Spegillinn - 01.05.1983, Blaðsíða 34

Spegillinn - 01.05.1983, Blaðsíða 34
kjósa mig á þing. Ha!“ sagði hann kátur, „það er ég viss um að áður en ég verð genginn út úr þessu húsi, þá man ég hvað ég heiti, og áður en ég verð kominn á skrifstofuna, þá man ég jafnvel nafnnúmerið mitt. Af ræðunni þarf ég ekki að hafa áhyggjur. Konan sér um það.“ Og hann greip bíllyklana í forstofunni, lauk upp, dró djúpt að sér svalandi loftið og stefndi yfir að bílnum sínum. Hann lauk upp bílhurðinni og settist inn. Gamalkunnugt sætið tók vel á móti þungum líkama hans og hann teygði sig fram, og stakk lyklinum í ræsinn. Vélin rauk í gang, hann sleppi lyklinum og færði höndina upp á stýrishjólið. Þá tók hann eftir því, að höndin var horfin, og hann sá aðeins hvíta líningu skyrt- unnar framan við jakkann. Hvað var orðið af hendinni? Hann litaðist um og sá þá, að hægri hönd hans hélt enn um bíllykilinn; hafði losnað frá úlnliðnum og fylgdi ekki eftir þegar hann lyfti handleggnum. Hvað var á seiði? Hann teygði vinstri höndina yfir ýstruna og losaði hægri höndina af bíllyklinum, hélt á henni stundarkorn og virti hana fyrir sér. Þetta var sólbrún, fremur holdmikil hönd og virtist í góðu ásig- komulagi. „Ég verð að tala við lækninn minn,“ hugsaði hann, „svona get ég ekki verið." Og hann fleygði hægri hendinni í framsætið og ákvað að taka hana með sér, þegar hann færi til læknisins. Hann kom bílnum í gír og ók af stað. Nú kom sér vel að vera vanur bílstjóri og geta snúið léttu vökva- stýrinu með vinstri hendinni einni, og til að aksturinn tækist sem best, stakk hann vindlinum í munninn og beit þétt um endann. Þegar hann kom að sam- komuhúsinu, þar sem fjölskylduhátíð- in átti að vera, ók hann að hliðarinn- gangi til að komast skemmstu leið inn í salinn, því að hann kærði sig ekki um að kjósendur hans, sem streymdu nú að úr öllum áttum til að heyra hann tala, sæju að hann hafði ekki lengur tvær hendur. „Kjósendur?“ hugsaði hann, „já; það er þess vegna. Það þarf að taka stjórn landsins föstum tökum, og það er ég sem er hinn sterki maður. Hvernig var þetta aftur? Ábyrg stjórn, var það ekki? Raunhæf leið til bættra lífskjara. Einbýlishús handa öllum, var það ekki?“ Konan hafði samið fyrir hann nokkrar meitlaðar setningar, eins- og til dæmis: „Eigi skal sköpum skipta.“ Hann teygði vinstri handlegginn yfir ýstruna til að slökkva á bílvélinni. Hann dokaði andartak við, áður en hann greip í lykilinn, óttaðist að nú kynni að fara einsog áður, að höndin losnaði frá honum um úlnliðinn og hann sæti þá eftir í bílnum og kæmist ekki út, því ekki gæti hann opnað bíldyr handalaus. En ekkert óvenjulegt gerðist. Bílvélin þagnaði, hann hélt á lyklinum, höndin var föst við hann og hann þreif í hurðarhúninn, opnaði, steig út og skellti hurðinni í falsið. En þá tók hann eftir því, að ekki var allt með felldu. Hann sveiflaðist út á hlið, þegar hann tók fyrsta skrefið. Hvað var nú þetta? Hann beit fastar um vindilinn og litaðist um. Hægri skórinn var hvergi sjáanlegur. Hann leit eins langt niður eftir sér og hann gat fyrir ýstrunni. Fóturinn var horfinn, sást ekki koma niður úr buxnaskálminni einsog hann átti að gera. Hann leit inn um bílglugg- ann og sá þá, að fóturinn stóð enn á bensíngjöfinni, klæddur svörtum skóm og sokk. Hann var öldungis steinhissa. Hvað var eiginlega að honum? „Ég verð að ná sambandi við lækninn minn,“ hugsaði hann og litaðist um. Fólk streymdi að húsinu, og sumir veifuðu glaðlega til hans. Hann kinkaði kolli og gekk af stað og sér til mikillar undrunar, þá fann hann, að það var ekki sérlega erfitt að ganga. Hann sveiflaðist að vísu út á hlið, en þótt fótinn vantaði, þá fann hann ekki til sársauka. Hann fann ekki til neins. Það var eiginlega einsog hann væri allur dofinn, gengi áfram í leiðslu. „Þetta er kannski hluti af kölluninni,“ hugsaði hann. „Það er til þess ætlast að ég fái að reyna óvenjulega hluti, svo að mér gangi betur að skilja lífið.“ Hann ýtti upp þungri hurðinni og gekk inn í samkomusalinn. Breiður borði hafði verið strengdur þvert yfir sviðið og á hann var nafn hans letrað. Hann þekkti það um leið og hann sá það. Framan við nafnið var listabókstafur flokksins hans með krossi við x. „Ex ég,“ hugsaði hann, allt þetta fólk trúir á mig, treystir mér, vill að ég berjist fyrir það og það skal ég gera. Konan hans kom á móti honum. Hann nauðaþekkti þessakonu. Þau höfðu búið saman í marga áratugi. Þetta var konan sem hann hafði búist við að sjá liggjandi í rúminu við hlið sér, þegar hann vaknaði fyrir skemmstu. Hann heyrði rödd hennar einsog í fjarlægð, þegar hún sagði honum, að allt væri tilbúið, fundurinn væri að hefjast og að það væri gert ráð fyrir, að hann færi fyrstur upp í ræðustólinn og héldi stutta hvatningarræðu. „Já,“ hugs- aði hann, „þjóðin hefur brotist úr sárustu fátækt til mestu velmegunar sem þekkist í heiminum. Það var þetta sem ég átti að segja.“ Hann ætlaði að segja konunni, að hann vantaði nú bæði hægri hönd og fót og biðja hana að panta tíma hjá lækninum, en fannst svo, að hann gæti látið það bíða. Hann leit frarn í salinn og sá einsog í móðu, að hvert sæti var skipað og að andlitin þúsund mændu á hann. Konan sagði honum að hann væri með nýja ræðu í jakkavasanum, að honum væri ekkert að vanbúnaði, nú skyldi hann ganga hnarreistur upp á sviðið og flytja hvatn- ingarávarp og að á eftir tæki lúðra- sveitin við. „Betri leiðir til betri lífs- kjara,“ hugsaði hann, „var það ekki þannig? Styrk stjórn, ábyrg afstaða. Hinn hreini meirihluti. Festa og mann- dómur. Ekki er allt gull sem glóir. Látum nú hendur standa fram úr erm- um. Nei,“ hugsaði hann, „ég verð víst að sleppa því.“ Hann mældi út stigann upp á sviðið og reiknaðist til, að hann gæti stigið í hann miðjan og enginn myndi taka eftir því að hægri fótinn vantaði. Hann hallaði sér fram, rétti úr sér og andartaki seinna stóð hann á sviðinu. „Það tókst,“ hugsaði hann og leit sem snöggvast um öxl. Konan stóð neðan við sviðið og horfði á hann gapandi af undrun. „Hvað nú?“ hvísl- aði hann milli samanbitinna tannanna og fann vindilreykinn leggja upp í augun. Hann leit við. Vinstri fóturinn hafði orðið eftir í stiganum. Hann stóð fótalaus á sviðinu; var orðinn mörgum sentímetrum styttri en hann átti að sér. „Nú fór í verra,“ hugsaði hann, „þetta hlýtur að enda með ósköpum." Hann fann, frekar en sá, að fólkið í salnum mændi á hann, og hann vissi að hann mátti ekki bregðast kjósendum sínum. Hann sté varlega fram og fann, sér til þónokkurrar undrunar, að hann gat auðveldlega gengið. Eiginlega var ekki verra að vera fótalaus. Hann leit á konuna, hún hafði nú lokað munninum og kinkaði uppörvandi kolli til hans. Svo sá hann að hún skaust að stiganum og tók vinstri fótinn, skýldi honum á bak við sig á meðan hún skaust í sæti sitt. Hann gekk hiklaust í ræðustólinn. Hann hafði lækkað svo í loftinu, að það var með naumindum að hann sást yfir púltið. „Ég verð að byrja kröftug- lega,“ hugsaði hann, „gefa snarpa yfir- lýsingu, sem fundarmenn gleyma ekki.“ Hann rétti úr sér, horfði alvarlegum augum yfir salinn, byrjaði á „góðir fundarmenn,“ en fann þá, að það heyrð- ist ekki til hans, vegna þess að hann var með vindilinn uppi í sér. Hann greip því vinstri hendi í vindilinn og ætlaði að leggja hann frá sér á púltið. Þegar hann tók í endann sem var klemmdur milli tanna hans, fannst honum hann vera óvenjulega þungur. Og þegar hönd- in sleppti vindlinum á brún ræðustóls- ins, fann hann að tennurnar höfðu alls ekki sleppt taki, heldur hafði höfuðið fylgt með vindlinum og nú stóð hann hauslaus við ræðustólinn. f öngum sín- um fálmaði hann í jakkavasann eftir ræðunni, en þegar hann dró að sér höndina, fylgdi hún ekki með, heldur lá eftir í jakkavasanum við brjóstið hægra megin. Höfuðið horfði einbeitt út í salinn, reyndi að láta ekki á neinu bera, tennurnar klemmdar um vindilinn og reykskýin bárust upp í loftið. „Þótt ég hafi ekkert að segja,“ hugsaði hann, „þá verð ég að halda andlitinu þangað til læknirinn kemur...“ 34

x

Spegillinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spegillinn
https://timarit.is/publication/349

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.