Tíminn - 19.12.1992, Síða 16
16 Tíminn
Laugardagur 19. desember 1992
Undarlegt
Það mun hafa þótt miklum tíðind-
um sæta þegar stafli bréfa Jóhanns
skálds Jónssonar til vinar síns séra
Friðriks A. Friðrikssonar fannst á
háalofti á Húsavík í vor. Jóhann er
goðsögn í íslenskri ljóðlistarsögu
aldarinnar, aðallega fyrir ljóðið
Söknuð, en minningu mannsins
hefur Halldór Laxness einkum hald-
ið á loft í snjöllum greinum. Svo vill
til að í fyrra birtu tveir bókmennta-
fræðingar, Ingi Bogi Bogason og Ey-
steinn Þorvaldsson, langar ritgerðir
um Jóhann í Skírni og vitnuðu þar í
allmargar áður ókunnar heimildir
um skáldið. Bréfafundurinn í vor
mátti verða metnaðarfullu forlagi
tilefni til að ráða annan hvorn þess-
ara fræðimanna til að semja ítarlega
sögu Jóhanns, byggða á öllum finn-
anlegum heimildum. En í þess stað
hefur Vaka-Helgafell valið þá auð-
veldu leið að gefa bréfin út í snar-
hasti, með stuttum formála og
handahófslegum skýringum. Bókin
með bréfunum, Undarlegt er líf mitt!
eins og hún heitir, er snoturt kver
ásýndum og prýdd ljósmyndum sem
saman hafa verið dregnar. Samt er
hætt við að bréfin ein sér gefi tak-
markaðar upplýsingar ef þau eru
ekki sett rækilega í samhengi, jafnt í
persónulegu lífi skáldsins sem al-
mennri bókmennta- og menningar-
sögu þess tíma sem hann lifði.
Að þessu sögðu er rétt að víkja að
bréfunum sjálfum. Þau eru skrifuð á
árunum 1912-25 og spegla æskuvin-
áttu tveggja manna. Þeir Jóhann og
Friðrik uxu báðir úr grasi vestur á
Ólafsvík og ræktu vináttu sína með
bréfaskriftum eftir að leiðir skildi og
hvor fór sína leið í námi og starfi.
Ingi Bogi Bogason gerir stutta grein
fyrir ferli Jóhanns í formála sem
hann kallar Leitin endalausa, en Sig-
urjón Jóhannesson skrifar greinar-
góða og fallega grein um viötakand-
ann, séra Friðrik, sem lengst af var
prestur á Húsavík og er látinn fyrir
rúmum áratug.
Jóhann Jónsson er eitt þeirra
skammlífu skálda sem verða eins
konar óskabörn bókmenntasögunn-
ar. Hann komst raunar aldrei á skrið
við skáldskapinn, virðist hafa verið
fremur skáld augnabliksgeðhrifa en
harðrar ástundunar, og aldrei gaf
hann út ljóðabók í lifanda lífi. Tutt-
ugu árum eftir dauða hans, 1952,
safnaði Halldór Laxness saman því
sem hann samdi í litla bók, Kvæði og
ritgerðir; hún var endurútgefin hjá
Menningarsjóði fyrir fáum árum,
aukin einu kvæði aðeins, og heitir
nú Ljóð og ritgerðir. Það kemur hins
vegar fram í fyrrnefndum greinum í
Skími að fleira er til af skáldskap Jó-
hanns í handritum, svo að heildarút-
gáfa verka hans bíður ennþá. í bréf-
unum er að finna nokkur Ijóð og
sum þeirra hafa ekki verið prentuð
fyrr.
Jóhann er framan af óráðinn, ung-
ur maður eins og gengur. Hann er á
ýmsum stöðum eftir að hann yfirgef-
ur Ólafsvík: í Hafnarfirði, Reykjavík,
BÆKUR
\_________________________j
á Akureyri og víðar. Um bréf hans á
þessum árum er fátt að segja. Jó-
hann er rómantískur unglingur. í
fyrsta bréfinu segir: „Nú get ég sagt
þér þá gleðifrétt að við Kristinn Guð-
brandsson erum orðnir eiðsvarnir
vinir og vona ég til að við verðum
það héðan af. Við erum búnir að
stíga á stokk og strengja þess heit að
ferðast til útlanda í fornmannabún-
ingi og teljum víst að þú fylgist með.
Ég hefi ekki rúm hér til að skrifa þér
alla reglugjörð þeirrar farar og áætl-
un en tilgangurinn er að vinna fyrir
aðra; þjóðina okkar smáu og landið
fagra!"
Svona hugsa unglingar, en það
Jóhann Jónsson.
gengur misjafnlega að koma hug-
sjónamálunum niður á jörðina. Og
um Jóhann er það mála sannast að
lítið kom út úr hugmyndum hans.
Hann hafði ríka listræna hæfileika,
er alltaf að skrifa um sögur og ljóð
sem hann hafi í smíðum, en iauk
aldrei við. Hann var líka frábær upp-
lesari og hafa ýmsir lýst þeirri list
hans minniiega, t.d. Halldór Laxness
í Grikklandsárinu. Jóhann lauk stúd-
entsprófi 1920 og hélt árið eftir til
Þýskalands, bjó lengst af í Leipzig og
átti ekki afturkvæmt heim, lést
haustið 1932,36 ára gamall. Þá hafði
hann fyrir fáum árum birt sitt fræg-
asta ljóð í tímaritinu Vöku, Söknuð
— Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum
glatað? Þetta var andlátsljóð og brátt
lögðu berklarnir skáldið að velli.
A æskuárum Jóhanns er nýróman-
tíkin að ryðja sér til rúms á íslandi,
og hann kveður í hennar anda, við
getum litið á hann sem sporgöngu-
mann nafna síns Sigurjónssonar. Á
menntaskólaárunum í Reykjavík
1918 skrifar hann að nýtt skáld sé
komið fram á sjónarsviðið. „Hann
heitir Stefán Sigurðsson. Maður
merkilega líkur mér að útliti og halt-
ur í tilbót. [Berklarnir höfðu gert Jó-
hann haltan]. Hann gefur út ljóða-
bók í haust... Maðurinn er fluggáfað-
ur og lyriker af allra besta tagi. Enda
þroskaður maður.“ Jóhann tilfærir
kvæðið Skuggabjörg og segir: „Skáld
af fyrsta klassa eins og þú sér á
þessu!" Jóhann er greinilega af sama
skáldaskóla og Stefán frá Hvítadal.
Þessi frásögn gefur tilefni til að
víkja að skýringum við bréfin. Þær
eru af skornum skammti, skýrðar
útlendar slettur og sögð deili á örfá-
um mönnum, en um flesta, sem
nefndir eru, stendur ekki neitt. Svo
bregður þó við að útgefandi telur
ástæðu til að segja lesendum deili á
Stefáni frá Hvítadal og Knut Hams-
un öðrum fremur! Ekki veit ég hvers
konar þekkingarstigi er gert ráð fyr-
ir hjá væntanlegum lesendum, ef
þarf að upplýsa þá um annað eins og
þetta.
Árið 1921 verða þáttaskil í ævi Jó-
hanns, hann fer til Þýskalands. Og
þar kemur það glöggt í ljós hve ráð-
villtur hann er. Hann kynnist nú
menningarheimi Mið-Evrópu, og
finnst íslensk menning og bók-
menntir hin mesta sveitamennska;
við erum ekkert annað en epigónar,
eftirhermur, segir hann, og kveður
óspart upp sleggjudóma um íslensku
þjóðskáldin, — talar auk þess um
samtímaskáld á þann hátt sem vart
er prenthæft. Sjálfúr kemst hann
ekkert áleiðis. Hann stundar nám í
germönskum fræðum (reyndar var
ekki við eftirgrennslan að sjá að
hann hefði nokkru sinni innritað sig
í háskólann í Leipzig) — og hann á
vart málungi matar. Kona hans yfir-
gefur hann, hann dregur fram lífið
með því að þýða íslenskar bók-
menntir á þýsku, m.a. sögur Gunn-
ars Gunnarssonar úr dönsku. Frá
Bad Grund í Harz-fjöllum skrifar
hann vini sínum iengsta bréfið 1923,
tekur það rúmar 30 síður í bókinni.
Þar lýsir hann vel mörgu sem fyrir
augu hefur borið, m.a. Weimar, borg
Goethes. Og þarna segir hann: „Ég
hef lært afar margt hérna í Þýska-
landi. Einkanlega hefur kúnstnarinn
í mér fengið margar alvarlegar lex-
íur. — Já, það er mörg eldraunin
sem við íslendingar megum gegnum
ganga meðan við erum að samlagast
stórmenningunni hérna úti. Yfirleitt
er það að mörgu leyti sorglegt að
vera íslendingur. Það er í raun og
veru sama og að vera utanveltu be-
sefi meðal þjóðanna, engri þjóð til-
heyrandi, því að eins og sakir standa
nú eru íslendingar engin þjóð. Það
hef ég séð best síðan ég kom hingað
og það hef ég reynt best á sjálfum
mér. Því að ég hef gert þá uppgötvun
að í mér er harla lítil þjóðleg festa og
það munu fleiri landar en ég geta
sannfærst um, sjálfum sér viðvíkj-
andi, séu þeir nægilega skaip-
skyggnir til þess.“ Síðan segir að ís-
lendingar eigi engar tradisjónir og
málið sé eins og nýlenda prímitífs
fólks.
Nú láta menn ýmislegt fjúka í einka-
bréfum sem ekki er alvarlega hugsað.
En ég hygg að þessi orð spegli raun-
verulegan lífsvanda Jóhanns Jóns-
sonar. Hann flosnaði upp í menning-
arlegu tilliti, slitnaði úr tengslum við
samtímalíf á íslandi, án þess að geta
fótað sig í menningu Mið-Evrópu.
Það er talað um áhrif þýsks express-
jónisma á skáldskap hans, en þau
áhrif ná ekki djúpt, — hann varð
vegvilltur, framandi maður í sínu eig-
in lífi, eins og segir í Söknuði. En í
því ljóði og öðrum bestu ljóðum sín-
um náði hann þó að túlka hið móder-
níska einkenni, rótleysið, með list-
rænum hætti svo að lengi mun
standa. Ævi þessa skammlífa skálds
er á ýmsan hátt raunasaga. Samt
leiddi hann líf sitt til þess sigurs, að
nú, réttum sextíu árum eftir dauða
hans, eru vinarbréf skáldsins lögð á
borð jólabókanna, sögulegt og mann-
legt plagg sem vissulega er skoðunar
virði. Gunnar Stefánsson
er lí f mitt!
Ferill Asgeirs As-
geirssonar forseta
Gylfi Gröndal: Ásgeir Ásgeirsson.
Ævisaga.
Forlagið 1992.
470 bls.
Á árabilinu 1930-1950 var Ásgeir
Ásgeirsson tvímælalaust í hópi
þekktustu, áhrifamestu og oft um-
deiidustu stjórnmálamanna þessa
lands. Ferill hans var einkar
glæsilegur. Að loknu námi í guð-
fræðideild Háskóla íslands stund-
aði hann um skeið framhaldsnám
í Danmörku og Svíþjóð, var kjör-
inn þingmaður Framsóknar-
flokksins í Vestur-ísafjarðarsýslu
árið 1923 og sat á þingi fyrir það
kjördæmi allt til þess er hann var
kjörinn forseti íslands árið 1952. í
Vestur-ísafjarðarsýslu var staða
Ásgeirs svo sterk að engum tjáði
að etja kappi við hann og gilti þá
einu hvort hann var í framboði
fyrir Framsóknarflokkinn, Al-
þýðuflokkinn eða bauð sig fram
utanflokka. Hafa fáir aðrir íslensk-
ir stjórnmálamenn staðið svo föst-
um fótum í kjördæmi sínu, síst af
öllu til langframa.
Á þingi lét Ásgeir mikið að sér
kveða. Hann hafði afskipti af
mörgum helstu málum síns tíma,
var forseti sameinaðs þings um
skeið og stýrði þá m.a. Alþingishá-
tíðinni á Þingvöllum við Öxará ár-
ið 1930. Var framganga hans þar
lengi rómuð og í minnum höfð.
Árið 1931 tók hann við embætti
fjármálaráðþerra í ríkisstjórn
Tryggva Þórhallssonar og nær
miðju sumri 1932 varð hann for-
sætisráðherra í nýrri samsteypu-
stjórn Framsóknarflokks og Sjálf-
stæðisflokks. Sú stjórn sat að
völdum í rúm tvö ár, til miðs sum-
ars 1934. Auk þessa gegndi hann
ýmsum fleiri ábyrgðarstörfum,
var fræðslumálastjóri um árabil,
bankastjóri Útvegsbanka íslands
og tók þátt í alþjóðlegu samstarfi
fyrir íslands hönd. Þar sat hann
m.a. hina frægu ráðstefnu í Bret-
ton Woods árið 1944, sat í stjórn-
arnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
og var þrívegis í hópi fulltrúa ís-
lands á allsherjarþingi Sameinuðu
þjóðanna.
Þannig var ferill Ásgeirs Ásgeirs-
sonar í stuttu máli fram til ársins
1952. Þá bauð hann sig fram til
embættis forseta íslands og vann í
kosningum nauman en sögulegan
sigur, þrátt fyrir það að tveir
stærstu stjórnmálaflokkar Iands-
ins, sem þá sátu saman í ríkis-
stjórn, sameinuðust um stuðning
við annan frambjóðanda. Forseta-
embættinu gegndi hann af reisn í
sextán ár.
Gylfi Gröndal hefur á undanförn-
um árum verið einna mikilvirk-
astur þeirra höfunda íslenskra,
sem fást við ævisagnaritun. Helsta
aðalsmerki hans sem ævisagna-
höfundar hefur mér jafnan virst
vera lipur og þróttmikili stíll
ásamt góðri frásagnargáfu. Þessi
bók er engin undantekning hvað
þessa þætti snertir. Hún er bæði
skemmtileg aflestrar og fróðleg.
Megingallar hennar eru hins veg-
ar röng heimildanotkun, of lítil
úrvinnsla heimilda og það, að höf-
undur gerir ekki nóg til þess að
nálgast höfuðviðfangsefni sitt,
söguhetjuna.
Við ritun ævisögunnar hefur höf-
undur notfært sér margskonar
heimildir. Hann hefur vitaskuld
kannað margt af því sem áður hef-
ur verið skrifað um Ásgeir Ás-
geirsson og samtíð hans, sömu-
leiðis ýmis prentuð gögn: blöð,
þingtíðindi, opinberar skýrslur og
Ásger Ásgeirsson.
fleira, sem öllum er aðgengilegt.
Mikilvægustu og forvitnilegustu
heimildirnar virðast hins vegar
hafa verið handrit ýmiss konar úr
fórum Ásgeirs sjálfs, drög að end-
urminningum, sendibréf, ýmiss
konar minnis- og athugasemdir
o.s.frv. Hér var sem sagt efniviður
sem úr mátti vinna afbragðs ævi-
sögu, en það er einmitt við notkun
þessara gagna sem höfundi fatast.
í stað þess að vinna sjálfur úr
heimildunum, rýna þær og nýta
til að segja sögu Ásgeirs Ásgeirs-
sonar á gagnrýninn hátt, bera
saman við aðrar heimildir og
reyna þannig að varpa ljósi á
manninn Ásgeir Ásgeirsson, skýra
athafnir hans og ákvarðanir, tekur
höfundur þann kost að birta
heimildirnar í stórum stíl, láta
þær sjálfar segja söguna. Afleið-
ingin verður sú að oft þekja prent-
aðar ræður, sendibréf og eigin frá-
sagnir Ásgeirs síðu eftir síðu svo
bókin líkist helst sjálfsævisögu
sem höfundur hefur orðið að
hverfa frá, en utanaðkomandi
maður verið fenginn til að tengja
frásögnina (heimildirnar) saman.
Til allrar hamingju var Ásgeir hins
vegar ágætlega máli farinn og rit-
fær vel.
Lakast af öllu er hins vegar að
þær heimildir, sem þannig eru
notaðar, eru flestar mjög jákvæðar
í garð söguhetjunnar og því ber
bókin svip af heilagra manna sög-
um. Sjónarmið andstæðinga fá
ekki að koma fram og því fær les-
andinn fráleitt rétta mynd af sögu-
hetjunni, veit hvorki né skilur
hvers vegna hann brást svo við
sem hann gerði, á hverju hann
byggði ákvarðanir sínar.
Enginn skyldi skilja orð mín svo
að ég telji birtingu heimilda í
texta óalandi og óferjandi, fjarri
því. Á þessu verður hins vegar að
vera hóf og best fer yfirleitt á því
að nota heimildir þá aðeins með
þessum hætti að þær varpi skýrara
ljósi á viðfangsefnið en höfundur
getur gert með eigin orðum.
Af þeirri aðferð, sem höfundur
notar, leiðir, að hann hættir sér
aldrei í návígi við söguhetjuna. Af
þeim sökum nær lesandinn aldrei
að kynnast söguhetjunni og er það
miður. Að loknum íestrinum hlýt-
ur lesandinn að spyrja: Hvers kon-
ar maður var Ásgeir Ásgeirsson?
Hvers vegna farnaðist honum svo
vel sem raun bar vitni? Mér nægir
ekki það svar að hann hafi verið
greindur maður og glæsilegur, vel
lesinn og mikilhæfur. Það vissi ég.
Ég vissi líka áður en ég las þessa
bók að hann hefði, áður en hann
varð forseti, verið í hópi umdeild-
ustu stjórnmálamanna landsins.
En hvers vegna? Við þeirri spurn-
ingu gefast lítil svör í þessari
stóru bók.
Þrátt fyrir þau atriði, sem hér
hafa verið gagnrýnd, er óumdeil-
anlegur fengur að þessu riti. Það
fennir fljótt í spor þeirra sem
gengnir eru og nú fer þeim óðum
fækkandi, sem muna Ásgeir Ás-
geirsson ööruvísi en sem forseta
Islands. Ferill hans fram til þess er
hann tók við því embætti var hins
vegar með þeim hætti að hann
verðskuldar að geymast með þjóð-
inni. Jón Þ. Þór
ÍSLENSKUR
ÆT
Nú er hagstætt verð á íslenskum æðardún.
Hann er fáanlegur hjá framleiöendum,
útflytjendum og sængurfataverslunum.
Dúnsæng er vegleg jólagjöf — Veljum íslenskt.
Æöarræktarfélag íslands.