Fréttablaðið - 15.06.2008, Síða 20

Fréttablaðið - 15.06.2008, Síða 20
MENNING 4 Bláir skuggar – framvarðasveit íslenskrar djasstónlistar. Þann 23. júní 1988 setti Jón Múli Árnason, vafalaust helsti djass- geggjari þjóðarinnar fyrr og síðar, fyrstu Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi, en hátíðin hefur síðan þá náð að marka sér ótvíræða sérstöðu í íslensku tónlistarlífi sem bæði framsækin og skemmtileg. Í gegnum árin hafa margir merkir tónlistarmenn komið fram á hátíðinni og haldið eftirminnilega tónleikar, þeirra á meðal eru James Carter, Svend Asumssen, Peter Gullin og Paul Weeden. Hátíðin í ár verður að venju glæsileg; tónlistar- fólk á heimsmælikvarða mætir galvaskt til leiks og framreiðir listilega tóna fyrir áhorfendur. Jón Hilmar Kárason, fram- kvæmdarstjóri herlegheitanna, segir upphaf hátíðarinnar heldur látlaust. „Upphafsmaður og aðalskipuleggjandi hátíðarinnar framan af var Árni Ísleifsson. Hugmyndin kviknaði víst þegar Árni var á göngu með vini sínum einhvern fagran dag; vinurinn hafði orð á því hversu fallegt umhverfið er hér umhverfis Egilsstaði og hversu gaman væri að komast á djasstónleika hér. Árni tók hann á orðinu og ári síðar fór fram fyrsta Jazzhátíð Egilsstaða. Hátíðin hefur farið fram á hverju ári síðan og er því sú elsta á landinu. Ég tók við framkvæmdastjórninni árið 1996 af Árna og hef því fengið að taka þátt í eflingu verkefnisins síðan þá. Hátíðin hefur vaxið talsvert hin síðari ár og laðar að sér gesti frá landinu öllu og víðar að.“ Áhuginn fyrir hátíðinni meðal listamanna víðsvegar að úr heiminum hefur jafnframt vaxið mikið undanfarin ár og er nú svo komið að Jón segir umsóknir um þátttöku berast nær daglega frá tónlistarmönnum í öllum heims- hornum. Það er því ærið starf að velja úr hvaða listafólk hentar hátíðinni hverju sinni. Framboðið í ár er sannarlega ekki af lakara taginu. Gítarsnilling- urinn Larry Carlton og hljómsveit hans kemur frá Bandaríkjunum og fremur sinn galdur fyrir hátíðar- gesti. Larry Carlton þessi hefur unnið með ekki ómerkari lista- mönnum en Sammy Davis Jr., Herb Alpert, Quincy Jones, Paul Anka, Donald Fagen, Michael Jackson, John Lennon, Jerry Garcia, Dolly Parton, Joni Mitchell og svo mætti lengi telja. Þekktastur er hann þó líklega fyrir leik sinn með hljóm- sveitinni Steely Dan, en hann var lykilmaður á nokkrum af þeirra bestu plötum. Sem dæmi um afrek hans má nefna að sóló hans í laginu Kid Charlemagne með Steely Dan er talið vera þriðja besta gítarsóló allra tíma af ekki ómerkari spámönnum en blaðamönnum tímaritsins Rolling Stone. Hljómsveitin Bláir skuggar kemur einnig fram, en hún er skipuð nokkrum af helstu tónlistar- mönnum þjóðarinnar, þeim Sigurði Flosasyni, Pétri Östlund, Jóni Páli Bjarnasyni og Þóri Baldurssyni. Þeir leika blúsættaða djasstónlist og halda uppi ógurlegu stuði á tónleikum sínum með hammond- orgeltónum og spilagleði. Frændur okkar í Noregi láta ekki sitt eftir liggja heldur leggja hátíðinni til hljómsveitina Beady Belle. Hljómsveitin sú leikur fjörugan bræðing ólíkra tónlistar- tegunda og hefur unnið sér það til frægðar að leika með söngvaranum vinsæla Jamie Cullum. Hljómsveit- in gaf nýverið út sína fjórðu plötu sem hefur hvarvetna verið vel tekið. Ekki má gleyma að minnast á heimaræktuðu hljómsveitina Bloodgroup. Þó svo að tónlist hennar falli seint undir djassskil- greininguna eru fáar sveitir sem standast henni snúning þegar kemur að því að skapa stemningu á tónleikum. Að auki á hljómsveitin rætur sínar að rekja til Egilsstaða og er því vel að þátttökunni komin. „Við reyndum eftir fremsta megni að hafa dagskrána í ár metnaðarfulla, en jafnframt skemmtilega og aðgengilega, þannig að sem flestir finni á henni eitthvað við sitt hæfi,“ segir Jón aðspurður um hátíðina í ár. „Íslensku flytjendurnir eru náttúrulega framúrskarandi og það verður klárlega upplifun að sjá Larry Carlton spila, enda er hann lifandi goðsögn í gítarheiminum. Hann kemur aðallega til með að leika þá tónlist sem hann er þekktastur fyrir, en það er rokk, blús og djass í dásamlegum hrærigraut. Hljómsveitin Beady Belle er ekki síður frábær á tónleikum; ég sá þau koma fram á djasshátíð í Noregi fyrir nokkrum árum og hef verið að reyna að fá þau hingað síðan. Nú hefur það loksins gengið upp og ég er afar spenntur fyrir tónleikum þeirra.“ Jazzhátíðin á Egilsstöðum er orðinn rótgróinn hluti af menningar- lífi Austurlands. Jón segir enda tónlistarlífið afar blómlegt á svæðinu. „Það er mikil tónlist í fólki hér um slóðir og hefur alltaf verið. Ég veit svosem ekki hvers vegna það er, en hef grun um að það sé kannski vegna þess að firðirnir hér voru lengi heldur einangraðir. Fólk þurfti einfaldlega að bjarga sér sjálft um skemmtun og þá var betra að kunna að spila og geta þannig haft ofan af fyrir sér og öðrum. Þetta er hálfgerð sjálfbjargarviðleitni.“ Miðasala á Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi er þegar hafin. Miða má nálgast á heimasíðu hátíðar- innar, www.jea.is, eða með því að senda fyrirspurn á jeajazzfest@ gmail.com Djassað á Austfjörðum í tuttugu ár Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi fór fram í fyrsta skipti árið 1988 og fagnar því tuttugu ára afmæli sínu í ár. Hátíðin fer fram dagana 25.-28. júní næstkomandi og verður þar mikið um dýrðir. TÓNLIST VIGDÍS ÞORMÓÐSDÓTTIR Beady Belle – spennandi djassbræðingshljómsveit frá Noregi. Larry Carlton – framúrskarandi tónlistar- maður sem gleður eyru hátíðargesta með gjörningum sínum. Með suð í eyrum við spilum enda- laust er fimmta plata Sigur Rósar og sú fyrsta síðan Takk kom út fyrir þremur árum. Hún var unnin á skömmum tíma miðað við síðustu plötur. Upptöku og vinnsluferlið tók um tvo mánuði samtals, en plat- an var hljóðrituð á fimm stöðum – Mosfellsbæ, Reykjavík, London, New York og Havana á Kúbu. Um upptökustjórn sá hljómsveitin sjálf ásamt Mark Ellis sem er betur þekktur sem Flood, en hann á að baki glæstan feril sem upptöku- stjóri, hefur m.a. unnið með Nick Cave, PJ Harvey, Depeche Mode, Nine Inch Nails og U2. Það hefur verið töluvert talað um það í aðdraganda útgáfu plötunnar að með henni stígi sveitin skref í átt til fjöldans, tónlistin sé auðmeltari og hefðbundnari heldur en á fyrri plöt- unum. Meira rokk sagði einhver. Þetta er að hluta til rétt. Tónlistin á Með suð í eyrum... er fjölbreyttari og á köflum auðmeltari heldur en á fyrri plötunum, en hafi einhver búist við því að þeir Sigur Rósar- menn væru á leið yfir í eitthvað U2/ Coldplay „stadium-rokk“ þá var það klárlega misskilningur. Það segir líka sitthvað um Sigur Rós að platan sem átti að höfða til fjöldans skuli fá nafnið Með suð í eyrum við spilum endalaust, ekki bara íslenskt nafn heldur langt íslenskt nafn með íslenskum bókstöfum og algerlega óframburðarhæft fyrir þorra mannkyns... Textarnir eru líka flestir á íslensku, einn þeirra er reyndar á vonlensku og annar á ensku. Í laginu All Alright syngur Jónsi í fyrsta sinn inn á plötu á ensku. Samt er Með suð í eyrum öðruvísi en fyrri plötur Sigur Rósar. Það er léttara yfir henni og inn á milli eru popplög eins og Inn í mér syngur vitleysingur, Við spilum endalaust, Góðan daginn og Ill- gresi. Platan er líka fjölbreytt. Það eru tvö stór epísk lög í stíl við fyrri verk sveitarinnar, Festival og Ára- bátur, en svo eru líka stutt popplög. Uppbyggingin og hljóðfæraskipan- in eru misjöfn. Jónsi syngur Ill- gresi við kassagítarundireik, en Árabátur er tekið upp með kór og sinfóníuhljómsveit (90 manns í hljóðverinu í einu). Fyrsta smá- skífulagið, Gobbledigook er svo alveg sér á báti, skrýtin smíð með flottum töktum, klappi og óvenju- legri raddsetningu. Á heildina litið er Með suð í eyrum við spilum endalaust fín plata sem ætti að falla í kramið hjá gömlu Sigur Rósar- aðdáendunum og vekja áhuga hjá einhverjum nýjum. Hún er ekki fullkomin svo sem, - mér finnst hún aðeins missa flugið í síðustu lögun- um, en mjög góð plata engu að síður og tímamótaplata fyrir Sigur Rós. Að mínu mati kláraði Sigur Rós Ágætis byrjun-pakkann með Takk og innsiglaði hann rækilega með Hvarf/Heim. Það var því ljóst að hún þyrfti að breyta til á næstu plötu. Á Með suð í eyrum... stígur hún skref í átt til nýrra hluta. Kannski minna skref heldur en ein- hverjir bjuggust við, en mikilvægt skref af því að það opnar ótal nýja möguleika fyrir hljómsveitina. Sigur Rós þreifar á einhverjum þessara möguleika á nýju plötunni og skilar um leið af sér fínni plötu. Plötu sem markar upphaf nýrra tíma fyrir eina af bestu hljómsveit- um Íslandssögunar. Trausti Júlíusson SIGUR RÓS Með suð í eyrum við spilum endalaust ★★★★ Tímamótaplata sem opnar nýja möguleika Með suð í eyrum við spilum endalaust er tímamótaplata fyrir Sigur Rós. Fjöl- breytt og flott plata. Í fyrsta skipti eru öll ástarljóð Páls Ólafssonar komin út í einni bók. Þórarinn Hjartarson tók ljóðin saman og rekur sögu Páls og Ragnhildar – eina frægustu ástarsögu á Íslandi. List Páls lifir enn á vörum þjóðarinnar, enda borin uppi af eldi hjartans og óvenju léttvængjuðu rími. Gjöf sem yljar og gleður.

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.