Fréttablaðið - 11.03.2009, Blaðsíða 30

Fréttablaðið - 11.03.2009, Blaðsíða 30
 11. mars 2009 MIÐVIKUDAGUR4 Endurreisnin Það er sagt að siðrof hafi orðið á Íslandi í aðdraganda Hruns- ins. Siðbótar er þörf. Við þurfum að taka upp góða trú. 1. Góð trú Góð trú er orðrétt þýðing á latneska hugtakinu bona fide. Sá sem hefst að í góðri trú tekur ákvarðanir að eigin frumkvæði og með einlægum ásetningi út frá því sem hann veit að öllu gættu, samkvæmt samvisku sinni, að er satt og rétt (eða sannast og réttast) í hverju máli. Á Íslandi hefur önnur afstaða verið ríkjandi ákaflega lengi, eitt- hvað á þessa leið: Valdsmenn taka þær ákvarðanir sem þeir vilja, alveg óbundnir nema að því eina leyti sem þeir brjóta ekki himin- hrópandi sannanlega gegn skráð- um og skýrum lagaákvæðum. Þetta hefur ekki aðeins verið raunin með pólitíkusa heldur hafa ámóta viðhorf gegnsýrt íslenskt þjóðlíf almennt. Þar skipta mestu máli viðskiptalíf og hins vegar fjöl- miðlun og önnur opinber umræða. Það er til barnslega einföld leið út úr því siðferðilega öngstræti sem þetta viðhorf hefur leitt þjóð- ina í: að fólk ákveði að hafast að í góðri trú. Ég tek fram að ég er hins vegar ekki svo „barnslega einfald- ur“ sjálfur að telja líklegt á næst- unni að þetta verði algilt lögmál hjá öllum mönnum. Því miður. Þess vegna er hér mikilvægur skilsmunur: Fyrir þá sem er með beinum hætti trúað fyrir hags- munum annarra, t.d. pólitíkusa og bankamenn, eða eru í sambæri- legri stöðu af öðrum ástæðum, t.d. fjölmiðlamenn, er það frumkrafa að þeir ræki störf sín og skyldur í góðri trú. Það neyðir enginn neinn til að bjóða sig fram í stjórnmál- um til þess að fara með völd og áhrif í umboði almennings. Menn krefjast hárrar umbunar – og fá hana – fyrir að sinna störfum hjá fjármálafyrirtækjum að sögn til að varðveita og ávaxta eignir annarra. Þar fyrir utan eru fyrirtækin iðulega hluta félög á almennum markaði. Fjölmiðlar eru stundum nefndir hið fjórða vald, sem veita á hinum valdgreinunum aðhald. Því fylgir siðferðileg ábyrgð. Hvað sem öðru líður er óumdeilt að fjölmiðlar hafa mikil áhrif – og margir segja úrslitaáhrif – á skoðanamyndun almennings. Ég læt nægja að taka dæmi af þessum þremur sviðum. Vitaskuld mætti telja til fleiri. Krafan um að menn í þessum stöðum hafist að í góðri trú ætti að vera sjálfsögð. Hún verður það vonandi sem fyrst. Það liggur í hlutarins eðli að engir, hvorki dómarar, kjósend- ur, hluthafar né þeir sem nota fjöl- miðla, geta „hankað“ mann á því út af fyrir sig að hafa ekki farið eftir samvisku sinni ef maðurinn sjálfur staðhæfir annað. Þegar allt kemur til alls eiga menn það aðeins við sjálfa sig að ákveða hvort þeir vilji hafa góða trú í heiðri. En ef þeir gera það ekki vil ég halda því fram að þeir viti upp á sig skömm- ina, óháð allri sjálfssefjun og rétt- lætingu út á við. Þó það sé ekki hægt að „hanka“ menn og láta þá sæta utanaðkom- andi ábyrgð eða viðurlögum fyrir að vera í vondri trú leysir það þá ekki frá því að vita sjálfir upp á sig skömmina. Um leið er þetta forsend- an sem ég vil gera fyrir umfjöllun minni: hún getur ekki átt við sið- leysingja. Ég vil hins vegar leyfa mér að gera ráð fyrir því að áhrifa- menn á Íslandi, bæði í stjórnmálum og annars staðar, séu almennt ekki siðleysingjar, eins misjafnir og þeir annars eru. Ef einhver fellir sig ekki við þessa forsendu er svo sem ekkert um það að segja. En sá sami er þá greinilega töluvert svartsýnni en ég á stöðu íslensks samfélags. 2.„Dómarinn sá það ekki!“ Jón Ormur Halldórsson skrifaði eitt sinn pistil í Fréttablaðið þar sem hann lýsti „hægindastólskenningu“ bresks háskólaprófessors sem hafði kennt honum. Sá þóttist hafa merkt að þegar nýlendur breska heims- veldisins öðluðust sjálfstæði á 20. öld hefði lýðræði helst fest í sessi þar sem arfleifð Breta hafði skilið eftir sig krikket sem þjóðaríþrótt. Þar sem fótbolti var á hinn bóginn þjóðaríþróttin hafði allt farið í bál og brand og þjóðirnar síðan verið ofurseldar byltingum og borgara- styrjöldum. Prófessorinn benti á að krikk- et byggðist á því að menn virtu að eigin frumkvæði reglur og siðvenj- ur leiksins og gengjust af sjálfsdáð- um við brotum. Fótbolti væri á hinn bóginn leikur þar sem menn gengju hverju sinni eins langt og dómar- inn leyfði – og iðulega lengra ef þeir héldu að hann sæi ekki til – og ekki tíðkaðist að viðurkenna brot sín. Prófessorinn spurði loks eitthvað á þá leið hvort verið gæti að ólík siðferðileg áhrif þjóðaríþróttanna tveggja hefðu skipt sköpum um muninn sem var á gengi þjóða sem aðhylltust hvorn leikinn um sig. Því má skjóta inn að það er reynd- ar annað vitni um höfuðþýðingu siðareglna í krikket að í Bretlandi er alþekkt orðatiltæki til um það að haga sér ósiðlega. Þá er einfaldlega sagt um það sem viðkomandi gerði: It’s not cricket! Allir þar skilja undir eins hvað átt er við: maðurinn var ekki í góðri trú. Ég ætla ekki að fjölyrða neitt um áhuga Íslend- inga á fótbolta. En meðan Bretar segja að eitthvað sé ekki krikket er viðkvæðið á Íslandi hins vegar: Dómarinn sá það ekki! Í hinni almennu lýsingu á fót- boltasiðgæði hér framar ætti hver að geta séð algera hliðstæðu við það sem tíðkast á vettvangi stjórn- mála og viðskipta hér á landi. Dæmi um þetta? Þarf að telja þau upp? Á undanförnum vikum og mánuðum hefur þjóðin sýnt með afgerandi hætti í búsáhaldabyltingunni við- bjóð sinn og vanþóknun á hátterni valds- og viðskiptamanna undanfar- in ár. Ef höfð eru í huga þau skýru og fordæmalausu skilaboð held ég að óhætt sé að sleppa upptalning- unni. Dæmin eru lýðum ljós, þeim sem á annað borð vilja sjá þau. 3. Kaldlyndið Ég held að eitt orð nái ágætlega yfir það viðhorf, þann skort á góðri trú, sem endurspeglast í mörgum gjörð- um íslenskra valdhafa og viðskipta- manna undanfarin ár: Kaldlyndi. Það felur í stystu máli í sér and- stæður einkenna á góðri trú. Það er beiting valds með aðra hagsmuni í huga en réttlætið hrópar á. Það er viðhorfið um alræði valdhafans. Einn af íslensku óligörkunum ku hafa lýst olnbogarými sem hann taldi sér bera þannig: Ég á ‘etta og ég má ‘etta. Ráðherrar komu glott- andi í viðtöl og „rökstuddu“ gífur- lega umdeildar embættisfærslur með þessum hætti: Ég ræð. Þetta voru einkunnarorð kald- lyndisins. Ég á, ég ræð. Ég er ekki að persónugera eitt eða neitt. Og mér er sjálfum ekki í nöp við nokkurn af þeim sem áttu þátt í að skapa og við- halda ástandinu eins og það var. Ég held að fæstir hafi reyndar nokkuð persónulega á móti þeim. En: öfugt við það sem sumir fyrrverandi æðstuprestar þeirra vilja nú halda fram verða atburð- ir í mannlegu samfélagi ekki nema af mannavöldum. Og ástandið varð vissulega svona. Það ástand sköp- uðu engir aðrir en valdhafar og áhrifamenn á þeim tíma. Þeir bera að sama skapi ábyrgð á því, hver og einn í réttu hlutfalli við völd sín og áhrif þá. Þeir létu undan kaldlyndi sínu. Fyrir það – og hugsanlega aðeins það – hefur þjóðin nú, eftir langa mæðu, fengið nóg af þeim. 4. Alltaf pláss við plóginn Ég veit ég sagði í byrjun að efni greinarinnar ætti bara við um menn í áhrifastöðum. Að það væri frumkrafa að þeir hefðust að í góðri trú og segðu satt en kannski væri barnsleg einfeldni að leyfa sér að vona að allir menn, eða þó ekki væri nema bara við hér í örsamfélaginu Íslandi, gerðu hið sama. En maður skyldi aldrei segja aldrei. Hvað rúmar stærsti loftkastalinn marga skýjaglópa? Svarið? Það er pláss fyrir alla. Ítarlegri útgáfa greinarinnar er á bloggsíðu höfundar, finnur- vilhjalmsson.blogspot.com. Siðbótin síðari Evrópumál Skúli Helgason, frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík, sá ástæðu til að gera formanni Framsóknarflokks- ins upp skoðun í grein í Frétta- blaðinu mánudaginn 9. mars. Þar heldur Skúli því fram að formað- ur Framsóknarflokksins hafi til- kynnt opinberlega að flokkurinn væri opinn í báða enda í hugsan- legum stjórnarmyndunarviðræð- um að loknum kosningum. Skúla til upplýsingar og kannski hugar- hægðar, þá lýsti formaður Fram- sóknar þeirri skoðun sinni í við- tali við mbl.is þann 5. mars sl. að hann vonaðist eftir vinstri stjórn! Það eina sem gæti komið í veg fyrir myndun hennar væri skort- ur á vilja hjá vinstri flokkun- um. Hann ítrekaði síðan að hann myndi alltaf setja vinstri stjórn sem fyrsta kost. Hið sama sagði Eygló Harðardóttir, þingmaður og ritari Framsóknarflokksins í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 þann 23. febrúar. Á flokksþingi framsóknar- manna í janúar var ítrekað fagn- að þegar ræðumenn töluðu hver á fætur öðrum um að gefa Sjálf- stæðisflokknum frí frá lands- stjórninni. Það var einmitt á þeim grundvelli sem Framsóknarflokk- urinn bauðst til að verja minni- hlutastjórn vinstri flokkanna falli fram að kosningum í lok apríl. Annars ætti Skúli að hafa reynslu af því að vera opinn í báða enda eftir að hafa kúrt undir sömu sæng með „höfuðóvini“ Samfylkingarinnar, Sjálfstæðis- flokki vorið 2007. Þá var kátt í bæ Samfylkingar og Skúli tók fullan þátt í því, þótt gamanið ætti eftir að kárna eins og flestir þekkja. Nú lætur Skúli eins og hann hafi aldrei í dyngju sjálfstæðismanna komið. Hann ætti því fremur að líta í sinn eigin Samfylkingar- barm heldur en að gera fram- sóknarmönnum upp skoðanir í þessum efnum. Framsókn horfir víst til vinstri EINAR SKÚLASON Frambjóðandi Framsóknarflokksins FINNUR ÞÓR VILHJÁLMSSON lögmaður

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.