Morgunblaðið - 05.10.2006, Blaðsíða 14
14 FIMMTUDAGUR 5. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Hjálmar Jónsson
hjalmar@mbl.is
KÅRE Bryn tók við stöðu fram-
kvæmdastjóra EFTA fyrir rúmum
mánuði síðan, en hann hefur gegnt
margvíslegum trúnaðarstörfum inn-
an norsku utanríkisþjónustunnar,
einkum á sviði viðskipta- og efnahags-
mála. Á níunda og tíunda áratugnum
hafði hann meðal annars með að gera
málefni fiskveiða, hvalveiða og um-
hverfisverndar og átti af þeim sökum
oft erindi til Íslands. Hann er nú á yf-
irreið um aðildarlöndin og segir að
það sé mjög mikilvægt að hitta per-
sónulega og funda með stjórnvöldum,
alþingismönnum og hagsmunaaðilum
sem komi að starfinu innan EFTA
með ýmsum hætti
Bryn segir að uppbygging EFTA
og verkefni séu að mörgu leyti sér-
stök þar sem samtökin séu tvískipt
vegna stjórnmálaþróunarinnar á und-
anförnum árum. Þannig séu þrjú af
ríkjunum fjórum sem myndi samtök-
in með samning við Evrópusamband-
ið um Evrópska efnahagssvæðið, en
fjórða landið, Sviss, standi þar fyrir
utan og taki þátt í þeirri starfsemi
samtakanna sem lúti að gerð fríversl-
unarsamninga við önnur lönd og
svæði. Sá hluti starfseminnar sem lúti
að samningnum um Evrópska efna-
hagssvæðið gangi mjög vel í stórum
dráttum hvað snerti alla tæknilega
hluti. EFTA ríkin taki almennt fullan
þátt í þróun og undirbúningi nýrrar
löggjafar þar til að ákvarðanatöku
komi, þar sem þau séu ekki aðilar að
Evrópusambandinu. Það sé gallinn
við þetta fyrirkomulag, en í flestum
tilvikum takist EFTA ríkjunum að
hafa áhrif á það á hvern veg ný löggjöf
þróist á fyrri stigum.
Aðspurður um núverandi viðræður
um stækkun EES vegna stækkunar
ESB með tilkomu Rúmeníu og Búlg-
aríu og kröfur ESB um aukin framlög
EFTA ríkjanna í þróunarsjóði sam-
bandsins þess vegna segir Bryn að
EFTA veiti Efta-ríkjunum ráðgjöf í
þessum viðræðum, en þau komi þar
fram hvert fyrir sig. Hann vildi ekki
staðfesta upplýsingar um upphæðir
sem fram komu í Morgunblaðinu í
gær, en sagði að það væri sannarlega
litið svo á að erfitt yrði að mæta kröf-
um sambandsins.
Varðandi fríverslunarsamninga
EFTA að öðru leyti, sagði Bryn, að
það hefðu verið mikil vonbrigði að við-
ræður Heimsviðskiptastofnunarinnar
(WTO) um tollalækkanir hefðu siglt í
strand í sumar. Ekkert útlit væri fyrir
að þær viðræður yrðu teknar upp aft-
ur fyrr en eftir forsetakosningarnar í
Bandaríkjunum næsta haust. Nú þeg-
ar yrði vart við aukin áhuga ríkja á því
að gera fríverslunarsamninga og það
væri ákveðin lausn til skemmri tíma
litið, þó auðvitað væri hagfeldast að
leysa þessi mál á alþjóðlegum grund-
velli. Þannig væri til dæmis komið
nýtt líf í viðræður EFTA og Kanada
um fríverslun, sem lengi hefðu verið í
strandi og líkur til þess að sest yrði að
samningaborði þar aftur.
„Ég held að við höfum mikilvægu
hlutverki að gegna fyrir aðildarríki
okkar hvað aukna fríverslun snertir,
sem er mikilvæg fyrir vöxt efnahags-
lífsins í löndunum,“ sagði Bryn.
Aðspurður um Kína, fjölmennasta
ríki heims, sagðist hann vita af góðum
samskiptum Íslands og Kína og
reikna með að viðræður þar á milli
myndu halda áfram og ef til vill gætu
þær viðræður þróast yfir í það að
verða viðræður um fríverslun við
EFTA.
Ísland hefur mikilvægu
hlutverki að gegna í EFTA
Kåre Bryn, nýr fram-
kvæmdastjóri Fríversl-
unarsamtaka Evrópu,
EFTA, segir að Ísland
hafi mjög mikilvægu
hlutverki að gegna innan
samtakanna.
Morgunblaðið/Sverrir
EFTA Kåre Bryn hitti Sólveigu Pétursdóttir, forseta Alþingis í gær m.a., en
einnig ræddi hann við ráðherra í ríkisstjórninni og hagsmunaðaila.
Eftir Árna Helgason
arnihelgason@mbl.is
„EFNAHAGSLEGU rökin sem voru til staðar
þegar Bretland gekk í Evrópusambandið árið
1975 eru ekki lengur fyrir hendi,“ segir Chri-
stopher Heaton-Harris, þingmaður breska
Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu til sjö ára.
Hann er staddur hér á landi og mun m.a. halda
fyrirlestur um Bretlandi og Evrópusambandið í
Þjóðminjasafninu í dag. Fyrirlestur Harris er á
vegum Heimssýnar og Stofnunar stjórnsýslu og
stjórnmála við Háskóla Íslands og verður hann
undir yfirskriftinni: Hvað ef Bretar ganga úr
Evrópusambandinu?
Harris segir að reglugerðir og löggjöf sam-
bandsins á sviði vinnumarkaðar, sem Bretland
eins og önnur aðildarríki verði að taka upp í sína
löggjöf, séu íþyngjandi og hafi dregið úr sveigj-
anleika á breskum vinnumarkaði og í bresku at-
vinnulífi.
„Í hnattvæddum heimi sjáum við mikið af fyr-
irtækjum færa starfsemi sína til Brasilíu, Rúss-
lands, Indlands og Kína,“ segir Harris og bendir
á að erfitt sé að sjá efnahagslegan ávinning fyrir
Bretland af því að vera í sambandinu.
„Við getum ekki einu sinni séð sjálf um gerð
viðskiptasamninga við Indland, sem er gömul
bresk nýlenda og mikil vinátta á milli landanna,“
segir Harris.
Vill umbætur á stofnanakerfinu
Þá þurfi að koma á róttækum umbótum á
stofnana- og nefndakerfi Evrópusambandsins
og segir Harris að miklum peningum sé varið í
nefndir sem litlu skili en kosti sambandið mikið
að halda úti, ekki síst vegna mikils ferðakostn-
aðar nefndarmanna.
„Stærsti gagnrýnispunkturinn er þó í raun sá
að það skortir á lýðræði innan sambandsins.
Íhaldsflokkurinn hefur talað fyrir því að ákvarð-
anir séu teknar eins nálægt fólkinu sjálfu og
kostur er. Evrópusambandið gengur einmitt í
hina áttina, því þar eru ákvarðanir teknar á
hæsta mögulega stigi og þar af leiðandi langt frá
fólkinu,“ segir Harris.
Að sögn Harris hafa miklar efasemdir við að-
ild Breta að Evrópusambandinu komið í ljós í
skoðanakönnunum. Þar komi ýmislegt til, m.a.
slæm nýting fjármuna innan sambandsins og að
reglugerðir ESB hafi áhrif á störf fólks.
Aðspurður hvaða áhrif það hefði ef Bretland
drægi sig út úr sambandinu segist hann telja að
áhrifin yrðu ekki mikil fyrir Breta, enda séu
mikil viðskiptasambönd milli Bretlands og Evr-
ópu auk þess sem Bretar hafi ekki tekið upp
evruna og séu því ekki háðir ESB að því leyti.
Vilja draga úr regluverkinu
Íhaldsflokkurinn hefur ákveðið að draga sig
út úr sambandi evrópskra hægri- og miðflokka
(EPP) á næstu árum. Í flokknum eru þingmenn
hægri- og miðjuflokka í Evrópu en Harris segir
að helsta markmið flokksins sé að endurskoða
evrópsku stjórnarskrána og leggja hana fram á
ný. „Við viljum tilheyra flokki sem vill draga úr
regluverki og yfirbyggingu sambandsins,“ segir
hann og bætir við að flokkar úr nýjum aðild-
arríkjum sambandsins í Austur-Evrópu séu að
mörgu leyti á sama máli og breskir íhaldsmenn
og til standi að mynda einhvers konar samtök
eða flokk sem þessir flokkar stæðu saman að.
„Við ætlum að láta á þetta reyna og koma
þannig í gegn umbótum,“ segir Harris en bendir
á að í síðustu kosningum til Evrópuþingsins hafi
komið fram flokkur í Bretlandi sem hafa viljað
skera alfarið á aðild Breta að Evrópusambandinu
og fengið jafnmikið fylgi og íhaldsmenn þannig
að þrýstingur frá kjósendum sé til staðar.
Spurður um Ísland og Evrópusambandið
segir hann að Ísland ætti ekki að ganga inn í
sambandið. „Þið væruð óð ef þið gerðuð það.“
ESB íþyngjandi fyrir
breskt atvinnulíf
Morgunblaðið/Sverrir
Efins um ESB Heaton-Harris segir að Íslend-
ingar væru óðir ef þeir gengju í ESB.
ROBERT Dixon er yfirmaður stefnumótunar
hjá orku- og tæknirannsóknardeild Alþjóða-
orkustofnunarinnar (IEA) Stofnunin, sem var
sett á fót í kjölfar olíukreppunnar í upphafi átt-
unda áratugarins, er á vegum Efnahags- og
framfarastofnunarinnar, OECD, í París. Dixon
sótti nýlega fund stýrinefndar Alþjóðavetnis-
samstarfsins, IPHE, í Reykjavík, þar sem ör-
yggi í orkuframboði bar á góma.
Inntur eftir samanburði á stefnu Evrópu-
ríkja og Bandaríkjanna í þessum málaflokki
segir Dixon áherslurnar um margt svipaðar.
„Það er þrennt sem báðir aðilar vilja; öryggi
í orkuframboði, umhverfisvernd, hvort sem
það er með því að draga úr losun gróðurhúsa-
lofttegunda eða draga úr mengun, og aukinn
hagvöxt í ríkjum sínum. Bandaríkjamenn, Evr-
ópuríkin og Japanir leggja áherslu á þessi at-
riði. Það sem er áhugavert er að stríðið gegn
hryðjuverkum hefur haft áhrif og sú staðreynd
að okkur er öllum nú orðið meira umhugað um
röskun í framboði á orku.
Umhverfissjónarmið voru á síðasta áratug
mikilvægur hvati í þróun endurnýjanlegra
orkugjafa, en nú vegur öryggi í orkuframboði
og áhrif þess í efnahagsmálum þungt. Við vit-
um að megnið af olíuframleiðslu heimsins fer
fram þar sem hryðjuverk eru vandamál. Bar-
áttan gegn hryðjuverkum er einn liður í að
tryggja orkuframboð.“
Olíuverð mun haldast hátt
Aðspurður um spár IEA um þróun olíuverðs
í náinni framtíð segir Dixon þær vera í eina átt.
„Reiknilíkön okkar hjá IEA eru skýr hvað
þetta varðar. Við teljum að þeir dagar sem
tunnan af olíu fór á 20 til 30 Bandaríkjadali séu
líklega að baki. Það má áætla að verðið muni á
næstunni nálgast 50 dollara á fatið en þegar
vetrartíminn nálgast og skortur á orkufram-
boði fer að gera vart við sig á lykilmörkuðum
má gera ráð fyrir að verðið hækki á ný.
Það ríkir einnig óvissa um vilja Rússa til að
selja jarðgas á erlendum mörkuðum.
Þá eiga sér nú stað breytingar á orkumörk-
uðum heimsins. Í Evrópu fer nú fram einka-
væðing á þessu sviði. Allir þessir þættir hafa
áhrif á olíuverðið.“
Mörg dauðsföll í Asíu
Spurður að lokum um framtíðarhorfur vetn-
is sem orkugjafa segir Dixon þrennt skipta
mestu máli í því samhengi.
„Mat okkar hjá IEA er að vetnishagkerfið
muni vaxa hægt til að byrja með. Við þurfum
að lækka verð á rafölum, geta framleitt vetni í
nægjanlegum mæli á mörgum stöðum og við
þurfum að geta geymt það í farartækjum og á
öðrum stöðum til að knýja vetnishagkerfið.
Við erum mjög nálægt því að geta leyst þessi
vandamál og áður en verðið á vetni lækkar
verulega mun vöxtur á þessu sviði verða hægur
á næstu fimm til tíu árum. Eftir þann tíma
benda spár okkar til mikillar aukningar í notk-
un vetnis, einkum á sviði samgangna.
Jafnframt mun mikil mengun í vaxandi hag-
kerfum verða hvati í þessa átt. Fólk í þessum
löndum er bókstaflega að deyja vegna loftsins
sem það andar að sér. Ég nefni sem dæmi
Kína, en þar er að finna 16 af 20 menguðustu
borgum heimsins,“ segir Robert Dixon.
Öryggi í framboði á
orku mjög mikilvægt
Robert Dixon starfar hjá
Alþjóðaorkustofnuninni. Í viðtali
við Baldur Arnarson ræðir Dix-
on um áhrif hryðjuverkastríðs-
ins á áherslur í orkumálum.
Morgunblaðið/Ásdís
Mótar stefnu Robert Dixon sérhæfir sig í
orkumálum í störfum sínum hjá IEA.
SANDRA
Franks, stjórn-
málafræðingur,
hefur ákveðið að
gefa kost á sér í
3.–4. sæti í próf-
kjöri Samfylking-
arinnar í Suðvest-
urkjördæmi.
Sandra hefur set-
ið á Alþingi sem
varaþingmaður, þar sem hún beitti
sér einkum fyrir skattfrelsi líknar-
félaga, neytendamálum og aðgerð-
um gegn barnaklámi á Netinu.
Sandra hefur um árabil tekið virk-
an þátt í starfi Samfylkingarinnar.
Sandra er 40 ára gömul. Hún lauk
BA prófi í stjórnmálafræði frá Há-
skóla Íslands og stundar nú meist-
aranám í lögfræði við Háskólann í
Reykjavík. Sandra er jafnframt öku-
kennari að mennt, og hefur einnig
starfað sem sjúkraliði.
Sandra er varaformaður Neistans,
styrktarfélags hjartveikra barna, og
vefstjóri heimasíðu Neistans.
„Ég hef mestan áhuga á neytenda-
málum, og vil skera upp herör gegn
okri símafyrirtækjanna sem ég tók
upp þegar ég sat á Alþingi sem vara-
þingmaður Samfylkingarinnar. Mér
eru einnig hugleikin málefni lang-
veikra barna, og hef gegnum Neist-
ann tekið þátt í baráttu fyrir bættum
aðbúnaði þeirra og betri kjörum for-
eldra langveikra barna. Samfylking-
in er á góðu skriði í Suðvesturkjör-
dæminu, og ég vil leggja mitt af
mörkum til að efla áhrif jafnaðar-
manna bæði í kjördæminu og á
landsvísu,“ segir í frétt frá Söndru.
Stefnir á
3.–4. sætið
Sandra Franks