Heima er bezt - 01.06.1958, Qupperneq 10
fermdist. En það hefur enginn setið hérna á klöppinni.
Enginn gefið mér kveðjukoss, nema í þetta eina sinn.
Þau þegja bæði urn stund. Svo lítur hann á úrið sitt:
— Nú verð ég að fara, segir hann og stendur á fætur.
Unga stúlkan rís einnig á fætur.
— Kveddu mig nú hérna, Gerða. Mín leið liggur nú
á hafið. En þín... hvert liggur hún?
Unga stúíkan drúpir höfði, og yfir titrandi varir
hennar kemur ekkert hljóð.
— Gerða, hví setur þig svo hljóða? Fylgir ef til vill
hugur þinn æskuvininum á hafið? Æskuvininum þínum,
sem aðeins er fátækur farmaður. Honum, sem ekkert á
til að gefa þér, nema ást sína? En Gerða, er hún þér þá
nokkurs virði?
Unga stúlkan hnígur að barmi hans.
— Hennar hefi ég leitað og einskis annars, hvíslar
hún.
Og farmaðurinn ungi gleymir klukkunni...
Loks hrökkva þau bæði við. Skipið er tekið að blása.
— Nei, hugprúða, göfuga stúlkan mín, vertu ekki
kvíðin. Ég fer aðeins þessa ferð. Því lofa ég þér. Og
þegar ég kem aftur, þá færi ég þér brúðarkransinn. Ertu
nú ánægð... Já, svona, ástin mín. Þetta var góður koss.
Guð blessi þig fyrir að láta æskudrauminn minn rætast.
Þau leiðast heim tangann, að húsinu hans.
Móðir hans bíður komu sonar síns hnípin. Mörg á
hún þung sporin, og þung mun henni verða gangan til
skipsins í dag. í nótt hefur hana dreymt nákvæmlega
sama drauminn og fyrir tuttugu árum — nóttina áður
en hún fylgdi manninum sínum síðast til skips.
— Varstu ekki farin að undrast um mig, mamma?
segir ungi maðurinn.
— Nei, svarar hún. Ég sá, þegar þið fóruð fram hjá
áðan og vonaði, að Gerða mín héldi þér föstum, þar
til skipið yrði komið langt út á haf.
Ungi maðurinn hlær. — Þeir hefðu nú varla skilið
mig eftir. Þeir vissu, að ég fór heim til þín. En vertu
nú glöð, mamma. Ég hef nokkuð að segja þér. Þú baðst
mig í dag að hætta nú að sigla. Ég lofaði þér engu. En
nú hef ég lofað því. Og hverjum? Leystu þá gátu,
mamma.
Og móðirin leysir gátuna.
Þegar hún hefur lagt blessun sína yfir ungmennin,
er haldið af stað til skips. Ekkjan reynir að sýnast glöð.
Ekki vill hún blanda beiskju í hamingjuskál þeirra.
Það er margt fólk á bryggjunni, og er farmaðurinn
ungi birtist í hópnum, kallar stýrimaður ofan af þilj-
unum: — Hermóður, við erum farnir að bíða eftir þér.
Þau þoka sér nær skipinu, og er stýrimaðurinn sér
ungu stúlkuna í fylgd með hásetanum, þá brosir hann.
Kinkar vingjamlega til hans kolli og gengur í burtu.
Farmaðurinn kveður: — Vertu nú glöð, mamma!
Þetta er síðasta ferðin mín, segir hann um leið og hann
hleypur léttilega upp á skipið.
Ékkjunni finnst, sem köld hönd kreppi að hjarta sínu.
— Síðasta ferðin! Já, síðasta ferðin!
Hún drúpir höfði til að hylja tárin, sem hún veitir nú
ekki viðnám lengur.
Landgangurinn er dreginn upp í skyndi, og skipið
sígur hægt frá bryggjunni. Ungi maðurinn hallar sér
fram á borðstokkinn og veifar í land. Margir gamlir
kunningjar svara kveðju hans ásamt konunum tveimur.
Nýi læknirinn er staddur á bryggjunni. Hann snýr
sér að konunum og segir við ungu stúlkuna: — Veitist
mér sú ánægja að dansa við ungfrúna í kvöld?
Unga stúlkan lítur ekki á hann, en svarar með nokkr-
um þótta í röddinni: — I kvöld dansa ég ekki.
Læknirinn skotrar augunum til hásetans á þilfarinu
og glottir kuldalega um leið og hann gengur í burtu.
Unga stúlkan tekur undir handlegg ekkjunnar og
leiðir hana heim að hvíta húsinu á tanganum.
— Ég lít inn til þín í bakaleiðinni, segir hún. Svo
heldur hún áfram göngu sinni yfir tangann og niður
í Bjarnarvíkina.
Hún sezt á Bjarnarklöppina og horfir út á fjörðinn.
Innan lítillar stundar kemur skipið fram undan tangan-
um. Það líður rólega út fjörðinn. Léttlyndar bárur leika
við brjóst þess. í dag eru þær í góðu skapi. í dag hafa
þær enga löngun til að brjóta leikföngin sín við klett-
ana. Léttar og kvikar líða þær upp að ströndinni með
leyndar kveðjur í skauti.
Loks hverfur skipið. Ungu stúlkunni er þungt um
hjartað og augu hennar döggvast. — Hann er horfinn.
Hún situr um stund. Svo rís hún á fætur og horfir
enn út á fjörðinn...
— Hægan nú, Steingerður. Stilltu þig, hjarta! í haust
kemur Hermóður af hafi...
En Hermóður kom aldrei af hafi.
Tjaldið fellur.
Aftur er það gráhærð þreytt kona, sem situr á bekkn-
um við gluggann. Það er drepið á dyrnar hennar. Lítil,
ljóshærð telpa nemur staðar á þröskuldinum og spyr
hikandi: „Má ég koma inn til þín?“
„Já, Solla mín,“ svarar gamla konan.
Solveig litla lokar hægt hurðinni og staðnæmist síðan
vandræðaleg innan við dyrnar.
„Hvað var það, barnið mitt?“
Litla stúlkan færir sig nær henni og segir: „Mamma
bað mig að fara til þín. Ég sagði henni, að Nonni bróðir
hefði brotið flöskuna þína áðan, og mömmu þótti svo
fyrir því. Hún biður þig að fyrirgefa honum. Og hún
bað mig að færa þér þennan böggul frá sér.“
Gerða horfir á hana, eins og hún átti sig alls ekki á
því, sem hún er að segja.
Solla litla mænir biðjandi á hana og segir: „Elsku
Gerða mín, taktu við þessu. Gerðu það fyrir okkur.“
Þá hrynja tárin niður vanga gömlu konunnar.
Solla litla lítur undrandi á hana og segir óttaslegin:
„Æ, Gerða mín. Ég hélt að þér þætti vænt um þetta.“
„Já, já,“ svarar hún. „Það voru víst aðeins hlekkimir
að bresta.“
„Hvaða hlekkir?" spyr barnið undrandi.
„Nei, það var ekkert,“ segir gamla konan. Hún strýk-
ur gullna hrokkinkollinn og segir: „Má ég kyssa þig
fyrir böggulinn?“
192 Heima er bezt