Morgunblaðið - 18.03.2006, Qupperneq 38
38 LAUGARDAGUR 18. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
ÚR VESTURHEIMI
K
vennaliðið Fálkarnir frá Winnipeg er væntanlegt
til Íslands í næstu viku og er þetta sennilega í
fyrsta sinn sem kanadískt íshokkílið kvenna
keppir á Íslandi. Um er að ræða lið Kelvins-
framhaldsskólans. Þrír leikmenn liðsins og fjórir í
hópi þjálfara og fararstjóra eru af íslenskum ættum en ólymp-
íumeistaralið Fálkanna 1920, sem stúlknaliðið er nefnt eftir, var
alfarið skipað annarri kynslóð Íslendinga í Winnipeg nema
hvað einn leikmaðurinn var af enskum ættum.
Merkileg saga
Íshokkí var fyrst á dagskrá á Ólympíuleikum þegar þeir voru
haldnir í Antwerpen 1920 og það kom í hlut Fálkanna frá
Winnipeg að keppa fyrir hönd Kanada. „Íslenska“ liðið kom, sá
og sigraði og ruddi þannig brautina fyrir Kanadamenn í al-
þjóðlegri keppni í íshokkíi. Árangurinn „gleymdist“ í tímans rás
og þegar til stóð hjá forystumönnum greinarinnar í Kanada að
vekja athygli á „árangri frumherja Toronto Granites“ með því
að hafa merki liðsins á treyjum ólympíuliðs Kanada á Vetrar-
ólympíuleikunum í Salt Lake City 2002 rann mörgum í Winni-
peg og víðar blóðið til skyldunnar. Dan Johnson og fleiri skipu-
lögðu herferð til varnar Fálkunum með þeim árangri að
Íshokkísamband Kanada viðurkenndi mistök sín. Merki Fálk-
anna var á treyjum landsliðsins í fyrsta leik á leikunum 2002 og
málverk af þessum fyrstu ólympíumeisturum í íshokkíi var af-
hjúpað þar og haft á sýningu ásamt ýmsum munum tengdum
meisturunum. Í fyrrasumar var síðan varanleg sýning um Fálk-
ana opnuð í nýju íshokkí- og sýningarhöllinni í Winnipeg að við-
stöddu miklu fjölmenni og voru Paul Martin, þáverandi for-
sætisráðherra Kanada, Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra
Íslands, og Gary Doer, forsætisráðherra Manitoba, fengnir til
verksins. Undanfarin misseri hafa kanadísk landslið ennfremur
af og til leikið í eftirlíkingum af treyjum Fálkanna.
Eplið og eikin
Fyrrnefndur Dan Johnson er helsti hvatamaður komu
kvennaliðsins til Íslands. Hann á ættir að rekja til Mikes Good-
mans, vinstra kantmanns Fálkanna. Mike eða Magnús var son-
ur Gísla Guðmundssonar og Ólafar Björnsdóttur Halldórssonar
frá Úlfsstöðum í Loðmundarfirði. Hann var kallaður ský-
strókur Fálkanna og sagt var að hann skautaði hraðar aftur á
bak en nokkur annar komst áfram. Hann varð Manitobameist-
ari í skautahlaupi 1920, þriðja árið í röð, og eftir að hann varð
ólympíumeistari með Fálkunum gerðist hann atvinnumaður í
skautahlaupi í Bandaríkjunum og vann þar glæsta sigra. Hann
var heiðraður á Vetrarólympíuleikunum í Calgary 1988 og Dan
hitti hann nokkrum árum áður. „Hann kom til okkar í Gimli
með verðlaunapeninginn frá Ólympíuleikunum og ræddi inni-
lega um hvað þeir hefðu þurft að leggja mikið á sig til þess að
komast á efsta tind,“ segir Dan. „Hann var ótrúlegur íþrótta-
maður og ekki aðeins á skautum, því hann var meistari í einnar
mílu sundi og frábær hafnaboltaleikmaður.“
Foreldrar Dans Johnsons voru Doris Blöndal og George
Johnson, læknir frá Gimli. George var þingmaður í Manitoba og
ráðherra með meiru auk þess sem hann var fylkisstjóri Mani-
toba frá 1986 til 1993. Dan var sjálfur mjög svo frambærilegur
íshokkíleikmaður og íþróttir hafa gegnt stóru hlutverki í lífi
hans. Hann var helsti hvatamaður þess að Ólympíusamband
fatlaðra í Manitoba í Kanada var stofnað fyrir um 26 árum og
var fyrsti framkvæmdastjóri sambandsins og helsta driffjöður
þess í um 15 ár. Hann hefur séð um og skipulagt árlegt styrkt-
argolfmót Lögbergs-Heimskringlu, Opna íslenska golfmótið,
síðan 2001 og var í forsvari nefndarinnar the Falcons Forever
Exhibit Campaign, sem stóð að söfnun til að koma upp fyrr-
nefndri sýningu um Fálkana.
Tvær dætur Dans og konu hans Leonu eru í liðinu, fyrirliðinn
Guðrún Johnson, sem er í 12. bekk, og varnarmaðurinn Krist-
ine Johnson, sem er í 9. bekk. Framherjinn Erika Manaigre er
líka af íslenskum ættum en hún er í 10. bekk.
Wendy Brown-Johnson starfar við skólann og er í far-
arstjórninni. Hún er íslensk í báðar ættir. Glen Eliasson er
skólastjóri Kelvins-framhaldsskólans og er af íslenskum ættum
eins og nafnið ber með sér. Hann er fararstjóri hópsins og
fulltrúi Íshokkísambands Manitoba í ferðinni. Kona hans er
Cathie, dóttir Connie, en faðir hennar var Konráð Jónasson Jó-
hannesson. Foreldrar hans voru Jónas Jóhannesson frá Geit-
eyjarströnd í Mývatnssveit og Rósa Einarsdóttir frá Húsavík.
Konnie fæddist í Argyle í Manitoba 1896 og gekk í kanadíska
herinn 20 árum síðar. Hann var helsti varnarmaður Fálkanna
og síðar starfrækti hann flugskóla en á meðal nemenda hans
voru stofnendur Flugleiða. Anne, dóttir Cathie, er öflugur ís-
hokkíleikmaður og hefur verið fyrirliði skólaliðs Manitobahá-
skóla undanfarin tvö ár en hún útskrifast í vor.
Af þeim sem koma hingað hefur aðeins Dan Johnson komið
til Íslands áður en hann var í sendinefnd Manitoba sem fylgdi
Gary Doer forsætisráðherra hingað í ágúst 2001.
Kvennahokkí hátt skrifað
Kvennalið Kanada í íshokkíi varð ólympíumeistari á nýaf-
stöðnum Ólympíuleikum í Tórínó og endurspeglar árangurinn
stöðu greinarinnar í Kanada.
Hópurinn frá Winnipeg samanstendur af 29 manns. Komið
verður til Íslands laugardaginn 25. mars og farið héðan mánu-
daginn 3. apríl. Dvölinni verður skipt á milli Reykjavíkur og
Akureyrar og verður leikið á báðum stöðum, fyrst í Reykjavík
um næstu helgi. Leikmenn, þjálfarar og fararstjórn búa í
heimahúsum hjá aðstandendum íslensku kvennaliðanna, Bjarn-
arins og Skautafélags Akureyrar, en aðrir á hótelum.
Bjarni Gautason, gjaldkeri Íshokkísambands Íslands, hefur
skipulagt komu kanadíska liðsins í samvinnu við Dan Johnson.
Hann segir að leikmenn íslensku liðanna séu flestar eldri en
kanadísku leikmennirnir, flestar um eða yfir 20 ára, en það segi
lítið um styrkleika liðanna. „Kanadíska kvennalandsliðið er það
sterkasta í heimi og það er vel haldið utan um kvennahokkí í
Kanada,“ segir hann. Bjarni bætir við að keppnin sé ekki aðal-
atriðið. „Þetta er menningar- og uppfræðsluferð hjá þeim og
öðrum þræði íshokkíferð. Þau eru bara að breiða út fagnaðar-
erindið og við tökum þeim fagnandi.“
Framherjinn Erika Manaigre er í 10. bekk. Fyrirliðinn Guðrún Johnson er í 12. bekk. Varnarmaðurinn Kristine Johnson er í 9. bekk.
Fálkarnir til Íslands
Eftir Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Morgunblaðið/Steinþór
Dan Johnson við opnun sýningarinnar um Fálkana í nýrri íshokkí- og sýningarhöll Winnipeg.
Wendy Brown-Johnson og Glenn Eliasson.
Anne Hedley fékk liðstreyju sína að gjöf eftir síðasta leik með
skólaliðinu á dögunum.