Morgunblaðið - 28.07.2005, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 28.07.2005, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. JÚLÍ 2005 37 MINNINGAR óvenjulegur maður, en einmitt það held ég að hafi gert hann að svo góð- um safnanda. Gömlu konurnar sem hann ræddi við fundu ekki til feimni eða kvíða gagnvart þessum fræði- manni sem settist að þeim með sín skrýtnu tól til að hljóðrita þeirra al- þýðlegu frásagnir eða hálfbrostnu barngælurödd. Öðru nær, þær fundu aðeins til samúðar með þess- um feimnislega og umkomulitla dreng og vildu gjarna gera honum eitthvað til þóknunar. Síðustu árin var Hallfreður þjáð- ur af sjúkdómi sem skaddaði heila hans og góðu gáfur. Þegar svo er komið verður dauðinn líkn, en við sem eftir lifum horfum aftur til minningar um ljúfan dreng sem í hógværð gaf þjóð sinni fjársjóðu og reisti sér sjálfum óbrotgjarnan minnisvarða. Við Sigríður sendum Olgu okkar hlýjustu samúðarkveðjur og þakkir til þeirra Hallfreðar fyrir vináttu þeirra og velgjörðir á liðinni tíð. Jónas Kristjánsson. Fyrir tæpum sextíu árum, haustið 1946, settumst við Hallfreður Örn Eiríksson í 1. bekk Menntaskólans í Reykjavík. Við vorum 14 ára, Menntaskólinn hundrað ára á árinu, lýðveldið tveggja ára, stríðinu ný- lokið og okkur fannst þetta vera merkilegir tímar. Báðir Húnvetn- ingar, ég af Ásunum en Hallfreður frá Fossi við Síká í Hrútafirðinum. Flestir bekkjarfélagar okkar voru aristókratar úr vesturbænum en við að norðan og Einar Magg, síðar rektor, sagði að á sínum mennta- skólaárum hefðu svona strákar ver- ið kallaðir Kjósarostar. Hallfreður samlagaðist fljótt hin- um strákunum í bekknum og reynd- ist okkur hinn besti félagi. Hann var frekar óframfærinn og rólegur en átti þó til með að leggja snjallt orð í belg, þegar við átti. Menntaskóla- árin liðu ljúf og hröð og 1952 urðum við stúdentar. Snemma kom í ljós að Hallfreður var mikill íslenskumaður og hafði auk þess áhuga á klassískum mál- um. Minningin um hlédrægan, hljóð- látan bekkjarfélaga til sex ára situr eftir í huganum og víkur ekki. Hafðu þökk fyrir skemmtileg ár og hvíl í friði. Ríkarður Pálsson. Hallfreði Erni kynnist ég fyrir rúmlega hálfri öld á Kommagarði, veitingahúsinu Miðgarði á Þórsgötu 1, en þar var helsti samkomustaður róttæklinga á þeim tíma. Þar var oft þröngt setinn bekkurinn og heims- málin rædd af miklu kappi. Við vor- um ekki bara vinir og kunningjar, sem þarna komum saman, heldur félagar og samherjar sem ætluðu að ryðja nýjar brautir og breyta heim- inum í betri stað. Öll höfðum við áhuga á því að komast út fyrir land- steinana, ætluðum ekki að láta okk- ur nægja sögusagnir og bókfræði. Einkum og sér í lagi langaði okkur til að komast austur fyrir járntjaldið og kynnast af eigin raun hvernig kjörin væru í sósíalísku ríkjunum, þess vegna var það í anda tímans að leiðir okkar Hallfreðs lágu næst saman í Varsjá. Þangað vorum við komin til að taka þátt í heimsmóti æskunnar árið 1955. Fimm árum seinna mætti ég honum á götu í Prag. Hann var kominn þangað, að loknu kandidatsprófi í íslenskum fræðum frá HÍ, til náms í tékknesku og þjóðfræðum í Karlsháskóla, ein- um elsta og merkasta háskóla Evr- ópu. Það var sannarlega hamingjusam- ur ungur maður sem kynnti mig fyr- ir tékkneskri unnustu sinni, Olgu Maríu Sramovu, þennan bjarta sól- skinsdag. Þau giftust og fluttu til Ís- lands þegar Hallfreður hafði lokið náminu. Fyrst í stað fékkst hann við kennslu en þjóðfræðin áttu hug hans og lengst af vann hann sem þjóðfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar. Hann ferðaðist um landið með segulbandstæki og tók upp þjóðsögur, frásagnir og þjóðlög. Hallfreður Örn var hæglátur og hlýr maður sem lét ekki mikið yfir sér en viðmælendur hans nutu sín því betur. Hann vann af stakri alúð og elju og liggur eftir hann mikið og dýrmætt efni. Spólan Hlýði menn fræði mínu sem kom út á vegum Árnastofnunar 2002 og hefur að geyma gamlar upptökur úr fórum Hallfreðs Arnar er hrein perla og sýnir hvers virði starf hans er. Hallfreður Örn og Olga María voru einstaklega samhent. Þau fóru um byggðir Íslendinga í Kanada og söfnuðu frásögnum. Og saman þýddu þau hina bráðskemmtilegu ferðasögu Tékkans Daníels Vetter til Íslands frá 17. öld. Heimili þeirra var fallegt og þau afar gestrisin. Oft söfnuðust þar saman í góðum fagnaði félagarnir sem höfðu stundað nám í Prag. Dr. Helena Kadecková sem lengi kenndi norræn mál við Karlsháskóla, og er mikilvirkur þýðandi íslenskra bók- mennta á tékknesku, hafði gjarnan bækistöð á heimili þeirra þegar hún kom til Íslands. Það var sannarlega gaman í boðum hjá Hallfreði og Olgu og þá sá hann oft um elda- mennskuna og var hinn besti kokk- ur. Engum gestum tóku þau betur en börnunum. Þau fylgdust með uppvexti barna vina sinna og rækt- uðu samband við þau. Reyndar þýddi Hallfreður Örn tékknesk æv- intýri og sögur handa börnum og sagan um Lötu stelpuna sem kom fyrst út hjá Heimskringlu 1960 var beinlínis lesin upp til agna og var endurútgefin 1989 svo að þeir sem sofnuðu við hana í æsku gætu nú glaðst yfir henni á nýjan leik og les- ið hana fyrir sín eigin börn. Það er margs að minnast. Fátæk- leg orð ná ekki að tjá það sem ég hefði viljað segja. Ég og fjölskylda mín sendum Olgu Maríu Franzdótt- ur innilegar samúðarkveðjur. Vilborg Dagbjartsdóttir. Það sem lengst mun halda orðstír Hallfreðar á lofti er brautryðjanda- starf hans í söfnun þjóðfræðaefnis á segulband, kveðskapar, sagna, þulna og gamalla sálmalaga. Í fyrsta lagi varð á þennan hátt margt að- gengilegt sem ekki hafði áður verið skráð. Í öðru lagi og það sem meira máli skipti var að nú heyrðist flutn- ingur sagna- og kvæðamanna sjálfra. Áður höfðu snjallir menn á borð við Jón Árnason, Ólaf Davíðs- son, Sigfús Sigfússon og Bjarna Þorsteinsson skráð slíkt efni sam- viskusamlega, en aldrei fer þó hjá því að svipmót skrásetjara birtist með einhverju móti. Hér kom efnið „beint af skepnunni“. Frumkvöðlar á sviði hljóðupptöku á fyrstu áratugum 20. aldar eins og Jón Pálsson, Jón Leifs og kvæða- mannafélagið Iðunn höfðu í hjáverk- um komið nokkru efni inn á vax- hólka og silfurplötur, einkum kvæðalögum. Hallfreður gerði þetta að meginverkefni sínu en þurfti að sýna mikla þrautseigju við að kría út þá smápeninga sem til þurfti því æðstu yfirvöld menningarmála voru lengi treg að skilja mikilvægi þessa frumkvæðis. Eru af því ýmsar sögur sem sumar gætu að minnsta kosti verið sannar. Fyrstu söfnunarferð sína fór hann um Vestfirði 1958, og hafði Helgi Hjörvar skrifstofustjóri útvarpsráðs útvegað fé til þess. Eft- ir það safnaði hann öðru hverju að sumarlagi fyrir Þjóðminjasafnið, Handritastofnun Íslands og Ríkisút- varpið uns hann varð fastráðinn þjóðsagnafræðingur við Stofnun Árna Magnússonar 1966. Auk ferða víða um land fóru þau Olga í margra mánaða söfnunarferð um slóðir Vestur-Íslendinga veturinn 1972– 73. Hallfreður skrifaði nokkrar merk- ar greinar í innlend og erlend fræði- tímarit, til dæmis um Söfnun þjóð- fræða, Þjóðsagnir og sagnfræði, Þjóðsagnasöfnun og þjóðfrelsis- hreyfingu, Sagnir og þjóðkvæði í skáldskap Gríms Thomsens, Úti- legumannaleikrit Matthíasar Joch- umssonar svo eitthvað sé nefnt. Hann sá einnig um útgáfu íslenskra þjóðsagna erlendis. Strax um tvítugt var Hallfreður tekinn að kveða rímur. Á heimsmóti æskunnar í Búkarest 1953 kvað hann í rúmenska útvarpið. Hljóð- menn fylgdust að vanda þolinmóðir með þessu óskiljanlega söngli þar til þeir sperrtu skyndilega eyrun þegar Hallfreður kvað þessa hringhendu skopvísu úr síðari heimsstyrjöldinni: Ríkir slen í Rússa her rauði Lenín fallinn. Prípet-fenin bröltir ber Búddiení kallinn. Hér könnuðust þeir alltíeinu við eitt orð í hverri línu: Rússa, Lenín, Prípet, Búddíení. Þeir vildu fá þýð- ingu á vísunni. Hallfreður færðist undan, sagði erfitt að snúa svona skáldskap, auk þess væri sérkenni- legur og vandþýddur húmor í vís- unni. Hann lét þá samt hafa hana uppskrifaða. Yfirvöld útvarpsmála í Rúmeníu létu sér þetta þó ekki nægja. Hin dularfullu tengsl „húm- or – Lenín“ létu þau ekki í friði. Sendiráðið í Kaupmannahöfni gætti hagsmuna Íslendinga í Rúmeníu og þangað var vísan send með beiðni um skýringu. Sigurður Nordal var þá sendiherra og af skömmum sín- um vísaði hann málinu til Árnastofn- unar. Jón Helgason forstöðumaður fól hinsvegar Bjarna Einarssyni verkefnið af skömmum sínum, en Bjarni þótti þá eindregnastur kommi á stofnuninni. Bjarni fussaði við og þar dagaði málið uppi. Hallfreður var hæglætismaður í allri framgöngu en leyndi á sér. Sagt var að þótt hann fengi þrásinn- is neitun um fjárframlög til verk- efna sinna í ráðuneytum og öðrum stofnunum kæmi hann í næsta við- talstíma eins og ekkert hefði í skor- ist þar til einhver stjórinn andvarp- aði að láta skyldi mannfjandann hafa eitthvað til að losna við hann. Hann átti að hafa setið á tröppum menntamálaráðs fyrir utan gluggann meðan verið var að af- greiða umsókn frá honum. En undir þessu hægláta yfirborði sló heitt hjarta. Samúð með öllum undirokuðum átti snaran þátt í hug- arheimi hans. Hann var því einlæg- ur róttækur sósíalisti og tók það sárt eins og fleiri þegar í ljós kom að yfirvöld í svokölluðum alþýðulýð- veldum reyndust svikulir við hug- sjónir hans. Hann varð þó að sitja á sér að flíka vonbrigðum sínum op- inberlega því fjölskylda hans indælu Olgu bjó í Prag og varasamt gat verið að ögra hinum ósvífnu ráða- mönnum á þeim bæ. Í daglegri umgengni var Hallfreð- ur einkar notalegur og sumir vissu að hann var með afbrigðum nost- ursamur matreiðslu- og kökugerð- armaður þegar hann vildi það við hafa. Naut ég og mitt fólk stundum góðs af. Enda þótt hann væri að mestu alinn upp í Reykjavík hafði hann talsverðar taugar til Hrúta- fjarðar og Húnvetninga og viðbrögð sveitabarnsins gátu stundum birst án fyrirvara. Mér er minnisstætt þegar við í söfnunarferð ókum um Línakradal að alltíeinu skipar hinn spakláti samferðamaður mér að stoppa á augabragði, hendist út úr bílnum, hleypur út í móa og tekur að kasta grjóti í ýmsar áttir. Hann hafði séð tófu. Þegar Hallfreður hóf söfnunar- starf sitt hentu sumir gaman að þessari áráttu. Hann var jafnvel kallaður „engill dauðans“ enda heimsótti hann skiljanlega ekki síst fólk sem síðustu forvöð voru að hitta ofar moldu. Eitt sinn fórum við til dæmis að hans ráði í Kristkirkju í Landakoti, keyptum kerti og hétum á hinn sæla Þorlák að gamalt fólk austur í Hreppum yrði enn á lífi þegar við kæmum. En af þvílíkum sökum áttu menn að hafa andvarpað þegar Hallfreður sást nálgast bæ- inn: „Jæja, er hann þá kominn.“ Það gat og gert honum auðveldara að nálgast gamalt fólk að hann átti stundum til að verka dálítið um- komulaus og fólkið spurði hvað hægt væri að gera fyrir manninn. Jú, segja honum sögur. Þótt Hallfreður fengist einkum við fortíðina var hann í raun á undan samtíð sinni og starf hans naut sí- fellt meiri viðurkenningar. Fyrir rúmum mánuði var haldið málþing baltneskra, keltneskra og norrænna þjóðsagnafræðinga í Reykjavík. Það var eftirtektarvert hversu oft var vitnað til verka Hallfreðar á þeim fundi. Árni Björnsson. Hallfreður Örn Eiríksson hefur fengið hvíldina eftir langvarandi veikindi. Það kom ekki á óvart því honum hafi hrakað mikið síðasta ár- ið en samt finnst mér ekki langt síð- an ég hitti hann og Olgu á göng- unum í Skógarbæ og Hallfreður brosti sínu hlýlega brosi. Þegar ég las um fráfall hans fór ég að rifja upp kynni okkar, sem hófust snemma árs 1971. Og í framhaldi af þeirri upprifjun gerði ég mér grein fyrir því hversu mikil áhrif Hall- freður hefur haft á lífshlaup mitt svona af vandalausum að vera. Á lokaári mínu í menntaskóla hreifst ég mjög af þjóðfræðinni. Mér var ráðlagt að tala við Hallfreð á Árna- stofnun, hann myndi örugglega geta ráðið mér heilt. Og sú reyndist svo sannarlega raunin. Hallfreður benti mér á að fara til Osló og nema við þjóðfræðideild háskólans þar, hvað ég og gerði. Hann ráðlagði mér einnig að taka minnst einn vetur við HÍ og læra sögu, norsku og ís- lensku, svona til að undirbúa mig og verða ögn eldri og veraldarvanari. Það varð úr að ég lauk BA-prófi áð- ur en ég fór út til frekara náms og hef ekki séð eftir því. Hallfreður studdi mig með ráðum og dáð í gegnum allt námið og útvegaði mér verkefni tengd þjóðfræðinni, bæði hjá honum á Árnastofnun en einnig í tengslum við Norrænu þjóðfræði- stofnunina þar sem Hallfreður sat í stjórn til fjölda ára. Örlögin höguðu því svo að vinnu- vettvangur minn varð ekki nema að litlu leyti innan þjóðfræðanna og oftar en ekki úti á landi eða erlendis en alltaf héldum við einhverju sam- bandi. Ásamt öðru góðu fólki áttum við t.d. mjög gott samstarf við und- irbúning að þingi norrænna þjóð- fræðinga, sem var haldið hér í Reykjavík 1986. Síðasta sumar hitti ég þau hjónin í gönguferð í Seljahverfinu í blíð- viðrinu. Hallfreður var líkur sjálfum sér þótt veikindin hefðu að sjálf- sögðu sett sitt mark. Hið góðlega bros var enn hans aðalsmerki. Blessuð sé minning hans. Ég sendi Olgu einlægar samúðar- kveðjur. Ragnheiður H. Þórarinsdóttir. Við fréttirnar af andláti Hallfreð- ar Arnar Eiríkssonar fylltist hugur minn af söknuði og þakklæti. Sökn- uði eftir félaga sem gat fyllst reiði yfir óréttlæti heimsins við að hlusta á útvarpsfréttirnar, en gat iðulega séð skoplegar hliðar á málum og hlegið innilega að eigin gleymsku. Þakklæti fyrir að hafa kynnst Hall- freði og verkum hans og ekki síður fyrir lífsstarf hans og þann fjársjóð sem hann skilur eftir. Söfnun Hallfreðar á þjóðfræða- efni hófst 1958, en þá um sumarið og það næsta á eftir ferðaðist hann um Vestfirði og tók upp rímnakveðskap og viðtöl um kveðskaparhefðina. Þessar fyrstu söfnunarferðir fór hann á vegum Ríkisútvarpsins með styrk frá menntamálaráðuneytinu. Sumarið 1964 safnaði Hallfreður fyrst á vegum Stofnunar Árna Magnússonar og má segja að þá hafi söfnunarstarf hans hafist fyrir al- vöru og staðið óslitið fram á 10. ára- tug síðustu aldar. Á þessu tímabili ferðaðist Hallfreður um landið þvert og endilangt, fór á milli bæja, talaði við fólk og tók upp allt það efni sem fólk var reiðubúið að miðla. Hann hljóðritaði sagnir og ævintýri, lýs- ingar á þjóðháttum og atvinnuhátt- um, kvæði, sálma, þulur, rímur og lausavísur og margt fleira, og er það ýmist mælt fram, sungið eða kveðið. Meðal annars tókst Hallfreði að hljóðrita heilan rímnaflokk kveðinn af sama manni og með hljóðritun hans á passíusálmasöng systkinanna frá Vagnsstöðum í Suðursveit varð- veittust einu dæmin sem til eru um sálmasöng eins og hann hljómaði í baðstofum landsins á meðan enn var lesinn húslestur á heimilum. Árna- stofnun varðveitir nú á annað þús- und klukkustundir af efni sem Hall- freður tók upp. Síðan ég fór að vinna við safnið hef ég heyrt margar sögur af heimsóknum og söfnun Hallfreðar þar sem fram kemur að mörgum þótti þetta skrítinn maður sem birtist allt í einu heima við bæ með upptökutækið. Margar frásagn- anna lýsa einmitt aðferðum hans til að fá fólk til að segja frá og syngja sem eru sambærilegar við söfnunar- aðferðir þjóðfræðinga í Evrópu á sama tíma. Hæfileikar Hallfreðar til slíks söfnunarstarfs koma einnig í ljós þegar hlustað er á upptökurnar þar sem hann með hæglæti sínu og virðingu fyrir viðmælendunum fær þá til að sættast við upptökutækið og miðla af fróðleik sínum. Þá er ekki hægt annað en dást að þol- inmæði hans þegar hann hlustar aft- ur og aftur á sömu söguna og tekst alltaf að láta eins og hann sé að heyra hana í fyrsta sinn. Þó að Hallfreður hafi safnað alls- kyns þjóðfræðaefni urðu ákveðin svið honum sérstakt rannsóknar- efni. Hann fékk fólk til að segja frá draumum sínum og hugleiðingum um merkingu þeirra og hann spurði um sögulegar sagnir úr nánasta um- hverfi heimildarmannanna. Um þessi efni og mörg önnur skrifaði Hallfreður greinar í íslensk og er- lend tímarit. Ennfremur beindi hann sjónum sínum (og hljóðnema) að fólki á ákveðnum stöðum svo sem sumarið 1967, þegar hann tók upp viðtöl við frumbýlinga í Kópavogi, og veturinn 1972–73 þegar hann fór ásamt eiginkonu sinni, Olgu Maríu Franzdóttur, um byggðir Vestur-Ís- lendinga. Til þess að rannsaka hvernig sögur varðveitast innan sömu sveitar og jafnvel innan sömu fjölskyldu safnaði Hallfreður efni í Suðursveit í mörg ár. Hann fékk fólk til að segja sér „sömu sögurn- Kistur - Krossar Prestur - Kirkja Kistulagning Blóm - Fáni Val á sálmum Tónlistarfólk Sálmaskrá Tilk. í fjölmiðla Erfisdrykkja Gestabók Legstaður Flutningur kistu á milli landa og landshluta Landsbyggðar- þjónusta ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS Símar 581 3300 - 896 8242 Allan sólarhringinn - Áratuga reynsla Suðurhlíð 35 — Fossvogi — www.utforin.is Komum heim til aðstandenda ef óskað er Sverrir Einarsson Bryndís Valbjarnardóttir Oddur Bragason Guðmundur Þór Gíslason SJÁ SÍÐU 38
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.