Fréttablaðið - 15.05.2009, Page 8
8 15. maí 2009 FÖSTUDAGUR
1. Hver mun leika Skrögg í
uppfærslu Loftkastalans?
2. Hversu miklar voru skuldir
íslenskra sveitarfélaga um
síðustu áramót?
3. Hvaðan er hælisleitandinn
sem er í hungurverkfalli í
Reykjanesbæ?
SVÖRIN ERU Á SÍÐU 38
PALESTÍNA, AP Á ferðum sínum
um Mið-Austurlönd hefur Bene-
dikt XVI. páfi ekki hikað við
að minnast á mörg viðkvæm-
ustu og heiftúðugustu deilumál
þessa heimshluta, svo sem hlut-
skipti Palestínumanna undir her-
námi Ísraels og gagnkvæma tor-
tryggni kristinna og múslima, að
ógleymdri helför gyðinga í síðustu
heimsstyrjöld.
Um fimmtíu þúsund manns
mættu til að hlýða á messu páfa
í Nasaret í gær. Þar hvatti hann
bæði múslima og kristna menn til
þess að hafna eyðileggjandi afli
haturs og fordóma, „sem drepur
sálir manna áður en það drepur
líkama þeirra“ eins og hann orð-
aði það í ræðu sinni.
„Ég hvet góðviljugt fólk í báðum
þessum trúarsamfélögum til þess
að lagfæra þann skaða sem orðinn
er,“ sagði páfi, og vísaði þar til
spennu sem ríkt hefur á milli mús-
lima og kristinna undanfarin ár.
Benedikt páfi hefur áður fengið
múslima á móti sér með umdeildu
orðavali. Í þessari ferð hefur hann
gert sér far um að bæta þar úr.
Í vikunni hefur páfi tvisvar lagt
ríka áherslu á stuðning sinn við
stofnun Palestínuríkis, þrátt fyrir
að ný hægristjórn í Ísrael hafi lýst
sig andvíga því að Palestínumenn
fái eigið ríki. Hann hefur einnig
lýst yfir samúð með hlutskipti Pal-
estínumanna, en hvetur þá samt til
að beita ekki ofbeldi.
Síðdegis í gær settist páfi síðan
niður með Benjamin Netanjahu,
forsætisráðherra Ísraels. Þeir
spjölluðu saman í stundarfjórðung.
Að loknum fundi þeirra kom Net-
anjahu fram í sjónvarpi, en minnt-
ist ekkert á Palestínu. Hins vegar
sagðist hann hafa beðið páfa um að
beita siðferðilegri yfirburðastöðu
sinni til að fordæma harkalegt orð-
færi forseta Írans um Ísrael.
„Ég held að hann hlusti á okkur,“
sagði Netanjahu um páfa.
Federico Lombardi, talsmaður
Páfagarðs, sagði páfa mjög ánægð-
an með árangurinn af ferð sinni.
Allir mikilvægustu fundirnir hafi
orðið til góðs og páfa hafi tekist að
vera eins konar brú á milli ólíkra
sjónarmiða.
Vikulangri ferð páfa um Mið-
Austurland lýkur í dag.
gudsteinn@frettabladid.is
Vill sættast
við múslima
Benedikt páfi hefur komið óvart með yfirlýsingum
um stuðning við málstað Palestínumanna. Í gær
hvatti hann múslima og kristna menn til að ná sátt-
um. Netanjahu bað hann að fordæma áróður Írana.
PÁFINN Í NASARET Fjölmennasta guðsþjónusta páfa á ferð sinni um Mið-Austurlönd
var haldin í Nasaret í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/AP
FJÖLMIÐLAR „Ég vænti þess að nýtt útboð fyrir
enska boltann fari í gang fljótlega, og við
munum taka þátt í því. Við gerum okkur vonir
um að halda sýningarréttinum á þessu vinsæla
efni áfram, en á viðráðanlegum kjörum,“ segir
Ari Edwald, forstjóri 365.
Fyrirtækið tryggði sér sýningarréttinn á
enska boltanum til þriggja ára frá haustinu
2007. Að sögn Ara gerðu aðstæðurnar sem upp
komu við bankahrunið og fall krónunnar það
að verkum að þess var farið á leit við umboðs-
aðila efnisins í Bretlandi að sá samningur yrði
styttur um eitt ár. Hann gerir ráð fyrir að nýtt
útboð, sem gildi til fjögurra ára, verði klárað á
næstu mánuðum.
„Við erum mjög sátt við þá niðurstöðu. Það
hafði verið boðið hátt í enska boltann, meðal
annars á grundvelli kostunar sem samið var
um í íslenskum krónum, þannig að þegar verð-
ið á sýningarréttinum tvöfaldaðist gerði það
okkur erfitt fyrir,“ segir Ari. Hann gerir ráð
fyrir að verðið muni lækka til muna í næsta
útboði.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmda-
stjóri Skjásins, segir fyrirtæki sitt fylgjast
grannt með þróun þessara mála. „Við höfum
ekki tekið afstöðu til þess hvort við hyggjumst
bjóða í réttinn. Fyrst þurfum við að skoða öll
útboðsgögn,“ segir Sigríður.
Páll Magnússon útvarpsstjóri segir RÚV
ekki ætla að taka þátt í útboðinu. „Við höfum þá
stefnu að fylgja íslenska landsliðinu í alþjóð-
legum keppnum, en höfum dregið okkur út
úr uppboðum á íþróttaviðburðum sem reknir
eru á hreinum viðskiptalegum grundvelli. Við
þær aðstæður sem nú ríkja sé ég alls enga
ástæðu til að víkja frá þeirri stefnu,“ segir Páll
Magnús son. - kg
Umboðsaðilar sýningarréttar á enska boltanum samþykkja að stytta samning:
Aftur boðið í réttinn á enska boltann
SJÁVARÚTVEGUR Stykkishólmsbær
mótmælir harðlega þeim hug-
myndum sem fram hafa komið
um upptöku strandveiða á kostnað
úthlutunar byggðakvóta. Í álykt-
un bæjarráðs segir að byggða-
kvóta til Stykkishólmsbæjar hafi
verið úthlutað á grundvelli hruns
á hörpudiskstofni, aflabrests af
þeim sökum og síðar banns við
veiðum á hörpudiski.
Bæjarráðið efast um að auka
megi verðmætasköpun, efla
atvinnulíf og auka drifkraftinn í
bæjarfélaginu með upptöku strand-
veiða á kostnað byggðakvóta. Sam-
félagið í Stykkishólmi hafi tekið
á sig mikil áföll við hrun hörpu-
diskstofnsins, en hafi byggt sig
upp hægt og rólega með tilkomu
byggðakvóta.
- shá
Stykkishólmsbær ályktar:
Strandveiðar neikvætt skref
NOREGUR Norðmenn ætla að nýta
sér jarðhitann djúpt í iðrum jarðar
með því að bora 5.500 metra ofan
í jörðina, hita vatn þar og taka það
upp aftur. Tæknin er sótt í olíu-
iðnaðinn í Norðursjó en stærsta
vandamálið hefur verið sá mikli
kostnaður sem fylgir því.
Jónas Ketilsson, jarðhitasér-
fræðingur hjá Orkustofnun, segir
að takist fyrirætlun Norðmann-
anna gæti það þýtt margfalda
afkastagetu íslenskra jarðhita-
kerfa því þá gætu Íslendingar farið
að bora utan háhitasvæða.
„Þetta getur opnað fyrir mögu-
leika á jarðhitanýtingu á svæðum
sem við teljum ekki hagkvæmt að
nýta sem stendur og þá getum við
frekar hlíft viðkvæmum svæðum,“
segir hann.
Það er norska orkufyrirtækið
Rock Energy sem ætlar að ráðast
í tilraunina í Osló, að sögn Tekn-
isk Ukeblad. Vatnið verður hitað í
lokuðu kerfi og leitt upp um aðra
borholu. Talið er að það verði þá
um níutíu gráðu heitt og vel nýti-
legt til húshitunar. Norðmenn
hafa líka gert áætlanir um að nota
jarðhitann til raforkuframleiðslu
og stefna að því framleiðslan full-
nægi tæplega helmingi af raforku-
þörfinni. Jónas segir að verið sé að
kanna möguleika á jarðhitanýtingu
víða um heim. Takist að lækka bor-
kostnaðinn geti þessi framleiðsla
hugsanlega orðið arðbær. - ghs
Norðmenn bora eftir jarðhita á 5.500 metra dýpi:
Gæti margfaldað
afkastagetuna hér
ARI
EDWALD
SIGRÍÐUR
MARGRÉT
ODDSDÓTTIR
PÁLL
MAGNÚSSON
VINNUMARKAÐUR Hannes G. Sig-
urðsson, aðstoðarframkvæmda-
stjóri Samtaka atvinnulífsins, SA,
segir að það eigi sér líklega ekki
fordæmi hversu þung áhersla sé
lögð á samvinnu við aðila vinnu-
markaðarins á fjölmörgum svið-
um í ítarlegri samstarfsyfirlýs-
ingu stjórnarflokkanna.
Þetta endurspegli það graf-
alvarlega ástand sem ríki í efna-
hagslífinu og þá ríku kröfu sem
gerð hefur verið um fjölþætt sam-
starf leiðandi aðila með það að
markmiði að tryggja stöðugleika
til frambúðar og efla atvinnu-
starfsemi. Ekki sé ágreiningur
milli aðila vinnumarkaðarins og
stjórnvalda um markmið og leið-
ir í stórum dráttum. „Því ætti
ekkert að vera því til fyrirstöðu
að samkomulag náist í tæka tíð,“
segir hann í grein á vef SA. - ghs
Yfirlýsing stjórnarflokka:
Áherslan er
fordæmalaus
VEISTU SVARIÐ?