Fréttablaðið - 04.01.2006, Page 46

Fréttablaðið - 04.01.2006, Page 46
MARKAÐURINN Í nýlegu riti Harvard Business School er fjallað um Kauphöll Íslands; hvaðan hún kemur og hvert hún stefnir. Hafliði Helgason kynnti sér greinina. Kauphöll Íslands hefur átt góðu gengi að fagna undanfarin ár. Þrátt fyrir fækkun félaga í Kauphöllinni hefur verðmæti félaga sem þar eru skráð vaxið og umfang viðskiptanna aukist verulega. Gengi félaga hefur verið gott og á síðasta ári bættust í hóp skráðra félaga fyrirtæki sem eiga rætur sínar í öðrum löndum. Ekki hefur farið hjá því að hækkanir á gengi félaga og velgengni Kauphallar Íslands hafi dregið að sér athygli að utan. Gregory S. Miller, prófessor í reikningsskilum við Harvard Business School, er einn þeirra sem beint hafa sjónum sínum að uppbyggingu Kauphallar Íslands og skrifaði grein um hana í rit skólans. Þar beinir hann sjónum sínum að vexti efnahagslífsins og árangri og framtíðarsýn Kauphallarinnar og þeirra félaga sem þar eru skráð. Miller rekur aðdraganda þess að íslenskt efnahagslíf og fyrirtæki Kauphallarinnar blómstr- uðu síðustu ár. Hann segir bankana auðvitað hafa notið vaxtar íslensks efnahagslífs í ríkum mæli. Markaðshlutdeild þeirra í Kauphöllinni endurspegli mikilvægi þeirra fyrir markaðinn, enda nemi hlutdeild fjármálafyrirtækja í vísitölunni 65 prósent. Bankarnir mynda vissulega kjölfestu á markaðnum, en Miller nefnir einnig lífeyrissjóðakerfið sem ástæðu velgengni Íslendinga. Við þetta bætist svo ung þjóð þar sem saman fer frumkvöðlahugslun og opnun efnahagskerfisins sem getið hafi af sér hóp ungs fólks sem hafi náð árangri í viðskiptum. Niðurstaðan sé öflug eining sem vinni skilvirkt og af miklu afli. Miller rekur einnig hvernig Kauphöllin hefur leitast við að kynna starfsemi sína á erlendum vettvangi. Það starf hefur miðað að tvennu. Annars vegar að því að laða erlenda fjárfesta að verðbréfum sem skipta um hendur í Kauphöllinni. Hins vegar að fá erlend fyrirtæki til að skrá hlutabréf sín í Kauphöll Íslands. Til þess að ná þessum markmiðum hefur Kauphöllin stigið nokkur skref. Miller rekur dæmi um það sem gert hefur verið en beinir síðan sjónum að framtíðarmöguleikum Kauphallarinnar. Erlendir fjárfestar eru nú þegar í þó nokkrum mæli kaupendur að skuldabréfum skráðum í Kauphöllinni. Á síðasta ári voru tvö erlend félög skráð í Kauphöllinni, færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum og Mosaic Fashions. Miller rekur dæmi um mögulegar leiðir fyrir Kauphöllina til að skapa sér sérstöðu sem alþjóðleg kauphöll þar sem lögð er rækt við afmörkuð svið. Hægt sé að herja á tiltekin landsvæði og markaðssetja Kauphöllina með þeim hætti. Önnur leið væri að gaumgæfa vel reglur markaðarins og skapa nýmarkað með tiltölulega litlum fyrirtækjum sem væru í örum vexti. Þar þyrfti að feta einstigi milli einfaldleika og ódýrrar skráningar og þess að regluverkið væri sjálfu sér samkvæmt og jafnræðis- og sanngirniskröfur uppfylltar. Miller bendir einnig á þann möguleika að beina kröftunum að afmörkuðum atvinnugreinum. Með því að ná saman á markað fjölda fyrirtækja í svipaðri starfsemi væri hægt að ná athygli erlendra fjárfesta sem væru sérhæfðir. Á slíkum markaði yrði til sérþekking á greinum sem nýtast myndi stoðþjónustu við þær. Þessar hugmyndir eru gamalkunnar Kauphöll Íslands, en áhugi var lengi á því að Kauphöllin myndi sérhæfa sig í skráningu sjávarútvegsfyrirtækja. Ytri aðstæður hafa gert slíkt lítt fýsilegt nú um stundir, hvað sem síðar verður. Fleiri möguleika nefnir Miller. Meðal þeirra er að Kauphöllin sérhæfi sig í að laða að fyrirtæki frá smærri efnahagskerfum þar sem verðbréfamarkað skortir. Færeyjar eru ágætt dæmi, en Miller segir að þótt hvert og eitt land skili fáum fyrirtækjum gæti Kauphöllin orðið alþjóðleg miðstöð fyrir fyrirtæki smárra landa og skapað sér sérstöðu með því. Enn einn möguleikinn er að sérhæfa Kauphöllina með þeim hætti að bjóða upp á annars konar verðbréf, til dæmis með því að bjóða upp á skortsölu verðbréfa og afleiður ýmis konar. Slíkt myndi að mati Millers skapa möguleika fyrir lánastarfsemi, auk þess sem þeir fjárfestar sem löðuðust að markaðnum vegna þessa myndu einnig kynnast og nýta sér önnur skráð verðbréf í Kauphöllinni. Í Kauphöllinni er ýmsum framtíðarmöguleikum velt upp og mikið kynningarstarf unnið. Framtíðin mun leiða í ljós hvaða leið verður valin, en grein prófessorsins í Harvard Business School er lóð á þá vogarskál að kynna Kauphöll Íslands erlendis og þá líklega einnig til marks um vaxandi áhuga á íslensku efnahagslífi og skráðum fyrirtækjum í örum vexti. M Á L I Ð E R Framtíðin í Kauphöllinni 4. JANÚAR 2006 MIÐVIKUDAGUR22 F Y R S T O G S Í Ð A S T Athyglin á Kauphöllinni í Harvard Business School Hvað er Kauphöll? Kauphöll er vettvangur fyrir viðskipti með verðbréf, markaður þar sem verðbréf, hlutabréf og skuldabréf eru skráð og viðskipti með þau fara fram. Viðskiptin eru gerð í öflugu rafrænu kerfi, kaup- og sölutilboð parast sjáfkrafa. Jafnframt veitir kerfið margvíslegar upplýsingar um verð, vísitölur o. fl., auk þess sem það tengist fjölmörgum innlendum og erlendum upplýsingaveitum. Margt fleira þarf þó til að reka heilbrigðan markað, meðal annars greiða og örugga upplýsingagjöf og skilvirkt eftirlit. Hver er tilgangur kauphalla? Tilgangur kauphalla er að stuðla að hagkvæmri ráðstöfun fjármagns með því að miðla fjármagni milli fjárfesta og útgefenda (félaga, fyrirtækja). Annars vegar geta útgefendur sótt áhættufé á skipulegan markað og hins vegar geta fjárfestar lagt fé í verkefni sem þeir hafa trú á með hagnað að markmiði. Fjármagnið leitar því þangað sem það nýtist best sem síðan styður við hagvöxt og skilar sér í betri lífskjörum almennt. Hvernig hefur gengið að byggja upp Kauphöllina á svo litlum markaði? Það hefur gengið afskaplega vel að byggja upp Kauphöllina. Þótt hún sé ekki nema rétt liðlega tuttugu ára hefur hún náð miklum styrk. Til marks um það er að mikið þróunarstarf hefur skilað skilað sér í öflugri tæknilegri umgjörð og mikilli veltu. Samanburður við aðrar kauphallir sýnir einna best hversu vel hefur gengið hér á landi. Hvernig stendur Kauphöll Íslands í samanburði við kauphallir nágrannaríkja? Helstu mælikvarðar sýna að Kauphöllin stendur vel í samanburði við aðrar kauphallir. Þannig er hún til að mynda stærsta kauphöllin í heimi þegar tillit er tekið til stærðar hagkerfisins. Markaðsvirði skráðra félaga samsvarar um 180% af landsframleiðslu. Þetta hlutfall er um helmingi lægra í Danmörku og Noregi, um 110% í Svíþjóð og 140% í Bandaríkjunum. Aðrir mælikvarðar, svo sem seljanleiki, verðbil o. fl., sýna einnig vel viðunandi stöðu. Hver er sérstaða Kauphallar Íslands? Tvennt vildi ég helst nefna í þessu sambandi. Annars vegar hefur Kauphöllin enn þá fáa fjaraðila og fyrir vikið tiltölulega litla beina þátttöku útlendinga í hlutabréfamarkaðnum. Þessu er reyndar öðruvísi farið á skuldabréfamarkaði. Hins vegar er ákvörðunartakan hröð og því er hægt að veita hér betri þjónustu en víðast hvar. Hverjar eru helstu hætturnar í Kauphöll Íslands í fyrirsjáanlegri framtíð? Það blasir við aukin aukin samkeppni við aðrar kauphallir, bæði vegna breyt- inga á umhverfi fjármálamarkaða (EES) og eflingar skráðra félaga. Stærstu félögin geta auðveldlega skráð sig á aðra markaði. Við munum því búa í hörðu samkeppnis- umhverfi innan skamms þar sem árangurinn fer einfaldlega eftir því hvernig við stöndum okkur. En þannig á það líka að vera. Hver eru helstu tækifærin fyrir Kauphöllina? Tækifærin eru vissulega mörg en ég held þó að mestu máli skipti að varðveita sveigjanlegt og viðbragðsskjótt umhverfi á fjarmálamarkaði, umhverfi sem byggir á praktískum og skilvirkum lausnum. Í slíku umhverfi getur Kauphöllin náð miklum árangri einfaldlega með því að veita góða en hraða þjónustu. Reynslan sýnir að markaðurinn hér er mjög skilvirkur við að afla fjár fyrir útgefendur og félög fá mikla athygli. Ég held að þetta geti nýst til að laða að erlend félög, einkum lítil og millistór. Hver eru brýnustu verkefnin fyrir íslenska markaðinn? Umhverfi fjármálaþjónustu er í stöðugri mótun. Við þurfum að sjálfsögðu að sjá til þess að við séum við jafnan í fremstu röð í þeim efnum. Af einstökum verkefnum er mér ofarlega í huga að laða að fleiri erlenda fjárfesta og fá fleiri erlend félög til að skrá sig í Kauphöllina. Jafnframt tel ég brýnt að stofna hér afleiðumarkað og lánamarkað fyrir verðbréf. Brýnt að laða að erlenda fjárfesta T Ö L V U P Ó S T U R I N N Til Þórðar Friðjónssonar Forstjóra Kauphallar Íslands

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.