Morgunblaðið - 11.01.2008, Qupperneq 33
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. JANÚAR 2008 33
✝ Jón Gíslasonfæddist á Skála-
felli í Suðursveit
hinn 25. mars 1963.
Hann lést á heimili
sínu í Hraunbæ 42
hinn 1. janúar síð-
astliðinn. Foreldrar
Jóns eru Ingunn
Jónsdóttir frá
Skálafelli í Suð-
ursveit, f. 24.4.
1940 og Gísli Skúla-
son frá Leiti í Suð-
ursveit, f. 16.11.
1939. Ingunn giftist
Eggerti Bergssyni, f. 28.11. 1929,
þegar Jón var á fyrsta aldursári
og gekk hann honum í föðurstað.
Gísli kvæntist Önnu Fjal-
arsdóttur, f. 17.2. 1947, og eru
þau búsett í Reykjavík. Jón eign-
aðist fjögur hálfsystkini að móð-
ur, þau eru Bergdís I. Eggerts-
dóttir, f. 18.3. 1965, Pálína S.
Eggertsdóttir, f. 12.2. 1969,
Sonja Eggertsdóttir, f. 7.12. 1972
og Hlynur Eggertsson, f. 20.11.
1973. Jón eignaðist þrjú hálf-
systkini að föður, þau eru Fjal-
arr, f. 4.6. 1968, Halldór, f. 2.6.
1973, d. 12.4. 2002, og Anna
Beta, f. 23.5. 1988.
Jón ólst upp í
Kópavoginum hjá
móður sinni og
fósturföður. Að
loknum grunnskóla
lærði hann húsa-
smíði hjá fóstur-
föður sínum og
starfaði lengst af
hjá honum ásamt
Hlyni bróður sín-
um. Jón lauk prófi í
húsasmíði frá Iðn-
skólanum í Reykja-
vík og útskrifaðist
sem byggingariðnfræðingur frá
Tækniskóla Íslands. Hann stofn-
aði verktakafyrirtækið Heinar
ehf fyrir nokkrum árum síðan og
starfaði sjálfstætt upp frá því.
Bílar og mótorhjól skipuðu stór-
an sess í lífi Jóns. Sérstaklega
hjólin. Hann var virkur með-
limur í Sniglunum, Bifhjóla-
samtökum Lýðveldisins, og ferð-
aðist töluvert með þeim í
gegnum árin, bæði innan lands
og utan.
Útför Jóns fer fram frá Hjalla-
kirkju í Kópavogi í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
Með þessum sálmi viljum við
kveðja ástkæran son okkar Nonna.
Á kertinu mínu ég kveiki í dag
við krossmarkið helgi og friðar
því tíminn mér virðist nú standa í stað
en stöðugt þó fram honum miðar.
Ég finn það og veit að við erum ei ein
að almættið vakir oss yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Við flöktandi logana falla nú tár,
það flýr enginn sorgina lengi.
Hún braut allar vonir, hún braut allar
þrár,
hún brýtur þá viðkvæmu strengi,
er blunda í hjarta og í brjósti hvers
manns.
Nú birtir, og friður er yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Sá einn þekkir gleðinnar gáska og fjör
sem gist hefur þjáning og pínu.
Sá einn getur sigrast á ótta og kvöl
sem eygir í hugskoti sínu,
að sorgina við getum virkjað til góðs,
í vanmætti sem er oss yfir,
ef ljósið á kertinu lifir.
(Kristján Stefánsson frá Gilhaga)
Með hjartans þökk fyrir allt.
Mamma og pabbi.
Í stórum systkinahópi vill það oft
verða þannig að þau sem næst eru
hvert öðru í aldri tengjast best. Sér-
staklega kannski framan af æskuár-
unum. Og þannig var þessu einmitt
háttað hjá okkur systkinunum. Það
var talað um Nonna og Beddý og svo
Sonju og Hlyn. Pála systir var
miðjubarnið sem neyddist til að leita
út fyrir systkinahópinn til að finna
sér leikfélaga. Og þó, hún hafði auð-
vitað Bjössa frænda sem var alltaf
eins og bróðir okkar.
Á milli okkar Nonna voru aðeins 2
ár og við vorum mjög náin sem börn.
Þær voru margar ferðirnar í Bláfjöll
á skíði, Melavöllinn og tjörnina á
skauta og svo auðvitað í sveitina öll
sumur. Nonni var elstur í hópnum
og hafði mikla ábyrgðartilfinningu
gagnvart yngri systkinum sínum,
enda var hann oft látinn passa. Að
vísu gat hann verið pínu viðutan og
einu sinni gleymdi hann hreinlega að
sækja systur sínu (miðjubarnið) á
leikskólann. En það kom ekki að
sök; Hreyfill kom til bjargar og sótti
barnið.
Nonni var alltaf frekar rólegur og
hlédrægur, feiminn jafnvel. Honum
gekk vel að læra og las alltaf mikið.
Allar Enid Blyton-bækurnar voru
lesnar upp til agna í sveitinni og hið
sama má segja um Tinna-bækurnar.
Þær voru jafnvel lesnar í skólanum!
Músík var honum líka mjög hugleik-
in og þar hafði hann mjög svo fjöl-
breyttan smekk; Bubbi, Dylan, Bítl-
arnir, Queen, Sniglabandið, U2,
o.s.frv., o.s.frv.
Áður en mótorhjólin heltóku
Nonna gengu yfir hin ýmsu dellu-
skeið. T.d. módelin, skákin, gullfisk-
arnir og svo auðvitað blómaræktin.
Á tímabili var herbergið hans eins
og blómabúð! En eftir að mótorhjól-
in komu til sögunnar voru þau núm-
er 1, 2 og 3. Meira að segja í bruna-
gaddi og snjóþyngslum mátti
stundum sjá Nonna úti á hjólinu. Þá
bara klæddi hann sig í góðan kulda-
galla og lét sig hafa það.
Þó blóma- og gullfiskaæðin
gengju yfir tók hann þó upp á því að
vera með fugla fyrir fáum árum síð-
an. Trúlega tengdist það sterkri
löngun hans til að eignast sína eigin
fjölskyldu. Honum gekk ekki vel í
samböndum og varð ekki barna auð-
ið. Hann var í mjög góðu og nánu
sambandi við foreldra sína og systk-
ini, sérstaklega framan af, en trú-
lega fannst honum hann alltaf svolít-
ið utangátta þegar við komum öll
saman með börnin okkar. Þá stað-
reynd tel ég hafa háð honum ansi
mikið og jafnvel ýtt frekar undir
vanlíðan hans og einangrun síðustu
árin.
Undir það síðasta leið Nonna
bróður ekki vel og hann ákvað sjálf-
ur sinn brottfarartíma. Þá ákvörðun
hafa hans nánustu ákveðið að virða.
Enda væri það eigingirni af okkar
hálfu að vilja halda honum þar sem
honum leið ekki vel. Hann gerði
fjárhagslegar ráðstafanir vegna
allra sinna skulda og kvaddi sína
nánustu. Það er líka svolítið dæmi-
gert fyrir Nonna stóra bróður minn;
hugulsemi og umhyggja fyrir sínum
nánustu. Núna líður honum betur og
fyrir það erum við þakklát.
Bergdís Eggertsdóttir,
(Beddý) systir.
Nú sit ég og hugsa um allar minn-
ingarnar þegar við Nonni bróðir
vorum lítil, það var svo gaman að
vera svona stór systkinahópur. Sér-
staklega á jólum og páskum þegar
mikið var spilað; Monopoly og
Hornafjarðarmanna langt fram á
nótt (eða þangað til pabbi kom og
skipaði öllum í rúmið).
Nonni bróðir var góður smiður og
mjög vandvirkur. Ég er þakklát fyr-
ir að hann vann áamt pabba og
Hlyni bróður í húsinu sem við Nikki
eigum í dag. Allt sem hann vann fyr-
ir okkur gerði hann svo vel.
Nonni var frekar rólegur og dulur
en ofboðslega góður í sér og talaði
aldrei illa um nokkurn mann. Ég
veit að hann átti góða æsku og var
hamingjusamur alveg þangað til fyr-
ir fáum árum. Þá fór honum að líða
illa og undanfarna mánuði fór hann
að einangra sig. Ég sá að honum leið
ekki vel síðast þegar við hittumst á
aðfangadagskvöld.
Núna veit ég að Nonna líður bet-
ur, hann er kominn til afa. Megi Guð
hjálpa mömmu og pabba í gegnum
sorg þeirra.
Pálína systir (Pála).
Hér sit ég og ætla að reyna að
skrifa nokkur orð um Nonna bróður.
Ég leit alltaf upp til hans því hann
kenndi mér svo margt af því sem ég
kann. Þó að hann hafi verið svolítið
lokaður átti ég alltaf auðvelt með að
tala við hann. Ég er nokkuð viss um
að ég hafi verið „aðeins“ meiri
prakkari en hann, enda var Nonni
aldrei stríðinn. T.d. man ég vel þeg-
ar ég var að gramsa í dóti systkina
minna eða að henda vatnssprengjum
inn til nágrannanna á Nýbýlaveg-
inum. Svona hefði Nonni aldrei gert.
Ég man alltaf þegar hann velti
einum bílnum sínum á leiðinni aust-
ur í Suðursveit til ömmu og afa. Þar
líkaði honum alltaf svo vel. Hann átti
marga bíla; Vauxhall Vivu, Willys,
Playmouth, nokkrar Novur, Mözdu
og svo auðvitað hvert mótorhjólið á
fætur öðru. Einu sinni fengum við
Raggi mótorhjól „lánað“ hjá honum
þegar hann var í sveitinni en hann
benti mér á að betra væri að vera
eldri en 11 ára og hafa réttindi. Og
ekki var hann nískur á bílana sína
heldur lánaði mér bíl hvenær sem
var og bauð það jafnvel að fyrra
bragði. Hið sama gilti um pening,
alltaf var hann tilbúinn að lána mér.
Ég man eftir fyrsta jeppatúrnum,
þá fór Nonni bróðir með mig niður í
Kópavogsgryfjur þar sem Málning
stendur í dag. Strákarnir vinir hans
voru á öðrum bíl en við á Willysinum
nýuppgerðum. Þá var keyrt hratt og
gefið vel í og sjaldan hef ég skemmt
mér betur.
Nonni bróðir vann alltaf mikið,
hvort sem það var til sjós eða að
smíða. Við byrjuðum að vinna saman
hjá pabba og Sæmundi árið ’89 og
höfum unnið meira og minna saman
með hléum til dagsins í dag. Ég var
lærlingur en hann búinn að klára
námið og lærði ég ótal handtök af
honum. Hann var svo vandvirkur,
hvort sem hann var að fræsa eða
gera eitthvað annað. Alltaf gekk
hann frá verkfærunum sínum eftir
notkun og voru þau öll merkt sér-
staklega. Ég er víst ekki eins góður í
því.
Ég mun alltaf vera stoltur af því
að hafa átt hann sem bróður, ég mun
geyma minningu hans í huga mér og
ég trúi því að honum líði betur núna.
Hlynur bróðir.
Hann Nonni er dáinn! Sú harma-
fregn barst mér á nýárskvöld.
Sláttumaðurinn mikli hafði verið á
ferð.
Minningarnar sækja á, ég átti
margar góðar stundir með Nonna og
er þakklát fyrir að hafa fengið tæki-
færi til þess. Þegar ég var á tíunda
ári og vissi að Inga systir mín ætti
von á barni og það yrði ungabarn á
heimilinu var tilhlökkunin mikil.
Loksins fengi ég barn að passa sem
ég gæti keyrt út í kerru og leikið
mér með. Hann fæddist á Maríu-
messu uppi á lofti í gamla húsinu,
herberginu sem nú er næturstaður
minn á sumrin. Mér fannst ég hafa
eignast lítinn bróður. Öll uppvaxt-
arárin dvaldi Nonni í sveitinni hjá
afa sínum og ömmu . Hann kom eins
og farfuglarnir á vorin og fór að
hausti, oft voru felld tár þegar kvatt
var.
Nonni var dagfarsprúður drengur
með jafnaðargeð. Það þurfti ekki
mikið fyrir honum að hafa og hann
undi sér vel hvort sem var í leik eða
starfi. Þá höfðu börnin í sveitinni
ákveðin verk að vinna. Snemma kom
í ljós hvað hann var hagur í höndum,
hamarinn lék í höndum hans, allt frá
því hann sem lítill drengur reisti hús
yfir hornin sín til þessa dags. Það
eru ekki mörg húsin á Skálafelli sem
Nonni hefur ekki rekið nagla í.
Hann fór ekki fram úr sér, eins og
sagt er, úthugsaði hlutina, mældi,
punktaði hjá sér og hófst handa.
Honum vannst vel, vandvirkni var
honum eðlislæg, var gætinn og
traustur. Nonni hélt því að koma ár-
lega austur, oft tvisvar til þrisvar á
ári. Oftast kom hann akandi á bíl en
alltaf eina ferð á hjólinu, áhugi hans
á mótorhjólum var mikill. Í sumar-
ferðinni var hann vanur að fara á
sína uppáhaldsstaði. Hann þekkti
vel og hélt tryggð við sveitina sína,
Suðursveit, þar voru rætur hans.
Nonni gat verið þögull og flíkaði
ekki tilfinningum, hann hélt sínu
striki og var samkvæmur sjálfum
sér. Það var gaman að spjalla við
hann, sérstaklega þegar hann hló
sínum smitandi hlátri sem hreif aðra
með. Nonni dvaldi oft hjá okkur á
páskum, líka kom hann um jól. Þá
voru þrír Jónar við matarborðið á
aðfangadagskvöld. Á nýársnótt 2006
var Nonni með okkur og fagnaði
nýju ári, þá um sumarið kom hann í
síðasta sinn. Af hverju kom hann
ekki í fyrra – var hann ef til vill að
undirbúa lengra ferðalag eða ekki
ferðafær? Nú er einum farfuglinum
færra, hann er farinn til æðri heima.
Nonna er sárt saknað af ættingjum
og vinum, en minning um góðan
dreng yljar á sorgarstundu. Guð
geymi „litla bróður minn“ og einnig
háaldraða ömmu hans Pálínu sem
getur ekki fylgt honum til grafar.
Hún fór um hann mjúkum höndum
þegar hann var í hennar umsjá og
hann átti stórt pláss í hjarta hennar.
Ég sé fyrir mér mynd af Nonna þar
sem hann stendur við útidyrahurð-
ina sem hann smíðaði á gamla húsið
til að halda kulda frá afa sínum og
ömmu, strýkur með annarri hendi
um þykkt hárið og virðir fyrir sér
útsýnið, er með mótorhjólahjálminn
í hinni hendinni. Hann hefur kvatt
og er farinn í ferðalag. Þannig mun
ég minnast hans.
Elsku Inga og Eggert – Gísli og
Anna, systur og bræður og aðrir ást-
vinir. Minning lifir, guð gefi ykkur
styrk.
Þóra V. Jónsdóttir.
Nonni minn, frændi minn.
Nú kveðjumst við.
Mér er búin að vera hugleikið
þetta mannakorn úr biblíunni síðan
ég fékk fréttina um andlát þitt.
Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann
mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun
eigi að eilífu láta réttlátan mann verða
valtan á fótum.
(Sálmarnir 55:23)
Nú er víst komið að kveðjustund,
Og mér er mikið brugðið, átta mig
ekki alveg á þessu enn.
Ég er svo heppin að eiga þína fjöl-
skyldu að. Og þar er fremst í flokki
móðir þín, hún Inga móðursystir
mín, sem er einstök móðir og hefur
reynst okkur systkinum sem slík
alla tíð. Það er komið stórt skarð í
okkar samhentu fjölskyldu.
Sem enginn getur fyllt upp í.
Ég þakka þér fyrir þína góðu
nærveru og umhyggju í minn garð
alla tíð.
Ég veit að það er mikið að segja,
en minningar vil ég geyma hjá mér.
Þökk fyrir þér að þakka. Og þökk
sé þér fyrir allt og allt.
Hugur minn er hjá þér, elsku
Inga móðursystir mín, elsku Eggert
minn, og frændsystkini, Beddý, Pál-
ína, Sonja og Hlynur. Ég bið að góð-
ur guð gefi ykkur allan sinn styrk
nú, og ávallt um alla framtíð.
Sæll að sinni, Nonni minn.
Frænkan þín,
Kristrún.
Mig langar að skrifa kveðju um
Nonna systurson minn. Aldrei hefur
mér orðið eins illa við og þegar mér
var flutt fregnin um ótímabært and-
lát hans. Þá slitnaði strengur sem
var bundinn á Skálafelli í Suðursveit
fyrir tæpum 45 árum, en ég fékk
nístandi höfuðverk þegar mér bár-
ust þessar fréttir. Nonni var fyrsta
barnabarn foreldra minna og alnafni
föður míns. Ég var mikið með
Nonna fyrstu æviár hans, hann var
rólegt barn og þurfti aldrei mikið
pláss og hafði góða nærveru sem
einkenndi hann alla tíð. Það sem
kom strax í ljós var hvað hann átti
gott með að læra enda gekk honum
afskaplega vel bæði í bók- og verk-
námi. Hann var góður smiður og í
mínu húsi er margt sem hann hefur
smíðað en það mun alltaf minna mig
á hann með sitt góða og rólega fas.
Ég kveð Nonna frænda minn með
þessum orðum:
Samvera var sómi þinn,
söknuðurinn verður minn,
alltaf þegar einhver fer
hjartfólginn að hjarta mér.
Róshildur frænka.
Þegar sól rís á himni táknar það
líf. Þegar sól hnígur til viðar dofnar
yfir lífi og gróðri. Ég minnist þess
dags, þegar Jón systursonur minn
kom í heiminn. Þá var sól tekin að
hækka á lofti og vorið á næsta leiti
með vaxandi lífi. Þótt daginn sé ör-
lítið tekið að lengja, nú þegar Nonni
fellur frá, þá er samt svartasta
skammdegi og gróður liggur í dvala.
Þótt sú hugsun hvarfli að manni
þegar góður drengur fellur frá, að
sólin muni ekki aftur rísa, þá veit
maður samt að sólin mun koma upp
aftur og lífið halda áfram. Ég fylgd-
ist með Nonna vaxa úr grasi jafnt í
sveit sem í borg. Þegar hann var
tveggja ára setti ég hann á drátt-
arvél og hann var fljótur að grípa í
stýrið. Áhugi hans á vélknúnum
ökutækjum varð strax mikill og þeg-
ar hann hafði aldur til urðu mót-
orhjólin hans sérstaka áhugamál.
Fyrir rúmum tuttugu árum keypti
ég af honum mótorhjól og gaf í skyn
að ég ætlaði að gerast snigill. Nonni
frændi hafði fá orð um það, enda
kom á daginn að ég entist ekki á
mótorhjóli nema mánuð.
Við Nonni brölluðum ýmislegt.
Þegar við vorum eitt sinn í sveitinni,
hann 18 ára, fórum við á fjöru á
bensíntraktor með bát í eftirdragi.
Komið var fram á kvöld í byrjun
ágúst og traktorinn varð bensínlaus
úti á fjörunni. Datt okkur þá í hug að
fara á bátnum yfir Uppsalalónið.
Gekk okkur erfiðlega að ná landi
hinum megin, og vorum að þvælast
fram og til baka um lónið alla nótt-
ina og náðum hvergi landi, vorum
annaðhvort strand eða í djúpum
straumþungum álum, og réðum ekk-
ert við þungan bátinn. Og báturinn
lak líka og tróð Nonni vettlingi í gat-
ið. Nonni frændi hélt sinni geðró,
þótt að honum hvarflaði, þegar fór
að nálgast morgun, að skipstjórinn
vissi kannski ekki hvað hann væri að
fara. Sagði hann rólega að það væri
einkennilegt að fara frá landi, þegar
menn ætluðu í land. Hann treysti
sér samt til að fara með mér á sjó
eftir þetta.
Nonni átti létt með nám. Hans að-
alsmerki var samt hans einstaka
prúðmennska og góðmennska. Aldr-
ei vissi ég til að hann stæði í illindum
við nokkurn mann, eða bæri kala til
nokkurs. Hef ég stundum óskað mér
að ég hefði hans skapgerð. Sagt er
að guðirnir elski þá sem deyja ungir.
Við sjáum þig ekki koma aftur á
hjólinu upp Uppsalaveginn, nema í
minningum. Góður drengur er geng-
inn.
Við kveðjum þig kæri frændi og
vinur. Við eigum eftir að hittast aft-
ur. Kannski verð ég þá búinn að fá
mér mótorhjól.
Sigurgeir og Elsa.
Kæri Jón frændi.
Þó að ég muni nú lítillega eftir því
að hafa hitt þig í Daltúninu í gamla
daga þá þekktustum við nú ekki svo
mikið enda nokkurra ára aldurs-
munur á okkur.
En það var svo fyrir nokkrum ár-
um að við hittustum aftur, þú, ég og
Rósa, og hittumst við nokkrum sinn-
um um tíma og var ótrúlega gaman
að fá að kynnast þér.
Ég þakka þau kynni og gaman að
fá að hitta þig aftur og fá fréttir af
þér og þínum …
Ég bið að heilsa, sæll að sinni og
ég þakka guði fyrir kynni okkar.
Aðstandendum öllum sendi ég
samúðarkveðjur. Þín frænka
Helga Marteinsdóttir,
Hvammstanga.
Jón Gíslason
Við burtför þína er sorgin sár
af söknuði hjörtun blæða.
En horft skal í gegnum tregatár
í tilbeiðslu á Drottin hæða.
og fela honum um ævi ár
undina dýpstu að græða.
(Guðrún Jóhannsdóttir)
Kveðja
Sonja systir.
HINSTA KVEÐJA
Fleiri minningargreinar um Jón
Gíslason bíða birtingar og munu birt-
ast í blaðinu næstu daga.