Morgunblaðið - 18.03.2006, Side 47
ur kyrr. Regnið bylur á rúðunum.
Fjörðurinn er úfinn og grár. Svo
víkkast ljósið, úr tóminu heyri ég
tón.
Þú stendur við píanóið í stofunni
heima hjá okkur á Breiðumýri. Ein-
beitnin skín úr augum og fasi, ró-
lyndið, sem annars fylgir þér, hvert
sem þú ferð, er agnarögn á reiki,
eitthvað er á seyði. Svo ræskir þú
þig, pabbi spilar forspil, og Hall-
arfrúin hljómar um húsið. Okkur
ólátabelgina setur hljóða, stundin er
göfug, alvarleg, alheimsleg, óvenju-
leg, fögur. Þið endurtakið, ræðið
tækni og áherslur, en við sitjum
áfram hljóð, dolfallin, stolt. Og ekki
erum við síður stolt nokkrum vikum
síðar, er þú stendur í dökkum
jakkafötum, öruggur og enn svo fal-
lega alvarlegur í Þinghúsinu og
syngur opinberlega með karlakór
Reykdæla sem bakhjarl. Okkar
maður, pabbi sumra, næstum pabbi
minn.
Þegar okkur örsjaldan varð sund-
urorða, Adda, Búa og mér, og vörn
skyldi snúið í sókn, voru pabbar
okkar viðkvæðið. Pabbi okkar er
miklu sterkari en pabbi þinn, sögðu
þeir, og sama hversu orðhvöt og
ákveðin ég var, datt mér aldrei í
hug að mótmæla. Skák og mát fyrir
ykkur tvo. Ég bið pabba að sprauta
í rassinn á pabba ykkar, var mín
eigin nauðvörn. Og sennilega í vissu
þess, að hvorugt kæmi nokkurn
tíma til greina, var málið útkljáð,
vopnum lagt, og leikurinn og nær-
veran gátu haldið ótrauð áfram.
Milli feðra okkar komu nefnilega
aldrei vopn til greina, einungis vin-
átta og virðing. Og það er svo skrít-
ið, hvað hljóðlát augnablik geta
varðveist og gripið hugann löngu
síðar, því nú rennur fram fyrir mig
aldeilis hversdagslegt sumarkvöld.
Ég kem heim í bæ til ykkar eins og
vant er, spyr um Adda og Búa, er-
um á leið út að leika, og þá ert þú í
sparifötum, hafðir lagt niður verk
og sest inn í stofu að hlusta á út-
varpserindi, sem pabbi hélt í þátta-
röðinni, Árnar okkar. Undarlegt, að
slíkt skuli snerta barnið svo sérlega
djúpt.
Fyrir nokkrum árum komuð þið
Björg með Búa og Möggu til Fær-
eyja í heimsókn. Breiðumýrarfólk
hefur aldrei verið mikið fyrir að
endasendast heimshorna á milli, en
þarna lögðuð þið aldeilis land undir
fót. Fyrir mig var það, eins og að
vera komin heim á ný. Eins og bær-
ir þú mér heila sveit með fólkinu
öllu, heila sveit og heila veröld. Í
nyrsta þorpi eyjanna er lítil búð, og
þar man ég að þú keyptir allar hríf-
urnar, sem voru á geymslu. Hrífur
handa ykkur og hrífur handa góð-
um vinum á næsta bæ. Alls staðar
leist þú í kringum þig með natni og
verkþekkingu, gast bent mér á ótal
atriði, sem ég ekki hafði gefið
gaum, og þú dáðist innilega að sam-
þættun fólks og umhverfis.
Það er svo margt, sem ég hef þér
að þakka. Fyrst og fremst fyrir að
vera hluti af því alnauðsynlegasta –
að gæða bernskuna tryggð og ör-
yggi. Og svo fyrir börnin þín og
hana Björgu, sem áttu áhyggju þína
og innsta hug, og sem ég á með þér
áfram. Fyrir dagana alla, aðfanga-
dag, þegar við fengum að fara með
þér í Framdalinn með tóma brúsa
og máttum sitja uppi á bílpalli og
skynja veturinn á annan og dýpri
hátt. Fyrir að fara í sparifötin, þeg-
ar pabbi talaði í útvarpið. Fyrir
Hallarfrúna. Fyrir dagana og árin
öll. Fyrir að vera nákvæmlega þú
og ekki einhver annar.
Héðan úr hlíðinni ofan við Þórs-
höfn sendum við Martin ykkur öll-
um á Breiðumýri innilegar samúð-
arkveðjur, og börnin okkar, sem
ætíð hafa notið góðs af gestrisni
ykkar og blíðu, biðja mig fyrir inni-
legar kveðjur til ykkar allra utan úr
Kaupmannahöfn. Hugurinn er full-
ur af góðum minningum, og tónninn
yljar mér áfram í tóminu. Meðan
við munum, er engu lokið.
Þóra Þóroddsdóttir,
Þórshöfn, Færeyjum.
Sunnudaginn 12. mars hringir
síminn og ég sé á skjánum að þar
er farsímanúmer míns góða vinar,
Sigtryggs á Breiðumýri. Mér
bregður mjög því ég veit það muni
ekki vera Sigtryggur sjálfur sem
hringir, veikindi hans síðustu dag-
ana koma í veg fyrir það.
„Sæll Steinþór minn, þetta er
Björg. Hann Sigtryggur dó í dag.“
Mér verður orða vant. „Hann var
óskaplega veikur síðustu sólar-
hringana, en mjög duglegur allt þar
til yfir lauk.“ Það er eiginkona Sig-
tryggs, Björg Arnþórsdóttir, sem
talar.
Ég kynntist Sigtryggi Jósefssyni
fyrst að ráði þegar ég kom að
Laugum árið 1985. Hafði auðvitað
þekkt ágætlega til Sigtryggs fyrr,
sem föður skólabræðra minna og
vina frá Laugaskólaárunum, þeirra
Arnþórs og Jóseps Rúnars, eða
Adda og Búa eins og þeir voru ætíð
kallaðir, einnig sem bílstjóra í ígrip-
um hjá sameiginlegum vini okkar,
Jóni Árna Sigfússyni í Mývatns-
sveit. En sumarið 1985 tók ég við
starfi skólastjóra Héraðsskólans á
Laugum. Þar hófust hin góðu kynni
okkar Sigtryggs sem leiddu fljót-
lega til mikillar og traustrar vin-
áttu, vináttu sem varð mér dýrmæt-
ari en svo að orð fái lýst eða
nokkurn tíma fullþakkað.
Reyndar varð ég nokkuð undr-
andi fyrst þegar ég frétti að þess
„roskni bílstjóri“ væri orðinn starfs-
maður Laugaskóla. Heyrði líka á
skotspónum að sumum þar á staðn-
um þætti hann fara sér óþarflega
hægt. En ég var fljótur að sjá hvers
virði þessi góði starfskraftur var
Laugaskóla, hversu skynsamlegt
það hafði verið af forvera mínum að
ráða Sigtrygg að skólanum. Emb-
ættið hét „umsjónarmaður húsa“,
en verksviðið mun víðara þar sem
Sigtryggi var ekki bara umhugað
um hús Laugaskóla heldur ekki síð-
ur um lóð skólans og umhverfi.
Sigtryggur vann hvert verk af
einstakri alúð og skynsemi, hávaða-
laust og án nokkurs atgangs, afar
verklaginn og útsjónarsamur. Hann
hafði mikið og gott verksvit sem
Laugaskóli naut til hlítar. Drjúgur
verkmaður sem skilaði góðu dags-
verki. Og tillögur Sigtryggs til
hvers konar endurbóta á húsum
skólans og annarra framfara ein-
kenndust af hinu sama hyggjuviti
og skynsemi. Ég hafði strax vit á
því að láta Sigtrygg ráða ef hug-
myndir okkar fóru ekki alveg sam-
an, sem þær gerðu þó oftast. Sam-
starf okkar var ætíð með miklum
ágætum.
En Laugaskóli naut Sigtryggs
ekki síður félagslega. Rólegur og
öruggur í fasi hafði hann góð áhrif á
unga fólkið. Hann var mannþekkj-
ari og fljótur að átta sig á því
hvernig best væri að umgangast
hvern nemanda. Talaði á léttum en
þó öruggum nótum við pilta sem
gátu átt það til að hlaupa út undan
sér eða ganga illa um hús og eigur
skólans og náði svo til þeirra. Fór
gætilega að viðkvæmum sálum. Sig-
tryggur var mannvinur sem nem-
endur Laugaskóla nutu.
Sitt mesta gæfuspor steig Sig-
tryggur árið 1951 þegar hann trú-
lofaðist ungri stúlku frá Siglufirði,
Björgu Arnþórsdóttur, sem þá var
nemandi við Húsmæðraskólann á
Laugum. Aldrei bar skugga á sam-
band þeirra hjóna sem einkenndist
alla tíð af ást og gagnkvæmri vin-
áttu og virðingu. Börnin fimm, Arn-
þór, Jósep Rúnar, Friðgeir, Gerður
og Þórunn nutu umhyggju og ást-
úðar foreldra sinna. Sigtryggur var
góður faðir og síðar elskaður afi.
Hann tók þátt í lífi og starfi barna
sinna, gerði áhugamál þeirra að sín-
um, ferðalög, silungsveiði, vélsleða-
ferðir.
Vorið 1991 varð Sigtryggur og
fjölskyldan öll fyrir miklu reiðar-
slagi þegar Arnþór, elsti sonur
þeirra Sigtryggs og Bjargar, lést.
Sorgin var þung en Sigtryggur bar
hana í hljóði af aðdáunarverðu
æðruleysi sem einkenndi hinn
trausta persónuleika hans. Nú verð-
um við að reyna að taka æðruleysi
Sigtryggs okkur til fyrirmyndar.
Ég þakka Sigtryggi áralanga vin-
áttu og samstarf um leið og ég kveð
hann með sárum söknuði. Guð
blessi minningu Sigtryggs Jósefs-
sonar og styrki Björgu, börnin og
fjölskyldur þeirra.
Steinþór Þráinsson.
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. MARS 2006 47
MINNINGAR
Hann var fæddur
nítjánhundruð og
seytján. Það voru því
nokkrar kynslóðir á milli okkar og
segir sig sjálft að fyrir ungan
mann var ómetanlegt að eiga hann
að vini. Þegar fram liðu stundir
nefndum hvor annan fóstra – það
var fyrir mig sannur heiður þó ég
væri feiminn við það í fyrstu. Okk-
ar fyrstu samskipti voru fyrir
rúmlega 20 árum. Hann átti frum-
kvæðið að þeim eins og oftast upp
frá því. Við áttum umfangsmikil
símtöl vikulega um langt árabil.
Umræðuefnið var pólitík og hags-
munamál þjóðarinnar og auk ým-
islegs sem telja mátti viðfangsefni
hversdagsins. Oftar en ekki leidd-
ist talið að fiskveiðistjórnun. Hann
var einarður andstæðingur kvóta-
kerfis, jafnvel þó flokkurinn hans
og núverandi formaður hefði átt
stærstan þátt í að koma því á og
verið málsvari þess frá upphafi.
Auk andstöðu við kvótakerfið vildi
hann að menn umgengjust auð-
lindina af meiri nærfærni en nú-
tíma veiðitækni býður uppá. Þrátt
fyrir alvarlegt umræðuefnið var
jafnan stutt í hláturinn, hann hafði
einstakan hlátur, hló oft dátt.
Hann sagði mér sögur úr Seyð-
isfirði, af atvinnuháttum og lífi
fólksins sem þar bjó í upphafi 20.
aldarinnar. Hann veitti mér, fá-
kunnandi bankamanni, innsýn í líf
eins og það var á hans tíð og við-
horf fólks af hans kynslóð, sem
hafði lifað kreppu, fátækt og
skömmtun. Viðhorf kynslóðarinnar
sem átti sinn stóra þátt í að leggja
grunn að velferð okkar nútíma-
manna hérlendis.
Hversu annríkt sem hann átti
gætti hann þess vel að halda sam-
bandinu og ég á það honum að
þakka að aldrei slitnaði streng-
urinn. Hann hélt tryggð við mig í
gegnum árin og í seinni tíð tókum
við ávallt upp þráðinn þar sem frá
var horfið þó nokkuð væri um liðið
síðan við heyrðumst síðast. Auk
VILHJÁLMUR
ÁRNASON
✝ VilhjálmurÁrnason fæddist
á Skálanesi við
Seyðisfjörð hinn 15.
september 1917.
Hann lést á Land-
spítalanum í Foss-
vogi hinn 8. mars
síðastliðinn og var
útför hans gerð frá
Langholtskirkju 17.
mars.
símtalanna voru
heimsóknir hans
kærkomnar. Hann
staldraði stutt við –
hélt sig við kjarna
máls og spurði
ágengra spurninga.
Lýsti sínum áhyggj-
um, spurði hvað ég
legði til. Rökræddi
mína tillögu og var
svo rokinn.
Enn er hann rok-
inn og nú til að
kanna innstu rök til-
verunnar. Vertu sæll,
fóstri, við ræðum okkar niðurstöð-
ur þegar þar að kemur. Og vafalít-
ið mun þá hláturinn óma.
Jón Þórisson.
Sá sem þetta ritar naut þeirra
forréttinda að vera vinur Vilhjálms
Árnasonar um áratuga skeið. Það
er ljúft að minnast okkar mörgu
samverustunda og fyrir þær allar
er ég þakklátur.
Sem ungur maður fór Vilhjálm-
ur til náms við Héraðsskólann á
Eiðum og við vorum innilega sam-
mála um að stofnun héraðsskóla,
sem þakka má Jónasi Jónssyni frá
Hriflu, hafi valdið byltingu í ís-
lensku þjóðlífi. Þessu tengdust síð-
an ungmennafélögin, en við vorum
einnig sammála um að nú væru fá-
ir ungmennafélagar eftir meðal Ís-
lendinga. Síðar stundaði hann nám
við Menntaskólann á Akureyri, tók
lögfræðipróf frá Háskóla Íslands
og hlaut réttindi hæstaréttarlög-
manns. Aðrir munu væntanlega
minnast farsæls starfsferils hans.
Mörg sporin áttum við saman á
golfvöllum heima og erlendis og
enginn Íslendingur mun hafa farið
oftar til Skotlands en Vilhjálmur,
enda kunni hann vel að meta
Skota og þeir hann. Spor okkar
liggja víða á golfvöllum erlendis
allt frá Skotlandi til Bermuda og
mörg ágæt kvæði orti hans ágæta
eiginkona, Sigríður Ingimarsdótt-
ir, á ferðum okkar erlendis. Mér
er einnig ljúft að minnast sjóferða
frá Seyðisfirði, fyrst með trillu og
síðan tvisvar með Gullveri í boði
vinar hans Ólafs M. Ólafssonar, út-
gerðarmanns. Vilhjálmur miðlaði
mér af sínum mikla fróðleik um
kennileiti, fiskimið, fisktegundir,
forn kompásstrik og annað tengt
útgerð. Þetta voru ógleymanlegar
ferðir sem ég fæ aldrei fullþakkað.
Vinátta drengskaparmanns er
hverjum manni dýrmæt. Þessa
höfum við Ragnheiður og ungur
nafni minn og dóttursonur notið í
ríkum mæli af hálfu Vilhjálms og
Sigríðar eiginkonu hans. Við send-
um Sigríði og börnum þeirra,
tengdabörnum og barnabörnum
innilegar samúðarkveðjur og þökk-
um fyrir samfylgdina með Vil-
hjálmi. Hans verður sárt saknað.
Birgir Þorgilsson.
Mig langar að minnast Vilhjálms
Árnasonar hæstaréttarlögmanns
með fáeinum orðum, en hann lést
8. mars sl. á áttugasta og níunda
aldursári.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi
að kynnast Vilhjálmi fyrir rúmum
tuttugu árum. Þá rak hann lög-
mannsstofu að Höfðabakka 9 í
samvinnu við son sinn Árna, bróð-
urson Eirík Tómasson og Ólaf Ax-
elsson sem látinn er fyrir nokkrum
árum.
Vilhjálmur var mikill sómamað-
ur. Hann var fæddur í Skálavík við
Seyðisfjörð. Hann stundaði sjó
sem ungur maður og var vélbáta-
formaður um skeið, og þó hann
hafi stundað lögfræðistörf í hart-
nær fimmtíu ár þá var það að
mörgu leyti sjómennskan sem átti
hug hans. Hann hélt upp á 85 ára
afmæli með því að fara til sjós.
Hann var framsóknarmaður af
hinum gamla og klassíska skóla
Samvinnuhreyfingarinnar. Vil-
hjálmur var einstakur að því leyti
að hann umgekkst alla samferða-
menn sína, jafnt unga sem aldna,
af virðingu og umhyggju. Aldrei
skipti hann skapi.
Mér eru sérstaklega minnis-
stæðar fjallgöngur með Vilhjálmi,
en eitt af síðustu lögmannsstörfum
hans varðaði landamerkjadeilu hér
í nágrenni Reykjavíkur. Vilhjálm-
ur gekk á fjöll við undirbúning
málsins og ég varð þeirrar gæfu
aðnjótandi að fá að fylgja honum.
Ferðin er mér minnisstæð, hún
veitti mér ekki bara náttúruupp-
lifun, heldur naut ég einnig sam-
vista við einstakan höfðingja. Ekki
síst þess vegna var það mér ómet-
anlegt að fá að kynnast honum.
Ég kom til starfa hjá þeim fé-
lögum á Höfðabakka þegar þeir
höfðu ákveðið að setja á stofn
einkaleyfa- og vörumerkjastofu.
Vilhjálmur hélt alla tíð verndar-
hendi yfir starfseminni og enn í
dag er Árnason hluti af nafni fyr-
irtækisins honum til heiðurs. Ég
hef alla tíð verið hreykinn af því
að starfa undir föðurnafni Vil-
hjálms. Blessuð sé minning hans.
Ég votta öllum aðstandendum
og ástvinum dýpstu samúð.
Gunnar Örn Harðarson.
Pantanir í síma 562 0200
Á fallegum og notalegum
stað á 5. hæð Perlunnar.
Aðeins 1.350 kr. á mann.
Perlan
ERFIDRYKKJUR
Útfararþjónustan ehf.
Stofnað 1990
Þegar andlát ber að
Alhliða útfararþjónusta í 16 ár
Símar: 567 9110 & 893 8638
www.utfarir.is • utfarir@utfarir.is
Rúnar
Geirmundsson
Sigurður
Rúnarsson
Elís
Rúnarsson