Morgunblaðið - 03.03.2008, Blaðsíða 17
|mánudagur|3. 3. 2008| mbl.is
daglegtlíf
Þ
ær hafa ekki hugmynd um hver er
fyrsta minning þeirra um hesta
enda hálfaldar upp í hesthúsinu
hjá foreldrum sínum, hinum
kunna hestamanni Sigurbirni
Bárðarsyni og Fríðu Hildi Steinarsdóttur.
Hin 23 ára Sylvía vinnur með pabba sínum í
Víðidalnum og Sara er 16 ára kvenna-
skólanemi sem ver öllum frítíma sínum í
hestana og það er nóg að gera með um 40
hesta á húsi.
Þegar Morgunblaðið leit inn á annað heim-
ili þessarar samhentu fjölskyldu var léttur
keppnisandi í loftinu því þær systur stefna á
að keppa á laugardaginn kemur í árlegu ís-
töltsmóti kvenna er kallast Svellkaldar konur.
Það er víst óhætt að segja að þær systur
standi vel undir heiti keppninnar því þær eru
sagðar harðduglegar og flinkar enda ekki óal-
geng sjón að sjá þær þeysandi um með
nokkra til reiðar í Heiðmörkinni.
Þrjá bræður eiga þær líka, Steinar sem er
atvinnumaður í hestamennsku í Kaliforníu,
Styrmi sem er einnig atvinnutamningamaður
og loks yngsta meðliminn Sigurbjörn sem er
sagður hafa engan áhuga á hestum – en er
það hægt í þessari fjölskyldu? „Styrmir hafði
heldur aldrei neinn áhuga á hestum en fyrir
3-4 árum byrjaði hann fyrir alvöru í þessu.
Sigurbjörn (yngri) hefur þetta í sér, hann er
þrælflinkur. En fyrst að Styrmir byrjaði þá
trúi ég hverjum sem er til þess,“ segir Sylvía.
Sara segir þó Sigurbjörn ríða út á sumrin
þegar hann þurfi að skreppa á næsta bæ eða
veiða en Oddhóll á Rangárvöllum er eiginlega
þriðja heimili fjölskyldunnar og hestanna.
Þegar þær eru inntar eftir því hvernig það
sé að vera börn eins þekktasta hestamanns
landsins verður Sylvía fyrir svörum: „Það er
alveg rosalega erfitt!“ segir hún grínfull og
Sara skellur upp úr. „Nei, maður er bara
hreykinn af foreldrum sínum eins og aðrir og
virkilega gaman að við eigum sama áhuga-
málið,“ segir Sylvía.
„Maður er hálfhneggjandi“
Hjá Sylvíu og Söru gefst lítill tími til ann-
ars en að sinna hestum og reyndar virðist
áhugasvið þeirra liggja bara í þá áttina.
Sylvía minnir þó á að gott sé að stunda öðru-
vísi líkamsrækt með hestamennsku. Sara sem
er ekkert sérlega hrifin af öðrum íþróttum en
hestaíþróttinni segir hestana einfaldlega
ganga fyrir hjá sér og Sylvía tekur undir það:
„Þetta er svo miklu meira en áhugamál, þetta
er ástríða. Maður er hálfhneggjandi! Áhuginn
er svo ofboðslega mikill og við stundum þetta
af svo mikilli innlifun að fátt annað kemst að.
Þessi grein krefst gífurlegrar yfirlegu því
þetta eru lifandi dýr og þurfa umönnun alla
daga.“ Og þær segja þennan áhuga aldrei
dvína í tilfelli þeirra. Kraftar þeirra hafa
beinst að ófáum hestinum sem hefur farið í
gegnum hesthúsið, við tamningar, þjálfun og
keppni þar sem þær hafa getið sér gott orð
og eiga sjálfsagt eftir láta mikið að sér kveða
á þessu landsmótsári.
Marga keppnishesta er að finna í húsinu,
m.a. er Sara með Kára frá Búlandi sem hún
stóð efst á í unglingaflokki á síðasta lands-
móti, á Vindheimamelum 2006, og í einni stí-
unni fer vel um uppáhald Sylvíu, stóðhestinn
Grun frá Oddhóli, ríkjandi landsmótssig-
urvegara í tölti hjá pabba þeirra. „Grunur
ber höfuð og herðar yfir alla hesta hérna að
mínu mati og mesti snillingur sem ég hef
kynnst,“ segir Sylvía. Miðað við öll meiðslin
sem hesturinn hafi átt í skíni í gegn hve
geðslagið sé frábært. Sara segir samband
systur sinnar við hestinn einstakt: „Þau eru
bestu vinir. Hann skilur Sylvíu fullkomlega!“
segir Sara. „Hann er svolítið sérstakur og
það er ákveðinn þráður á milli okkar,“ út-
skýrir Sylvía. „Hann er mikill vinur minn og
félagi, hvers manns hugljúfi. Hann kemur t.d.
hlaupandi til mín úr hryssustóði þegar hann
heyrir í mér. Grunur er sannur gæðingur og
maður kemst alltaf í gott skap að fara í reið-
túr á honum,“ segir hún en pabbi hennar hef-
ur fengið að skreppa á bak í keppni. „Hann
er náttúrlega skráður eigandi en þetta er
minn hestur. Hann er gullmoli.“ Hún segist
hafa mikinn áhuga á ræktun og á unga og
efnilega hryssu undan Grun, Eirdísi frá Odd-
hóli, sem hún stefnir á að rækta undan. „Ég
á bara einn hest,“ segir Sara hæversk á svip
en stúlkurnar eiga fáa hesta. Þær hafa sína
keppnishesta en annars eru tíð hestaskipti í
húsinu.
Konurnar aðalnúmerið
Ekki er enn ákveðið hvaða hestum þær
ætla að tefla fram í ístöltinu um næstu helgi
en Sylvía segir gaman að mæta með nýtt og
efnilegt hross í svona keppni. Þær segja
þetta gott framtak því konur verði mun dug-
legri við að keppa. Keppni á ís sé mjög
spennandi því mismunandi sé hvernig hest-
arnir taki ísnum, sumir verði frábærir en svo
geti mjög góðir hestar orðið kolómögulegir.
„Það er rosalega gaman að keppa á ís,“ segir
Sylvía og bætir við að þarna verði margir
flokkar sem dragi að fleiri keppendur og geri
keppnina skemmtilega. „Þetta er eins og
konudagurinn, konurnar eru aðalnúmerið og
karlarnir snúast í kringum þær. Þær velja
besta hestinn úr húsinu og öllu er tjaldað til.“
Sara bendir einmitt á að margar vinkvenna
sinna ætli að keppa á mótinu.
„Pabbi kenndi mér allt sem ég kann“
Það er hálfkjánalegt að spyrja þessar
hestasystur hvort hestamennska sé í framtíð-
arplönunum og þær segja vissulega svo vera.
Þær efast ekki um nám í hestamennsku og
segja líkur á því að þær fari í nám tengt
henni. „En við erum með besta kennarann!“
upplýsir Sylvía blaðamann og Sara heldur
áfram: „Pabbi hefur kennt mér allt sem ég
kann, meira og minna. Svo læri ég líka af
reiðmennsku Sylvíu og hinna í fjölskyldunni,“
segir hún. „Nú, ertu að „kópera“ mig?“ spyr
systir hennar stríðin. „Maður er alltaf að
læra meira og meira,“ útskýrir Sara. Hest-
arnir séu þar að auki frábærir kennarar,
enda eins misjafnir og þeir eru margir. Þær
segja það vissulega ákveðin forréttindi að
hafa fengið að kynnast öllum þessum hestum
en viðurkenna þó að þau forréttindi hafi líka
haft neikvæða hlið vegna þess að margir
stoppi stutt við og einnig heyrist oft raddir
um að börn atvinnumanna fái allt upp í hend-
urnar. „Sumir halda að maður geri ekkert
sjálfur, setjist bara á bak rétt fyrir mót,“
segir Sara, og Sylvía bætir við: „Við Sara
höfum nánast búið í hesthúsinu frá því við
munum eftir okkur og maður lokar bara eyr-
unum fyrir svona hlutum, afstaðan breytist
líka þegar maður eldist. Þetta eru bara leið-
indi sem hafa ekkert upp á sig. En er þetta
ekki svona í mörgum íþróttagreinum, sér-
staklega í yngri flokkunum?“ spyr Sylvía að
lokum.
Eftir að hafa sötrað kaffi og sporðrennt
forláta snúð, sem ella hefði að sögn hafnað
hjá súkkulaðigrísnum pabba þeirra, fær
blaðamaður að renna augum yfir hestaflotann
hvar rangæskur köttur spókar sig, alsæll
með lífið og mýsnar. Verkin bíða systranna
og þær kveðja að hlýlegum íslenskum sið,
með traustu handabandi.
thuridur@mbl.is
Erum með besta kennarann
Morgunblaðið/RAX
Hestamannakúnstir „Þetta er svo miklu meira en áhugamál, þetta er ástríða. Maður er hálf-
hneggjandi!“ Sylvía og Sara ásamt pabba sínum, Sigurbirni Bárðarsyni.
Samhentar Sylvía og Sara Sigurbjörnsdætur ásamt Ísak frá Oddhóli og Fjörni frá Hólum.
Kröftugt handtak og fag-
urrautt hár gætu vel verið
einkennismerki Sylvíu og
Söru Sigurbjörnsdætra.
Þuríður Magnúsína Björns-
dóttir hitti þessar dugmiklu
systur fyrir helgi en þær hafa
heldur betur fetað í hesta-
mennskuspor föður síns, Sig-
urbjörns Bárðarsonar.
„Sumir halda að maður geri
ekkert sjálfur, setjist bara á
bak rétt fyrir mót,“ segir
Sara, og Sylvía bætir við:
„Við Sara höfum nánast búið
í hesthúsinu frá því við mun-
um eftir okkur og maður lok-
ar bara eyrunum fyrir svona
hlutum.“
Skráningu á ístöltsmót kvenna, Svellkaldar
konur, sem haldið verður 8. mars, lýkur á
morgun, 4. mars. Sjá lhhestar.is, skráning á
lifland.is og í verslun Líflands.