Heima er bezt - 01.04.1964, Blaðsíða 14
Stefón i Hlíð.
því að þarna eru ágæt fiskimið. Róðrar hófust með
byrjaðri Góu og var haldið út fram á vor. Stundum
var tvíhlaðið, og varð þetta mikil björg í bú. í sveit-
inni voru margir dugnaðarmenn og góðir formenn,
voru þeir glöggir á veður og sjólag, enda sóttu þeir sjó-
inn fast. En stunduin varð aflabrestur, bæði af fiskleysi
og gæftaleysi. Selveiði var mikil frá tveimur bæjum, og
æðarvarp var á sumum þeirra.
Sveitin skiptist í: Austur-lón, Mið-lón og Suður-lón,
sem er sunnan við Jökulsá. í Suður-lóni eru góðar
áveituengjar, nema á tveimur jörðum, sem eru engja-
lausar, Efri-fjörður og Syðri-fjörður. Fengu bændur
þar léðar engjar hjá öðrum. Þessar jarðir höfðu þó sína
kosti. Þar var mikil selveiði, og svo góð útbeit, að fé
gekk að mestu sjálfala. í Efra-firði var það hýst í helli,
en haft við hús í Syðra-firði. Aldrei var gefinn fóður-
bætir, enda slíkt ekki tízka þá. Nú sýnist svo, sem allt
land þarna sé grjót, en það er eins og venja megi skepn-
ur við allt. Afkoma var þar ætíð góð á fé. Þannig t. d.
frostaveturinn harða 1918 var ekkert gefið í Syðra-
firði, og þrjú lömb gengu úti með fullorðna fénu og
spjöruðu sig vel. Nú er þetta breytt. Fé er gefið, því
að nóg er taðan.
Veðráttan er oft duttlungasöm og furðu ólíkt viðr-
ar á ýmsum stöðum í sömu átt, þótt í sömu sveit sé. í
Austur-lóni er austan- og norðaustanátt verst, í Mið-
lóni norðanátt, en sunnan og suðvestanátt er hörðust í
Suður-lóni, þær áttir eru hagstæðastar í Mið-lóni.
Um aldamótin 1900 var oft hart í ári. Þá var allmik-
ið um Ameríkuferðir héðan. Ég fylgdist lítið með þess-
um brottflutningum fyrr en eftir aldamót, og minnir
mig að 26 manns færu héðan úr sveitinni, þar af 15 frá
Vík í Lóni, eftir aldamótin. Margt var þetta efnalítið
fólk, og ímynda ég mér, að mörgum þeirra hafi verið
þungt um hjartarætur, að skilja við ættjörð sína og ekki
sízt við heimili sín, vini og venzlamenn. Það hlýtur að
hafa verið ömurlegt ferðalag að flytja í aðra heims-
álfu og skilja ekkert orð í þarlendu máli. En íslending-
ar hafa alltaf verið kjarkmiklir, enda alizt upp við mis-
jöfn skilyrði og harða lífsbaráttu.
í Reykjavík sá ég einu sinni kvikmynd af brottför
íslenzkra hjóna til Ameríku. Fékk ég þá hugmynd um,
hvernig viðskilnaðurinn hefur verið. Okunnur maður
kom og tók skepnurnar, eina kú og nokkrar fallegar
kindur. Átakanlegt var að sjá konuna kveðja kúna sína.
Hún lagði hendur um háls henni og tárfelldi. En mér
sýndist bóndinn hörkulegur og ákveðinn á svip. Síðan
lögðu þau af stað. Bóndinn gekk og teymdi hest með
farangri þeirra, en konan reið öðrum hesti ásamt tveim-
ur börnum. Annað hafði hún í kjöltu sinni, en hitt sat
á lend hestsins. Þetta var stólpagripur, sem ekld virtist
verða mikið um að bera þau þrjú, því að konan var lítil
og mögur en börnin ung. Hún var föl og döpur á svip-
inn, yfir að skilja við kotið sitt, þótt lítið væri. En svona
hafa mörg dæmin verið, ekki sízt í hörðum árum, en
nú tekur óðum að fyrnast yfir það.
Óhætt er að fullyrða, að í Lóni var gott fólk og
myndarlegt. Margt af því var góðum gáfum gætt, og
notaði þá Guðs gjöf vel. Ef allir væru góðir í heimin-
um, þá væri gott að lifa. Ég ætla að minnast hér þriggja
öldunga, sem höfðu sveitarmál með höndum og voru
brautryðjendur á mörgum sviðum og sveitarhöfðingj-
ar. Nokkru eftir aldamótin síðustu fóru þrír ungir
menn héðan í skóla, tveir í Flensborgarskóla en einn á
bændaskólann á Hvanneyri. Að loknu námi komu þeir
aftur heim í sveitina, reistu þar bú, eignuðust góðar og
dugmiklar konur, sem gerðu heimilin aðlaðandi bæði
heimamönnum og gestum. Bjuggu þeir blómabúi allan
sinn búskap.
Fyrst er að geta Stefáns í Hlíð. Ég hefi ekki kynnzt
honum mikið heima fyrir, og aldrei unnið þar heima,
nema lítilsháttar í búnaðarvinnu. Stefán var lengi verk-
stjóri í vegavinnu, og þar var ég með honum í mörg
sumur og hafði mikið gott af, því að þar lærði ég að
vinna. Stefán er mikill verkstjóri, áhugamikill um að
verkið gangi fljótt, útsjónarsamur og glöggur á vinnu-
brögð. Ég minnist eins dags úr vegavinnunni með Stef-
áni. Við vorum á Breiðdalsheiði. Það var í 9. viku sum-
ars, að áfelli gerði, svo að við urðum að hætta vinnu urn
miðjan dag vegna óveðurs. Okkur leið vel í tjöldun-
um. Við söfnuðumst nokkrir saman í verkstjóratjaldið,
en þar var mikil glaðværð. Stefán var alltaf að segja
okkur sögur, en hann hafði frá mörgu að segja, hafði
farið víða og kynnzt mörgum. Engan mann hefi ég
heyrt segja eins vel frá, enda er hann gáfaður maður og
gæddur mikilli frásagnargáfu. Allt í einu heyrðum við,
146 Heima er bezt