Fréttablaðið - 27.11.2005, Side 64

Fréttablaðið - 27.11.2005, Side 64
 27. nóvember 2005 SUNNUDAGUR32 Þjóðkunnur háskólapróf-essor varð á dögunum að selja hús sitt til að geta borgað athafnamanni nokkrum tólf milljónir króna í skaðabætur fyrir ummæli sem talin voru ærumeiðandi. Atvik- ið hefur vakið mikla athygli því þetta mun vera í fyrsta sinn sem mál er höfðað fyrir erlendum dómstól vegna orða sem viðhöfð eru á Íslandi, nánar tiltekið sett á íslenska vefsíðu. Hér á landi eru dómar í meiðyrðamálum yfirleitt vægir og þótt fyrir komi að ein- stök orð séu dæmd dauð og ómerk hafa kærendur aldrei háar bætur upp úr málaferlum. Það er því óneitanlega einkennilegt að sumir landsmenn séu í þeirri stöðu að geta valið um það hvort þeir fari með mál fyrir dómstól á Íslandi eða Bretlandi. Það er ekki alveg í samræmi við jafnræðishugmynd- ir okkar. En svona er réttarfarið kannski að þróast með hnatt- væðingunni og hugsanlega verða menn að laga sig að alveg nýjum veruleika í þessu efni. Sæmd og vígaferli Þeir sem lesið hafa Íslendinga- sögurnar kannast við að orðin „æra“ og „ærumeiðing“ koma þar hvergi fyrir. Sama er að segja um lögbækurnar fornu. En hugtakið var þekkt, bara í öðrum búningi. Menn töluðu um „sæmd“, „sóma“ og „virðingu“. Og segja má að samskipti manna, sem eitthvað máttu sín á þeim dögum, hafi ekki hvað síst snúist um að halda sæmd sinni eða virðingu. Væri brotið gegn henni þurfti að hefna þess og leiddu af því hin frægu vígaferli sem fornritin eru full af frásögn- um um. Þegar fram liðu stundir hættu Íslendingar að hefna lítilsvirðandi ummæla að hætti fornkappanna og málarekstur út af þeim fann sér vettvang hjá dómstólunum. Þegar fjölmiðlaöld hófst á Íslandi í lok nítjándu aldar með tilheyr- andi flokkadrætti í innanlands- málum byrjaði mikið blómaskeið meiðyrðamála sem einhver góður sagnfræðingur þyrfti við tækifæri að gera úttekt á, því hana vantar tilfinnanlega. Menn gerðust stór- yrtir og illyrtir í blaðagreinum og á mannamótum og eins og oft fyrr og síðar voru það strigakjaft- arnir sem þá voru hörundsárastir. Orðhákarnir töldu sig mega segja ljóta hluti um fjandmenn sína en ef styggðaryrði var sagt um þá sjálfa var kallað í lögmann og kært fyrir ærumeiðingar og kraf- ist miskabóta. Stjórnmálamenn takast á Á þriðja og fjórða áratugnum var talsvert um það að íslenskir stjórnmálaforingjar tækjust á fyrir dómstólum þegar þeim sveið eitthvað sem um þá var skrifað í blöðin. Með verkalýðsbaráttu og róttækum stjórnmálaflokkum þessara ára hljóp aukin harka í þjóðmálaumræðuna og létu menn þá ýmislegt flakka um andstæð- inginn sem oft hefði verið skyn- samlegra að hafa látið ósagt. Einn þeirra stjórnmálamanna sem áberandi voru í hinni harð- orðu þjóðmálabaráttu þessara ára var Ólafur Thors alþingis- maður, síðar forsætisráðherra. Í byrjun fjórða áratugarins var hann einnig einn af framkvæmda- stjórum stærsta útgerðarfélags landsins, Kveldúlfs, sem pólit- ískum andstæðingum hans, ekki síst þeim fræga manni Jónasi Jónssyni frá Hriflu, var heldur í nöp við. Jónas var þekktur fyrir óvægnar en afar lipurlega stílaðar stjórnmálagreinar sem hann birti í vikublaði framsóknarmanna, Tímanum. Varð Ólafur Thors honum oft að yrkisefni. Ritstjóri Tímans, Gísli Guðmundsson, var ekki síður áhugasemur um að beina skeytum að Ólafi og fyrir- tæki hans, enda voru þá víglínur í þjóðfélaginu einkum dregnar á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, öndvert við það sem nú er þegar flokkarnir eru eins og síamstvíburar. Á þessum árum kom það nokkrum sinnum fyrir að Ólafi Thors ofbauð svo meiðandi skrif í Tímanum um sig og Kveldúlf að hann stefndi ábyrgðarmanni blaðsins fyrir dómstóla og krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk. Vann hann öll þessi mál. Ólafur lét sér að jafnaði í léttu rúmi liggja ýmis köpuryrði í sinn garð, enda var hann sjálfur ekki saklaus af slíku. En hann sætti sig ekki við að láta standa ummæli þar sem hann var sakaður um að brjóta gegn lögum eða góðu siðferði eins og fyrir kom þegar Tímamönnum varð heitt í hamsi. Tíminn dæmdur Tvívegis árið 1931 stefndi Ólaf- ur Gísla Guðmundssyni, ritstjóra Tímans, vegna þess sem hann taldi vera ósönn og óviðurkvæmi- leg ummæli í sinn garð í blaðinu. Í bæði skiptin voru hin tilgreindu dæmd dauð og ómerk. Í fyrra skiptið var Gísli í Bæjarþingi Reykjavíkur dæmdur til að greiða 100 krónu sekt sem Hæstiréttur þyngdi í 300 kr. Í síðara skiptið var Gísli dæmdur í 200 króna sekt en Hæstiréttur þyngdi hana í 400 krónur. Upphæðin var mánaðar- laun manns í mjög góðu starfi. En þó að Gísli hafi verið dæmd- ur vegna þess að hann var ábyrgð- armaður Tímans var hann áreið- anlega ekki höfundur greinanna sem meiðyrðin geymdu þetta árið. Þær voru báðar ómerktar. Lík- lega voru þær báðar skrifaðar af afkastamesta penna blaðsins, Jón- asi Jónssyni frá Hriflu, sem ýmist birti greinar undir fullu nafni eða ómerktar. Ein greinanna sem Gísli var dæmdur fyrir, „Viðskiptasið- fræði Kveldúlfanna“, sem birtist á forsíðu Tímans 6. júní 1931, ber ýmis augljós höfundareinkenni Jónasar frá Hriflu. Jónas var dómsmálaráðherra þegar dómarnir voru kveðnir upp. En nokkru síðar, vorið 1932, urðu stjórnarskipti og við tók sam- steypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Jónas þurfti að kveðja Stjórnarráðið. En áður en hann yfirgaf skrifstofuna sendi hann sem dómsmálaráðherra kon- ungi Íslands í Kaupmannahöfn erindi og óskaði eftir því að Gísli nokkur Guðmundsson sem dæmd- ur hefði verið fyrir meiðyrði yrði náðaður. Venja var að kóngurinn samþykkti slík tilmæli frá íslensk- um ráðherra og gekk það eftir. Náðaði hann sjálfan sig? Ekki vakti þetta hrifningu alls staðar. Morgunblaðið var hneykslað á þessum vinnubrögð- um: „Er hér ekki komið hámark vitleysunnar, brjálæðisins í stjórn landsins? Jónas Jónsson skrifar nafnlausar sorpgreinar í Tímann. Ritstjórinn er dæmdur í sektir fyrir meiðyrðin. Jónas Jónsson náðar ritstjórann af sektum þeim er ritstjórinn er dæmdur til að greiða fyrir greinar Jónasar Jóns- sonar (!) Verður komist lengra?“ Tíminn lagði orð í belg og sagði að meiðyrðamál væru orðin úrelt. „J.J. lagði til við kon- ung, að niður féllu fégjöld þessi, með því að hér væri um úrelta venju að ræða, sem einn flokk- ur héldi uppi sér til framdráttar. Hér hefir J.J. auðsýnilega fylgt fram sem endranær hinu hærra réttlæti,“ skrifaði blaðið. „Hið hærra réttlæti“. Minna gat það ekki verið! Svona var nú pólitíkin og réttarfarið á Íslandi í eina tíð. Heimildir: Hæstaréttardóm- ar IV bindi 1931-1932 (Reykjavík 1933), 504-507, 782-786. „Meið- yrðasektir“, Tíminn 25. júní 1932. „Náðun“, Morgunblaðið 29. júní 1932. Hið hærra réttlæti Jónasar frá Hriflu JÓNAS JÓNSSON FRÁ HRIFLU Árið 1932 lét þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, náða flokksbróður sinn sem dæmdur hafði verið fyrir meiðyrði um Ólaf Thors alþingismann í vikublaðinu Tímanum. Hinn raunverulegi höfundur var líklega Jónas sjálfur. Guðmund- ur Magnússon fjallar um pólitík og réttarfar á Íslandi á fjórða áratugnum. ÓLAFUR THORS „Á þriðja og fjórða ára- tugnum var talsvert um það að íslenskir stjórn- málaforingjar tækjust á fyrir dómstólum...“ „Jónas Jónsson skrifar nafnlausar sorpgreinar í Tímann. Ritstjórinn er dæmdur í sektir fyrir meiðyrðin. Jónas Jónsson náðar ritstjórann af sekt- um þeim er ritstjórinn er dæmdur til að greiða fyrir greinar Jónasar Jónssonar (!)“ „Hér á landi eru dómar í meiðyrðamálum yfirleitt vægir og þótt fyrir komi að einstök orð séu dæmd dauð og ómerk hafa kær- endur aldrei háar bætur upp úr málaferlum.“

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.