Náttúrufræðingurinn - 1999, Qupperneq 47
Georges Cuvier, sem setti fram aðra
kenningu um eðli lífheimsins og beitti valdi
sínu til að halda Lamarck niðri. Löngu síðar
komu aftur fram hugmyndir um erfðir
áunninna eiginleika og höfðu um skeið
nokkur áhrif eins og síðar verður vikið að.
CUVIER
Georges Cuvier barón (1769-1832), franskur
dýrafræðingur og stjórnmálamaður (7.
mynd), lagði grunninn að tveimur fræði-
greinum, samanburðarlíffærafræði dýra og
steingervingafræði, auk þess sem hann lét
til sín taka í flokkunarfræði. Eins og Lamarck
starfaði hann við Franska náttúrugripa-
safnið þar sem hann veitti forstöðu hrygg-
dýradeildinni. Á fyrstu árum nítjándu aldar
birti hann „samsvörunarreglu“ sína, sem
gengur út á það að greina megi samsvörun
milli allra líffæra í dýrum sérhverrar tegundar
og að öll líkamsgerð dýranna ráðist af
lífsháttum þeirra. Þannig hljóta hyrnd dýr til
dæmis að hafa hófa og tennur lagaðar að
plöntufæðu sem öll þessi dýr lifa á. Klær og
vígtennur væru óhugsandi á slíkri skepnu.
Cuvier beitti samsvörunarreglunni einnig
við túlkun á steingervingum. Áður lásu
menn úr slíkum leifunt ýmis furðudýr en
Cuvier gat með samanburði við önnur dýr,
núlifandi eða steingerð, endurskapað heila
líkama útdauðra dýra þótt hann hefði aðeins
leifar lítils hluta þeirra. Þegar aðrir partar
dýranna fundust reyndist Cuvier oft hafa
farið furðunærri réttri líkamsgerðþeirra.
Cuvier hafnaði lífskeðju Lamarcks og
öllum tilraunum til að skipa dýrunum í eina
röð frá þeim einföldustu til hinna flóknustu.
Hann skipti dýrarfkinu, jafnt lifandi sem
aldauða tegundum, í fjórar höfuðgreinar
(embranchements), animalia vertebrata,
animalia annulata, .animalia mollusca og
animalia radiata, sem Jónas Hallgrímsson út-
lagði hryggdýr, hringdýr, lindýr og skádýr.
Hryggdýrin-og lindýrin hafa haldið sínu til
þessa dags; hringdýr er samheiti unt liðdýr
og liðorma og skádýr eru einkum skrápdýr
og holdýr.
Á milli þessara höfuðgreina taldi Cuvier
engan skyldleika, enda var öll hugsun um
þróun lífvera honum framandi. Sem
7. mynd. Georges Cuvier barón. Hluti af
málverki eftir Van Brae. (Musée Nationale
d’Histoire Naturelle, París.)
höfundur vísindalegrar steingervingafræði
gerði hann sér að sjálfsögðu ljóst að
lífheimurinn hefði tekið miklum breytingum í
tímans rás. Þær breytingar skýrði Cuvier
þannig að annað veifið hefðu miklar nátt-
úruhamfarir gengið yfir hluta jarðar og eytt
fjölda tegunda. í þeirra stað hefðu komið
aðrar, sem áður lifðu á stöðum er sluppu við
hörmungarnar. Tegundirnar væru allar eins
og guð skóp þær í upphafi. Samt gerir Cuvier
ráð fyrir því að einu sinni í sögu jarðar, í
upphafi tertíertímabils, hafi ný sköpun átt
sér stað, en þá hafi öll spendýr orðið til
samtímis. Að öðru leyti virðist hann ekki
ganga út frá því að nauðsynlegt sé að grípa
til nýrrar sköpunar til að skýra þær breyting-
ar á lífríkinu er lesnar verða úr jarðlögunt.
(SjáBowler 1984, bls. 1 lOog 111).
Cuvier naut með réttu óskoraðrar virðing-
ar fyrir störf sín á sviði líffærafræði, stein-
gervingafræði og flokkunarfræði. Þessi
virðing færðist líka yfir á hamfarakenning-
una. Hann var auk þess áhrifamaður í
frönskum stjórnmálum og beitti vísinda-
legum og pólitískum áhrifum gegn keppi-
nauti sínum, Lamarck, að margra mati
ódrengilega. Lamarck galt þess líka að
andrúmsloftið í heimalandi hans var breytt. I
stað hins leitandi anda upplýsingaaldar
ríktu mun íhaldssamari viðhorf Napóelons-
tímans. Þróun lífsins var urn sinn dæmd úr
leik. Boðberar hennar á nítjándu öld hófu
189