Morgunblaðið - 02.02.2007, Síða 37

Morgunblaðið - 02.02.2007, Síða 37
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. FEBRÚAR 2007 37 þá var þetta gjarnan sungið. Oftast kom hún í lok ágústmánaðar og vildi helst eyða þar afmælisdegin- um sínum, 30. ágúst. Í minningunni er fjörðurinn spegilsléttur og alltaf sumarblíða þegar Lilja var á ferð fyrir vestan. Það var auðvitað alltaf farið til berja og síðari ár einnig til grasa en grösin færði hún svo tengdaforeldrum sínum sem kunnu vel að meta grösin góðu. Okkur systrum voru dýrmætar stundirnar í dalnum þar sem við í kyrrðinni nutum þess að taka upp nestið, tala saman eða þegja saman og njóta fagurrar náttúru. Lilja var næst mér í aldri og sam- band okkar alla tíð mjög náið. Þó að fjarlægðin í kílómetrum talið væri þónokkur, frá Bíldudal til Reykja- víkur, var alltaf stutt á milli okkar. Það er ekki sjálfgefið að upplifa slíka vináttu og eiga systur sína sem bestu vinkonu og trúnaðarvin. Við töluðum saman í síma dag- lega, stundum tvisvar á dag síðustu mánuðina. Í veikindum sínum sýndi hún mikið æðruleysi, styrk og einstakan dugnað sem ég dáðist að. Aldrei að kvarta og ekki verið að gefast upp, heldur tekið til við að prjóna á yngsta barnabarnið og síðan að hekla úr afgöngunum af garninu, dúllur í teppi alveg fram á síðustu stundu og eins og hún sagði sjálf, það er svo gaman að skapa eitthvað nýtt. Það eru ekki fáar flíkurnar sem hún saumaði á sig og dæturnar á árum áður með þvílíkt fallegu handbragði. Hún hefði eflaust orðið frábær hönnuður, svo nákvæm var hún, vandvirk og hugmyndarík. Systkinahópur okkar var stór, við ólumst upp á ástríku heimili hjá móður sem alltaf var til staðar og umvafði hópinn sinn af ástúð og hlýju. Alltaf tími til að lesa fyrir okkur eða klippa út einhver furðu- verk og þurrka tár af kinn þegar einhver átti bágt. Faðir okkar vann langa daga eins og vant var með feður á þessum tíma. Hann var ljúfur og góður við okkur þegar hans naut við. Lilja minntist þess fyrir skömmu þegar hún í fyrsta skiptið átti að fara í sveit á Álftamýri, þá smástelpa, og átti hún að vera eftir þegar séra Jón Ísfeld væri búin að messa en faðir okkar fylgdi honum oftast í þessum ferðum. Ekki er að orð- lengja það að hún rak í öskrið þegar faðir okkar var að fara aftur heim. Hún var bara tekin í fang föður síns sem sagði þegar þeir komu aftur að bryggju á Bíldudal: „Jæja, Lilja mín, þá ertu komin heim, þú varst þó klukkutíma í sveitinni.“ Lilja systir mín var einstök kona, hún hafði ríka réttlætiskennd, hugsaði vel um alla sína og umvafði þá með umhyggju sinni og elsku. Hún mátti aldrei neitt aumt sjá en hafði sterkan vilja. Hér á árum áður var langt fyrir okkur, sem bjuggum vestur á fjörð- um, suður til að sinna erindum og útrétta. Lilja taldi aldrei eftir sér að þeytast um bæinn þveran og endilangan ef okkur vanhagaði um eitthvað. Gilti þá einu hvort um fatnað, hurðarhúna, parket eða hvað annað var að ræða. Þegar Lilja kynntist lífsförunaut sínum, Árna Bergi Sigurbjörns- syni, vann hún á símanum heima í Bíldudal, hjá föðursystur sinni og nöfnu. Árni Bergur kom þá vestur til að kenna í Barnaskólanum. Þeirra líf var samofið upp frá því. Með honum eignaðist Lilja alveg einstaka tengdaforeldra og tengda- fólk. Stutt er síðan Árni Bergur mágur minn lést, aðeins rúmt ár. Minnist ég hans með virðingu og söknuði. Upp í hugann koma jóla- kortin, þar fylgdu alltaf kveðnar vísur sem nú eru varðveittar með hlýju og þökk. Árni Bergur og Lilja eignuðust þrjú börn sem öll eru góðum kost- um búin og eiga góða maka. Barna- börnin eru orðin tíu talsins. Ég bið góðan Guð að gefa þeim styrk, vaka yfir þeim og vernda alla tíð. Þau hafa fengið gott veganesti frá for- eldrum sínum, sem þau munu skila áfram til sinna afkomenda um ókomna framtíð. Ég þakka systur minni samfylgd- ina og kveð hana með sárum sökn- uði og þakklæti fyrir vináttu og kærleika. Guð blessi minningu þeirra hjóna. Kolbrún systir. Lilja var fyrsta barn foreldra okkar og naut hún þess án efa fyrstu æviárin að alast upp í návist afa og ömmu og föðursystur okkar Lilju sem afar sterk tengsl voru við á meðan báðar lifðu. Ég minnist þess sérstaklega hvað Lilja var alltaf fín og falleg og hvað ég var stoltur af henni. Í leikj- um og í félagslífinu í skólanum eða kirkjunni var Lilja virkur þátttak- andi og minningar um hana í ýms- um hlutverkum vekja ljúfar minn- ingar. Lilja sýndi snemma listræna hæfileika og voru dúkkulísurnar hennar og fötin á þær sem hún teiknaði góður mælikvarði á það. Ég man eftir því að hún ætlaði að verða tísku- eða fatahönnuður og svo ætlaði hún líka að verða skauta- drottning því að á því sviði sýndi hún mikla hæfileika. Þegar stórir hópar barna renndu sér á skautum á tjörninni fyrir neðan Glaumbæinn eða á Ósnum var Lilja drottningin sem ég dáðist að. Lilja byrjaði ung að vinna á sím- anum á Bíldudal en þar réðu ríkjum Lilja föðursystir okkar og Guðjón maður hennar. Þar var amma okkar Steinunn löngum í skjóli dóttur sinnar og það fór aldrei á milli mála að Lilja var stolt allra. Þegar Árni Bergur kom til Bíldudals aðeins tví- tugur að aldri til að kenna vakti hann strax mikla aðdáun okkar krakkanna. Þegar kynni þeirra Lilju tókust síðar fór ekki á milli mála að þessi nýi meðlimur fjöl- skyldunnar varð til þess að styrkja okkur öll. Lilja og Árni byrjuðu sinn búskap á Bíldudal og það var ferskur andblær sem kom inn í líf mitt og fá m.a. að hlusta á djass- tónlist á sjálfvirka plötuspilaranum og heyra útskýringar Árna á þeirri tónlist. Árni og Lilja fluttu til Reykjavíkur eftir að Harpa dóttir þeirra fæddist og hélt hann þá áfram náminu sem hann hafði gert hlé á, dyggilega studdur af Lilju. Á þessum árum bjuggu þau í litlu íbúðinni sinni á Lokastíg. Hjá þeim átti ég öruggt athvarf þegar ég var í Kennaraskólanum og alltaf var sama viðmótið hjá þeim. Lilja var miðpunkturinn í Reykjavík hjá okkur systkinum. Lilja var mjög trygg sínum uppruna og ég held að það hafi ekki fallið úr ár sem hún vitjaði heimahaganna. Í ágústmán- uði fór hún alltaf í dalinn sinn og tíndi ber og stundum fjallagrös. Umhyggja hennar fyrir mömmu og pabba var einstök og ég veit að eitt árið þegar hún bjó í Ólafsvík komst hún ekki vestur á sínum venjulega tíma. Í október hélst hún ekki leng- ur við og þrátt fyrir annir var ekið með hana inn í Dali og Kalli bróðir kom til móts við hana til að flytja hana heim. Í veikindum sínum kunni Lilja vel að meta að fá fjallagrös og krækiberjasaft úr dalnum sínum og þegar ég heimsótti hana ræddum við mest um gamla daga og slóðir feðranna. Hún hafði mikla ánægju af því. Dagana áður en hún kvaddi töluðum við mikið saman og ég held að við höfum öll trúað því að tíminn sem hún fengi yrði lengri. En við sem eftir stöndum með söknuð í hjarta trúum því að nú líði henni vel. Ég bið Guð að blessa minningu Lilju, systur minnar, og gefa börn- um hennar, Hörpu, Magneu og Garðari, ásamt fjölskyldum þeirra styrk á þessum erfiðu tímum. Jörundur Steinar Garðarsson. „Gott þú ert komin, ertu ekki með prjónana?“ sagði hún gjarnan þegar ég kom að heimsækja hana síðustu vikurnar. Okkur fannst gott að vera saman með handavinnu og spjalla, en stundin var aldrei nógu löng. Hún hafði mikinn áhuga á hannyrðum enda listfeng í höndun- um. Byrjaði ung að búa til föt, fyrst voru það tuskuföt á klemmudúkkur og pappírsföt á dúkkulísur. Seinna átti hún eftir að sauma prjóna og hekla á sjálfa sig og börnin sín. Ég lærði margt af Lilju sem var sex ár- um eldri en ég, byrjaði hún snemma að leiðbeina mér við eldhúsverkin og umönnun yngstu systkinanna og sagði mér til af mikilli röggsemi en ég var kannski ekki alltaf ánægð með stjórnsemi hennar í þá daga. Síðar urðum við nánar vinkonur og ég löngu búin að fyrirgefa henni verkstjórnina í æsku. Lilja kenndi mér margt, sérstaklega varðandi saumaskap. Hún var nákvæm í öll- um sínum verkum og lagði mikla áherslu á fallegan frágang, allt sem hún tók sér fyrir hendur vann hún af alúð og vandvirkni. Nú þegar hún er farin streyma minningarnar fram í hugann. Ég stend mig að því að hugsa af nokk- urri eigingirni: Hvað verður nú? Aldrei aftur á búðaröltið sem við skemmtum okkur gjarnan við, á kaffihús og bíó eða bara að eiga hana að. Ég átta mig á því að sorgin sem nú þjakar huga minn er sprott- in af gleðinni sem ég átti, á erfitt með að sætta mig við að komið sé skarð í stóra systkinahópinn. Það er svo margs að minnast, svo margt að þakka fyrir, að eiga Lilju að var svo oft ómetanlegt, eins og t.d. þegar ég eignaðist eldri dreng- inn minn, hafði verið send fyrirvar- alítið suður til öryggis. Þá naut ég umhyggju og vináttu hennar og Árna í litlu risíbúðinni við Lokastíg. Svo löngu síðar þegar Árni Bergur gifti okkur Jón í kyrrþey undir Jökli, hélt hún okkur dálitla brúð- kaupsveislu sem við hjónin minn- umst æ síðan með þakklæti. Hugurinn reikar vestur í fjörðinn okkar þar sem hún undi sér svo vel og hafði svo sterkar taugar til. Þangað varð hún að komast á hverju ári eftir að hún flutti að heiman. Til pabba og mömmu í Glaumbæinn, í fjöruferð í Auðahrís- dal þar sem gjarna var sungið „Er sumarið kom yfir sæinn“, og í dal- inn sinn til berja- og grasaferða. Hún var óþreytandi þegar hún komst í dalinn, eins og fjallageit með berjafötuna eða grasapokann og síðan var hreinsað og sultað er heim var komið. Í þessum árlegu ferðum heim kom hún ævinlega færandi hendi með gjafir til að gleðja og grét svo þegar hún fór, það tilheyrði að kveðjast með tár- um. „Það grætur bara allt og him- inninn líka,“ sagði litla stúlkan hennar hún Harpa, þegar kvatt var eitt haustið í rigningu og Lilja og mamma táruðust að venju. Himinninn grætur líka með okk- ur þessa dagana, þegar Lilja hefur kvatt í hinsta sinn og ég reyni að sætta mig við að fá ekki að hafa hana lengur. En minningarnar góðu sem ég á svo mikið af bægja burt rigningunni og myrkrinu og lýsa upp hugann, ég held áfram með handavinnuna mína og tala við systur mína í huganum. Ég bið Guð að geyma elsku Lilju og vaka yfir börnum hennar og fjöl- skyldu. Blessuð sé minning hennar. Áslaug Garðarsdóttir. Hún systir mín, Lilja, er dáin. Ég trúi varla þessum orðum. Hún elsku systir mín sem var á besta aldri og átti svo margt eftir að gera. Hún var næstelst af okkur átta systkinum og fyrst af okkur til að kveðja þetta líf. Við ólumst upp í Glaumbænum á Bíldudal. Þar var oft mikið fjör enda stór barnahóp- urinn. Lilja kynntist manni sínum, Árna Bergi, ung að árum. Hann kom sem ungur maður á Bíldudal til að kenna við grunnskólann. Árni lærði síðan til prests og þau fluttu til Ólafsvíkur. Árið 1985 fluttu þau til Reykjavíkur og hann varð sókn- arprestur í Áskirkju. Lilja systir studdi hann Árna sinn af ráðum og dáð og tók hlutverk sitt alvarlega. Þegar Árni veiktist síðan 2003 stóð hún sem klettur við hlið hans þar til hann lést í september 2005. Elsku systir mín greindist síðan sjálf með krabbamein í ágúst síðastliðnum og kallið kom alltof fljótt. Hver er undirbúinn fyrir andlát ástvinar? Ég held að það séu fáir, þó að viðkomandi sé alvarlega veik- ur. Mikið er sárt að hugsa til þess að fá ekki að sjá hana aftur. Hún var mér svo góð systir. Alltaf tilbú- in að hjálpa mér ef ég leitaði til hennar. Alltaf reiðubúin fyrir yngsta bróður sinn. Mér finnst að ég hafi aldrei getað þakkað henni þessa umhyggju nógu vel. Segir maður nokkurn tíma of oft við ást- vini sína hve vænt manni þyki um þá. Eitt er það sem aldrei er hægt að taka frá manni, það eru minning- arnar. Minningar til þess að ylja sér við. Minningarnar um mína elskulegu systur mun ég geyma sem gull í hjarta mínu. Þegar ég hugsa til baka kemur upp í hugann hve æskustöðvarnar okkar á Bíldudal áttu sterkar rætur í henni. Í lok hvers sumars í kring- um afmælið hennar kom hún vest- ur. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hún varð fertug. Þá hittist svo skemmtilega á að smokkfiskur kom í Arnarfjörðinn. Eyddum við nóttinni við smokkfiskveiðar á spegilsléttum firðinum upplýstum ljósum frá tugum annarra báta sem voru þar einnig við veiðar. Þeirri stund gleymi ég aldrei. Lilja bar mikla umhyggju fyrir elskulegum foreldrum okkar og okkur systkinunum öllum. Mamma okkar, hún Una, kvaddi þetta líf á síðasta ári hinn 26. maí. Stuttu áður hafði Lilja misst tengdamóður sína hana Magneu. Elsku pabbi lifir konu sína og dóttur. Hann dvelur á sjúkrahúsinu á Patreksfirði þar sem honum líður vel umvafinn hlýju. Lilja og Árni eignuðust þrjú börn sem öll eru uppkomin. Þau eru Harpa, Magnea og Garðar. Þau eru öll fjölskyldufólk og hafa eignast börn. Þau voru öll stolt Lilju og gleði. Nú mega þau sjá á eftir móð- ur sinni svona stuttu eftir föður- missinn. Mér finnst gott að hugsa til þess að nú er hún elsku systir mín umvafin kærleika hjá mömmu, Árna og tengdamóður sinni. Elsku pabbi, Harpa, Magga, Garðar og fjölskyldur og allir ást- vinir, megi Guð styrkja okkur öll í sorginni. Ég kveð elsku systur mína hana Lilju með þessu litla sænska ljóði, mér fannst hún alltaf syngja það svo fallega og af mikilli tilfinningu: Hvem kan segla forutan vind? Hvem kan ro uten åror? Hvem kan skiljas från vennen sin uten at felja tåror? Jag kan segla forutan vind, jag kan ro uten åror, men kan ei skiljas från vennen min uten at felja tåror. Kveðja. Sverrir bróðir. Systkinin átta, börn Magneu og Sigurbjörns, Skaftfellingar í húð og hár, völdu sér flest maka sem komu langt að, þrír komu frá útlöndum, þrír voru fæddir á Vestfjörðum og Lilja var ein þeirra. Hún var frá Bíldudal, þorpinu hlýlega þar sem miklar sveiflur voru í atvinnu- og menningarlífi á síðustu öld. Þar höfðu ýmsir djúpstæðir atburðir gerst sem mótuðu lífsviðhorf og lífsgæði heimamanna. Lilja bar Bíldudal við hjarta sér. Þar ólst hún upp í stórum og glöð- um systkinahópi, þar áttu þau Árni Bergur sitt fyrsta heimili, þar fæddist Harpa og yndisfagur Arn- arfjörðurinn umvafði allt mannlíf. Þangað leitaði hún og fjölskyldan í leyfum og komu endurnærð heim, þar var griðlandið, þar voru hennar rætur. Bíldudalur í Arnarfirði er okkur í stórfjölskyldunni öllum kær – vegna Lilju. Í sjávarþorpum eins og Bíldudal býr fólk í sífelldum námunda við dauðann. Koma allir bátarnir heim í kvöld? Lilja var sjómannsdóttir og þessi spurning bjó með henni. Hið skelfilega Þormóðsslys á stríðsár- unum markaði líf fólksins þar lengi fram eftir öldinni. Dauðinn er alltaf á næsta leiti. Sú staðreynd þroskaði með fólkinu vílleysi og trú. Það sáum við glögglega í baráttu Lilju hin síðustu ár við veikindi og andlát Árna Bergs og síðan í kjölfarið við fráfall Unu móður hennar og Magn- eu tengdamóður hennar. En ekki síst var kjarkur hennar, vílleysi og reisn okkur aðdáunarefni og til um- hugsunar hvernig hún tókst á við sinn hraðfara heilsubrest, en hún greindist tæpu ári eftir andlát Árna Bergs í ágúst síðastliðnum. Í þess- um erfiðu aðstæðum var það hún sem studdi okkur. Við höfum margt lært af Lilju í þeim stóru og djúpu sviðum lífsins. Hún kom ung inn í fjölskylduna og féll eðlilega inn í hópinn. Hún var þannig að öllum leið vel í návist hennar. Tengdamóðir hennar gladdist yfir samherja í hannyrð- unum og nutu þær samvistanna við þá iðju. Lilja var hreinskilin og heiðarleg og gladdist innilega á gleðistundum svo að það smitaði út frá sér en mætti líka erfiðleikum með æðruleysi og tókst á við þá. Lilja las mikið og var unnandi bókmennta, hafði næmt auga fyrir myndlist og eyra fyrir sígildri tón- list og hafði reyndar gullfallega söngrödd. Hún var fagurkeri, vand- lát og nákvæm með alla hluti Hún unni móðurmáli sínu, vandaði mál- far sitt, talaði fallegt og hljómfag- urt mál og sagði skemmtilega frá. Ambögurnar í máli jafnvel há- menntaðs fólks fóru í taugar henn- ar og hún hafði áhyggjur af þróun málsins og velti því gjarnan fyrir sér hvernig stæði á því að fólk bæri ekki móðurmál sitt meira fyrir brjósti. Það lék allt í höndum Lilju, svo sem matreiðsla, kökubakstur hverskonar hannyrðir og sauma- skapur sem kom sér nú vel þegar efnin voru takmörkuð og lítið úrval af fatnaði á markaðnum. Hún var hjálpsöm og óspör á sjálfa sig. Við gleymum því ekki þegar dóttur okkar í tónlistarnámi vantaði kjól til að vera í á mikilvægum tónleik- um. Lilja heyrði um áhyggjur henn- ar og brást fljótt við, sagði henni að kaupa efni og velja snið, settist við saumavélina og útkoman var lista- verk í öllum frágangi, draumakjóll sem studdi tónlistarkonuna ungu á tónleikunum sem gengu að óskum. Það er oft talað um barnalán og það hlutu þau Árni Bergur og Lilja. Börnin þeirra þrjú, þetta frábæra fólk, sterkir og skapandi einstak- lingar, bera æskuheimili sínu fag- urt vitni enda bjuggu þau við mikið foreldralán. Þau hlutu mikla elsku og umhyggju, virka nærveru og ögrandi verkefni til vaxtar og þroska. Og ekki dvínaði gleðin í Sporðagrunni 8 þegar tengdabörn- in bættust við sem hafa reynst tengdaforeldrum sínum fádæma vel. En mest var þó hátíðin þegar barnabörnin birtust hvert af öðru, Árnarnir og Liljurnar og allir hinir gimsteinarnir. Væru þau hjón frá- bærir foreldrar, hvaða orð á þá að velja um afann og ömmuna Árna Berg og Lilju. Árni Bergur skilaði ótrúlega um- fangsmiklu og dýrmætu dagsverki sem prestur og sálgætir, fræðimað- ur og kennari. Lilja stóð þétt við bak hans og skóp honum þá vinnu- aðstöðu sem hann þurfti. Þau fylgd- ust að, samtaka, samstiga, jafnt í erfiðum aðstæðum með ómegð á námsárum sem í átakamiklum verkahring sóknarprestsins sem var eftirsóttur til þjónustu langt út yfir sóknarmörkin. Lilja hafði þann innbyggða takt og nærfærni sem þurfti til að geta mætt fólki í öllum hugsanlegum aðstæðum og verið þeim styrkur. Umhyggja hennar í veikindum Árna Bergs var einstök, hún studdi hann, uppörvaði og hjúkraði. Veikindi hans og andlát voru henni mikið áfall en hún bar þjáningu sína af æðruleysi og í þeirri bjargföstu trú að allt væri í hendi Guðs. Lilja lagðist inn á Líknardeild LSH í Kópavogi skömmu fyrir jól. Þar fékk hún þá einstöku alhliða hjúkrun og umönnun sem einkennir þann góða stað. Hún hresstist það vel að hún gat haldið jólin heima umvafin kærleika sinnar yndislegu fjölskyldu. Hún naut þess mjög að ljúka við peysu á hinn yngsta Árna Berg hálfs árs gamlan sem var lif- andi tákn um sigur lífsins við dán- arbeð ömmu sinnar. Og meðan minningartónleikarnir stóðu yfir um Árna Berg í Áskirkju á afmæl- isdegi hans 24. jan., gekk hún frá

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.