Tímarit iðnaðarmanna - 01.09.1928, Blaðsíða 6
T í M A R I T
IÐNAÐARMANNA
þessu orði um öláhrifin. Svo koma málshætiirnir:
öl er innri maður, og öl er annar maður. Norskur
háskólakennari, Axel Bugge, skýrir þannig frá
orðinu öl:1)
Orðið öl (á fornnorrænu Ql) er hið sama og
ealo á engilsaxnesku (enska ale), alo (fat) á forn-
saxnesku og ale eða ael á miðalda-lágþýska (aal
á hollensku). Til þess svarar á fornslafnesku olu,
er þýðir öl, á litauisku alus, er sömuleiðis þýðir
öl og finska hefir fengið að láni (olut), og enn-
fremur fornprússneska orðið ale, er þýðir mjöður.
Stofn orðsins er hjá germönskum þjóðum aluþ, en
það er skylt orðinu álún, og frummerkingin er að
öllum líkindum »bitur« eða »hið bitra«, sbr. á
fornslafnesku kvasu, er bæði þýðir »álún« og »öl«.
Korntegund sú, sem mest var notuð til maltgerðar,
var frá ómunatíð byggið. Nafn þessarar kornteg-
undar kemur fyrir í merkingunni »öl«, og er það
annað orð en hitt, sem að ofan getur. Það er
einkum notað í málum Vestur-Germana, en er líka
til í fornnorrænu og hljóðaði þar: bjórr. Þó er
líklegt, að fornnorrænan hafi fengið orðið að láni.
Það hljóðaði á engilsaxnesku béor (hollenska bier),
á fornfrísnesku bior eða bier og á fornháþýsku
bior (nýháþýska Bier). Stofninn er "beura — eða
*benza, sem er skylt *bewwu, er þýddi bygg.
En svo höfðu Norðmenn og íslendingar alþýð-
legt heiti á ölinu, nefnilega mungát. Að því er
málfræðingar vita best, er orðið ekki til í öðrum
germönskum málum. Uppruni orðsins er líka ókunnur,
en danski snillingurinn Rask segir, að mun sje að
fá eitthvað í munninn og gát sje góðgæti. Vngri
málfræðingar hafa líka komist að svipaðri niður-
stöðu um orðið mungát. Eflaust hefir ölið verið
talið góðgæti til forna og jafnvel hið eina, sem
um var að ræða, nema ef vera skyldi mjöðurinn,
er talinn var ennþá lostfengari. Þótt Armóður hafi
varla meint það, sem hann sagði við Egil forðum,
»at honum þætti þat illa, er hann hafði eigi mun-
gát at gefa þeim«,2) þá liggur í orðalaginu, að
hjer væri um góðgæti að ræða. A ýmsum orða-
bókum má sjá, að heitunum er ruglað saman, en
sumir leggja orðin út beinlínis eftir áhrifunum, því
að Sv. Egilsson þýðir orðið mjöður í Lexicon
Poeticum: hugsvölun.
Vmsir erlendir fræðimenn álíta, að mungát hafi
verið alþýðuöl, kostað lítið og sama sem skkert
áfengi verið í því. Segja þeir, að margar hitur hafi
verið gerðar af sama maltinu, og mungát hafi verið
með því síðasta. Þefta er eftir því sem höf. veit
1) A. Bugge, Ölskikker i Sagatiden b!s. 90.
2) Egilssaga, kap. 71.
best hinn mesti misskilningur, að því er sjeð verður
á fornsögum vorum og öðrum gögnum, er fjalla
um ölhitu. Á miðöldunum var raunar farið að gera
margskonar öl, og þar á meðal áfengislítið öl, sem
í Svíþjóð t. d. var nefnt engjaöl og notað fyrir
drukk, rjett eins og við höfðum sýruna. Sannleik-
urinn er sá, að á söguöldinni var hið þjóðlega
heiti á heimagerðu öli mungát. Enda þótt höggvið
sje eftir orðalagi Laxdælu: »En mungát skyldi
skemta alþýðunni*,1) þá sannar það ekki, að mun-
gát hafi verið óáfengt alþýðuöl, því að ótal mót-
sagnir koma í bága við þetta orðalag. Hjer nægir
að benda á það eina dæmi, þegar Ármóði flaug
það í hug, að gera Egil og föruneyti hans ófært:
»Því næst var öl inn borit, ok var þat hit sterk-
asta mungát«.2) En þegar um útlent öl var að
ræða, einkum þýskt, sem jafnan þótti mjög áfengt,
þá var ávalt talað um öl eða bjór. Þessi heiti á
ölinu koma alment síðar til sögunnar, enda mun
erlent öl ekki hafa verið flutt til Noregs, fyr en
á 11. eða 12. öld.3) Farar-mungát, sem getið er
um í Eglu4) og víðar, var líka mungát, en hið
svonefnda porsmungát, sem aðeins var gert í
Noregi, mun hafa verið kryddað með porskvistum,
og verður ef til vill vikið að þessu síðar. Fredrik
Grön, sem vandlega hefir ritað um hið forna
mataræði í Noregi alt fram á 15. öld5), minnist
á máldrykkju í Noregi hjá alþýðu og prestum.
Prestarnir fengu einnig mungát, og nærri má geta,
hvort þeim hefir verið gefið af verri endanum,
þar sem þeir áttu að krossa ölið. Hjer er líka
sönnun fyrir því, að mungát hafi aðeins verið gott
heimagert öl, en máldrykkjunni verður vikið að síðar.
Drykkjarheitin veig og líð, sem getið er um í
Snorra-Eddu,6) eru líklega skáldakenningar, eða
eldgömul drykkjarheiti, sem notuð hafa verið áður
en menn gátu skilgreint hin eiginlegu heiti drykkj-
anna. Orðabók Fritzners segir líð hafa verið mjög
áfengt. Vel getur verið, að hjer hafi verið um
þrúguvín að ræða, en líklegra er, að það hafi verið
mjöður. Annars var öl- og mjaðarheitum iðulega
ruglað saman; t. d. segir Sv. Egilsson í Lexicon
Poeticum, að mjöður sje heiti ölsins í helju, enda
má slíkt til sanns vegar færa, þegar rifjuð eru upp
heitin á ölinu í Eddukvæðum. Hausavíxlin eru hálf
óviðkunnanleg, því að öl eða mungát er gert af
1) Laxdæla, kap. 7.
2) Egilssaga, kap. 71.
3) A. Bugge, Ölskikker i Sagaliden, bls. 38.
4) Kap. 22.
5) Fr. Qrön. Kostholdet i Norge, bls. 200.
6) Sn. Edda, bls. 122 og 126.
[ 36 ]