Morgunblaðið - 04.12.2005, Blaðsíða 20
20 SUNNUDAGUR 4. DESEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
Drengur á aftasta bekk veifar uppréttri hönd
ótt og títt. „Hjálpuðu Bandaríkjamenn til
hérna út af olíunni okkar?“ spyr hann. Bekk-
urinn bíður spenntur eftir svari. Hvað segir út-
lendingurinn núna?
Útlendingurinn stendur einungis vandræða-
legur uppi við töfluna. Í höfði hans glymja orð
ungrar konu frá því nokkrum dögum áður.
Bandarískur hjálparstarfsmaður hafði fullyrt
að hans eigin stjórn hefði keyrt friðarsamn-
ingana í gegn til að tryggja sér aðgang að olíu.
Súdanska konan, einnig hjálparstarfsmaður,
hafði hugsað málið lengi og sagt síðan með
festu:
„Jú, jú, það getur vel verið. En kannski er
það líka allt í lagi. Við fengum að minnsta kosti
frið. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
Ekkert er ókeypis, hvorki hér né annars stað-
ar. Þetta er allt spurning um hagsmuni. Og við
fengum friðinn sem við vildum.“
Aðrir í Suður-Súdan benda mér á að neyð-
arhjálp til landsins hafi verið orðin svo óhugn-
anlega dýr að það hafi orðið að koma á friði. Að
fljúga hjálpargögnum inn í landið ár eftir ár
hefur kostað skildinginn.
Síðan eru það þeir sem tjá mér að Banda-
ríkjastjórn hafi ekki getað horft lengur upp á
það sem hún hafi séð sem illa meðferð araba á
kristnu fólki.
Biturð út í stjórnina í norðri
Samningunum í janúar fylgdu miklar vænt-
ingar. Gríðarlegar væntingar. Fólk var lang-
eygt eftir friði og hafði þráð hann í mörg ár.
Suður-Súdan hafði verið vígvöllur nánast síðan
landið fékk sjálfstæði. Skyndilega var á papp-
írnum kominn friður. Nú hlaut allt að verða
gott.
Land rís hins vegar ekki úr rústum á einni
nóttu. Heldur ekki á nokkrum mánuðum.
Margt hefur breyst í Suður-Súdan en margir
sjá litlar breytingar. Fólkið sem býr lengst úti
á landi hefur jafnlítið og meðan barist var.
Næsta heilsugæsla er enn í margra klukku-
stunda göngufjarlægð og næsti nálægi skóli
gæti eins verið á tunglinu.
Kannski má segja að eitt af því sem ógni
friðinum sé að fólk hafi verið of vongott. Í des-
ember 2005 er það orðið langeygt eftir upp-
byggingunni – eftir skólunum, sjúkrahús-
unum, vegunum og vinnunni.
„Fólk var svo ánægt með friðinn. Áður voru
bæði bardagar og hungur hérna. Núna eru
ekki bardagar en hungrið er hér enn. Fólk
sættir sig ekki við að vera endalaust svangt,“
segir ung kona.
„Menn verða æ óþolinmóðari. Aðgerðir síð-
an í byrjun árs hafa ekki staðið undir vænt-
ingum. Mikið hefur verið látið með friðinn op-
inberlega og í fjölmiðlum – en hvað er hér á
staðnum? Ekkert,“ segir eldri maður.
„Stjórnin í Kartúm hefur dregið lappirnar
og er engin alvara með friðarsamningunum
eða hugmyndinni um að deila völdunum. Hún
ætlar sér að halda hergögnunum og peningum
hjá sér – og hún gerir það markvisst. Hún vill
að SPLA verði faglegur her en hefur ekki
borgað hermönnunum nein laun síðan sam-
komulagið var gert,“ tjáir mér reiður karl-
maður sem sendi börnin sín til náms erlendis
og vill ekki að þau snúi aftur fyrr en að
minnsta kosti að sex árum liðnum.
Í Suður-Súdan hitti ég marga sem eru bitrir
út í yfirvöld í Kartúm og velti fyrir mér hvaða
sögu ég fengi af stríðinu og samningunum færi
ég norðureftir.
100 kýr fyrir brúði
„Þú sérð að í Suður-Súdan vantar alla inn-
viði samfélagsins. Það er stór ástæða fyrir
hungrinu hérna. Friðurinn veltur á hungrinu
og hvort takist að byggja nægilega upp. Þar
verður alþjóðasamfélagið að koma inn. Fólk
verður að finna að friðurinn breyti einhverju,“
fullyrðir karlmaðurinn Dut Domkooc þar sem
ég rekst á hann í bænum Cuiebet. Með okkur
verða fagnaðarfundir. Ég hef áður spjallað við
Dut í öðrum bæ. Hann er staddur á svæðinu til
að ræða við verðandi tengdafjölskyldu dóttur
sinnar. Það þarf að útkljá hversu margar kýr
hann fái við giftingu hennar. Dut glottir þegar
ég spyr hversu mörgum hann búist við,
trommar á jakkavasann sinn og segir að lokum
glaðhlakkalegur: „Ja, að minnsta kosti hundr-
að.“
Dut horfir djúpt í augu mér áður en við skilj-
um í þetta sinn og bendir á að án uppbygg-
ingar verði enginn friður. „Í alvöru, ég meina
það.“ Hann er ekki sá eini til að fullyrða þetta.
Einn af starfsmönnum UNICEF bendir á
að fólk fái á endanum leið á ástandi á svæðum
utan þess eigin heimalands. „Það er venjulega
hægt að gefa almenningi um það bil 5 ár. Þá
fær hann leiða. Þetta á líka við um ríkisstjórnir
og vilja þeirra til að hjálpa. Meðan við höfum
athyglina á okkur hérna eftir friðarsamn-
ingana og getum fengið fé til uppbyggingar
verðum við að gera eins mikið og við getum og
vona að friðurinn haldist enn frekar við það.“
Áhrif á deilur í Darfur
Fyrst kemur það mér á óvart að flestir karl-
menn sem ég ræði við hafi barist með SPLA.
Hver á svæðinu í kringum Rumbek var eig-
inlega ekki í SPLA? Síðan hætti ég að kippa
mér upp við ör eftir sprengjubrot, bæklaða út-
limi af völdum byssuskota og sögur af bardög-
um. Sumir segjast hafa barist fyrir sjálfstæði
suðurhlutans, aðrir fyrir „réttlátri valdaskipt-
ingu og frelsun landsins frá aröbum“.
„Ég hætti við að fara til Úganda í háskóla en
tók þess í stað upp vopn. Ég gat ekki horft upp
á ríkisstjórnina taka olíuna frá okkur eða
reyna að troða upp á okkur sharia-lögum,“
segir einn sem áður var yfirmaður hjá SPLA.
„Það var erfitt að berjast og ef ég hefði ekki
gert það væri ég örugglega með einhverja fína
gráðu í dag. Ég iðrast hins vegar einskis. Við
urðum að gera þetta. Mér finnst ég hafa lagt
eitthvað af mörkum. Það sem við sjáum núna –
friðarsamningarnir – eru afleiðing af því sem
við í SPLA gerðum. Ef við hefðum aldrei bar-
ist væri ekki í dag rætt um kosningar eftir sex
ár og dreifingu valdsins.“
Einmitt vegna þess sem SPLA hefur áorkað
finnst mörgum sem standa utan SPLA þeir
hafa borið skarðan hlut frá borði. Dinkar fara
með völdin í SPLA en Dinkar eru síður en svo
eini þjóðernishópurinn í suðurhluta landsins.
Enn á eftir að sjá hvaða áhrif friðarsamn-
ingarnir hafa á kröfur annarra hópa í Súdan,
til dæmis í Darfur. Ef til vill verða kröfurnar
um Darfur sem sjálfstætt ríki núna háværari.
Og héruðin þrjú á milli norðurhlutans og suð-
urhlutans, þar sem völdunum er deilt í dag,
gætu auðveldlega skapað vandræði síðar meir.
Hverjum eiga þau að tilheyra verði Suður-
Súdan sjálfstætt land? Enn á sömuleiðis eftir
að koma betur í ljós hvað íbúum í norðurhluta
landsins finnst í raun og veru um samningana.
Andspyrnuher Drottins veldur usla
Eitt af því sem er ógn við viðkvæmt ástandið
eru aðgerðir hins svokallaða Andspyrnuhers
Drottins. Andspyrnuherinn er frá nágranna-
ríkinu Úganda og hefur í 19 ár haldið uppi
árásum á óbreytta borgara í norðurhluta Úg-
anda. Hann er þekktur fyrir að ræna börnum,
pynta og gera að sínum liðsmönnum.
Andspyrnuherinn hefur í gegnum tíðina far-
ið reglulega yfir til Suður-Súdan, haft þar skjól
og ígrundað frekari árásir á óbreytta borgara í
Úganda. Um leið hefur hann ráðist á heima-
menn í Suður-Súdan. Herinn hefur á allra síð-
ustu vikum aukið mjög árásir sínar og meðal
annars tekið upp á að ráðast á hjálparstarfs-
menn, innlenda sem erlenda. Það er nýmæli.
Margir rekja þetta til handtökuskipunar sem
Alþjóða stríðsglæpadómstóllinn gaf út í októ-
ber á hendur foringja hersins, Joseph Kony.
Aðgerðir Andspyrnuhers Drottins hafa orð-
ið til þess að hjálparsamtök hafa hætt starfi
sínu allra syðst í Súdan. Samkvæmt stöðlum
Sameinuðu þjóðanna er hættan þar 4. stigs
hætta eða sú sama og sums staðar í Írak. Þar
sem ég sjálf er í Rumbek og þar í kring er
Andspyrnuherinn ekki – hann fer ekki það
norðarlega – en í Rumbek hitti ég hjálp-
arstarfsmenn sem fluttir voru af svæðinu af
öryggisástæðum.
Auk þess að hindra hjálparstarf í Suður-
Súdan hamlar Andspyrnuher Drottins umferð
um veginn á milli Úganda og Súdan. Land-
leiðin frá Úganda inn í Súdan er mikilvæg
tenging Súdan við umheiminn. Á meðan hún er
jafnhættuleg og nú fer minna af vörum eftir
veginum og inn í landið en ella. Barst þó nógu
lítið fyrir af vörum inn til Súdan.
Þrátt fyrir alla heimsins friðarsamninga er
umrætt svæði við landamæri Súdan og Úg-
anda enn stríðssvæði. Þrátt fyrir allar vanga-
veltur um sjálfstæði eða ekki sjálfstæði er
Andspyrnuher Drottins veruleiki þeirra sem
búa allra syðst í Suður-Súdan. Og sá veruleiki
er ekkert grín.
„Friður þarna við landamærin? Ertu að
spauga?“ spyr flugmaður sem ég ræði við í
Kenýa áður en ég held af stað. „Það er ekki og
verður enginn andskotans friður í Suður-
Súdan meðan Andspyrnuherinn fær að vaða
uppi.“
Hvað sem satt reynist fullyrða ungir sem
aldnir í Suður-Súdan að stjórnin í Kartúm
styðji umræddan Andspyrnuher. „Það vita það
allir sem vilja vita að stjórnin dælir í hann
vopnum. Hún myndi aldrei viðurkenna það en
ég veit það – og þú veist það og allir vita það –
að hún styður uppreisnarmennina,“ segir mið-
aldra maður þungum rómi og bætir við: „Hún
vill skapa ófrið í Suður-Súdan og sömuleiðis
hefna sín á stjórninni í Úganda sem studdi
SPLA hér í Súdan.“
Á þriðjudag tilkynnti Andspyrnuher Drott-
ins óvænt að hann væri tilbúinn að hefja frið-
arviðræður að nýju. Það gæti aukið líkurnar á
að friðurinn í Suður-Súdan haldist.
Baráttan um vatnið
Þótt á pappírnum sé friður eru vopn síður en
svo komin niður í skúffur og inn í skápa.
Byssur og rifflar eru enn á hverju strái og
margir gætu viljað benda á það sem ógn við
friðinn.
Meðan á meginstríðinu stóð á milli rík-
isstjórnarinnar í Kartúm og SPLA börðust
ýmsir hópar í suðrinu innbyrðis, bæði eig-
inlegir uppreisnarhópar og hópar fólks sem til
dæmis skorti aðgang að vatni. Erjur á milli
þjóðernishópa eru ekki hættar. Stundum er í
raun ekki um ólíka hópa að ræða. Dinkar hafa
til dæmis barist innbyrðis við ákveðin vatns-
ból. Hjá þeim og öðrum hópum í suðrinu er
nautgripaeign grundvallaratriði. Kýr eru
merki um auð. Þær eru gjaldmiðill og það sem
allt gengur út á.
Kýrnar þurfa vatn en vatn er af skornum
skammti. Vegna áralangra stríðsátaka er alltof
lítið af vatnsdælum á svæðinu. Nóg er af
grunnvatni undir Suður-Súdan en borholur
vantar og í dag sýður auðveldlega upp úr á
þurrkatímabilinu. Á stað þar sem byssueign er
almenn og fyrrum hermenn SPLA hafa snúið
aftur til síns heima með rifflana sem þeir börð-
ust með, eru skærurnar dauðans alvara. Naut-
gripum er stolið, fólk er skotið og spenna skap-
ast auðveldlega.
„Vopnaeignin hefur breytt þessum erjum og
gert þær miklu alvarlegri. Stjórnin í Kartúm
veit hversu eldfimt ástandið er víða yfir
þurrkatímabilið. Hún getur auðveldlega not-
fært sér það og kynt undir því sýnist henni
svo,“ er mér tjáð.
Auk þess eru enn hinir og þessir vopnaðir
hópar í suðrinu sem enginn veit í raun hverjum
tilheyra eða hverju þeir gætu tekið upp á.
Sviplegur dauði um mitt sumar
Allar vangaveltur um frið í Suður-Súdan
enda að lokum í umræðum um sviplegan dauða
foringja SPLA, John Garang. Garang undirrit-
aði samningana í janúar fyrir hönd SPLA og
varð um mitt sumar varaforseti Súdan. Þrem-
ur vikum síðar hrapaði hins vegar þyrla Gar-
ang. Atvikið olli miklum skjálfta og í kjölfarið
fylgdu óeirðir. Margir töldu andlát Garang
vart geta þýtt annað en að nú væri friðurinn
úti.
„Þú getur rétt ímyndað þér. Maðurinn sem
hafði undirritað friðarsamningana var skyndi-
lega ekki lengur á meðal okkar!“ segir mið-
aldra kona og baðar út höndunum. „Ef Garang
væri á lífi er ég viss um að samningarnir
myndu halda. Núna get ég hins vegar ekki ver-
ið viss,“ segir eldri maður þar sem hann situr í
skugga af stóru tré.
Óeirðunum í kjölfar dauða Garang linnti og
Salva Kiir Mayardit tók við sem varaforseti.
Margir gefa í skyn að væri Garang enn á lífi
væru líkurnar á að Súdan yrði í framtíðinni eitt
og sameinað land miklu meiri. Garang hefði
ekki stefnt á sjálfstæði, að minnsta kosti ekki
opinberlega. Eftirmaður hans hafi aftur á móti
augastað á sjálfstæðu Suður-Súdan. Garang
hefði auk þess vitað að almennar kosningar á
meðal landsmanna allra hefði hann getað unn-
ið og sjálfur orðið forseti landsins. Raddir
hvísla að mér að það hafi beinlínis ekki verið
nein önnur leið en að losa sig við Garang. Hann
hefði annars endað með að stjórna landinu í
óþökk „arabanna þarna í norðri“.
Lifði af bardaga en dó á friðartíma
Í skjóli frá brennandi hádegissól ræði ég við
hóp af fólki. „Garang hafði háð stríð í mörg ár
en kom alltaf heill úr bardögum. Síðan lést
hann þegar það var kominn friður! Það er fá-
ránlegt. Hann dó þegar hann fór norður til
Kartúm? Hvað var eiginlega málið?“
Kona horfir feimin á mig en segir síðan: „Ég
varð voðalega leið þegar Garang dó. Ég vona
að þrátt fyrir að hann sé dáinn verði áfram
friður í Suður-Súdan. Ég vona að þrátt fyrir
allt sem mögulega og hugsanlega gæti gerst,
verði áfram friður.“
Síðan þagnar hún og bætir við: „Í dag er
fjölskylda mín fátæk út af stríðinu. Við eigum
nánast ekki neitt. Kannski eigum við ekkert
nema vonina. Vonina um að friðurinn haldist.“
Íbúar í bænum Rumbek sem segjast ekki getað annað en vonað það besta og krossað fingur yfir að
friðarsamningarnir í Suður-Súdan haldi.
sigridurv@mbl.is
Samkvæmt samningunum er Suður-Súdan
nú sjálfstjórnarsvæði. Að 6 árum liðnum gefst
íbúunum kostur á að kjósa um sjálfstæði. Höf-
uðborgin fyrir norðurhluta landsins verður þá
Khartoum en fyrir hið nýja land í suðri borgin
Juba.
Þangað til er völdunum í Súdan dreift á milli
gömlu stjórnarinnar og uppreisnarmannanna að
sunnan, SPLA. Forseti landsins tilheyrir gömlu
stjórninni en varaforsetinn SPLA. Norðrið og
suðrið deila einnig ágóðanum af auðlindunum í
suðurhlutanum. Í Suður-Súdan fannst olía á átt-
unda áratugnum.
Með samningunum í janúar féllst SPLA á að
íslömsk sharia-lög ríktu í norðurhluta landsins.
SPLA hafði barist gegn því að þau giltu um land-
ið allt.
Stjórnirnar í norðri og suðri fara saman með
völdin í þremur héruðum á milli norðurhlutans
og suðurhlutans. Báðir samningsaðilar gerðu til-
kall til þessa svæðis.
Suður-Súdanar bera nú sjálfir ábyrgð á inn-
anríkismálum sínum en stjórnin í Khartoum ber
ábyrgð á utanríkismálastefnu Súdan, auk þess
að stýra varnarmálaráðuneytinu og fleira.
Um hvað var samið í janúar?
Drengir úti á landi í Suður-Súdan fylgjast með nautgripum og líta eftir fiski.