Fréttablaðið - 05.10.2004, Blaðsíða 30

Fréttablaðið - 05.10.2004, Blaðsíða 30
Halldór Ásgrímsson forsætisráð- herra hélt á dögunum ræðu á Ak- ureyri á ráðstefnu Íslandsbanka um sjávarútvegsmál. Í ræðunni gagnrýndi Halldór sjávarútvegs- stefnu Evrópusambandsins harð- lega og sagði að Íslendingar gætu aldrei gengið í ESB að óbreyttri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Sumir hafa túlkað orð Halldórs á þá lund að um kúvendingu sé að ræða í afstöðu hans til ESB en Halldór hefur til þessa verið frek- ar jákvæður gagnvart hugsan- legri aðild Íslands að sambandinu. Í gegnum tíðina hafa margir kveðið sér hljóðs um sjávarút- vegsstefnu ESB og fundið henni allt til foráttu. Margt sem sagt hefur verið ber hins vegar merki um vanþekkingu og hroka gagn- vart sjávarútvegi í ESB og á ekk- ert skylt við málefnalega um- ræðu. Ekki má skilja orð mín þannig að sjávarútvegsstefnan sé hafin yfir gagnrýni. Það er hún ekki, ekki frekar en fiskveiði- stjórn okkar Íslendinga. Það er hins vegar ljóst að það er full þörf á sameiginlegri stefnu í einhverri mynd þar sem um sameiginlega stofna er að ræða og lögsögur ríkja afmarkast við miðlínu. Norðmenn eiga t.d. í árlegum við- ræðum við ESB um ákvörðun há- marksafla í deilistofnum í Norðursjó þrátt fyrir að standa fyrir utan ESB. Einhliða stjórnun strandríkja við þessar aðstæður myndi ekki leysa nein vandamál heldur yrði slík aðgerð skref aft- ur á bak og einungis ávísun á alls- herjar þorskastríð. Það er því al- rangt hjá Halldóri að sjávarút- vegsstefnan sem slík leiði til of- veiði, slæmrar fjárfestingar, rík- isstyrkja og brottkasts. Það er mikil einföldun að gefa í skyn að þessir annmarkar myndu hverfa eins og dögg fyrir sólu við það eitt að færa stjórnun alfarið í hendur strandríkja. Íslendingar – með sína staðbundnu stofna og vel af- markaða fiskveiðilögsögu – þekkja af eigin raun alla þessa annmarka sem Halldór taldi upp. Erum við þó ekki háðir sameigin- legri stefnu ESB! Bretland er oft tekið sem erki- dæmi um fórnarlamb misheppn- aðrar stefnu ESB. Oftar en ekki eru hinir ýmsu sótraftar á sjó þar í landi dregnir fram í dagsljósið og leiddir í vitnastúku til að bera vitni gegn skaðvaldinum í Brus- sel. Hagsmunaaðilar í breskum sjávarútvegi kvarta sáran yfir því að fá ekki að fiska eins mikið og þeir mögulega geta hvar og hvenær sem þeir vilja. Úr vitna- stúkunni benda þeir á ESB sem sökudólg og almenningi er talin trú um að ESB vinni markvisst að því að leggja stein í götu breskra sjómanna. Það er alveg ljóst að allir sjómenn – utan sem innan ESB – vilja fiska meira en þeir fá að taka úr sjó. Það er fásinna að halda því fram að Bretar séu sér- stök fórnarlömb sjávarútvegs- stefnunnar. Bretar þurfa hins vegar að vinna með öðrum þjóð- um á sviði sjávarútvegs og sæta takmörkunum í veiðum líkt og aðrir. Breskir hagsmunaaðilar og stjórnmálamenn hafa ekki látið sitt eftir liggja í því að koma ár sinni lengra fyrir borð í Brussel. Þessir sömu aðilar – sem eru ábyrgir fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi sam- bandsins – kenna hins vegar ESB um órækt í eigin garði í þeim til- gangi að styrkja pólitíska stöðu sína heima fyrir. Bretar, líkt og flestar aðrar þjóðir sem stunda sjávarútveg af einhverju viti, hafa þurft að hagræða í greininni og hagræðing kallar oftar en ekki á breytingar sem eru umdeildar og þá benda menn á Brussel til að koma sér undan ábyrgð. Í ræðu sinni líkti Halldór sjáv- arútvegsstefnu ESB við „nútíma nýlendustefnu“ og hélt því fram að ESB hefði það að markmiði að ná yfirráðum yfir auðlindum nýrra aðildarríkja! Stundum þurfa stjórnmálamenn að fara frjálslega með staðreyndir. Hér fer Halldór hins vegar út fyrir öll velsæmismörk. Ef líkja má stefnu ESB við nýlendustefnu þá má líkja stefnu Íslendinga við innrás- arstefnu. Þrátt fyrir að það hafi löngum þótt óþjóðlegt að gagnrýna fram- göngu Íslendinga í sjávarútvegs- málum á alþjóðavettvangi ætla ég að nefna dæmi um innrásarstefnu Íslendinga. Á sínum tíma leystu íslenskir togarar landfestar og tóku stefnu norður í höf – nánar tiltekið í svokallaða Smugu. Þar dönsuðu togararnir línudans rétt fyrir utan norsku landhelgislín- una og mokfiskuðu þorsk í óþökk Norðmanna. Allmargir landar vorir höguðu sér eins og minnkar í hænsnabúi við veiðarnar og er þá vægt til orða tekið. Fleiri hundruðum, ef ekki þúsundum tonna, var „lensportað“ í þessum atgangi engum til gagns. Hegðun okkar í Smugunni – þar sem við fórum ránshendi um auðlindina – er okkur til ævarandi skammar. Íslendingar fóru síðan fram á veiðiheimildir á svæðinu og í norskri lögsögu. Norðmenn töldu vænlegra að semja við þessa villi- menn frekar en að láta þá leika lausum hala í Smugunni. Þannig tróðum við okkur inn í norska lög- sögu með frekju og yfirgangi. Það er ekki hægt að kalla þessa aðferð annað en innrás. Við Íslendingar eigum að líta okkur nær áður en við bendum á aðra með ásakanir um nýlendu- stefnu. Við erum ekki sú góða fyrirmynd sem við teljum okkur vera á alþjóðavettvangi eins og ofangreint dæmi sannar. Þar að auki eigum við langt í land með að sníða af agnúa á borð við brott- kast og löndun framhjá vigt í okk- ar eigin lögsögu. Þrátt fyrir harða gagnrýni Halldórs Ásgrímssonar á ESB í Akureyrarræðunni tel ég engar líkur á því að hann sé á nokkurn hátt búinn að snúa við blaðinu í afstöðu sinni til ESB. Það má hins vegar segja að það sé pólitískt klókt hjá Halldóri að beita þessari orðræðu í Evrópu- umræðunni á meðan hann stendur í pólitískum vígaferlum innan Framsóknarflokksins og rétt á meðan hann kemur sér fyrir í stóli forsætisráðherra vitandi að valdasmiðju Sjálfstæðisflokksins er ekki skemmt yfir Evrópudaðri hans. Höfundur er aðjúnkt í stjórn- málafræði við Háskóla Íslands. 5. október 2004 ÞRIÐJUDAGUR22 Ræða Halldórs um ESB Batnandi mönnum er bezt að lifa Það hefur sennilega ekki farið framhjá þeim, sem eitthvað fylgjast með umræðunni um Evrópumálin hér á landi, að undanfarið hafa íslenzkir Evr- ópusambandssinnar verið iðnir við að gangast við ýmsu sem þeir hafa hingað til þvertekið fyrir að væri satt og rétt. Þetta er auðvitað hið bezta mál og er alltaf ástæða til að fagna því þegar fólk gengst við röngum yfirlýsingum sínum og viður- kennir staðreyndir málsins. Í þessu sambandi má t.a.m. nefna að á fundi í Norræna hús- inu með Denis MacShane, Evr- ópumálaráðherra Breta, þann 22. júlí sl. viðurkenndi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að ljóst væri að ekki fengjust neinar varan- legar undanþágur frá sameigin- legri sjávarútvegsstefnu Evr- ópusambandsins. Þetta er eitt- hvað sem Evrópusambandssinn- ar á Íslandi höfðu fram að því harðneitað að væri raunin. Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, viður- kenndi síðan að sjávarútvegs- stefna Evrópusambandsins væri á margan hátt meingölluð í grein í Morgunblaðinu þann 12. september sl., sem er auðvitað eitthvað alveg nýtt af hálfu þeirra Evrópusambandssinna, og í Silfri Egils þann 26. sama mánaðar viðurkenndi Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnar- maður í Evrópusamtökunum, loks að ýmsar af reglugerðum sambandsins væru vitlausar. Eins og fyrr segir er alltaf gam- an þegar fólk sér að sér og kemst í betra samband við raun- veruleikann. Batnandi manni er bezt að lifa segir á góðum stað og það á svo sannarlega við í þessu tilviki. Nú verður bara fróðlegt að sjá hvert framhaldið verður. T.a.m. væri ekki úr vegi að í kjölfar viðurkenningar á því, að ýmsar reglugerðir Evrópusam- bandsins séu vitlausar, komi viðurkenning á því að samband- ið sé reglugerðabákn. Eitthvað sem flestum er sennilega orðið löngu ljóst. Nú svo gæti það gerzt að íslenzkir Evrópusam- bandssinnar viðurkenndu það loks, sem hver ráðamaðurinn innan Evrópusambandsins hef- ur staðfest á undanförnum mán- uðum, að hagsmunum okkar í sjávarútvegsmálum væri ekki borgið ef til aðildar að sam- bandinu kæmi og því síður að við myndum halda yfirráðunum yfir Íslandsmiðum ef sú yrði raunin. Og síðast en ekki sízt gætu þeir svo viðurkennt það, sem margir forystumenn Evrópu- sambandsins hafa meira eða minna gengizt við, að stefnt sé að því leynt og ljóst að breyta sambandinu í sambandsríki, þá einkum með fyrirhugaðri stjórnarskrá þess. Með öðrum orðum Bandaríki Evrópu. Höfundur er stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðis- sinna í Evrópumálum. Skrumskæling Hæsta- réttar í skjóli þingræðis Fyrir rúmlega ári síðan fannst undirrituðum tilefni til að velta upp með grein í þessu sama blaði hvort skipun Hæstaréttardómara væri ekki betur komið með öðrum hætti en nú er. Tilefnið var nýleg skipun Ólafs Barkar. Síðar spruttu upp miklar deilur um ráðninguna í kjöl- far álits umboðsmanns Alþingis og kærunefndar jafnréttismála fyrr á þessu ári. Enn er tilefni til að efast um núverandi fyrirkomulag við skipan einnar af þremur stoðum ríkisvaldsins í kjölfar þess að Jón Steinar Gunnlaugsson var skipaður í embætti Hæstaréttardómara. Óhætt er að kalla aðdragandann skrípaleik sem stjórnmálamenn og nafntogaðir lögmenn hafa dregið Hæstarétt inn í með ósmekklegum hætti. Í stað þess að bregðast við göllum sem Björn Bjarnason opin- beraði á núverandi kerfi og stoppa í götin með lagasetningu í þinginu síðasta vetur hafa menn agnúast út í Hæstarétt, sem þó reyndi að bregðast við fyrir sitt leyti með mun vandaðri og faglegri umsögn um umsækjendur en áður hefur tíðkast. Útbreiddur misskilningur virðist ríkja um að pólitískum ráð- herra skuli veitt sem mest svigrúm til geðþóttaákvörðunar um val úr hópi umsækjenda og að þar skuli lögbundinn umsagnaraðili segja sem minnst til að þrengja ekki að geðþótta ráðherra með faglegum sjónarmiðum. 70. gr. stjórnarskrár sem mælir fyrir um óháða dómstóla kom ný inn árið 1995 að fyrirmynd samsvar- andi greinar í mannréttindasátt- mála Evrópu. Sú grein hefur verið útskýrð nánar með tilmælum ráð- herranefndar Evrópuráðsins frá 1994, meðal annars með þeim orð- um að „Ákvörðunarvald við veit- ingu dómaraembætta skuli vera óháð ríkisstjórn og stjórnvöldum“. Óhjákvæmilegt er að líta til þessara tilmæla við skýringu á 70. gr. ís- lensku stjórnarskrárinnar. Ljóst virðist vera að stjórnarskráin stenst kröfur um sjálfstæði dómstólanna. Öðru virðist gegna um lög nr. 15 frá árinu 1998 sem fjalla um dóm- stóla á Íslandi. Með þeim voru fest- ar í lög reglur sem virðast sauma all hressilega að stjórnarskrárákvæði 70. gr. Helsti gallinn á lögunum felst í að ríkisstjórninni er falinn ótak- markaður réttur til ráðstöfunar dómaraembætta á æðsta dómstigi þvert á eðlilegan skilning stjórnar- skrárinnar. Í fyrrnefndum tilmæl- um ráðherranefndarinnar er gefin undanþága hvað þetta varðar að því gefnu að óháður aðili gefi ríkis- stjórninni bindandi álit eða að ein- staklingar hafi áfrýjunarrétt til sjálfstæðs valdhafa. Í dómstólalög- um eru einungis ákvæði um óskuld- bindandi álit Hæstaréttar sem ráð- herra hefur nú lýst yfir að hann vilji ekki og ætli ekki að taka mark á. Það virðist því augljóst að lög 15/1998 standist ekki 70. gr. stjórn- arskrár og því vafamál hvort ís- lensk dómstólaskipan uppfylli skil- yrði þess sem telst þurfa í réttar- ríki. Ljóst er að ábyrgðin er pólitísk. Björn Bjarnason kom auga á galla í kerfinu og notaði. Ríkisstjórnin brást ekki við og lagaði brestinn heldur gekk á lagið og notaði sér hann aftur. Mun Alþingi standa hjá og snúa blinda auganu að tilraunum framkvæmdarvaldsins til að sölsa undir sig dómsvaldið í gegnum gall- aða löggjöf sem að öllum líkindum stenst hvorki stjórnarskrá né mann- réttindasáttmála Evrópu? Ekki er um málskotsrétt eða synjunarvald forseta að ræða að því er þetta varð- ar eins og með lagasetningu. Al- þingi hefur hinsvegar samkvæmt þingræðisvenjunni vopnin til að grípa inn í og koma þeim mönnum frá sem með þessum hætti gera lít- ið úr grundvallarhugmyndum um lýðræði. Þrígreiningarkenningu Montesquieu sem rætur á í and- rúmslofti frönsku byltingarinnar árið 1789 var ætlað að tryggja að at- burðir á borð við þá sem við höfum nú orðið vitni að í tvígang gerðust ekki. Alþingi ber skylda til að grípa í taumana. ■ Utanríkisstefna til sölu? Ægir Magnússon skrifar: Því meir sem maður hugsar um stríðs- reksturinn í Írak, og hinn hræðilega eft- irleik þess, afhjúpast enn skýrar hvað stefna íslenskra stjórnvalda í því máli er dapurleg. Að Ísland skuli vera á sérstök- um stuðningslista Bandaríkjastjórnar við stríðið er að mínum dómi harmleik- ur í sögu utanríkismála á Íslandi. Utan- ríkisráðherrann okkar fyrrverandi sýndi gott fordæmi og tók þátt í söfnun RKÍ til stuðnings stríðsþjáðum börnum. En er það samt ekki svolítið kaldhæðnislegt, að maðurinn sem setti okkur Íslend- inga á lista hinna viljugu og ber því móralska ábyrgð á þjáningum þúsunda barna, skuli ganga um með baukinn, sakleysið uppmálað, eins og ekkert hafi í skorist? Hafi hinn nýi forsætisráðherra einhvern raunverulegan áhuga á mál- efnum stríðsþjáðra barna ætti hans fyrsta verk að vera, að taka Ísland af lista hinna staðföstu og biðja írösku og íslensku þjóðirnar afsökunar. Það er löngu orðið tímabært að skipta um utanríkisstefnu á Íslandi. Við þurf- um stefnu sem byggist á réttlæti og baráttu fyrir betri heimi. Stefnu sem ekki er til sölu, hvorki fyrir störf í Kefla- vík né atkvæði til kosningar í öryggis- ráð Sameinuðu þjóðanna. Þegar for- sendur Íraksstríðsins brustu sögðu stjórnarherrarnir að það skipti engu máli, aðalatriðið væri að koma á lýð- ræði í Írak. Saddam hafði það nefni- lega þannig, að þeim sem ekki voru með honum í liði var komið fyrir katta- nef. Þetta er ekki ósvipuð hugmynda- fræði og lýðræðissinnarnir í Framsókn beita. Að vísu er aðferð framsóknar- manna mun mannúðlegri. Þeir sem ekki eru í liðinu eru „bara“ lagðir í ein- elti og útskúfaðir. Þarf að segja fleira, er ekki kominn tími á tvíburana í brún- ni. Í það minnsta fyrir mitt leyti, svo mikið er víst. HJÖRTUR J. GUÐMUNDSSON SAGNFRÆÐINEMI UMRÆÐAN EVRÓPUSAMBANDIÐ Mun Alþingi standa hjá og snúa blinda auganu að tilraunum fram- kvæmdarvaldsins til að sölsa undir sig dómsvaldið í gegnum gallaða löggjöf sem að öllum líkindum stenst hvorki stjórnarskrá né mannréttindasáttmála Evr- ópu? HAUKUR LOGI KARLSSON FORMAÐUR SUF UMRÆÐAN HÆSTIRÉTTUR ,, Við Íslendingar eigum að líta okkur nær áður en við bendum á aðra með ásakanir um ný- lendustefnu. Við erum ekki sú góða fyrirmynd sem við teljum okkur vera á alþjóða- vettvangi eins og ofangreint dæmi sannar. ÚLFAR HAUKSSON STJÓRNMÁLAFRÆÐINGUR UMRÆÐAN ÍSLAND OG EVR- ÓPUSAMBANDIÐ ,,DÓMARAR HÆSTARÉTTAR Greinarhöfundur vekur athygli á tilmælum ráðherranefndarEvrópuráðsins frá 1994 um að ákvörðunarvald við veitingu dómaraembættis skuli veraóháð ríkisstjórn og stjórnvöldum. BRÉF TIL BLAÐSINS

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.