Morgunblaðið - 15.10.2008, Page 35
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 15. OKTÓBER 2008 35
MENNING
Eftir Einar Fal Ingólfsson
efi@mbl.is
ÉG kom fyrst til Íslands fyrir ná-
kvæmlega 22 árum – daginn sem
Ronald Reagan fór frá landinu eftir
leiðtogafundin í Höfða. Þá stjórnaði
ég flutningi hljómsveitarinnar á Ta-
piola eftir Síbelíus. Síbelíus hefur
iðulega verið á dagskránni hjá mér
hér á mikilvægum augnablikum,“
segir Petri Sakari hljómsveit-
arstjóri þegar við setjumst niður á
Hótel Sögu, gegnt heimili hljóm-
sveitarinnar í Háskólabíói.
„Á fyrstu tónleikum, sem að-
alstjórnandi hér, stjórnaði ég flutn-
ingi á Fyrstu sinfóníu Síbelíusar.
Þegar við hljóðrituðum fyrir
Chandos árið 1991 tókum við m.a.
upp áhrifatónlist eftir hann. Fimm
árum síðar kom Naxos inn í mynd-
ina og þá hljóðrituðum við allar sjö
sinfóníurnar, og fleiri verk.“
Nánast einstök uppákoma
Þegar ég spyr Sakari hvort hann
hafi stjórnað flutningi á verkum eft-
ir Síbelíus hér síðan, hugsar hann
sig um, og segir síðan: „Nei, við
höfum geymt það fyrir þessa uppá-
komu núna, sem er nánast einstök.
Að leika allar sinfóníurnar þrjú
kvöld í röð. Ég veit bara til þess að
þetta hafi verið gert tvisvar áður,
og þá af finnskum hljómsveitum.“
– Hjálpar það þér við flutning á
verkum Síbelíusar að vera finnsk-
ur? Sakari hikar. „Síbelíus notaði
aldrei neina þjóðlagatónlist í sínum
verkum, hann samdi allt sjálfur,
þótt hann hafi verið mjög áhuga-
samur um þjóðlagatónlist,“ segir
hann. Hugsar sig síðan betur um.
„En það hjálpar að vera finnskur.
Það er til dæmis mikilvægt að
skilja finnska tungumálið, þar sem
áherslan er á fyrsta atkvæðið, rétt
eins og í íslensku. Það eru því fáir
upptaktar í finnsku. Iðulega má
heyra erlendar hljómsveitir og tón-
listarmenn gera mistök hvað það
varðar þegar þau flytja finnska tón-
list. Á þann hátt græði ég á því að
vera Finni – og svo hef ég alist upp
með þeim. Nálgunin þarf þó að vera
persónuleg; sem stjórnandi á ég að
verja tónskáldið.“
Þessi lélegi salur
Sakari talar um breytingar sem
hafa orðið á Sinfóníuhljómsveitinni,
til að mynda voru 72 hljóðfæraleik-
arar þegar hann kom hingað fyrst,
nú eru þeir yfir 80.
„Það er góð breyting. En ég
harma alltaf að hljómsveitin þurfi
að æfa og leika fyrir áheyrendur í
þessum lélega sal.
Það er ánægjulegt að sjá bygg-
ingarkranana sveiflast til við höfn-
ina og nýja tónlistarhúsið rísa. Það
lítur vel út. Við vonum bara að
verkið tefjist ekki í þessum svipti-
vindum. Þegar hljómsveitin flytur í
nýja húsið getur hún loksins tekið
flugið. Það má líkja því við hljóð-
færi. Þú ert með verksmiðjusmíð-
aða fiðlu en færð allt í einu Stradiv-
aríusarfiðlu í hendurnar. Þegar
leikið er í góðum tónleikasal er
hljómsveitin eins og annað hljóð-
færi.“
Þegar við Sakari ræddum saman
stóð enn til að haldið yrði í tónleika-
ferð um Japan í næstu viku, en
hann segir afar mikilvægt að hljóm-
sveitin fari í ferðalög. „Það er mik-
ilvægt að hún sé borin saman við
aðrar hljómsveitir heimsins, en það
getur aðeins gerst með því að fara
til annarra landa.
Svo væri frábært ef góðar er-
lendar hljómsveitir, sem eru á ferð
yfir Atlantshafið, myndu stoppa hér
og leika í nýja tónlistarhúsinu.“
Einstakt tækifæri
– Aftur að Síbelíusi. Hvað munu
áheyrendur upplifa? Hljómsveit
sem er tilbúin að gera sitt besta?
„Það vona ég svo sannarlega.
Þetta er einstakt tækifæri til að
upplifa Síbelíus. Hann var svo
sannarlega eitt mesta sinfón-
íutónskáld tónlistarsögunnar. Síð-
asta mesta sinfóníutónskáldið. Og
ég segi þetta ekki sem Finni.
Allar sinfóníur hans eru ólíkar.
Þær standa fyrir ólík stílbrigði og í
þeim má glögglega heyra þróun
hans. Sú fyrsta er rómantísk, nán-
ast „tsjækovskísk“, og síðan liggur
leiðin í gegnum hina ískyggilegu og
að sumra mati skrýtnu fjórðu sin-
fóníu, alla leið að þeirri sjöundu
sem er í einum þætti. Þar skapar
Síbelíus nýja leið, hvað varðar form
og að móta efnið. Því miður eigum
við ekki Sinfóníu númer átta. Það
er mögulegt að hún hafi verið til en
hann hafi eytt henni.“
– Hvers vegna?
„Tapiola, síðasta stóra verkið
hans, er frá 1927. Þá var Vorblót
Stravinskís löngu samið, 1913, og
Schönberg var kominn fram með
sínar hugmyndir. Tónlistin var á
leið í aðra átt og Síbelíusi fannst
hann líklega vera síðasta risaeðlan.
Að hann væri gamaldags.“
- Var hann það?
„Nei.
Það finnst mér ekki.“
– Áttu þér eftirlætis sinfóníu eftir
Síbelíus?
Sakari brosir. „Í raun eru allar
sinfóníurnar í uppáhaldi en ég
dregst að þeim undarlegu sem eru
ekki leiknar oft, eins og númer
fjögur og sex. Ég veit ekki af
hverju.
Flestum finnst sú fjórða skrýtin.
Mér finnst hún mjög finnsk. Og í
henni er stórkostlegur og einstakur
hægur kafli.
Mér finnst fyrsti þátturinn í
þeirri sjöttu vísa mjög ákveðið í
finnska náttúru.
En þetta er alþjóðleg tónlist sem
allir geta notið.“
„Dregst að þeim undarlegu“
Petri Sakari stjórnar flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á öllum sjö sinfóníum Síbelíusar
Hljómsveitin býður þjóðinni á tónleika „Eitt mesta sinfóníutónskáld tónlistarsögunnar“
Morgunblaðið/Einar Falur
Stjórnandinn „Þetta er einstakt tækifæri til að upplifa Síbelíus. Hann var svo sannarlega eitt mesta sinfón-
íutónskáld tónlistarsögunnar,“ segir Petri Sakari, sem stýrir flutningi Sinfóníuhljómsveitarinnar.
Í HNOTSKURN
» Sinfóníuhljómsveit Ís-lands, undir stjórn Petri
Sakari, leikur allar sjö sin-
fóníur Jeans Síbelíusar, auk
fiðlukonserts hans, á þrenn-
um tónleikum í vikunni.
» Sigrún Eðvaldsdóttirleikur einleik í fiðlukons-
ertinum.
»Tónleikarnir verða kl.19.30 á fimmtudags- og
föstudagskvöld og kl. 17 á
laugardag.
» Til stóð að leika allar sin-fóníurnar í Japan, en hætt
var við ferðina í gær.
» Sinfóníuhljómsveitin býð-ur íslensku þjóðinni end-
urgjaldslaust á tónleikana á
föstudag og laugardag.
» Petri Sakari var aðal-stjórnandi hljómsveitar-
innar í sjö ár og aðal gesta-
stjórnandi hennar i þrjú ár.
Í REYKJAVÍK art gallery sýnir
Guðmunda Kristinsdóttir 24 mál-
verk undir yfirheitinu „Hvaðan
koma þær – Hvert fara þær?“ sem
vísar væntanlega til vangaveltna um
ímyndirnar sem listakonan sækir úr
eigin fantasíu en er um leið tilvitnun
í frægasta málverk Pauls Gauguins,
„Hvaðan komum við – Hver erum
við – Hvert stefnum við?“
Konur eru í fyrirrúmi í mál-
verkum Guðmundu, andlits- og ein-
kennalausar í draumkenndu líki í
framandlegu útópísku ríki (önnur
tenging við Gauguin?).
Í þessum handanveruleika er allt
rautt svo að myndflöturinn virkar
eins og mónókróm, nema hvað efnið
er hlaðið (impasto) og undir glittir í
aðra liti.
Yfirráð rauða litarins kunna að
sýnast einhæf þegar á heildina er
litið. En það fer þó eftir því með
hvaða gleraugum menn horfa og
fyrir mitt leyti rammar hann sýn-
ingarsalinn ágætlega inn og gerir
hugarheim listakonunnar nokkuð
stóran að sjá. Hins vegar er hann
átakalítill í málverki, helst til sætur
og huggulegur.
Rauðleit útópían
MYNDLIST
Reykjavík art gallery
Opið alla daga nema mánudaga frá 14-
17. Sýningu lýkur 18. október. Aðgangur
ókeypis
Guðmunda Kristinsdóttir
bbmnn
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Ímyndir „Konur eru í fyrirrúmi í málverkum Guðmundu...“
sýndi svo berlega að tónlistin var ekki
af þessum heimi, hún var hugleiðing,
hugarflug, fantasía um eitthvað sem
ekki er hægt að koma orðum að.
Svipaða sögu er að segja um són-
ötuna eftir Saint-Saens. Þar lék
Dmitri svo ótrúlega fallega, af sjald-
heyrðri vandvirkni en líka djúpri inn-
lifun að maður hreinlega tapaði sér.
Ég held að ég hafi aldrei heyrt þessa
sónötu eins vel leikna.
Með Dmitri lék Alexander
Schmalcz á píanó. Ásláttur hans var
dásamlega mjúkur og litríkur, og
hann fylgdi klarínettunni af stakri
prýði.
Leikur píanóleikarans var samt
enn áhrifameiri með söngkonunni
Þóru Einarsdóttur, en hún flutti
Söngva Ellenar eftir Schubert,
Gleymdu söngvana eftir Debussy og
lög eftir Schumann. Söngurinn var
tær og hljómmikill, og túlkunin gædd
viðeigandi ákefð og tilfinningu. Lög
Schuberts voru að vísu ögn síðri en
hin, það var eins og röddin hefði að-
eins kólnað á meðan Þóra beið eftir
að Dmitri lyki við að spila Saint-
Saens, en að öðru leyti er ekki hægt
að finna að frammistöðunni. Gaman
að heyra í svona frábæru listafólki!
ÉG hef sjaldan heyrt eins vel spilað á
klarínettu og á tónleikum í Lang-
holtskirkju á sunnudagskvöldið. Þar
lék Dmitri Ashkenazy Fantas-
iestücke op. 73 eftir Schumann og
Sónötu op. 167 eftir Saint-Saens.
Ekki aðeins var hver tónn unaðslega
fallega mótaður og hröð hlaup full-
komlega af hendi leyst, heldur var
túlkunin svo hástemmd og skáldleg
að það var alveg einstakt. Fyrra
verkið var reyndar óvanalega inn-
hverft, og í upphafi setti ég spurning-
armerki við það; Schumann var jú
maður tilfinningaöfga. En hann var
líka draumóramaður og sú tónamynd
sem Dmitri bar fyrir áheyrendur
Hugleiðing,
hugarflug,
fantasía
TÓNLIST
Langholtskirkja
Þóra Einarsdóttir, Dmitri Ashkenazy og
Alexander Schmalcz fluttu tónlist eftir
Schubert, Schumann, Debussy og Saint-
Saens. Sunnudagur 12. október.
Söng- og kammertónleikarbbbbm
Jónas Sen
SIGRÚN Eðvaldsdóttir leikur ein-
leik með Sinfóníuhljómsveit Ís-
lands í Fiðlukonsert Jeans Síbelí-
usar annað kvöld, þar sem fyrstu
tvær sinfóníur tónskáldsins eru
einnig á efnisskránni. Sigrún seg-
ist hafa leikið konsertinn í fyrsta
sinn hér heima fyrir 20 árum.
„Það sem maður lærir og hrífst
af ungur er alltaf í blóðinu,“ seg-
ir hún.
„Þessi konsert hefur verið með
mér svo lengi. Ég heyrði hann
fyrst sem unglingur, þegar úrslit-
um Síbelíusarkeppninnar var út-
varpað og Viktoria Mullova sigr-
aði.
Ég var alltaf hálfhrædd við
konsertinn en þegar ég fór út að
læra við Curt-
is-tónlist-
arháskólann
byrjaði ég að
æfa hann og
læra undir
handleiðslu
frábærra kenn-
arra.
Það er alltaf
jafn gaman að
spila þennan
konsert, hann er yndislegur; blóð-
heitur og fallegur. Eitt af þessum
verkum sem standa alltaf upp
úr.“
Síðast lék Sigrún Fiðlukonsert-
inn opinberlega í Englandi fyrir
tveimur árum.
Blóðheitur og fallegur
Sigrún
Eðvaldsdóttir