Heima er bezt - 01.01.1958, Blaðsíða 36

Heima er bezt - 01.01.1958, Blaðsíða 36
væri fullkomin, þar sem Rósa prestsdóttir var ekki í hópnum. Hún var í kvennaskóla í Reykjavík. Svona leið veturinn. Kristján var í miklum metum hjá unga fólkinu, einkanlega kvenfólkinu. Um vorið kom Rósa heim af kvennaskólanum með fallegt orgel, sem móðursystir hennar og nafna, sem var búsett suður með sjó, hafði gefið henni. Þá var mikið um dýrðir á Hofi. Rósa sat við hljóðfærið hálfa og stundum heila dagana. Kristján var oft hjá henni, og stundum lengur en hann hafði raunar tíma til, og söng með. Húsmóðirin var of glöð yfir heimkomu dóttur sinnar til að taka eftir því, að hún var orðin gjafvaxta stúlka en ekki barn. Það sáu það víst allir nema hún, að þeim Kristjáni leizt vel hvoru á annað. En svo komu náttúrlega vor- og sumarannirnar, og ráðsmaðurinn þurfti um annað að hugsa en að sitja inni við söng og orgelspil. Um haustið fór Rósa aftur í skólann. Kristján stakk upp á því, að kennari væri tekinn á heimilið. Það voru svo mörg börn í nágrenninu, sem þyrftu að læra. Það fengist talsvert fyrir fæðið þeirra, og ekki vantaði vinnukonumar til að hjálpa til við heim- ilisstörfin, þó að heimilisfólkinu fjölgaði eitthvað. Þetta varð ákaflega skemmtilegur vetur, því að nú var sorgarárið liðið, og kennarinn var jafn viljugur að dansa og Kristján ráðsmaður. Það leið varla svo nokkurt kvöld, að ekki væri stiginn dans frammi í stofunni. Nokkrum dögum fyrir jól kom Rósa allt í einu heim. Hún hafði verið svo lánsöm, að skipsferð féll norður. Ekki minnkaði gleðin og glaumurinn við það. Á annan í jólum var messað á Hofi. Fólkið flykktist til kirkjunnar, því það átti að stíga dans í stofunni um kvöldið. Eldra fólkinu blöskraði þetta guðleysi. Hann hefði ekki liðið svona lagað háttalag, hann séra Jón. Það var eins og allir góðir siðir hefðu horfið með hon- um, blessuðum. Nú ríkti reglulegt andvaraleysi á heim- ilinu. Gamla spákonan var ein af þeim, sem kirkjuna sóttu þennan dag. Hún drakk kaffi inni í maskínuhúsi og gat litið í bollann, sem maddaman saup úr. Hún sagði sam- ferðafólkinu það á heimleiðinni, að sér hefði bara ekk- ert litizt á þann bolla. Það yrði varla langt, þangað til eitthvað kæmi fyrir hana, blessaða manneskjuna. Lakast fannst henni, að geta ekki náð í bollann hennar Rósu, því að það yrði eitthvað henni viðkomandi. Það væri heldur ekkert undarlegt, þó eitthvað kæmi fyrir ekki ósvipað og í Hruna forðum. — Þá báðu konurnar hana að tala ekki meira. Þeim var aldeilis nóg boðið. En heima á Hofi var þess beðið með óþreyju, að presturinn og eldra fólkið hefði sig burtu, svo að hægt væri að fara að skemmta sér. Spilarinn var utan úr kaup- stað. Hann hafði falið harmoníkuna frammi í skála, því að hann hafði hugmynd um, að söfnuðurinn myndi ekki líta hana hýru auga. En nú var hún borin inn í stofuna, og þar með var eins og allt færi á sprett. Gólfið var þéttskipað ungu fólki, sem skemmti sér af hjartans lyst og datt ekki dansinn í Hruna í hug eða nokkur önnur hindurvitni. Rétt þegar skemmtunin stóð sem hæst gekk maddama Karen fram í stofuna. Hún fór reyndar aldrei lengra en í dyrnar. Hún sá Kristján ráðsmann leiða unga stúlku til sætis, hneigja sig svo fyrir Rósu, sem var rétt nýsezt á bekkinn, og hana fljúga brosandi í faðm hans og hjúfra sig sæla og glaða að brjósti hans, eins og barn að móður- barmi. Maddömu Karen svimaði, og hún fann til máttleysis í hnjánum. Helzt datt henni í hug að hún myndi hníga niður þar sem hún stóð, með hendina á hurðarhand- fanginu, en svo hörmulega tókst þó ekki til. Hún gat látið hurðina falla að stöfum, án þess að nokkur veitti því eftirtekt, því allir voru að hugsa um að njóta þess- ara dásamlegu augnablika. (Framhald. í nœsta blaði). Merkilegt vísindaafrek Framhald af bls. 18. • náttúrurannsóknir, heldur einnig mikilsvirði hagfræði- lega, og væri full nauðsyn, að honum yrði gert kleift að auka þar við, því að enn er margt óskoðað. Þá eru það annálarnir. Fæstum, sem lesa þá, mun detta í hug, hvílíkt feiknaverk það hefir verið að draga allt slíkt efni saman. Því að höf. hefír ekki látið sér nægja að safna því einu, er við kom náttúrufyrirbrigð- unum og tjóni af þeim, heldur hefur hann leitað upp nöfn manna og ættfærslur eftir kirkjubókum og hverj- um þeim heimildum, sem hugsanlegar voru. Enda þótt þetta sé skemmtilegt og setji oft meiri svip á frásögn- ina, sé ég eftir orku höf. til þeirra starfa. Ættfræði og ýmsar uppskriftir getur fjöldi manna annast, en nátt- úrufræðileg rannsókn á þessum hlutum er á fárra færi, og það sýnir verk Ólafs Ijósast, að hann er einn hinna fáu útvöldu í því efni. Annars efast ég um, að annað samtíningsverk úr annálum og sagnfræðiheimildum hafi verið betur gert á voru landi. Haft hefir verið eftir höfundi í blaðaviðtali, að til- gangur hans hafi verið að semja rit, sem þjónaði í senn hagfræði, sögu og náttúrufræði. Og þótt slíkt virðist ekki létt, þá hefir honum tekizt það og allt vel. Og enn má ekki gleyma því, að honum hefur tekizt að gera allan þenna mikla fróðleik létt læsilegan og aðgengi- legan öllum almenningi, svo vel að fátítt er um fræðirit. Þess er að vænta, að þegar þessi ágæta greinargerð um eðli og uppruna ofanfalla er orðin heyrin kunn, verði fyrir alvöru hafizt handa um að verjast þeim válegu náttúrufyrirbærum. Og mætti þessi bók valda tímaskiptum í þeim efnum hér á landi. Steindór Steindórsson frá Hlöðum. 34 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.