Heima er bezt - 01.01.1958, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.01.1958, Blaðsíða 15
SÖGUR MAGNÚSAR A SYÐRA HÓLI JÓN KAUPAMAÐUR r AÁ T j Á n d u öld og fram á byrjun hinnar nítj- ándu bjuggu á Hrauni á Skaga þrír feðgar og k hétu allir Steinn. Hinn elzti þeirra var Jónsson og sagður náskyldur Steini biskupi Jónssyni á Hólum. Síðar meir voru langfeðgar þessir þannig að- greindir, að þeir voru kallaðir Elzti-Steinn, Mið-Steinn og Yngsti-Steinn. Dóttir Mið-Steins var Ingibjörg, kona Bjöms Guðmundssonar á Auðólfsstöðum í Langadal. Frá þeim er komin fjölmenn ætt og merk. Allir voru þeir Steinarnir miklir fyrir sér, og um Mið-Stein er það sagt, að hann væri karlmenni mikið og kappsmaður við alla vinnu á sjó og landi. Hann var og kallaður dreng- skaparmaður. Eitt sumar var hjá Steini (Mið-Steini) sunnlenzkur kaupamaður, er Jón hét, tekinn að reskjast, þreklegur maður og duglegur, en nokkuð hægfara og seinn til. Það var eitt sinn sem oftar um sumarið, að þeir fóru til fiskjar tveir saman, Steinn og Jón, en skammróið er oftast frá Hrauni. Nú hvessti skyndilega á sunnan, og verða þeir félagar að hanka upp og taka barning til lands. Steinn var þá á léttasta skeiði. Og er þeir settust undir árar sagði hann: „Bágt er nú að hafa ekki mann á móti sér.“ Jón gegndi því engu. Það fann Steinn brátt, að Jón var engin liðleskja við árina, og þó að Steinn reri af kappi, hallaði heldur á hann. Segir Jón þá með hægð: „Ég held þú megir betur, Steinn.“ Gengur svo um hríð og hrekkur Steinn ekki til. Þá segir Jón í skipunartón: „Gáðu að horfinu, Steinn!“ En er kom upp undir landsteina sneri Jón svo á Stein, að nærri sló flötu. Þá kallaði Jón byrstur: „Betur, Steinn!“ Er þeir voru Ientir, fór Steinn heim í bæ, sótti brenni- vínskút og dreypti vel á Jón, en hann þáði með þökk- um. Steinn sagðist aldrei hafa vitað meiri ræðara en Jón. Sögn Sigmundar Benediktssonar á Björgum. LÍTIL ERFIÐISLAUN Veturinn 1889 reri Jónas Illugason vertíðina frá Stærri-Vatnsleysu. Þar var hann hjá Stefáni Pálssyni útgerðarmanni. Stefán var sonur Páls Jónssonar á Hvassahrauni og bróðir Halldóru, konu Hannesar Guð- mundssonar á Eiðsstöðum. Stefán var dugnaðar- og kappsmaður og sótti fast sjóinn. Svo var og um aðra formenn þar á ströndinni, og hin mesta keppni með þeim, bæði um aflabrögðin og ekki síður um sjósókn- ina. Það kom oft fyrir, að róið var í svo að kalla ófæru veðri. Dytti einhverjum gapa eða sjóhundi í hug að fara á flot í vitlausu veðri, var vanaviðkvæðið hjá öðrum formönnum: „Þarna er einn farinn til andskotans. Ætli við skömm- umst ekki líka.“ Það var einn dag um veturinn, að á var norðan hríð- arslitringur með dimmviðri og þembingsvindi. Sjógang- ur var töluverður og auðsýnilega ekki fært að róa. Eftir málaverk biður Stefán á Vatnsleysu menn sína að koma ofan að hjalli og taka þar ýmislegt til handargagns, dytta að veiðarfærum og því um líkt. Stefáni var jafn- an óljúft að láta menn sína sitja auðum höndum til lengdar í landlegum. Menn brugðust vel við, klæddu sig vel og settu upp sjóhatta. Gengu síðan niður til hjallsins. Menn á Minni-Vatnsleysu glórðu þá í gegnum dimm- una, þóttust sjá, að þeir væru sjóklæddir og þá auðvitað á leið í róður. Þeir höfðu hröð handtök, bjuggu sig sem skyndilegast, gengu ofan í víkina og hrundu fram bát- um sínum. Á báðum Vatnsleysum höfðu formenn beitt- ar lóðir. Er þeir við hjallinn sjá, hvað um er að vera hjá grönnum sínum, vilja þeir engir eftirbátar vera, þrífa bjóð sín, henda þeim í bátana og flýta sér að komast á flot. Sjö skip fóru í róðurinn frá Vatnsleysunum báð- um. Nú voru segl dregin að hún og siglt út í hríðar- myrkrið, norðvestur í átt til miða. Skipin lágu undir ágjöf, en höfðu liðugan gang. Páll Jóhannesson hét sá, sem var formaður á bátn- um, sem Jónas var á, húsmaður hjá Stefáni Pálssyni. Bátur hans var gangskip gott. Fór hann fyrir, en hinir sigldu eftir. Engin leið var að sjá til miða fyrir dimm- viðri. Er Páll hafði siglt um stund og hugði sig vera kominn nálægt venjulegum fiskislóðum, lætur hann fella segl og leggja lóð. Slíkt hið sama gerðu aðrir for- menn. Stutt var milli skipa, og sáu menn nokkuð hvað grönnum leið, þó að lítið sæist fyrir hríðarsortanum. Páll hafði þann háttinn á, sem algengur var í þann tíð, að hann lét beita lóðina jafnótt og innbyrt var og leggja á ný. Gekk svo, unz tekin var hálf lóðin. Þá var kom- inn einn fiskur á skip. Þeir róa þá að hinu endabólinu og byrja að taka lóðina þeim megin. Þar sést ekki branda á öngli, og beita nú ekki lengur. Er lóðin tekin öll. Ekki þóttust þeir skipverjar Páls sjá betur, en bát- ar þeir, sem næstir voru og þeir grilltu í, væru bunk- aðir af fiski. Undu þeir sínum hlut allt annað en vel með einn titt á skipi. Ekki var um annað að gera en að Heima er bezt 13

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.