Fréttablaðið - 04.01.2006, Síða 34

Fréttablaðið - 04.01.2006, Síða 34
MARKAÐURINN 4. JANÚAR 2006 MIÐVIKUDAGUR10 F R É T T A S K Ý R I N G Besta hlutabréfaár Íslandssögunnar er að baki en Úrvalsvísitalan hækkaði um tæp 65 prósent í fyrra. Enn og aftur sýndu íslensk hlutabréf langbestu ávöxtun í samanburði við erlend hlutabréf og aðra fjárfestingarkosti. Þegar litið er eitt ár til baka verður að telja að þessi mikli kraftur markað- arins hafi komið öllum á óvart, enda var almennt álitið að íslensk hlutabréf ættu ekki svona mikið inni eftir gríðarlegar hækkanir á árunum 2003 og 2004. Frá ársbyrjun 2003 til loka ársins 2005 hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 303 prósent. BANKARNIR EIN BILLJÓN Bankar, fjárfestingarfélög og stór útrásarfyrirtæki ruku upp úr öllu valdi og náðu óþekktum stærðum. Tvö af þessum fyrirtækjum náðu 100 prósenta hækkun á árinu 2005; Bakkavör Group og Landsbankinn. Í ársbyrjun 2005 voru aðeins þrjú félög í Kauphöll Íslands meira en eitt hundrað milljarða virði; Actavis, Íslandsbanki og KB banki, en um nýliðin áramót voru þau orðin sex. FL Group, Landsbanki Íslands og Straumur - Burðarás höfðu bæst í hópinn. KB banki, stærsta félagið í Kauphöllinni, vantar lítið upp á ná markaðsvirði upp á hálfa billjón. Markaðsvirði viðskiptabankanna þriggja í Kauphöll Íslands er orðið meira en sem nemur landsframleiðslu síðasta árs. Tölur fyrir landsframleiðslu árið 2005 liggja ekki fyrir fyrir en í mars en áætluð landsframleiðsla ársins 2004 var um 870 milljarðar króna. Markaðsvirði bankanna er komið yfir eina billjón - eitt þúsund milljarða. Að viðbættum stóru fjárfestingarfélögunum; Straumi - Burðarási og FL Group, liggur heildarmarkaðsvirði banka og fjárfestingarfélaga í 1.270 milljörðum króna, sem er meira en hreinar eignir lífeyrissjóðanna. Þær voru 1.100 milljarðar í lok ágúst. STÖÐUGAR HÆKKANIR 2005 Hlutabréfamarkaðurinn fór mjög vel af stað í janúar fyrir ári síðan, um sama leyti og fyrstu uppgjör bárust í hús. Hafði Úrvalsvísitalan hækkað um sex hundruð stig á fyrstu sex vikum ársins. Svona hélt þetta áfram að undanskildum fáeinum dögum í september þegar markaðurinn lækkaði. Þegar litið er á hvern ársfjórðung fyrir sig sést að verðhækkanir á markaðnum voru svipaðar á fyrsta, þriðja og fjórða ársfjórðungi, um það bil 17-18 prósent. Annar ársfjórðungur skar sig úr en þá hækkaði vísitalan aðeins um 5,5 prósent, sem þykir samt sem áður góð ávöxtun á þriggja mánaða tímabili. Þessi stöðugi stígandi kemur Jónasi G. Friðþjófssyni, hjá Greiningu Íslandsbanka, svolítið á óvart. „Þetta er meiri hækkun en við spáðum um þetta leyti í fyrra að yrði yfir árið 2005. Þá reiknuðum við með því að Úrvalsvísitalan myndi hækka um fimmtán prósent yfir árið og töldu margir það nokkuð bjartsýnt á þeim tíma. Annað hefur komið í ljós,“ segir Jónas. Hann bætir við að hækkunin hafi verið nær samfelld. „Við sáum ekkert raunverulegt tímabil lækkunar á síðasta ári, ólíkt því sem við sáum á árinu 2004, en í október það ár lækkaði markaðurinn um nær 18 prósent á nokkrum vikum.“ ALLIR FÓRU ÞEIR Í VÍKING Eitt það helsta sem stendur upp úr á síðasta ári, að mati Jónasar, er kaup innlendra félaga á erlendum fyrirtækjum og vöxtur þessara félaga erlendis. Öll stóru fyrirtækin hafa stækkað með því að hasla sér völl á erlendri grundu. Innri vöxtur var einnig umtalsverður hjá þessum félögum á síðasta ári. Í öllu þessu breytingaferli á síðasta ári voru afkomutölur góðar. „Uppgjörin hafa almennt verið yfir væntingum og spám. Breytingarnar á félögunum hafa hins vegar verið svo örar að maður þarf að hafa sig allan við að endurskoða verðmat hvers félags.“ Tíðindi af útrásinni einkenndu viðskiptalífið á síðasta ári og átti hún mikinn þátt í þeirri spennu sem skapaðist í Kauphöllinni. Stórfyrirtæki sóttu hratt fram. Actavis skipaði sér í hóp fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims með kaupum á Amide og samheitalyfjahluta Alpharma. Bakkavör Group gekk frá kaupum á breska matvælaframleiðandanum Geest fyrir tæpa 74 milljarða króna á vormánuðum. FL Group hélt uppteknum hætti í easyJet og jók við hlut sinn auk þess sem félagið festi kaup á lággjaldaflugfélaginu Sterling. Icelandic Group (áður SH) keypti allt hlutafé í Pickenpack, þýsku framleiðslufyrirtæki á sviði sjávarafurða. Íslandsbanki hélt áfram að styrkja starfsemi sína í Noregi með kaupum á verðbréfafyrirtækinu Norse Securities en KB banki, sem átti um fimmtungshlut í Singer&Friedlander um þarsíðustu ára- mót, eignaðist allan bankann. Landsbankinn fékk fimmtungshlut í Carnegie þegar Burðarás var stokkaður upp. Bankinn festi kaup á fjármálafyrirtækjunum Teather & Greenwood, Kepler Equities og Merrion Capital á árinu sem er liðið og Össur stækkaði talsvert með kaupum á stuðnings- tækjaframleiðandanum Royce Medical fyrir fjórtán milljarða króna. MIKIL TRÚ Á OFURFJÁRFESTA Jónas segir að fjárfestar hafi mikla trú á sterkum einstaklingum og séu tilbúnir að greiða hátt verð fyrir hlutabréf í eigu þessara aðila til að vera í samfloti með þeim inn í komandi framtíð. Oft er talað um svokallað „Björgólfsálag“ í höfuðið á Björgólfsfeðgum og virðast fjárfestar hafa mikla trú á félögum sem þeir stýra. Þegar Burðarás sameinaðist Landsbankanum og Straumi hafi gengi sameinaðra félaga hækkað við það að skipta hlutabréfasjóði á milli tveggja banka. Björgólfur kom fram á sviðið og varð stjórnarformaður Straums - Burðaráss. Annað dæmi er FL Group þar sem styrk staða Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs í hluthafahópnum mótar væntingar annarra fjárfesta um hvers sé að vænta af félaginu á næstu árum. Miklar hækkanir voru á gengi FL Group frá miðjum nóvember, er nýtt hlutafé var selt fyrir 44 milljarða, fram til áramóta. Jónas segir að Greining Íslandsbanka muni seinna í vikunni birta spá um afkomu helstu félaganna í Kauphöllinni. Einnig mun deildin á sama tíma birta spá sína um þróun hlutabréfaverðs á árinu. Allar forsendur eru fyrir því að árið verði líkt og hið síðasta viðburðaríkt á innlendum hlutabréfamarkaði. Af hækkunum á bréfum í fjármálastofnunum má dæma að fjárfestar hafi trú á að endurskipulagning bankakerfisins heima fyrir og breytt eignarhald geti hækkað verðmæti þeirra meira. FÉLÖGUM FÆKKAR Jónas segist vera viss um að fækkunarhrinu félaga úr Kauphöll Íslands sé ekki lokið. Hann spáir því að félögum, sem eru undir 10-15 milljarðar að markaðsvirði, muni fækka á markaði á árinu en eitt og eitt stórt félag komi í þeirra stað. „Það er ekkert slæmt að félögum fækki í Kauphöllinni. Þegar maður horfir á fjölda viðskipta og veltuna þá eru það bara þessi stóru sem standa á bak við megnið af viðskiptunum. Það væri best að vera með 10-15 félög með mikla veltu og virka verðmyndun.“ Gríðarleg spurn var eftir hlutafé í nýju félögunum, Avion Group og Mosaic Fashions, í útboðum sem fram fóru á síðasta ári og þarna var um áhugaverð félög að ræða sem starfa í geirum sem ekki voru fyrir í Kauphöllinni. LANDSBANKINN HÆKKAÐI MEST Í KAUPHÖLL Landsbankinn hækkaði mest allra félaga í Kauphöll Íslands árið 2005, um 112 prósent. Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs, Halldór J. Kristjánsson bankastjóri, Kjartan Gunnarsson bankaráðsmaður og Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri hafa ástæðu til að fagna góðum árangri bankans á síðasta ári. Fjórföldun á þremur árum Úrvalsvísitalan hækkaði um 65 prósent í fyrra, sem var langt umfram væntingar. Bankarnir eru komnir yfir eina billjón að markaðsvirði, sem er meira en landsframleiðslan. Trú fjárfesta á ofurfjárfesta er rík á markaði og bjartsýni ríkjandi á framhaldið. Eggert Þór Aðalsteinsson fer yfir besta hlutabréfaár Íslandssögunnar.

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.