Morgunblaðið - 19.09.2006, Side 10
10 ÞRIÐJUDAGUR 19. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
HEFÐBUNDIN kennsla fór fram í
Varmárskóla í Mosfellsbæ í gærdag
og ekki að merkja á fasi nemenda og
starfsmanna að eldsvoði hefði kvikn-
að undir þaki yngri deildar skólans
sl. föstudag. Rýma þurfti húsnæði
skólans og þyrptust um 400 nemend-
ur út á aðeins örfáum mínútum. Tók
eldsvoðinn á taugar yngstu krakk-
anna og að sögn foreldra eins þeirra
var nokkur hræðsla við að snúa aftur
til skóla í gærmorgun.
Eldurinn kom upp í þakrými fyrir
ofan bókasafn skólans. Safnið var af
þeim völdum lokað í gærdag en þrífa
þurfti m.a. vegna sóts og reyks, auk
þess sem koma þurfti rafmagni aftur
á. Viktor S. Guðlaugsson, skólastjóri,
segir engar stórvægilegar skemmdir
hafa orðið en ekki sé þó enn búið að
leggja mat á þær. „Það hefði getað
farið mun verr og það má segja að
það sé tvíeggjað að eldurinn kvikni á
starfstíma skólans. Það kann að hafa
bjargað því að þarna yrði stór elds-
voði,“ segir Viktor. Eldsupptök hafa
ekki enn verið staðfest en grunur
leikur á að um íkveikju hafi verið að
ræða. Foreldri sem Morgunblaðið
ræddi við segir það grafalvarlegt
mál ef svo sé og segist hafa heyrt
gagnrýnisraddir vegna þess hversu
lítið var gert úr málinu.
Þegar Viktor leitaði svara hjá
rannsóknardeild lögreglunnar í
Reykjavík um eldsupptök var enn
fátt um svör en rannsókn heldur
áfram, ljóst er þó að tiltölulega létt
er að komast upp á þakið og þar inn
um lúgu í rýmið.
Eldurinn kviknaði rétt fyrir
klukkan tvö á föstudag, þegar síð-
asta kennslustund dagsins var að
lokum komin. Eldvarnarkerfi fór í
gang og aðgerðaáætlun skólans var
sett í gang. „Hér hanga uppi í öllum
stofum upplýsingar um hvernig eigi
að bregðast við svona kringumstæð-
um. Þar kemur m.a. fram hverjar
séu útgönguleiðir og þetta hefur allt
verið afar vel kynnt starfsmönnum
og kennurum,“ segir Viktor en
skömmu fyrir eldsvoðann var haldin
brunaæfing í skólanum og ekki tók
nema 3-5 mínútur að rýma húsið.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
var fljótlega komið á svæðið og
þurfti að rífa klæðningu á þakinu til
að komast að eldsvoðanum sem ekki
var mikill – en talsverður reykur
barst þó inn í húsið. Viktor segir við-
bragðsáætlunina svo sannarlega
hafa sannað gildi sitt. „Kennararnir
hrósuðu krökkunum fyrir það hvern-
ig gekk en þau fóru eftir öllu sem bú-
ið var að kenna þeim. Við sögðum
þeim einnig að það væri eðlilegt að
gráta og sýna tilfinningar þegar
svona kemur upp,“ segir Guðrún
Markúsdóttir, deildarstjóri á mið-
stigi.
Rætt var um eldsvoðann í öllum
kennslustofum í byrjun gærdagsins
auk þess sem djákni og sálfræðingur
voru til taks ef börnin vildu ræða
málin frekar. „Svo sendum við
bækling frá Rauða krossinum um að-
stoð við börn eftir áfall og allir for-
eldrar fá hann sendan heim með
börnunum sínum ásamt orðsendingu
frá okkur,“ bætir Guðrún við en
einnig munu slökkviliðsmenn ganga í
kennslustofur í dag og ræða málið
frá þeirra bæjardyrum.
Viðbragðsáætlun vegna eldsvoða sannaði gildi sitt þegar eldur kviknaði í Varmárskóla sl. föstudag
Krökkunum hrósað fyrir
hversu vel rýmingin gekk
Morgunblaðið/Eyþór
Ummerki Eldurinn kom upp í þakrými fyrir ofan bókasafn skólans, ef vel er skoðað sjást ummerki eftir brunann.
Fór vel Arna Arnardóttir deildarstjóri, Guðrún Markúsdóttir deildarstjóri
og Viktor S. Guðlaugsson skólastjóri voru ánægð með viðbrögð nemenda.
Eftir Andra Karl
andri@mbl.is
Í HNOTSKURN
»Nokkru áður en eldsvoð-inn kom upp hafði verið
haldin brunaæfing. Þær eru
framkvæmdar reglulega.
»Aðeins tók 3-5 mínútur aðrýma skólann – alls um
400 nemendur.
»Grunur leikur á að kveikthafi verið í en það hefur
ekki fengist staðfest hjá lög-
reglunni í Reykjavík.
„VIÐ héldum fyrst að þetta væri
brunaæfing og ætluðum ekki að
fara út,“ segir Örn Bjartmars
Ólafsson, ellefu ára nemi í Varm-
árskóla, um fyrstu viðbrögð sín við
eldinum á föstudag. Fljótlega varð
honum og öðrum í bekknum hins
vegar ljóst að um alvöru eldsvoða
var að ræða og fylgdu þau því að-
gerðaráætlun skólans.
Örn var í handmennt þegar
brunabjallan glumdi en sú stofa er
nokkuð langt frá upptökum eldsins.
Hann segist ekki hafa hræðst og
vart vitað að eldur væri laus fyrr
en út var komið. „Ég var með
töskuna mína og skóna með mér
þannig að ég hljóp bara beint út.
Við hittumst svo öll í brekkunni
fyrir utan,“ segir Örn sem er nokk-
uð ánægður með hversu tíðar
brunaæfingar eru í Varmárskóla
þar sem þær hafi hjálpað mikið til
og allir krakkarnir hafi því vitað
hvað ætti að gera í slíkum kring-
umstæðum.
Örn Bjartmars Ólafsson var í handmennt þegar brunabjallan glumdi. Hann
segir að tíðar brunaæfingar í skólanum hafi hjálpað mikið til á föstudag.
Héldu að þetta væri æfing
JÓHANNA Embla Þorsteinsdóttir,
ellefu ára nemandi í Varmárskóla,
var í kennslustund í samfélagsfræði
þegar eldsvoðans varð vart á föstu-
dag. Hún segir að allir í bekknum
hafi haldið að um æfingu væri að
ræða, kennarinn einnig. „Þegar við
vorum komin fram á gang þá lét
kennarinn okkur fara í tvöfalda röð
og finna félaga. Við fundum reykj-
arlykt á ganginum og þá fengum við,
ég og vinkona mín, svolítið sjokk.“
Embla segir þó sjokkið ekki hafa
verið meira en það að þær vinkon-
urnar gengu einfaldlega út fyrir.
„Við höfðum ekki tíma til að ná í
skóna okkar og þurftum að sækja þá
seinna og klæða okkur í þá úti,“ seg-
ir Embla sem varð smávegis skelkuð
vegna eldsvoðans.
Blautt var í veðri þegar nemendur
skólans yfirgáfu skólahúsið og biðu í
grasbrekku á lóðinni. Nokkur rign-
ing var og krakkarnir margir hverjir
ekki með yfirhafnir. „Ég var hins
vegar með úlpuna mína við hliðina á
stofunni þannig að ég náði að kippa
henni með mér á leiðinni út.“
Reykjarlykt
á ganginum
Embla fékk svolítið sjokk þegar
hún fann reykjarlykt á göngunum.
BÍLVELTA varð á Biskupstungnabraut
nálægt Laugarbakka síðdegis í gær. Öku-
maður og tveir farþegar voru í bílnum
þar af einn sem festist í flakinu og urðu
liðsmenn Brunavarna Árnessýslu að
beita klippum til að losa hann úr bílflak-
inu. Öll fengu að fara heim að lokinni
læknisskoðun á Landspítala – háskóla-
sjúkrahúsi.
Bifreið valt á
Biskupstungnabraut
ARNARSTOFNINN er nú um 66 pör og hefur
hann þrefaldast frá því að bannað var að bera út
eitur fyrir tófu árið 1964, samkvæmt vef Nátt-
úrufræðistofnunar Íslands (NÍ). Þar segir að í
vor hafi stofninn verið stærri en nokkru sinni
síðan farið var að fylgjast með örnum um 1920.
Í fyrrasumar komust fleiri ungar á legg en
dæmi eru um á síðari árum, en varpið 2006
„gekk hins vegar óvenju illa, einkum vegna af-
leits tíðarfars sem hafði reyndar mikil áhrif á
fuglavarp um land allt. Vöktun á örnum hefur
verið aukin og hafa m.a. senditæki verið sett á
arnarunga til að auðvelda eftirlit.“
Hafa nýlega endurheimt forn óðul
á Suður- og Norðurlandi
Á vef NÍ segir að einungis 39 pör hafi orpið
með vissu og komu aðeins 18 þeirra upp 24 ung-
um í ár. „Varpárangur (mældur sem fjöldi unga
á par: 0,36) hefur ekki verið svona slæmur síðan
kalda vorið 1989 (var þá 0,3 ungar/par). Hið
sama á við um varpárangur mældan sem hlutfall
þeirra para sem kom upp ungum; (28% 2006 og
25% 1989).“
Á vef NÍ segir að ernir hafa nýlega endur-
heimt forn óðul á Suðurlandi og Norðurlandi og
fullorðnir fuglar sjáist nú æ oftar utan varpslóða
vestanlands.
Allir ungar sem komust á legg 2006 hafi verið
litmerktir, svo innan fárra ára megi búast við að
rekast á slíka fugla við hreiður. Alls hafi verið
merktir 332 ernir hér á landi síðan 1939 og voru
langflestir þeirra, eða 317, ungar í hreiðrum.
Um helmingur fuglanna, eða 174 alls, hafi verið
merktur frá og með árinu 2000. Auk starfs-
manna Náttúrufræðistofnunar og Náttúrustofu
Vesturlands hafi þeir Trausti Tryggvason, Hall-
grímur Gunnarsson og Finnur Logi Jóhannsson
verið stórtækastir merkingamanna.
Senditæki fest á þrjá arnarunga
Í sumar voru senditæki fest á þrjá arnarunga
í jafnmörgum hreiðrum við norðanverðan Faxa-
flóa. Tækin eiga að endast í a.m.k. eitt ár og er
vonast til að hægt verði að bregða upp skýrara
ljósi af ferðum og afkomu arnarunga fyrsta vet-
urinn sem sennilega er erfiðasti tíminn í lífi
arna.
Hallgrímur Gunnarsson sem fylgst hefur með
örnum við Faxaflóa um árabil annast þetta eftir-
lit.
Segir að til samanburðar megi geta þess að
hafísvorið 1979 sem hafi verið hið allra versta í
arnarsögunni hafi aðeins 17% para komið upp
ungum. „Þá var hlutfall varppara sumarið 2006
(59% eða 39 af 66 pörum) hið langlægsta síðan
kuldavorið 1995. Þeim fuglum sem verpa hefur
reyndar fækkað hlutfallslega með stækkandi
stofni en í bestu árum urpu yfir 80% paranna.“
Arnarstofninn aldrei stærri
Varp gekk óvenju illa í sumar og er afleitu tíðarfari einkum kennt um
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur
elva@mbl.is
Morgunblaðið/RAX
Vond tíð í sumar Afleitt tíðarfar hafði áhrif á
varp arna og annarra fugla í sumar.
UM EITT hundrað ökumenn eiga fjár-
sektir yfir höfði sér eftir að hafa ekið of
hratt um Hvalfjarðargöngin um liðna
helgi. Samkvæmt upplýsingum sem feng-
ust hjá lögreglunni í Reykjavík, sem ann-
ast myndavélaeftirlit í göngunum, voru
hinir brotlegu að jafnaði á tæplega 90 km
hraða en þrír ökumenn óku á meira en
100 km hraða.
Í Hvalfjarðargöngum er leyfilegur há-
markshraði 70 km á klukkustund.
Segir lögreglan að þessi hraðakstur
veki nokkra athygli í ljósi þeirrar opin-
beru umræðu sem hefur verið undan-
farna daga um umferðarmál í þjóðfélag-
inu.
Mikið um hraðakstur
í Hvalfjarðargöngum