Fréttablaðið


Fréttablaðið - 02.04.2005, Qupperneq 37

Fréttablaðið - 02.04.2005, Qupperneq 37
LAUGARDAGUR 2. apríl 2005 HVERNIG MYNDAST TSUNAMI? Svar: Flóðbylgjur verða einkum til í tengslum við lóðréttar hreyf- ingar á hafsbotninum eða tilfærsl- ur á massa sem leiða til þess að vatn kemst á hreyfingu. Alþjóða- orðið tsunami er japanskt að upp- runa og merkir hafnarbylgja á frummálinu. Jarðskjálftar eru al- gengasta orsök flóðbylgna en eld- gos og skriðuföll geta líka valdið umtalsverðum flóðbylgjum, jafn- vel stærri en skjálftar gera. Stundum eru orsakirnar samsett- ar og flóknar. Til dæmis getur skjálfti valdið skriðuföllum sem síðan koma af stað flóðbylgju. Eldfjallaey getur hrunið í sjó fram í tengslum við eldgos og komið þannig af stað mjög stórri flóðbylgju. Hreyfingar á sjávarbotni koma af stað flóðbylgju Upptök skjálftaflóðbylgjunnar sem skall á löndum við Indlands- haf þann 26. desember 2004 má rekja til jarðskjálfta á sjávar- botni. Neðansjávarjarðskjálftar eins og þessi valda því að sjávar- botninn hreyfist upp og niður sem kemur hreyfingu á sjóinn og þar með fer flóðbylgja af stað. Slíkt á sér einkum stað í tengslum við samreksbelti svo sem eyjaboga og virka meginlandsjaðra. Þar mætast jarðskorpuflekar og þrýstingur á flekaskilunum bygg- ist smám saman upp. Þegar jarð- skorpan brotnar undan þrýstingn- um fellur hann skyndilega og hreyfing kemst á sjávarbotninn en við það rykkist til gríðarlegur massi af vatni. Hreyfingin kemur svo af stað skjálftaflóðbylgju. Hraði bylgjunnar er í réttu hlut- falli við kvaðratrótina af sjávar- dýpinu Flóðbylgjur sem verða til vegna hamfara í eða við sjó hafa oft þann eiginleika að bylgjulengd þeirra er mikil og getur skipt tug- um eða hundruðum kílómetra. Þegar bylgjulengd vatnsbylgju er sambærileg við eða meiri en vatnsdýpið gildir að hraðinn er í réttu hlutfalli við kvaðratrótina af sjávardýpinu. Á úthafinu þar sem dýpi er víða 4000 – 5000 m verður hraðinn á bilinu 200 – 220 m/s eða 710 – 800 km/klst. Á landgrunninu er dýpi oft á bilinu 200 – 400 m og þar verður hraði flóðbylgjunnar miklu minni, 45 – 65 m/s eða 160 – 225 km/klst. Útslag bylgjunnar vex á grunn- sævi Á opnu úthafi verður bylgjunnar lítið vart. Útslag hennar skiptir þar fáeinum metrum en vegna þess að bylgjulengdin er tugir kílómetra verður hallinn á sjávar- fletinum lítill. Þegar bylgjan kem- ur á grynnra vatn verður breyting á. Hraði hennar fellur og fjarlægð milli bylgjufaldanna minnkar. Orkan í bylgjunni dreifist þá á minna rúmmál í sjónum og útslag hennar vex. Þegar hún skellur á ströndinni er hún því oft orðin há og brött. Áhrifin geta breyst ef lögun strandarinnar gefur tilefni til. Alda sem fer inn eftir trektar- laga firði getur magnast mjög þar til hún skellur á ströndinni í fjarð- arbotninum. Nes geta varið ströndina hlémegin. Sömuleiðis getur aldan endurkastast frá strönd og breytt um stefnu. Vatnsmassi sem fylgir flóðbylgj- um er gríðarlegur Flóðbylgja sem nálgast strönd er ekki endilega hærri en venjulegar stormöldur. Hún er hins vegar miklu hættulegri vegna bylgju- lengdarinnar og hins gríðarlega vatnsmassa sem fylgir á eftir. Sjórinn gengur því langt inn á landið og skolar öllu burt. Bylgjan er sjaldan ein á ferð og stundum er hæsta bylgjan ekki sú fyrsta. Fyrsta útslagið getur jafnvel ver- ið niður á við þannig að fyrstu um- merki um bylgjuna eru mikið útfiri. Þetta hefur stundum orðið fólki skeinuhætt sem þyrpist niður í fjöru til að sjá undrið en verður síðan fyrir öldunni þegar skyndilega hækkar aftur í sjón- um. Stærstu jarðskjálftar verða við samreksbelti Eins og áður sagði eru neðansjáv- arjarðskjálftar algengir á sam- reksbeltum og hafa stærstu jarð- skjálftar sem mælst hafa á jörð- inni verið í tengslum við slík flekamót, þar með talinn skjálft- inn mikli við Súmötru í desember 2004, í Chile 1960 og Alaska 1964. Samreksbelti eru sérlega algeng umhverfis Kyrrahafið og því eru skjálftaflóðbylgjur tíðar þar. Að meðaltali valda skjálftaflóðbylgj- ur tjóni tvisvar á ári við Kyrra- hafið, og á 10-12 ára fresti verða þar til flóðbylgjur sem valda tjóni víða umhverfis hafið. Skjálftar á fráreksbeltum valda sjaldan flóðbylgjum Skjálftar á fráreksbeltum, svo sem Atlantshafshryggnum eða Indlandshafshryggjunum valda mjög sjaldan flóðbylgjum. Kemur þar tvennt til. Skjálftar með umtalsverðar lóðréttar upptaka- hreyfingar verða einkum á hryggjarásunum og ná þeir sjald- an stærðinni 6. Stærri skjálftar verða á þvergengjum hryggjanna en þeir eru sniðgengisskjálftar og lóðréttar hreyfingar í upptökum þeirra eru hverfandi. Samreks- belti sem snúa að Indlandshafi og Atlantshafi eru fá og því eru stórar skjálftaflóðbylgjur ekki al- gengar í þessum höfum. Þær eru þó ekki óþekktar og er skjálftinn við Súmötru dæmi um það. Jarðskjálftinn í Lissabon 1755 Í Atlantshafinu varð frægasta skjálftaflóðbylgjan til í skjálftan- um mikla við Lissabon árið 1755. Borgin fór þá gjörsamlega í rúst, fyrst vegna titrings, þá brutust út miklir eldar og síðan gekk flóð- bylgja á land. Þessi skjálfti átti upptök á flekaskilum milli Evr- asíuflekans og Afríkuflekans sem liggja um Gíbraltarsund og tengj- ast Atlantshafshryggnum við Azoreyjar. Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ. Fylgitexti: Í kjölfar jarðskjálftans mikla sem varð skammt frá eyjunni Súmötru í Ind- landshafi á annan dag jóla 2004 og flóðbylgjunnar sem hann hratt af stað, barst Vís- indavefnum mikill fjöldi spurninga um flóðbylgjur og jarðskjálfta. Við bendum lesend- um Fréttablaðsins á fleiri svör um þessi efni á slóð Vísindavefins visindavefur.hi.is, til dæmis svör við spurningunum: Hvaða hlutar Reykjavíkur væru í hættu ef flóðbylgja kæmi vegna eldgoss í Snæfellsjökli, hversvegna heyrist í jarðskjálfta áður en hann kemur, væri hægt að senda viðvörun um jarðskjálfta meðan bylgjurnar eru á leiðinni, ef allir Kínverjar stykkju niður af stól á sama tíma, kæmi þá jarðskjálfti og hverjar eru helstu tegundir jarðskjálftabylgna? VÍSINDAVEFUR HÁSKÓLA ÍSLANDS FLÓÐBYLGJA Flóðbylgja reið yfir Tæland á öðrum degi jóla með skelfilegum afleið- ingum. Flóðbylgjur verða einkum til í tengslum við lóðréttar hreyfingar á hafs- botni eða tilfærslur á massa sem leiða til þess að vatn kemst á hreyfingu. Flóðbylgjur og samreksbelti

x

Fréttablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.