Morgunblaðið - 05.09.2005, Side 16

Morgunblaðið - 05.09.2005, Side 16
16 MÁNUDAGUR 5. SEPTEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ MENNING SUMARSÝNING Listasafns Íslands, sem að þessu sinni fer fram í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, býður upp á „úrval verka íslenskrar myndlistar tuttugustu aldar“. Ólafur Kvaran, forstöðumaður LÍ, ritar texta í sýningarskrá og segir sýninguna svið- setningu á fjórum köflum í íslenskri listasögu sem hver um sig hafi ákveðið hugmyndalegt og fagurfræðilegt samhengi og búi einnig yfir ákveðnum sögulegum tilvísunum. Kaflaskipt- ingin endurspeglar hina íslensku listasögu eins og hún hefur verið borin fram af Lista- safninu undanfarin ár og notaðar endurtekið sömu fyrirsagnir til að skilgreina viðkomandi kafla eða tímabil. Sérsýningarnar innihéldu eðlilega stærri hóp listamanna hver fyrir sig, en í þessari stærstu yfirlitssýningu íslenskrar tuttugustualdarlistar hefur verið valið úr, svokallað úrval verka þeirra listamanna sem hafa þótt skara framúr í flokki ákveðinna myndefna, eru einkennandi fyrir sömu við- komandi tímabil, eða haft á mikilvæg áhrif á þróun íslenskrar myndlistar innan þess ramma sem skilgreindur er. Þetta síend- urtekna og mótandi sjónarhorn á hvernig við berum fram hinn svokallaða myndlistararf okkar undirstrikar og festir í sessi einhvern undirliggjandi „sannleika“ að listasagan sé ein og óskipt (allavega á hverjum tíma) og sé hér borin fram og skilgreind á viðtekinn, nú- tímalegan og hlutlausan hátt. Ólafur Kvaran segir í viðtali við Morg- unblaðið 15. október sl. (Mótun menningar- arfsins mikilvæg) að aukin fjárveiting til inn- kaupa nýrra sem eldri listaverka í safnið sé mikilvæg því þannig verði menningararfurinn og listasagan til. Hann segir einnig að lista- sagan sé breytilegt fyrirbrigði, verði ekki ákveðin í eitt skipti fyrir öll því þekking okkar og viðhorf breytist og menningararfurinn mótist. Ólafur virðist gera ráð fyrir því að við- horf „okkar“ og þekking breytist með tím- anum en ekki að mismunandi þekking og við- horf til listasögunnar sé þegar til staðar á sama tíma. Það er viðurkennd staðreynd í dag að fram- leiðsla á listasögu byggist eins og önnur saga á huglægu vali, listasaga er þekkingarfram- leiðsla og sú þekking sem sett er fram skapar ákveðna merkingu, sem nær þó í raun ekki lengra en að vera tillaga að merkingu, enda álitið núorðið að hægt sé að búa til margar tegundir af listasögu. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við þá listsöguskoðun sem Listasafn- ið notar til að varpa ljósi á eitt og eitt tímabil í íslenskri listasögu, sérstaklega þá list sem varð til í þeim anda (eða hugmyndafræði) á fyrri hluta aldarinnar, þótt það væri bæði áhugavert og tímabært að sjá einstaka þætti sögunnar skilgreinda út frá öðrum sjón- arhornum. Hitt er verra þegar þessi einhæfa, einsýna og úrelta listsöguskoðun er notuð á þessa fyrstu stóru sýningu íslenskrar mynd- listar sem spannar alla tuttugustu öldina. Listsöguskoðun sem metur listfræðileg gildi verka út frá fagurfræði ákveðinnar form- gerðar og „þróunar“ og einblínir á gildi fram- úrstefnu módernismans með „frumleikann“ í fararbroddi þegar hentar á sama tíma og það virðist helst vera merkingarbærast í íslenskri list þegar margir listamenn vinna innan ákveðinnar stefnu á sama tíma. Aðferðir listfræðinnar hafa tekið breyt- ingum í takt við inntak listarinnar og þau við- horf sem hafa verið ríkjandi í hugvísindum á hverjum tíma og hin stöðuga endurskoðun listarinnar á tuttugustu öld hefur einnig falist í því að beita (alla vega bæta við) nýjum að- ferðum við greiningu á eldri list en ekki öfugt. Greiningaraðferðir listfræðinnar hafa t.d. tekið mið af ævisögulegum, formalískum, fag- urfræðilegum, samfélagslegum, marxískum, sálgreiningarlegum eða táknfræðilegum for- sendum eftir ríkjandi sjónarhornum hvers tíma. Kynjafræðilegt sjónarhorn bættist við á sjöunda áratug síðustu aldar sem leiddi til róttæks endurmats á listasögunni, ekki síst hvað varðar forsendur gildisdóma. Mikilvægi kynjafræðilegra rannsókna á myndlist fólst ekki síst í því að benda á það augljósa, að listasagan er túlkunarfræði, og útgangs- punktur túlkunarfræði byggist á afstæði sjónarhornsins sem leiðir af sér að ekki er til nein þekking sem ekki byggist á hlutdrægu sjónarhorni hins kynbundna. Í kjölfarið beindist athyglin í ríkara mæli að merking- arbærum menningarafurðum frá sjónarhorni annarra hópa en evrópu/amerískra, miðaldra, gagnkynhneigðra hvítra karlmanna af milli- stétt. Forsendur þeirrar orðræðu sem álitin hafði verið hlutlaus, sönn, alþjóðleg og algild var brostin og listasagan varð ekki lengur ein heldur margar, eða með öðrum orðum lista- sagan hefur nú mun fleiri sjónarhorn en áður. Eðlilega hefur tekið tíma fyrir hin nýju sjón- arhorn að virkjast í reynd, sérstaklega hvað varðar eldri myndlist, og umræður og átök virðast enn í fullum gangi um framkvæmdina erlendis. Í ljósi alþjóðlegrar orðræðu samtímalist- arinnar er yfirstandandi sýning Listasafns Íslands á Kjarvalsstöðum gagnrýnisverð. Þrátt fyrir að sýningunni sé ekki ætlað að vera sögulegt yfirlit um íslenska listasögu þá tekur hún sér það hlutverk með því að vera fyrsta heildstæða sýning á „lykilverkum“ ís- lenskrar myndlistar tuttugustu aldar. Hún er sett fram í ákveðnu línulegu samhengi og sögð taka mið af íslenskum þjóðfélagsveru- leika og sett í samhengi við alþjóðlegar list- hræringar. Fyrir það fyrsta er ákaflega skrít- ið að gefa myndlist fyrri hluta aldarinnar jafnmikið sýningarrými og vægi og seinni hlutanum. Ofuráhersla Listasafnsins á okkar fáu myndlistarmenn fyrri hlutans sem frum- herja, snillinga og þjóðsagnapersónur neyðir listskoðun þess nú til að finna jafn fáa og verðuga snillinga í seinni hlutann sem hægt sé að setja í sögulegt og hugmyndalegt sam- hengi við þann fyrri. Hið einfalda myndlist- arhugtak og íslenska fábreytni í hug- myndafræði fyrri hlutans er gert að leiðarstefi fyrir seinni hlutann, þrátt fyrir að það svið sem telst til myndlistar í dag sé miklu víðara en fyrir 50 árum, hvað þá 100 ár- um, starfandi myndlistarmenn margfalt fleiri og nálgun þeirra við myndlistina mjög mis- munandi. Fyrsti kaflinn er nefndur Náttúran og Þjóðsagan með listamönnunum Þórarni B. Þorlákssyni, Ásgrími Jónssyni, Jóni Stef- ánssyni, Jóhannesi Kjarval, Júlíönu Sveins- dóttur og Einari Jónssyni og inniheldur landslagsmálverk og skúlptúra. Í alþjóðlegu samhengi er bent á að þjóðsag- an hafi verið áleitið viðfangsefni í norrænni myndlist um aldamótin, vísað er til tákn- hyggju og síðrómantískrar listar 19. aldar, áhrif arfleifðar Gauguin í verkum Kjarvals og Cézanne í verkum Jóns Stefánssonar. Í lok þriðja áratugarins hafi Kjarval brotið hina rómantísku sýn með expressjónískri áherslu á litræna nálgun og nýtt sjónarhorn á myndefnið. Á Íslandi telst til tíðinda í byrjun aldar að við eigum „loksins“ íslenska starf- andi myndlistarmenn í nútímalegum skiln- ingi, á Vesturlöndum er tímabil evrópskrar framúrstefnu. Ekki virðist passa inn í sýning- arkonseptið hér að sýna verk Muggs sem not- aði óhefðbundin efni eftir því sem hentaði best hverri hugmynd svo sem klippimyndir eða afstrakt útsaum og alla vega lítil skrítin verk sem hann sýndi (á sama tíma og dadaist- arnir eru að vinna úti í heimi). Þá virðist Finnur Jónsson ekkert erindi eiga hér með sín kúbísku óhlutbundnu verk og beinu tengsl við framúrstefnu erlendis, enda hefð fyrir því að líta á fyrstu íslensku af- straktverkin sem einangrað fyrirbæri sem hafi ekki haft afgerandi áhrif á íslenska myndlistarþróun. Íslensk listsöguskoðun í dag virðist ekki hafa rétt eins og samtími Finns, þolinmæði eða þörf fyrir of nýjar ný- ungar í listinni meðan enn á eftir að gera (út- þynntum) expressjónisma skil. Annar kafli, Manneskja – litur- tjáning með verkum þeirra Finns Jónssonar, Gunnlaugs Blöndal, Jóns Engilberts, Gunnlaugs Schev- ing, Þorvalds Skúlasonar, Snorra Arinbjarn- ar, Sigurjóns Ólafssonar, Ásmundar Sveins- sonar og Jóhanns Briem, vísar til nýsköpunar fjórða áratugarins með frásagnarkenndan ex- pressjónisma í öndvegi. Finnur Jónsson er staðsettur á mjög „hógværan“ hátt í þessum kafla með eina tegund mynda frá 1922 og gef- ið það kredit í sýningarskrá að hafa fyrstur ásamt Gunnlaugi Blöndal komið með and- stæðuríka hátónaliti í íslenska myndlist. Hér er lögð áherslu á skírskotun listamanna í nán- asta umhverfi sitt og andrómantísk myndefni af vinnandi alþýðu. Tekið er fram að Gunn- laugur Scheving hafi „einna fyrst tekið þessa afstöðu“ og hún komi skýrast fram í list hans eins og Bassabátnum 1929, myndefni sem síð- ar komi fram hjá öðrum listamönnum fjórða áratugarins sem eiga verk á sýningunni. Þetta er áberandi hunsun í ljósi þess að Krist- ín Jónsdóttir var fyrst íslenskra myndlist- armanna til að mála myndir af vinnandi al- þýðu (Fiskverkun við Eyjafjörð 1914 í eigu LÍ). Verk hennar eru í dag einna hæst verð- metin af list þessa tíma en hennar er ekkert getið í þessu samhengi né verk hennar tekin með sem lykilverk í þessari frásögu sem fjallar eingöngu um verk karllistamanna. Ein möguleg ástæða fyrir þessu er að flest verka Kristínar eru í einkaeign og Listasafnið á lítið af verkum eftir hana. Það leiðir hugann að orðum Ólafs í áðurnefndri Morgunblaðsgrein þar sem hann segir að verk í eigu safnsins séu myndlistararfur þjóðarinnar sem móti ís- lenska listasögu. Þessi afstaða eða íslenskur veruleiki gæti verið ein af skýringunum á því hvers vegna margir samtímalistamenn í dag stíla helstu verk sín í svo ríkum mæli á mögu- leg innkaup safna en skeyta minna um að bera verk sín fram í þeim „magneiningum“ sem henta einstaklingum. Þriðji kaflinn nefnist Um form og náttúru og fjallar um afstrakt tímabilið sem hófst á Íslandi um 1945 og varð ríkjandi til 1960–70. Verk í þessum flokki eru eftir Svavar Guðna- son, Þorvald Skúlason, Nínu Tryggvadóttur, Gerði Helgadóttur, Sigurjón Ólafsson, Krist- ján Davíðsson, Karl Kvaran og Guðmundu Andrésdóttur, og hefst þessi kafli á tíma- mótasýningu Svavars Guðnasonar 1945. Í kaflanum er teflt fram listamönnum af báðum kynjum og er innkoma verka Guðmundu Andrésdóttur í hóp úrvalsverka eina við- leitnin sem ég hef séð hjá Listasafninu und- anfarin ár til að endurmeta vægi framlags eldri listamanns. Þó ekki fyrr en listakonan hafði gefið íslenskum listasöfnum nánast allt sitt ævistarf, einnig verk sem hún hafði áður selt einstaklingum en keypt aftur til baka, sem aftur bendir til þeirrar hugmyndar eða veruleika að ekki sé þau verk talin til menn- ingararfsins sem ekki eru í eigu safnanna, og þá aðallega Listasafns Íslands. Það er athygl- isvert að í þessum kafla eða frásögu eru ein- göngu sýnd ný verk (1996 og 1999) eftir Kristján Davíðsson án skýringa. Síðasti kaflinn frá sjöunda áratugnum til aldarloka nefnist Raunsæi og veruleiki og er tileinkaður verkum í anda nýraunsæis, arte povera, konseptlistar, popplistar og fluxus. Verkin eru eftir Erró, Jóhann Eyfells, Jón Gunnar Árnason, Kristján Guðmundsson, Sigurð Guðmundsson, Magnús Pálsson, Hrein Friðfinnsson og Steinu Vasulka. Kaflinn vísar samkvæmt sýningarskrá „til þeirra breytinga sem hófust um 1960, þegar fram kom í íslenskri myndlist ný umfjöllun um veruleikann og vísan til umhverfisins með einum eða öðrum hætti“. Eins víð og galopin sem þessi skilgreining er þá eru nánast ein- göngu tekin fyrir verk ákveðinna listamanna sem flestir tengjast SÚM-listahópnum sem fram kom undir 1970. Í texta er m.a. vísað til fyrstu innsetningar Kristjáns Guðmunds- sonar í Nýlistasafninu 1969 sem samanstóð eins og frægt er orðið m.a. af straubretti, fíltábreiðum, hænsnaskít og neonljósi (í eigu LÍ). Þetta verk er ekki á sýningunni og reyndar sáralítið af upphafsverkum viðkom- andi listamanna sem tóku þátt í að marka þessi tímamót. Hins vegar er þeim mun meira af nýjum verkum þeirra (sum um 1990, mörg um 2000 og nokkur 2004) sem eiga það flest sameiginlegt að veran nokkuð einsleit og fág- uð útgáfa af ljóðrænni konseptlist. Í sýning- arskránni stendur að við fyrstu sýn virðist sum þessara verka líta út eins og afstrakt en þau séu öðruvísi af því að hugmyndin á bak við þau er öðruvísi. Þessi kafli sýningarinnar nær engan veginn að koma til skila á skýran hátt þeirri hug- mynda- eða inntaks-formbyltingu sem honum er ætlað og þótt hér séu verk mjög góðra listamanna virkar framkvæmdin frekar sem gerræðisleg nafnaútvalning. Þrátt fyrir lítið pláss og mjög þreytandi og endurnýtta kaflaskipan hefði þessi sýning á úrvalsverkum tuttugustu aldar orðið skárri ef síðasti hlutinn hefði fengið meira rými og hann einskorðaður við þær breytingar sem urðu í íslensku myndlistarlífi á árunum 1960– 1980. Þá hefði verið tækifæri til að sýna verk sem tilheyra SÚM-tímabilinu og taka kon- urnar með, pólitísk verk Rósku og tímamóta- verk Hildar Hákonardóttur tengd kvennabar- áttunni. Það hefði verið pláss til að skoða það áhugaverðasta sem var að gerast í grafíklist- inni sem var róttækur miðill á þessum árum, ekki síst verk Ragnheiðar Jónsdóttur. Í al- þjóðlegu myndlistarsamhengi er kvennabylt- ingin og verk tengd henni og nýrri hug- myndafræði um afstæði sjónarhornsins mjög áberandi á þessum tíma. Myndlistarmenn á borð við Braga Ásgeirsson sem var leiðandi í myndrænni nýsköpun og notaði m.a. fundna hluti í myndverk sín. Einnig áhugaverðustu þætti starfsemi Suðurgötu 7. Í öllum helstu listasögubókum samtímans er tímabilið eftir 1960 skilgreint sem póst- módernískt, að hluta til vegna og eftir að síð- asta vígi og helgustu hornsteinar fram- úrstefnu módernismans höfðu verið véfengdir eða afhelgaðir; hugmyndin um hreina list, frumleika og framúrstefnu. Þetta þýðir ekki að viðkomandi hugtök séu ófrjó eða ónothæf í samtímanum, frekar að þau stýri ekki lengur öllu mati á vægi menningarafurða. Sýning Listasafns Íslands eins og hún birt- ist hér með sín lykilverk, úrvalsverk og höf- uðverk valda ákveðnum höfuðverk og áhyggj- um í ljósi þess að ef þetta er hin opinbera íslenska listasaga sem almenningi, útlend- ingum og skólafólki er boðið upp á, hvernig verður þá íslensk myndlistarsaga skráð í listasögubækur þær sem Listasafn Íslands hefur verið falið að gera með fjárframlagi frá menntamálaráðuneytinu? Einu góðu fréttirnar frá Listasafni Íslands eru að bráðlega (vonandi sem allra fyrst) verður hægt að nálgast gagnagrunn Lista- safnsins á netinu og gefst þá fleirum tækifæri á að skoða og meta og mynda sér skoðanir á þeim hluta íslenskrar myndlistar tuttugustu aldar sem þar er að finna. Morgunblaðið/KristinnHreinn Friðfinnsson: Blákoman. Mótun listasögunnar, einsýni, geðþótti og valdbeiting MYNDLIST Listasafn Íslands sýnir á Kjarvalsstöðum Sýningin stendur til 25. september. Opið 10–17 alla daga. Úrval verka frá 20. öld Þóra Þórisdóttir

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.