Morgunblaðið - 05.09.2005, Page 17

Morgunblaðið - 05.09.2005, Page 17
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. SEPTEMBER 2005 17 UMRÆÐAN ÉG ÁTTI því láni að fagna að komast í nokkurra daga gönguferð um öræfin norðan Vatnajökuls með fádæma frábærum hópi á vegum Augnabliks, þess sjálfbæra ferða- félags, undir einstakri leiðsögn þeirra Ástu Arnardóttur og Óskar Vilhjálmsdóttur. Með í för var 10 ára dóttir mín, sem gerði það að verkum að ég horfði á undraveröld Jöklu með hennar ungu augum. Ferðin verður okkur báðum ógleymanleg auk þess sem hún endurnýjaði baráttuþrek mitt gegn stóriðjustefnu stjórn- valda. Hún vakti hjá mér þá tilfinningu að enn væri hægt að berjast gegn Kárahnjúkavirkj- un, stríðið væri ekki tapað. Ég hef ekki verið sérlega virk í andófinu eftir að framkvæmdirnar hófust, hef t.d. ekki haft kjark til fara á framkvæmdasvæðið fyrr en nú, taldi réttast að muna það eins og það var áður en skemmdarverkin hófust. Eflaust hef ég verið of upptekin við að sleikja sárin eftir það sem mér þótti vera töpuð barátta og senni- lega á ég ekki að vera að álasa mér fyrir það. Landið sem má ekki hverfa Þeir eru komnir hátt á fjórða hundraðið göngugarparnir sem þær Ósk og Ásta hafa farið með inn á þetta svæði síðan haustið 2002. Ferðirnar hafa verið kyntar sem „gönguferðir um landið sem má ekki hverfa“, undraveröld Jöklu og Kringilsárrana. Og hvílík undraver- öld! Þarna er hvert undrið öðru magnaðra. Fossaröðin í Jökulsá í Fljótsdal, fossarnir í Sauðá, berjabrekkurnar í Tröllagili, stuðlabergið í gljúfrum Jöklu, eyrarrósin, gæsahreiðrin, Stuðlagáttin, Töfrafoss í Kringilsá og náttúruundrið sjálft; Hraukarnir á Kringilsárrana. En hann er líka undraverður krafturinn í þeim stöll- um, hann helgast af ástríðu þeirra og þörf fyrir að leiðrétta ósannindin sem for- svarsmenn Landsvirkj- unar, ráðherrar og ýmsir þingmenn hafa haldið að fólki í þeim tilgangi að sætta þjóð- ina við þá gerræðislegu ákvörðun að sökkva skuli 57 km² lands und- ir aurugasta jökullón sem hugsast getur. Skemmst er að minnast ummæla Sig- urðar Kára Kristjáns- sonar þingmanns í þættinum Í viku- lokin fyrir fáeinum vikum, en þar fullyrti hann að landið sem sökkva ætti væru einungis sandmelar með nokkrum stráum, lítið lífríki, og ekk- ert sérstaklega tilkomumikið. Þær Ásta og Ósk hafa heitið því að hrekja ósannindi af þessu tagi og sýna fólki dásemdir svæðisins. Við þá köllun sína standa þær af mikilli reisn. Orkarnir rista upp gróðurlendið Ástandið er þannig í dag að alls staðar gætir áhrifa Orkanna, eins og dóttir mín kallaði bröltandi jarð- ýturnar sem blasa við nánast hvert sem litið er. Samlíkingin við Orkana í Hringadróttinssögu Tolkiens er nærtæk, hana getur einnig að líta í beinskeyttri grein þeirra Sigríðar Þorgeirsdóttur og Þuríðar Ein- arsdóttur í Mbl. 19.8. sl. þar sem hvatt er til að hætt verði við Kára- hnjúkavirkjun. Það sem kom þó mest á óvart var gríðarlegur skurð- ur, sem ristur hefur verið í þykkt gróðurlendið eftir endilöngum Háls- inum, austurbakka Jöklu, 18 km að lengd. Þarna voru margar skurð- gröfur að athafna sig og gönguhópur Augnabliks þurfti að staldra við og rifja upp framkvæmdaáformin, áður en við áttuðum okkur á því að hér væru á ferðinni „mótvægisaðgerðir“ Sivjar Friðleifsdóttur, sandgryfjur og rykbindiveggur eða eins og hún kallaði það í úrskurði sínum frá 20.12. 2001 „verkfræðilegar rof- og áfoksvarnir“. Þessar framkvæmdir færði Ómar Ragnarsson inn í stofur landsmanna í kvöldfréttum Sjónvarps 22. ágúst sl. og verða myndirnar eft- irminnilegar eins og svo mörg myndskeiðin hans af brölti Orkanna í hálendisparadísinni norðan Vatna- jökuls. Hápunktur ferðarinnar var þegar við komumst með kláfnum hans Guðmundar á Vaði inn á griðland hreindýra og gæsa, sjálfan Kringils- árrana. Þá var ekki hægt annað en ganga í þögn, svo sterk var tilfinningin af því að við værum boðflennur inni í stofu hjá hreindýrunum. Hraukarnir eru sannkölluð nátt- úruundur, ummerki um gríðarlegt afl Brúarjökuls sem hlaupið hefur fram af svo miklu afli að hann hefur rúllað á undan sér þykkum, grónum jarðvegi og ýtt upp í tugmetra háa hrauka, sem veita hreindýrum og gæsum skjól fyrir veðri og vindum. Haft er eftir leiðangri norrænna vísindamanna, sem rannsakað hefur þessa hrauka upp á síðkastið, að þeir séu náttúruundur á heimsvísu, hvergi séu til aðrir eins, ekki heldur á Svalbarða, eins og haldið hefur verið fram í ferli umhverfismats Kárahnjúkavirkjunar. Börnin okkar þurfa að sjá þetta Mig langar í lokin að hvetja þá foreldra, sem vilja gefa börnum sín- um hlutdeild í dýrustu gersemum landsins, að setja sig í samband við Augnablik og leggja drög að því að ferðast með börnum sínum um þess- ar slóðir næsta sumar. Börnin okkar eiga það skilið að við sýnum þeim þessar dásemdir þó svo geti farið að barnabörnin okkar fái aldrei notið þeirra. Því fleiri sem sjá þessa undraveröld með eigin augum, því líklegra er að unnendur náttúrunnar þori að standa upp og bregða fyrir hana skildi. Það er ekki nóg að segjast elska landið ef maður er ekki tilbúinn að verja það fyrir skemmdarverkum þeirra sem haldnir eru skammsýnni gróðafíkn. Augnablik á Kringilsárrana Kolbrún Halldórsdóttir segir frá gönguferð um öræfin norðan Vatnajökuls ’Börnin okkar eiga þaðskilið að við sýnum þeim þessar dásemdir þó svo geti farið að barnabörn- in okkar fái aldrei notið þeirra.‘ Kolbrún Halldórsdóttir Höfundur er alþingismaður. Ljósmynd/Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir Dýjamosi LOKSINS, loksins hafa D-lista- menn í Reykjavík komist að raun um það sem lengi hefur legið fyrir, að flugvöllurinn verði að fara úr hjarta borgarlandsins. Keppendur um for- ystusætið opnuðu sig með mismun- andi hætti í liðinni viku. Þeim tókst ekki að hafa þessa skoðun fyrir þrem- ur mánuðum þegar D-listinn lýsti „framtíðarsýn“ sinni í skipulagsmálum og sýndi Vatnsmýrina eins og kornakur á korti, en göng út í Engey þar sem átti að byggja! Um þetta sagði leiðarahöf- undur Morgunblaðsins 1. júní sl.: „Sjálfstæðismenn fresta því enn að taka afstöðu til Vatnsmýr- arinnar, segja að fyrst þurfi að vinna hag- kvæmniathugun á þeim kostum, sem komi til greina um þróun svæðisins, að því loknu geti borgarbúar tekið upplýsta og stefnumarkandi ákvörðun um þró- un Vatnsmýrarinnar.“ Núna hefur blaðinu verið snúið við og varla er það „vandræðagangi“ Reykjavíkurlistans að kenna eins og lenska er að tala um á ýmsum bæjum. Sjálfur benti ég á um þetta leyti að Vatnsmýrina eigi að nota sem byggingarland til að skapa sterka borgarmiðju í Reykjavík og það gerðu fleiri borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans. Síðan höfum við fylgt málinu fast eftir og í þessum mánuði hefst upptaktur þess að hald- in verði alþjóðleg hugmyndasam- keppni um framtíð Vatnsmýrar; það má því segja að „forystumenn“ D- listans hafi verið á síðasta snúningi! Allir kostir, þar með Keflavík Þau undur og stórmerki hafa líka orðið að samgönguráðherra vill ræða alla kosti sem koma til greina, ekki bara grafa sig niður í gömlu skotgröf- ina. Það voru flugrekendur sem tóku af skarið fyrir hann. Um þetta sagði Morgunblaðið í leiðara 23. ágúst s.l.: „Það er út af fyrir sig jákvætt að samgönguráðherra og flugfélögin skuli nú vera til viðtals um að flug- völlurinn fari úr Vatnsmýrinni. Því hefur ekki verið að heilsa hingað til. Það virðist furðu oft gleymast að íbú- ar Reykjavíkur hafa í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu ákveðið að flugvöll- urinn fari úr Vatnsmýr- inni eftir árið 2016.“ Þessu er haldið til haga hér til að minna á hve mikið hefur áunnist síðustu mánuði við að þoka flugvallarmálinu úr þeirri prísund sem það hefur verið í – póli- tískri prísund. Í vor kynnti ég þá hugmynd mína að flug- völlurinn færi úr Vatns- mýri svo fljótt sem auð- ið væri, og einn þeirra kosta sem mér virtist álitlegastur væri að færa hann til Keflavíkur, ásamt úrbótum í sam- göngumálum sem yrðu margfalt arð- samari en byggja nýja flugvöll við hlið Keflavíkurvallar. Þar sá ég fyrir mér hraðbraut frá miðborg Reykja- víkur um Skerjafjörð, Álftanes og áfram suður. Undir hafa margir tek- ið, meðal annars Mbl. í leiðara 23. ágúst: „Morgunblaðið hefur áður bent á að Íslendingar hafi ekki efni á að reka tvo stóra flugvelli á sama svæði. Í Keflavík er vel búinn flugvöllur. Allt frá stríðslokum hefur rekstur hans kostað ríkissjóð mun minna en ella, vegna þess að Bandaríkin hafa greitt stóran hluta kostnaðarins. Hins veg- ar eru allar líkur á að viðræðum Ís- lands og Bandaríkjanna um varn- armál … lykti með því að Ísland verði að axla þann kostnað, sem til fellur vegna borgaralegs flugs á vellinum, að langmestu leyti. Þegar Reykjavíkurflugvöllur fer úr Vatnsmýrinni, væntanlega eftir einn til tvo áratugi, er því eðlilegast að gera ráð fyrir að innanlandsflug flytj- ist til Keflavíkurflugvallar. Það fé, sem ella færi í að gera flugvöll á Lönguskerjum eða annars staðar í næsta nágrenni borgarinnar, er bet- ur nýtt til að bæta samgöngur við Keflavíkurflugvöll þannig að hann geti þjónað Reykjavík sem innan- landsflugvöllur. Þar hefur m.a. verið rætt um vegtengingar með göngum milli Álftaness og miðborgar Reykja- víkur. Vegasamgöngur, sem auðvelda för fólks úr hjarta Reykjavíkur til Keflavíkurflugvallar, breyta öllum forsendum fyrir flutningi innanlands- flugs þangað suður eftir.“ Þarna tekur leiðarahöfundur Mbl. undir allar meginhugmyndir mínar frá í vor og rekur fyrir þeim mörg skynsemisrök sem halda verður til haga þegar „allir kostir eru kann- aðir“. Ég fagna því sem borg- arfulltrúi að okkur sem viljum tala þessu máli hefur tekist að snúa því mjög til betri vegar á undanförnum mánuðum. Svo mjög að jafnvel gaml- ir símastaurar syngja eins og borg- arskáldið sagði, og eru sjálfstæð- ismenn boðnir velkomnir í hóp þeirra sem vilja sjá Vatnsmýrardrauminn rætast. Vatnsmýrin leyst úr prísund Stefán Jón Hafstein fjallar um flugvöllinn og Vatnsmýrina ’Svo mjög að jafnvelgamlir símastaurar syngja eins og borgar- skáldið sagði, og eru sjálfstæðismenn boðnir velkomnir í hóp þeirra sem vilja sjá Vatnsmýr- ardrauminn rætast.‘ Stefán Jón Hafstein Höfundur er formaður borgarráðs Reykjavíkur.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.