Morgunblaðið - 23.04.2007, Qupperneq 14
14 MÁNUDAGUR 23. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
Gildi - lífeyrissjóður
Sætúni 1
105 Reykjavík
Sími 515 4700
www.gildi.is
gildi@gildi.is
Á R S F U N D U R
Ársfundur Gildis-lífeyrissjóðs verður haldinn á Grand Hótel,
Reykjavík miðvikudaginn 25. apríl 2007 kl. 17.00.
Dagskrá fundarins:
1. Venjuleg ársfundarstörf.
2. Tillaga til breytinga á samþykktum sjóðsins.
3. Tillaga um hækkun réttinda.
4. Önnur mál, löglega upp borin.
Tillögurnar liggja frammi á skrifstofu sjóðsins og er einnig
að finna á heimasíðunni, www.gildi.is
Allir sjóðfélagar eiga rétt til setu á ársfundinum með málfrelsi
og tillögurétti. Sérstakt fulltrúaráð, að jöfnu skipað fulltrúum
stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda sem að sjóðnum
standa, fer með atkvæði á ársfundinum.
Reykjavík 10. apríl 2007,
lífeyrissjóður
Stjórn Gildis-lífeyrissjóðs.
2 0 0 7
NURI al-Maliki,
forsætisráðherra
Íraks, sagði í
gærkvöldi að
hann hefði látið
stöðva fram-
kvæmdir við um
fjögurra metra
háan og umdeild-
an múr sem
Bandaríkjamenn
eru að reisa til að
aðskilja Adhamiya-hverfi súnníta
frá sjítahverfum í norðurhluta
Bagdad.
Unnið hefur verið á nóttunni við
að reisa múrinn til að koma í veg
fyrir árásir á hverfið en súnnítar
hafa gagnrýnt framkvæmdina.
Framkvæmdir
stöðvaðar
Skil Múrinn átti að
vera 5 km langur.
FÍDEL Castró, forseti Kúbu, átti
fund með kínverskri sendinefnd á
Kúbu fyrir helgi og er talið að þetta
séu fyrstu opinberu störf hans síð-
an hann var skorinn upp í fyrra-
sumar en vegna veikinda fékk
Castró bróður sínum völdin.
Castró á ferðinni
FIMM börn létust í eldsvoða á mun-
aðarleysingjaheimili í Sarajevo í
Bosníu í gærmorgun. Hjúkrunar-
kona og að minnsta kosti sautján
börn voru flutt slösuð á sjúkrahús
og tvö þeirra voru sögð þungt hald-
in.
Fimm börn létust
Eftir Ágúst Ásgeirsson
agas@mbl.is
NICOLAS Sarkozy, frambjóðandi
hægriflokksins UMP, stendur með
pálmann í höndunum eftir fyrri um-
ferð frönsku forsetakosninganna.
Samkvæmt fyrstu atkvæðatölum
sem birtar voru um klukkustund eft-
ir að kjörstöðum í Frakklandi var
lokað, fær hann um 30,4% atkvæða,
en keppinautur hans í seinni umferð-
inni, Ségolène Royal, frambjóðandi
Sósíalistaflokksins, fær 25,0%.
Franskir áhrifamenn í stjórnmálum
sögðu í gærkvöldi að úrslit kosning-
anna og gríðarleg kjörsókn sýndi, að
þjóðin vildi uppstokkun samfélags-
ins, og að í seinni umferðinni stæðu
kjósendur frammi fyrir tveimur afar
ólíkum hugmyndum og tillögum að
framtíð Frakklands.
Tvenns konar sýn
Fljótlega eftir að útgönguspár
voru birtar, en samkvæmt þeim
fengi Sarkozy 29,6% atkvæða og
Royal 25,1%, sagðist Sarkozy vilja
fylkja landsmönnum um nýjan
draum um framtíð er byggist á
„bræðralagi“ þjóðarinnar allrar. Það
eitt stæði hjarta hans næst. „Með því
að setja mig í fyrsta sæti og frú Roy-
al í annað settu kjósendur skýrlega
fram þá ósk að fá hreinar umræður
um tvenns konar sýn fyrir þjóðina,
tvær áætlanir um samfélagið, tvenns
konar gildiskerfi,“ sagði Sarkozy.
Hann höfðaði einnig til þeirra sem
telja að sér stafi viss ógn af honum
og stefnumálum hans með því að
segja að draumur hans væri að
Frakkland yrði lýðveldi bræðralags
þar sem enginn hefði neitt að óttast.
„Við alla Frakka sem bera ugg í
brjósti, vil ég segja, að ég ætla að
vernda þá gegn ofbeldi, gegn ólög-
hlýðni, gegn óréttlátri samkeppni í
viðskiptum, “ sagði hann.
Val um ólíkar leiðir
Ségolène Royal beið í tæpar tvær
stundir eftir að kjörstöðum lauk að
ávarpa kjósendur sína. Hún tók í
svipaðan streng og Sarkozy og sagði
kjósendur þyrftu í seinni umferðinni,
6. maí, að velja um tvær „afar ólíkar“
leiðir. „Við höfum tvo skýra kosti
fyrir framan okkur, afar ólíkar áætl-
anir fyrir samfélagið. Ég býð mig
fram í þágu allra þeirra sem telja það
ekki aðeins mögulegt, heldur lífs-
nauðsynlegt að brjótast út úr kerfi
sem gagnast engum lengur,“ sagði
Royal. Og hún bætti við: „Ný barátta
er að hefjast, eftir tvær vikur kjósa
Frakkar um örlög sín og yfirbragð.
Ég skora á alla sem telja unnt að
betrumbæta Frakkland án þess að
leika það hart, sem vilja manngildi
ofar gildum kauphallarinnar, sem
vilja binda enda á vaxandi óöryggi að
standa saman,“ sagði Royal.
Sarkozy beindi orðum sínum til
hennar í sínu ávarpi og bað um að í
seinni lotu kosningabaráttunnar
rökræddu þau fyrst og síðast um
stefnur sínar og hugmyndir um
framtíð Frakklands.
Í takt við skoðanakannanir
Allt benti til að úrslit fyrri umferð-
ar kosninganna yrðu í samræmi við
niðurstöður skoðanakannana. Í
þriðja sæti varð miðjumaðurinn
Francois Bayrou með um 18,8% at-
kvæða og í fjórða sæti öfgamaðurinn
Jean-Marie Le Pen með um 11,5%
Fylgi hans er þó minna en kannanir
höfðu mælt og munurinn á þeim
Bayrou meiri en samkvæmt könnun-
um. Sögðu stuðningsmenn Le Pen að
úrslitin hafi verið eins og köld sturta
fyrir þá. Um tíma virtist Bayrou
ógna Royal og meðal annars sakir
þess ríkti mikil spenna síðustu daga
um úrslitin, en fylgi hans dalaði þó á
síðustu vikum. Aðrir frambjóðendur
fengu mun minna fylgi. Í fimmta
sæti varð póstmaðurinn og trotskí-
istinn Olivier Besancenot með um
4,3% og sjötti þjóðernissinninn Phil-
ippe de Villiers með 2,7%. Hinir sex
frambjóðendurnir fengu frá 0,3%
upp í 1,8% atkvæða.
Mikil kjörsókn
Kjörsókn var meiri í fyrri umferð-
inni nú en nokkru sinni frá 1965 er
hún mældist 84,75%, en þá var
Charles de Gaulle kosinn forseti.
Endanlegar tölur um kjörsókn lágu
ekki fyrir í kvöld en jafnvel var talið
að metið félli. Næstmest kjörsókn
var 84,2% árið 1974 er Valery Gisc-
ard d’Estaing var kosinn forseti.
Kjörsóknin er rúmlega 10 prósentu-
stigum meiri en í síðustu kosningum,
2002, og sögðu stjórnmálaskýrendur
það til marks um að þjóðin vilji fá að
ráða meiru um framtíð sína.
Le Pen sagði í gærkvöldi að lík-
lega hafi þetta verið í síðasta sinn
sem hann býður sig fram í forseta-
kosningum. Hann sagðist hafa vænst
betri niðurstöðu en „mér hefur
skjátlast, metið stöðuna rangt,“
sagði hann um að hafna í fjórða sæti
og fá mun færri atkvæði en 2002, en
þá hlaut hann tæp 17% atkvæða og
varð í öðru sæti. „Ég hélt að Frakkar
væru óánægðir, en þeir eru afar sæl-
ir, sönnun þess er að þeir hafa kosið,
og það mjög afgerandi, flokkana tvo
sem hafa verið við völd og bera
ábyrgð á stöðu Frakklands,“ bætti
hann við.
Bayrou sagði að úrslitin sýndu að í
brjóstum rúmlega sjö milljóna kjós-
enda hefði vaknað von um nýja fram-
tíð Frakklands. Hét hann því að
bregðast ekki þeim þrám stuðnings-
manna sinna og sagðist myndu
áfram berjast ótrauður fyrir breyttu
samfélagi samkvæmt gildum miðju-
manna. Eins og Le Pen sagði hann
stóru flokkana tvo sem unnið hefðu í
kvöld bera ábyrgð á vandamálum
þjóðarinnar og sagði að þeim væri
ekki rótt vegna góðrar kosningar
hans. „Frönsk stjórnmál hafa breyst
frá og með kvöldinu í kvöld og verða
aldrei aftur eins og áður,“ sagði
Bayrou, en nú er eftir að móta af-
stöðu UDF-flokksins til seinni um-
ferðarinnar.
Frakkar kusu breytingar
Nicolas Sarkozy sigraði í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna
Sigurvegari Nicolas Sarkozy, frambjóðandi hægriflokksins UMP, fagnar
með stuðningsmönnum sínum í París eftir að fyrstu tölur voru birtar.
Reuters
Í öðru sæti Ségolène Royal, fram-
bjóðandi Sósíalistaflokksins.
ELDUR kom upp í færeyska
frystitogaranum Hercules þar
sem hann var í Kyrrahafinu vest-
ur af Chile á laugardag með þeim
afleiðingum að kínverskur skip-
verji lést. Níu landar hans voru í
gær taldir af sem og einn Rússi en
105 manns af ýmsu þjóðerni var
bjargað.
Ellefu taldir af
SVISSNESKI matvælaframleiðand-
inn Nestle hefur sent út tvær millj-
ónir súkkulaðistykkja til heimila í
Sviss til að reyna að koma fólkinu
aftur á bragðið, en salan datt niður
þegar skipt var um umbúðir og
bragðinu breytt örlítið.
Frítt súkkulaði
Mogadishu. AFP. | Að minnsta kosti
51 maður týndi lífi, þar af 42
óbreyttir borgarar, og meira en 60
særðust í átökum eþíópskra her-
manna og uppreisnarmanna íslam-
ista í Mogadishu, höfuðborg Sómal-
íu, í gær.
Þar með hafa um 220 manns fall-
ið í borginni síðustu fimm sólar-
hringa og jafnvel mun fleiri, því
sjónarvottar segja að látnir og
særðir séu úti um allt en ekki sé
hægt að komast að þeim vegna
hættunnar.
Ástandið í Mogadishu hefur verið
slæmt að undanförnu og versnar
með hverjum deginum. Lík rotna á
götum, byggingar eru eyðilagðar í
skotbardögum og fólk flýr borgina
sem aldrei fyrr.
Fjögurra daga linnulausir bar-
dagar í Mogadishu fyrr í mánuð-
inum kostuðu að minnsta kosti
1.000 manns lífið og var þá sagt að
bardagarnir væru þeir mestu í 15
ár. Sameinuðu þjóðirnar segja að
um 321.000 manns í það minnsta
hafi flúið borgina síðan í febrúar.
Margir hafist við í skjóli trjáa rétt
utan við borgina, án matar og lyfja,
og greint hafi verið frá útbreiðslu
sjúkdóma á þessum svæðum.
Reuters
Flóttamenn Margir íbúar Mogadishu í Sómalíu hafa flúið heimili sín og
kúldrast matarlitlir og án lyfja undir trjám í nágrenni borgarinnar.
Enn mikið mannfall