Fréttablaðið - 09.09.2006, Síða 70
9. september 2006 LAUGARDAGUR34
Einn helsti sjarminn við Lissa-bon er hversu gömul byggðin er. Hér er varla nútímalega
byggingu að sjá og um göturnar
þeysast ævafornir sporvagnar.
Eins er mannmergðinni og
bílatraffíkinni ekki fyrir að fara
og því getur maður rölt rólega og
gefið sér tíma í að njóta umhverf-
isins.
Ferðamenn eru líka furðu fáir
og því getur maður átt von á því
að hafa turn eða jafnvel kirkju út
af fyrir sig, sem er nokkuð
óvenjulegt hafandi í huga að
Lissabon er borg með merka sögu
og ferðaiðnaðurinn í Portúgal
blómlegur.
Forvitnin látin stjórna
Almenningssamgöngur eru með
besta móti í Lissabon og því lítið
mál að komast milli staða. Skemmti-
legast er náttúrulega að ferðast
með sporvagni og er ferð með
vagni númer 28 eitt af skylduverk-
efnum ferðamanna. Vagninn geng-
ur milli hverfanna Bairro Alto og
Alfama, sem standa hvort á sinni
hæðinni við Tagus ána. En það er í
þessum hverfum sem sjarmi borg-
arinnar liggur miklu frekar en á
sléttunni á milli þeirra sem kallast
Baixa. En Baixa hverfið var endur-
byggt eftir jarðskjálftana 1755 og
skipulagt líkt og í erlendum stór-
borgum með breiðgötum og torg-
um, en þannig er það ekki í Alfama
og Bairro Alto. Því þegar þangað
er komið er eina vitið fyrir ferða-
menn að stinga kortinu í vasann og
láta forvitnina leiða sig áfram um
þröngar göturnar og virða fyrir
sér þessa óskipulögðu húsabyggð
og mannlífið á götunum. Varast ber
þó að ganga meðfram veggjum
enda hangir blautur þvottur út um
annan hvern glugga á þessum slóð-
um og dropar því oft hressilega
niður á vegfarendur. Í Bairro Alto
og Alfama er líka heimavöllur
hinnar harmþrungnu Fadó tónlist-
ar sem Portúgalar dýrka og þeir
sem vilja kynna sér hana geta rölt
á milli klúbba óhræddir um að
kaupa köttinn í sekknum. Enda er
Fadó tónlistin sem trúarbrögð í
landinu og litlar líkur á að boðið sé
upp á falskan söngvara eða takt-
lausan gítarleikara.
Sætabrauð og skemmtanir
Í Bairro Alto halda skemmtana-
glaðir heimamenn sig til. Ógrynni
lítilla bara og veitingastaða er að
finna út um allt, ásamt litlum versl-
unum sem margar hverjar eru
opnar fram undir miðnætti. Enda
er enginn að drífa sig í háttinn sem
á annað borð er mættur í hverfið og
mannfjöldinn á götunum mikill
eftir að kvölda tekur. Flestir með
glas í hendi, enda ekkert tiltökumál
þótt fólk kjósi að fara með drykk-
ina út á götu í stað þess að sitja við
barinn. Þeir ferðamenn sem ekki
eru lafmóðir eftir göngur dagsins
geta því slegist í hópinn og látið
gamminn geisa hér framundir
morgun.
Á rölti um Lissabon virðist leið-
in alltaf liggja framhjá kaffihúsi
sem býður upp á ógrynni af alls
kyns sætabrauði. Hér standa
heimamenn við barborðið og borða
á meðan ferðamenn sitja í sætun-
um. Enda ódýrara að súpa kaffi og
maula brauðið standandi. Café a
Brasileira er þekktasta og flottasta
kaffihús borgarinnar en ekki endi-
lega það besta.
Það er þó vel þess virði að kíkja
við og jafnvel virða fyrir sér fínu
verslanirnar í nágrenninu.
Gamli gróðinn
Belém hverfið liggur nokkra kíló-
metra frá miðbænum og það er
helst hér sem maður verður var
við ferðamannastraum. Hér er auð-
veldlega hægt að eyða degi í að
rölta milli safna, njóta blíðunnar í
görðunum og á torgum og skoða
íburðarmiklar byggingar frá þeirri
tíð er Portúgalar voru eitt öflug-
asta nýlenduveldi heims.
Þótt íbúar Lissabon telji rétt
rúmlega milljón manns og borgin
sé ekki ýkja stór er auðveldlega
hægt að eyða nokkrum dögum í
borginni enda nóg við að vera.
Það er líka kjörið að fara að huga
að ferð til borgarinnar áður en allir
hinir ferðamennirnir uppgötva
hana. Því eflaust styttist í að langar
biðraðir fari að myndast við helstu
staði borgarinnar og verðið hækki.
Lissabon er í stuði akkúrat núna.
EITT OG ANNAÐ UM LISSABON
Bairro Alto hótelið
Þetta litla hótel var valið eitt af bestu nýju
hótelum heims árið 2005 af ferðatímaritinu
Conde Nast Traveller. Hér gista þeir sem eiga
aðeins meiri pening. Hinir geta kíkt á barinn
á efstu hæð og notið útsýnisins. Hótelið er
staðsett við lítið torg í Bairro Alto hverfinu. Á
hótelinu er allt það sem lúxus hótel þarf að
hafa og því ætti ekki að væsa um mannskap-
inn hér.
Gulbenkian safnið
Listaverkasafnarinn og olíujöfurinn Calouste Gulbenkian var duglegur við að
sanka að sér listmunum en vildi aðeins kaupa það besta. Síðan arfleiddi hann
portúgölsku þjóðina að þessu öllu. Á safninu er að finna ótrúlegt úrval af
munum frá miðri síðustu öld og allt aftur til 1800 fyrir Krist.
Alcantracafé
Þeir verða nú vart sérstakari veit-
ingastaðirnir en Alcantracafé. Ekki er
það matseðillinn eða verðið sem fær
mann til að gapa heldur yfirgengi-
legar innréttingarnar. Staðurinn er í
gamalli vöruskemmu og lætur lítið
yfir sér en þegar inn er komið blasir
við einhvers konar teiknimyndaheimur
sem gaman er að kynnast. Maturinn
er fínn og verðið vel viðráðanlegt.
John Malkovich
Leikarinn frægi gegnir sama hlutverki í
túristabæklingum um Lissabon og Damon
Albarn gerir í bæklingum um Reykjavík.
John Malkovich hefur nefnilega líkt og
Damon keypt sér hluti í veitingastað og
skemmtistað og það fer ekki framhjá
nokkrum manni sem blaðar í gegnum
túristapésana. Skemmtistaðurinn Lux og
veitingastaðurinn Bica Do Sapato eru, eða
voru að minnsta kosti að hluta til í eigu
leikarans góðkunna. Og ef eitthvað er að
marka bæklingana þá kíkir hann stundum
við og býður Catherine Deneuve stundum
með sér.
Lissabon er oft líkt við San Francisco enda báðar borgir með eindæmum
hæðóttar og íbúarnir vanari því að ganga í halla en á jafnsléttu. En það eru
ekki bara brekkurnar sem hægja á göngu ferðamanna því borgin er falleg
og alltaf eitthvað sem kallar á athyglina. Fréttablaðið lét hvorki hallann né
steikjandi hitann slá sig út af laginu og tók stöðuna á borginni.
Bratta borgin