Heima er bezt - 01.12.1959, Blaðsíða 33

Heima er bezt - 01.12.1959, Blaðsíða 33
HEIMA_____________ BEZT BÓKAHILLAN Þjóðsagnabók Ásgríms Jónssonar. Reykjavík 1959. Menningarsjóður. 159 bls. Nýstárleg bók, fágætlega fögur og sígild að efni. Naumast verð- tir bók þessi auðkennd með öðrum orðum. Það er löngu kunnugt, að hinn ágæti listamaður, Ásgrímur Jónsson, kunni manna bezt að færa myndir íslenzkra þjóðsagna á flöt lita og lína. Viðfangs- efni þjóðsagnanna heillaði hann, og einkum á síðustu árum ævi sinnar vann hann að þessu hugðarefni sínu af kappi. Gaf hann Menningarsjóði kost á útgáfu úrvals af myndum þessum, er hann sjálfur valdi. Og nú er bókin komin. Flytur hún alls um 50 mynd- ii og margar þeirra með litum. Flestum myndanna fylgja sögur þær, er þær voru gerðar við. Er þar skemmst frá að segja, að myndirnar eru hinar ágætustu og gæða þjóðsögurnar nýju lífi og sýna um leið, hvílík uppspretta skáldskapar og myndlistar þjóð- sögur vorar eru, þegar efnið kemst í hendur þeirra, sem með kunna að fara. Einar ól. Sveinsson, prófessor, skrifar ágætan for- mála um Ásgrím og þjóðsögurnar. Er hann ágæt leiðarvísan til aukins skilnings á myndunam. En mesta nautn veita myndirnar lesandanum með því að skoða þær og lesa þjóðsögurnar sjálfar og fylgja þannig listamanninum um undraheima þjóðsagna og ævintýra. Pálmi Hannesson: Mannraunir. Reykjavík 1959. Menningarsjóður. 251 bls. Þetta er þriðja bindið af ritum Pálma Hannessonar, sem Menn- ingarsjóður gefur út. Flytur það nokkra frásagnaþætti af mann- raunum á ferðalögum o. fl., skólaræður og nokkur erindi önnur. Enda þótt hin fyrri bindi af ritum Pálma Hannessonar séu hin ágætustu, þá hygg ég, að mörgum muni fara sem mér, að þykja mest til þessa bindis koma. Þar kemur höfundurinn sjálfur bezt fram, en í nálægð hans var ætíð gott að vera. Einkenni sjálfs hans, æðrulaus karlmennska, góðvild, sívökull rannsóknarhugur og djúp lotning fyrir vísindunum og tilverunni allri, eru rauði þráðurinn í þessari bók. Mannraunasögumar eru vel skráðar. Var það hvort tveggja, að Pálma Hannessyni léku orð á tungu og hann var heill- aður af hverju því viðfangsefni, sem brá ljósi yfir lífsbaráttu þjóð- ar vorrar og sýndi um leið manndóm og þrek. Staðþekking hans á landinu fyllir upp í brotasilfur það, sem sögurnar eru oft smíð- aðar úr, svo að úr þessu verða sígildir menningarþættir. Skóla- ræðurnar eru margar hinar ágætustu. Að vísu eru þær um margt líkar hver annarri, eins og slíkar ræður löngum verða, en þó hver með sínu svipmóti, enda gæddar andríki og innsæi höfundar. Þær ná yfir allan skólastjórnarferil hans eða meira en aldarfjórðung, allt frá því er hann ungur og djarfhuga hóf skólastjórn, og þar til hann setti skóla i síðasta sinn, nokkrum vikum fyrir andlát sitt. Ef þær ræður eru lesnar með athygli, segja þær mikla sögu og merkilega um virðulega stofnun og ágætan mann, sem sleit kröft- um sínum í þágu hennar og uppeldis þjóðarinnar. Af erindunum er einkum hið síðasta athyglisvert. Heitir það: Vísindi, tækni og trú. Hefur ekki verið betur ritað um það efni annars staðar á ís- lenzku; þótt allir vitanlega verði ekki sammála höfundi í niður- stöðum hans, þá flytur erindið lesandanum óvenjumikið umhugs- unarefni. Og ef til vill kynnumst vér höfundinum hvergi betur í ritum hans en þar. Bindið hefst á greinargóðri ævisögu Pálma Hannessonar eftir Jóhannes Áskelsson. Ámi óla: Grafið tir gleymsku. Reykjavík 1959. Menningarsjóður. 310 bls. Árni Óla ritstjóri er mikilvirkur við að grafa gamlar sagnir úr gleymsku og gæða þær nýju lífi. Mun bók sú, er hér getur, vera hin fjórða eða fimmta bók hans um þessi efni. F'rásögn hans er ætíð létt og lipur, og honum er sú list lagin, að tengja saman sundurlaus brotabrot úr þjóðsögum, annálum, dómabókum og öðru slíku og gera úr því öllu læsilega heild og skýra þjóðlífsmynd, en að undirtitli velur hann nafnið: „Þjóðlífsmyndir frá liðnum öldum.“ Hefur Árni með þessu bjargað mörgurn minnum á land af hafsjó tímans. Hinu verður ekki neitað, að margar eru mynd- irnar ömurlegar, og verður þeirri hugsun naumast varizt, að mestar séu frásagnir af einhverjum vandræðamönnum þjóðfélags- ins, en þó hygg ég, að meira mætti grafa upp úr gleymsku af bjart- ari myndum en bæði Árni Óla og ýmsir aðrir, er við lík fræði fást, gera. En allt um það á höfundur þakkir skilið fyrir alúð sína við að bjarga hinum fornu minnum, og ýmsir þættir í menningar- sögu þjóðar vorrar verða ljósari fyrir það starf hans, auk þess, sem bækur hans eru góð lesning og dægrastytting í skammdeginu. Bragi Sigurjónsson: Á veðramótum. Akureyri 1959. 112 bls. Á rúmum áratug hefur Bragi Sigurjónsson sent frá sér fimm bækur, fjögur ljóðasöfn og smásagnasafn. Hefur hann þó alla stund liaft skáldskapinn í hjáverkum frá margvíslegu annasömu starfi, stjórnmálaþrasi og ritstjórn. Þetta væri ekki í frásögur fær- andi, ef sýnilega væri kastað höndum til skáldskaparins, en því fer svo fjarri, að með hverri nýrri bók sýnir höfundurinn að hann er vaxandi og vinnur á þessu sviði með alúð og vandvirkni. Og þetta gæti vakið þá hugsun, að hin nána snerting við lífið sjálft, í daglegri önn þess, sé betur öðru fallið til að halda skáldæðinni opinni. Á ýmsa lund er þó annar blær á þessari bók en hinum fyrri ljóðum Braga. Ádeilunnar gætir minna, og yfir henni er léttari blær og bjartara heiði. Annars vegar fögnuður skáldsins yfir hinu fagra og bjarta í náttúrunni, en hins vegar þó nokkur tregi yfir því, sem tapað er, svo sem í kvæðinu Þrír svanir. Það er erfitt að benda á einstök kvæði, sem sérlega einkennandi, en minnisstæðust verða mér kvæðin ViS ágústlok, Torfbœr og stein- hús og hið létta og lýriska kvæði Vor. Yfirleitt nær höfundur sér bezt niður á hinum lýrisku kvæðum, og hann kann þá list að hnitíniða þau en spilla þeim ekki með lengd og mælgi. Sögulegu ljóðin aftast í bókinni eru um margt athyglisverð, einkum þó kvæðið Synir í Svarthöfðamálum. Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum: Undir dalanna sól. Reykjavík 1959. 147 bls. Höfundur þessarar Ijóðabókar er í tvennum skilningi dalabarn, bæði almennt, og svo er hann Dalamaður að ætt og uppvexti. í ljóðum hans er fagur, innilegur óður til íslenzkra sveita og sveita- lífs, ósvikinn og hreinn. Er þar víða við komið, bæði í vorblíðu og vetrarhörkum, þjóðtrú og þjóðsögum, og höfundur kann einnig skil á dýrum merkurinnar og förunautum mannsins. Margar þær myndir, er hann dregur upp, eru gerðar af hagleik. Það er enginn klaufi, sem yrkir kvæði eins og Útsynningur. Rjúpa er ort af næm- um skilningi dýravinarins og þó um leið veiðimannsins. Og hlýjan (Framhald á bls. 438). Heima er bezt 433

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.