Náttúrufræðingurinn - 2005, Blaðsíða 49
Náttúrufræðingurinn
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
NáTTÚRUFARSANNÁLL 2004
Ártti Hjartarson og Droplaug Ólafsdóttir tóku saman
Árið 2004 var allviðburðaríkt á hinu náttúrufarslega sviði, tíðarfar gott en óvenjulegt um margt, Grímsvatnagos
og Skeiðarárhlaup settu svip á árið. Viðbrögð lífríkisins við hlýindakaflanum, sem nú hefur staðið í nokkur ár, eru
auðsæ bæði í jurta- og dýraríki, ekki síst hvað varðar heimsóknir flækingsfugla og ferðir fiska og hvala.
Árferði
Samkvæmt veðurfarsupplýsingum Trausta Jónssonar
á Veðurstofu íslands var árið 2004 hlýtt um allt land
og víða voru skráð ný hitamet. Aldamótahlýindin
standa enn. í flestum landshlutum var árið hið
fimmta til áttunda hlýjasta frá upphafi mælinga. Það
var þó um hálfu stigi kaldara en árið 2003, sem
reyndar er í hópi þriggja hlýjustu áranna. Að slepptu
árinu 2003 þarf að fara fjóra til sex áratugi aftur í
tímarrn til að finna jafnhlý ár eða hlýrri. Árabilið
2000-2004 er hlýjasta 5 ára tímabil í Reykjavík sem
vitað er um frá upphafi samfelldra mælinga. Meðal-
hiti síðustu 5 ára á Akureyri er einnig hærri nú en
vitað er um áður. Meðalhiti í Reykjavík var 5,6°C eða
1,3°C yfir meðallagi, hálfu stigi lægri en árið 2003, en
álíka og 1960 og 1964. í Stykkishólmi var meðalhiti
ársins 4,9°C eða 1,4°C yfir meðallagi. Á Akureyri var
meðalhitinn 4,8°C og er það 1,5°C yfir meðallagi.
Aðeins er vitað um þrjú marktækt hlýrri ár þar, 1933,
1939 og 2003.
í annarri viku ágúst gerði sannkallaða hitabylgju
sem gætti mest um sunnan- og vestanvert landið og
inn til landsins í öðrum landshlutum. Hún var
einkum sérstæð fyrir það hversu lengi hún stóð. Hiti
fór yfir 20 stig í Reykjavík fjóra daga í röð, en slíkt
hefur ekki gerst síðan hitamælingar hófust. Gömul
hitamet féllu víða, m.a. 113 ára gamalt met í
Reykjavík, þegar hitinn komst í 24,8 stig þann 11.
ágúst. Á Egilsstaðaflugvelli mældist hámarkshiti
29,2 stig þennan sama dag, sem er nýtt ágústmet
fyrir landið. Ágústmánuðir áranna 2003 og 2004 eru
þeir hlýjustu í Reykjavík síðan samfelldar mælingar
hófust þar um 1870. Sólríkt var líka á landinu og í
Reykjavík hefur ekki mælst jafnmikið sólskin í ágúst
síðan 1960. Á Akureyri hefur aldrei mælst jafnmikið
sólskin í ágúst.
Til hamingju með Öskju!
Á vordögum 2004 var vígt nýtt kennsluhúsnæði Háskóla
íslands: Askja - náttúrufræðahús Háskóla íslands, var það
nefnt og hýsir Hffræði, jarðfræði, jarðeðlisfræði, landfræði og
ferðamálafræði, Jarðeðlisfræðistofu, Jarð- og landfræðistofu,
Ltffræðistofnun og Norrænu eldfjallastöðina. Við tilkomu
Öskju hafa starfsaðstæður í jarð- og lífvísindum gerbreyst
með því að sameinaðar hafa verið undir eitt þak, ólíkar en um
margt skyldar greinar, tækifæri skapast til þverfaglegra
rannsókna og samvinnu milli fræðasviða jafnframt því sem
betri nýting á aðstöðu og tækjakosti leiðir til hagræðingar.
119