Morgunblaðið - 30.08.2007, Page 17
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. ÁGÚST 2007 17
SUÐURNES
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur
Reykjanesbær | „Það er mikil
ögrun fyrir listamann að taka
þessi þekktu myndefni úr Bibl-
íunni og túlka á sinn hátt. Þetta
hafa meistararnir gert í gegnum
aldirnar og mér fannst gaman að
vinna þessa sýningu,“ sagði
myndlistarkonan Sossa Björns-
dóttir í samtali við Morgunblaðið
en á Ljósanótt lýkur sýningu
hennar, „Biblíumyndirnar mín-
ar“, sem staðið hefur yfir í
Kirkjulundi, safnaðarheimili
Keflavíkurkirkju, í allt sumar. Á
sunnudag verður sýningin kvödd
með formlegum hætti með hug-
leiðingum þriggja fræðimanna út
frá myndunum. Yfirskriftin er
„Madonnan á Miðnesheiði“.
Trúin, guðsóttinn og Biblían
hafa spilað stórt hlutverk í lífi
listakonunnar Sossu þó að hún
segist ekki trúaðri en gengur og
gerist. Hún var þó að miklu leyti
alin upp í Keflavíkurkirkju enda
þjónaði faðir hennar, séra Björn
Jónsson, þar lengi fyrir altari.
Hún fór yfirleitt í barnamessu á
sunnudögum þar sem krakkarnir
fengu litlar biblíumyndir í
messulok.
Er Guð ekki kona?
„Ég safnaði þessum myndum
og átti mínar uppáhaldsmyndir.
Þegar séra Skúli Ólafsson kom
að máli við mig með þá hugmynd
að ég héldi sýningu rifjuðust upp
fyrir mér ýmis þau mótíf sem
myndirnar höfðu að geyma og
ekki síst þær hugsanir sem
kviknuðu. Myndirnar eru sjö sem
er heilög tala og þetta eru mínar
biblíumyndir,“ sagði Sossa í sam-
tali við blaðamann.
Sossu þótti við hæfi að setja
myndefnið inn í þann raunveru-
leika og það umhverfi sem hún
ólst upp við og má í verkunum
sjá kunnugleg fjöll og staði, eins
og Snæfellsjökul, Keili og Bás-
inn, svo eitthvað sé nefnt.
Annað sem vekur athygli í
nokkrum verkanna er fiskar.
Sossa sagðist hafa verið upptekin
af fiskisögunum í Biblíunni.
„Sögurnar í Biblíunni eru sögur
af veiðimönnum, t.d. eru læri-
sveinarnir allir veiðimenn. Fisk-
urinn er auk þess tákn kristinnar
trúar og mér fannst ekki síður
gaman að tengja þetta við sálna-
veiðar,“ sagði Sossa. Í sex mynd-
um af sjö er vísað til hluta úr
einhverju guðspjallanna, en við
það sjöunda er ljóð eftir Snorra
Hjartarson, „Ung móðir“. „Þegar
ég fór að vinna við myndirnar
komu ákveðin mótíf strax upp í
hugann. Ég vann margar mynd-
irnar í samstarfi við pabba minn
og áttum við skemmtilegar um-
ræður um verkin. Pabbi á því
stóran þátt í þessari sýningu,“
sagði Sossa og þakkar föður sín-
um og hinum „meisturunum“ fyr-
ir innblásturinn.
Konur, mæður og börn eru
ekki síður áberandi í biblíumynd-
um Sossu, enda aðalpersónur í
Biblíunni samhliða fiskimönnun-
um. Má nefna mótíf eins og Boð-
un Maríu og Fæðingu frelsarans,
auk móðurinnar ungu. Konur eru
Sossu hugleikið myndefni, hvort
sem um er að ræða lærisveinana
eða Jesú. Biblíumyndirnar hafa
annað slagið ratað á strigann hjá
Sossu en hún segist ekkert endi-
lega ætla sér að vinna þetta í
framtíðinni.
Keflavík – Kaupmannahöfn
Framundan eru tvær sýningar
í Kaupamannahöfn sem hún hef-
ur að undanförnu unnið að,
ásamt því að opna vinnustofu
sína í Keflavík á Ljósanótt á
laugardag og í Kaupmannahöfn á
menningarnótt 12. október nk.
„Eins og undanfarin ár verð ég
með í Art Copenhagen í Kaup-
mannahöfn, þar sem öll helstu
gallerí í Kaupmannahöfn sýna
sína listamenn. Þessi sýning
verður 21. til 23. september og
verk mín þar verða með ýmsu
móti. Hins vegar verður „hreyf-
ing“ þema sýningar sem haldin
verður á verkum mínum í Sct.
Gertrude-galleríinu hinn 6. októ-
ber. Þar hef ég haldið sýningu
undanfarin 13 ár.“
Undanfarin þrjú ár hefur
Sossa verið með vinnustofu í
Kaupmannahöfn enda sagði hún
ófært að vera alltaf að flytja
verkin á milli landa. Hún sagði
það líka henta sér vel að skipta
sér á milli landanna. Hún máli út
í eitt í Kaupamannahöfn, enda
meiri friður.
Þeir sem vilja skoða nýjustu
verk Sossu geta litið inn á vinnu-
stofu hennar í Keflavík milli kl.
14 og 19 á laugardag en hugleið-
ingar út frá biblíumyndum henn-
ar verða í Kirkjulundi á sunndag
kl. 17. Þar flytja dr. Gunnar
Kristjánsson, prófastur Kjalar-
nesprófastsdæmis, sr. Skúli S.
Ólafsson, sóknarprestur í Kefla-
víkurkirkju, og dr. Hákon Leifs-
son, organisti í Keflavíkurkirkju,
stutt erindi undir heitinu: Ma-
donnan á Miðnesheiði.
Madonnan á Miðnesheiði
Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Madonna Listakonan Sossa við verkið Immanuel (Madonna í Básnum)
sem fjallar um túlkun guðspjallamannsins Matteusar á fæðingu Jesú.
Reykjanesbær |
Frændur vorir,
Færeyingar,
koma víða við
sögu á Ljósanótt
í Reykjanesbæ.
Félagar úr Dans-
ifélaginu í Þórs-
höfn verða gestir
á hátíðinni og
bjóða upp í fær-
eyskan dans auk þess sem sýnd verður
tíska, myndlist og ljósmyndir frá Fær-
eyjum.
Tíu félagar úr ljósmyndafélaginu Fók-
us sýna ljósmyndir frá Færeyjum. Sýn-
ingin Hugnám verður í Kjarna við Hafn-
argötu, við Bókasafn Reykjanesbæjar.
Hún verður opnuð í dag og stendur út
septembermánuð. Í tengslum við sýn-
inguna mun Bókasafn Reykjanesbæjar
sýna færeyska muni og bækur.
Félagar úr Fókus ferðuðust um Fær-
eyjar í vor. Farið var vítt og breitt um
eyjarnar og tekið hús á Færeyingum og
allt myndað í bak og fyrir. Þeir hrifust
af Færeyjum og Færeyingum eins og yf-
irskrift sýningarinnar bendir til. Gefa
þeir, í samvinnu við Bókasafn Reykja-
nesbæjar, gestum Ljósanætur 2007 kost
á að upplifa með sér Færeyjar með því
að skoða myndir af húsum, fólki og
landi.
Sýnendur eru Anna Jonna Ármanns-
dóttir, Einar Ásgeirsson, Elín Þórð-
ardóttir, Georg Theodórsson, Guðmar
Guðjónsson, Helga Jörgensen, Helgi
Bjarnason, Kim Mortensen, Rafn Sig-
urbjörnsson og Sæþór L. Jónsson.
Fókus er félag áhugaljósmyndara með
aðsetur í Reykjavík og hefur starfað í
rúm átta ár. Félagið er opið öllu áhuga-
fólki um ljósmyndun, jafnt byrjendum
sem lengra komnum, að því er fram
kemur í fréttatilkynningu. Félagsmenn
eru um sjötíu talsins.
Sýna ljósmyndir
frá Færeyjum