja að umhverf-
ismerkin séu trúverðug og byggi á
sama grunni. Seljendum sjávaraf-
urða þarf einnig að tryggja öryggi í
samskiptum við þá sem bjóða
merki. Hið sama gildir um selj-
endur merkja. Reglurnar eru þeim
leiðsögn um inntak, stofnanalegt
skipulag og framkvæmd frá öllum
aðildarríkjum FAO.“
Kaflaskil
En nú er þessum áfanga náð.
Hvað gerist nú?
„Ég tel að komið sé að kafla-
skilum og nú sé það ykkar sem
starfið í sölu og markaðssetningu
sjávarafurða að nýta þessa vinnu til
sóknar á mörkuðum. Þó boltinn sé
nú hjá ykkur hvað umhverfismerk-
ingar varðar er ráðuneytið engan
veginn hætt að sinna verkefnum
þessu tengdum.
Nú er unnið að uppbyggingu öfl-
ugrar gagnaveitu um málefni hafs-
ins þar sem upplýsingar um sjálf-
bæra nýtingu, hollustu og heilnæmi
sjávarafurða eru settar í öndvegi.
Veitan mun auðvelda alla fræðslu
til þeirra sem láta sig þessi mál
varða. Ef vel tekst getur upplýs-
ingaveitan orðið ómetanlegt tæki í
markaðssókn. Einnig þegar við
þurfum að spyrna við fótum gegn
þeim sjónarmiðum að allt sé að fara
á versta veg er snertir ástand og
nýtingu heimshafanna og vinna
gegn þeirri bábilju að vernd og nýt-
ing fari ekki saman,“ sagði Árni M.
Mathiesen.
Leiðbeinandi reglur FAO ótvíræður kostur
Morgunblaðið/Árni Torfason
Umhverfismerkingar Sjávarútvegsráðherra er ánægður með aðkomu FAO að umhverfismerkingum.
Boli á
flæðilínu
Marels