Samvinnan - 01.08.1984, Side 15
(Bernhöfstbakarí núna) og niður
Spítalastíg, hann með sína löngutöng
í lykkjunni en ég með alla hendina.
Við gengum alltaf niður að Tjörn.
Stundum hittum við endurnar og
stundum séra Bjarna og stundum
bæði endurnar og séra Bjarna. Svo
heim aftur. Hver göngutúr tók
nákvæmlega 45 mínútur. Stundvísi
Jónasar í Brennu var annáluð (eins og
lesa má m. a. í Árbókum Reykjavíkur
eftir Jón biskup Helgason), og nutu
nágrannar hans góðs af henni þegar
austanvindar blésu öllum slögum
Dómkirkjuklukkunnar yfir Vesturbæ-
inn. E>á stilltu þeir úr sín og klukkur
eftir því hvenær Jónas í Brennu fór
framhjá gluggunum hjá þeim á leið til
vinnu sinnar á morgnana. Hann var
mjög grandvar maður og áreiðanleg-
ur, þögull að jafnaði en stóð við allt
sem hann sagði. Á gamlársdagsmorg-
un árið 1936 sagði hann við mig: „Eg
fer í dag klukkan tvö.“ Hann hafði
misst konu sína, ömmu mína Guðríði
Jónsdóttur, tveim árum áður eftir
rúmlega hálfrar aldar hljóðláta sam-
búð og var nú orðinn áttatíu og
fjögurra ára gamall og lá veikur í
rúminu. Ég var þrettán ára og sat hjá
honum og var að lesa Námur Saló-
mons eftir Rider Haggard. Ég lokaði
bókinni og fór að finna börnin hans
tvö, móður mína Ragnheiði og Helga
frænda, og skilaði þessu til þeirra. Og
á slaginu tvö þennan gamlársdag dó
Jónas í Brennu. Næstu árin var oft
þannig ástatt fyrir mér að ég óskaði
þess að hann væri kominn til að bjóða
mér í snæriskrók. Ég er reyndar enn
ekki hættur að lenda í vandræðum af
því tagi.)
Vilhjálmur frá Skáholti sneri sér
að félaga sínum og sagði:
„Þetta er dóttursonur Jónas-
ar í Brennu.“
En sá góði maður sannaði nú það
sem mig hafði grunað að hann var
ekki eins mikið skáld og Vilhjálmur.
Hann sagði:
„Ég er farinn.“
„Farinn?“ sagði Vilhjálmur. „Erég
ekki að enda við að segja þér að þetta
er dóttursonur Jónasar í Brennu?“
»Jú,“ sagði félagi hans. „Ég er samt
farinn. Ég mundi vera farinn þó hann
væri dóttursonur Jónasar frá Hriflu.“
Skáldið frá Skáholti fórnaði hönd-
um til himins og hrópaði í örvæntingu:
„Af hverju eru það alltaf vitlausustu
mennirnir sem eiga brennivínið?“
Svo hélt hann á eftir félaga sínum.
Stórkaupmenn, - var þeim nú nokk-
uð að vanbúnaði lengur að halda
áfram kappgöngunni? Já. Það kom
maður austan hafnarbakkann. Hann
hélt á fjórum fuglum, tveimur í hvorri
hendi.
„Hvaða dauðu fuglar eru þetta?“
spurðu stórkaupmenn.
„Skarfar," sagði maðurinn og stanz-
aði.
Hann var hár vexti og þrekinn og
hafði ekki getað útvegað sér nógu
stóra peysu því að ermarnar á henni
náðu aðeins með naumindum niður á
miðjan framhandlegg, berhentur eins-
og ekkert væri sjálfsagðara í öllu
þessu frosti, með sígarettu í munnin-
um og sogaði allan reykinn oní sig án
þess nokkuð kæmi upp aftur, - einn
þessara hraustu manna sem aldrei fá
nógu sterkt tóbak.
„Hvar skauztu þá?“ spurðu stór-
kaupmenn.
„Kringum Engey,“ sagði maðurinn.
„Varstu lengi?“ spurðu stórkaup-
menn.
„Síðan átta í morgun,“ sagði hann.
„Á hvað selurðu þá?“ spurðu þeir.
„Sjö krónur stykkið,“ sagði hann.
„Það er lítið kaup fyrir heilan dag,“
sögðu þeir.
„Það er betra en ekkert í atvinnu-
leysi,“ sagði hann.
„Hvernig eru þeir étnir?“ spurðu
stórkaupmenn.
„Eins og aðrir fuglar,“ sagði maður-
inn. „Maður brúkar tennurnar."
Stórkaupmenn fóru að hlæja. Þeir
voru stórkaupmenn með kímnigáfu.
„Er ekki erfitt að hamfletta þá?“
spurðu þeir. „Getur það ekki verið
problem? Getur ekki verið problem
að hamfletta þá?“
„Nei,“ sagði maðurinn. „Það er
ekki neitt erfitt að hamfletta skarfa
frekar en aðra fugla, ef maður kann
réttu tökin.“
Svo kvaddi hann og fór.
Og stórkaupmenn (sem reyndar
höfðu staðið í viðbragðsstöðu á meðan
þeir töluðu við manninn) héldu áfram
göngunni. Ég heyrði það síðast til
þeirra að þeir voru að velta því fyrir
sér hvort skarfar mundu vera betri
steiktir eða soðnir.
Og ég hélt áfram að horfa á hljóm-
borð hafnarinnar og hlusta á Debussy.
♦
Hann var mjög
grandvar maður og
áreiðanlegur, þögull
að jafnaði og stóð
við allt sem hann
sagði. Á
gamlársdagsmorgun
árið 1936 sagði hann
við mig: ,,Ég fer í
dag klukkan tvö.“
15