Fréttablaðið - 25.02.2006, Page 50
25. febrúar 2006 LAUGARDAGUR34
Það má segja að Hið íslenska vitafélag hafi orðið til í finnskum skógi á vordögum
ársins 2003,“ segir Sigurbjörg
Árnadóttir, leiðsögumaður og for-
maður Hins íslenska vitafélags.
„Þar var ég stödd ásamt góðvini
mínum, Stein Malkenes, sem er
formaður norska Vitafélagsins,
en við vorum að vinna saman að
Evrópusambandsverkefni. Stein
var líka að skipuleggja ráðstefnu
og leitaði til mín til að finna
Íslendinga til að taka þátt í henni.
Ráðstefnunni var hins vegar sleg-
ið á frest og þá hugsaði ég með
mér: „Fjandinn hafi það, nú stofna
ég íslenskt vitafélag.“
Það eru til fjölmörg vitafélög
um allan heim en Sigurbjörg segir
það íslenska hafa þá sérstöðu að
það einblínir ekki aðeins á vitana
sjálfa, heldur strandmenningu í
heild sinni. „Það hefur lengi farið
í taugarnar á mér hversu lítið við
höfum hlúð að þessari arfleifð
okkar við ströndina. Ég fæ það
stundum á tilfinninguna að þetta
sé ein af birtingarmyndum hinnar
íslensku minnimáttarkenndar. Ég
held að sú menningararfleifð sem
við eigum við ströndina minni
okkur á hokur og lágstéttarmenn-
ingu fyrri alda. Við eigum því til
að horfa frá ströndinni til fjalla og
beina augum okkar að einhverju
sem við þurfum ekki að svara
fyrir.“
Vitar í endurnýjun lífdaga
Sigurbjörg telur að í þessum
efnum ættu Íslendingar taka
Noreg sér til fyrirmyndar. „Þeir
eru langfremstir í varðveislu og
stefnumörkun á strandmenningu
sinni. Flestir vitar landsins eru í
eigu ríkisins, sem og jörðin í
kringum þá. Þeir vitar sem ekki
eru nýttir eru ekki látnir drabbast
niður. Stjórnvöld hafa friðað um
80 vita og leiga marga eða lána til
starfsemi sem almenningur hefur
aðgang að; víða um Noreg má því
finna vita sem hafa verið gerðir
upp og gengið í endurnýjun líf-
daga sem kaffihús, gististaðir eða
menningar- og listasetur. Á Íslandi
eru um 120 vitar, sem áður voru í
eigu ríkisins en það gerði þau mis-
tök að selja flestar jarðirnar hæst-
bjóðanda, ég held að ekki séu
nema fjórar eftir í ríkiseigu. Það
hefur spillt fyrir möguleikunum á
að fólk geti haft opið aðgengi að
þeim og byggt þjónustu sína í
kringum þá.“
Á mörkum lífs og dauða
Vitar njóta sívaxandi vinsælda
sem gististaðir í Noregi, sérstak-
lega í vesturhluta landsins, sem
og gömul síldarhús sem gerð hafa
verið upp. Sigurbjörg telur skýr-
inguna vera að þessir staðir bjóði
upp á sérstaka upplifun og návist
við náttúruna. „Þeir standa yfir-
leitt á svo dramatískum og hrika-
legum stöðum og í mínum huga
eru þeir alltaf á mörkum einhvers,
til dæmis lands og sjávar, ljóss og
birtu eða lífs og dauða. Þeir eru
merkilegt tæki sem fjarstýrir
vegfarendum og forðar þeim frá
háska, en þeim sem hætta sér of
nærri er voðinn vís. Það umlykur
þá einhver þversagnakenndur
kraftur sem ég held að fari ekki
framhjá neinum sem dvelur þar
um stund. Það sem við í vitafélag-
inu viljum gera er að vekja fólk til
umhugsunar um hvað við eigum
mikil auðæfi bundin við ströndina
og hafið, og vitarnir eru hinar
sýnilegu vörður þeirrar menning-
ar.“
Vantar heildstæða stefnu
Þótt Hið íslenska vitafélag sé ungt
að árum segir Sigurbjörg það hafa
náð nokkrum árangri. „Húsafrið-
unarnefnd tók vel í erindi okkar
og hefur látið friða sjö vita. Þá
fengum við styrk til að vinna svo-
kallaða forverkefnisskýrslu þar
sem við lögðum til hugmyndir um
hvernig hægt er að nýta þessa
arfleifð, bæði til nýsköpunar og
atvinnuuppbyggingar um allt
land. Þar nutum við aðstoðar
Steins Malkenes, sem hefur mikla
reynslu auk þess sem gests augað
er glöggt, en við teljum að það
liggi ófá tækifæri á þessu sviði.“
Sigurbjörg segir hins vegar að
það vanti tilfinnanlega heildstæða
stefnumörkun af hálfu ríkisins,
bæði hvað strandmenningu snert-
ir og almenna ferðaþjónustu. En
sem betur fer eru líka menn í
einkageiranum sem eru að vakna
til vitundar um tækifærin, til
dæmis við Gróttuvita.“
Þá hefur jörðin og húsakynnin
við Galtarvita verið gerð upp,
bæði fyrir gangandi ferðamenn
og listamenn, en hljómsveitin
Múm hefur meðal annars hljóðrit-
að plötu þar. ■
Vitinn er vörður
strandmenningarinnar
Vitar eru ær og kýr Sigurbjargar Árnadóttur leiðsögumanns sem undir-
býr samnorrænna ráðstefnu um strandmenningu sem haldin verður hér á
landi í maí. Bergsteinn Sigurðsson ræddi við Sigurbjörgu um leiðarljósin á
ströndunum.
STABBEN Í Sunnefjörd í vesturhluta Noregs stendur vitinn Stabben umlukinn sjó á allar hliðar. Þennan vita er hægt að leigja til gistingar, en bærinn Flora er stutt undan. MYND/ BS
VITINN Í KRÅKENES Vitinn í Kråkenes stendur á stórum veðurbörnum hamri sem brimið
gengur yfir þegar verst lætur. MYND/ BS
SIGURBJÖRG ÁRNADÓTTIR OG STEIN MALKENES Stein er formaður norska vitafélagsins og Sigurbjörg er formaður Hins íslenska vitafélags.
MYND/ BS
GALTARVITI Hljómsveitin Múm tók meðal annars upp plötu hér um árið. MYND/BRYNJAR