Heima er bezt - 01.10.1967, Síða 36
höfuðsitja ærnar, þær voru svo ótrúlega lúmskar, er
þær ætluðu sér að komast á fjallið. Þá voru sífelld
hlaup og hó og köll og hundsgjamm. Alltaf reyndi
einhver ærin að laumast burt, og tækist henni það
voru skammirnar vísar fyrir vesalings smalann. Og
kostað gat það tveggja þriggja daga leit á fjöllun-
um að finna strokufáluna.
Á haustin eftir að lömbin höfðu verið tekin frá
mæðrum sínum og rekin í kaupstað til slátrunar, voru
ærnar mjólkaðar heima, og þurfti þá að smala þeim á
hverjum degi heim í kvíar. Væri ekki búið að heyja
útengið, sem oft var, rak engjafólkið ærnar inn í
helli, sem tilbúinn var frá náttúrunnar hendi — sem
rétt fremst frammi, en þrengdist óðum er innar dró.
Þar hafði fyrir langa löngu verið hlaðinn grjótgarð-
ur þvert yfir, svo ærnar kæmust ekki inn í sjálfan
hellinn. Mjólkin var síðan flutt heim í brúsum ofan á
milli bagganna.
Það var snemma sumars að grönn og gelgjuleg
fimmtán ára telpa reið fram dalinn á brúnum hesti
með gamlan hund sitjandi á hestlendinni. Það var
ósköp venjuleg sjón að sjá þessi þrjú saman á ferð í
dalnum. Aldrei reið hún í hnakk, það þótti óþarft.
Með beizlið um öxl hélt hún að heiman, sagði
Snata gamla að sækja Brún sem hann gerði, ef hann
nennti því. Það var ekkert gaman að eiga við hann
Brún, hann bæði beit og sló, ef honum mislíkaði, jós
ef eitthvað út af bar, og hafði það líka til að prjóna.
Snati gamli gat samt verið furðu iðinn við að bíta í
hælana á Brún, svo hann hafði ekki stundarfrið, og
af margra ára reynslu vissi hann að bezt mundi að
halda heim á leið, og eitthvað gott fengi hann í
munninn, um leið og mélinu var bmgðið upp í hann
og beizlinu smeygt yfir höfuð hans.
Stundum lá telpan fram á makka hestsins, stund-
um sneri hún sér öfugt. Brún gamla var alveg sama.
Hann þræddi götuslóðann fram dalinn samvizkusam-
lega, fékk sér við og við væna tuggu úr götubakkan-
um. Stundum nam hann alveg staðar, en þá hottaði
telpan á hann, því þó hún tæki ekki alltaf eftir hve
hægt hann fór, varð hún strax vör þess næmi hann
staðar. Þá rölti Brúnn aftur af stað, dæsti, blés og
snörlaði hátt og setti upp leiðindasvip.
Það orð lá á, að telpan gæti gert hundlatan hvaða
gæðing sem væri. Ástæðan væri sú að henni lá aldrei
svo mikið á, að hún léti ekki hestinn ráða ferðinni.
Vaggandi hreyfingar hægagangsins komu ímynd-
unarafli hennar á hreyfingu. Hún naut þess að láta
sig dreyma. Það kostaði enga peninga, en það gerðu
aftur á móti allir hlutir í veruleikanum.
I draumum sínum komst hún í skóla, var langdug-
Iegust að læra, átti fallegustu fötin og gat veitt sér
allt það sem hugurinn girntist. Og það sem bezt var,
gefið þeim sem fátækir væru með sér. Hún vissi að
þessir draumar hennar voru víðsfjarri veruleikanum,
en hvað um það, þeir voru hinn skemmtilegi hluti
tilveru hennar.
Hjá Málfríði stjúpu sinni fékk hún þann vitnis-
burð, að hún væri „sofandi sauður“, en þó furða
hvað undan henni gengi úti. Inni gerði hún helzt
ekki neitt nema prjóna, en legið gat hún í bókum,
hvenær sem hún sá sér færi. Stjúpan gat þess ekki,
að telpan var höfð í öllum útiverkum eins og strák-
ur allan ársins hring, og kom sjaldan inn fyrr en að
kvöldi og þá dauðuppgefin. Heldur ekki var sagt frá,
að aldrei tók telpan sér svo bók í hönd að hún tæki
ekki prjóna sína líka og potaði á meðan hún las.
Telpan átti aldrei stund fyrir sig sjálfa og hafði
fyrir löngu sætt sig við það. Nú síðan hún fór að
hirða önnur fjárhúsin mikið til ein, dundaði hún oft
lengi í fjárhúsunum, sat á garðabandi, meðan ærnar
átu og lét hugann reika um lönd og álfur drauma-
heima sinna.
Sjálf átti hún eina kind. Manga gamla vinnukona
hafði gefið henni hana þegar hún fermdist. Hún hét
Sníkja og var heimalningur.
Telpan horfði með ást og aðdáun á þessa fyrstu
séreign sína, sem átti að verða upphafið af auðlegð
hennar, því rík ætlaði hún að verða.
Manga bjó sér í lítilli baðstofu sem innangengt
var í úr bænum, ef Manga kærði sig um, en venju-
lega var sú hurð harðlæst, og sú gamla gekk heldur
hálfhring í kringum bæinn en opna hurðina. Þarna
var hennar konungsríki, sem aðeins útvaldir fengu að
stíga fæti sínum inn í.
Manga hafði aldrei giftst, en átt einn son sem dó
fárra ára gamall. Um hann talaði hún aldrei, en tók
ástfóstri við öll börn, sérstaklega þau er fáa áttu að.
Hún hafði verið vinnukona hjá afa og ömmu telp-
unnar og fóstrað móður hennar, svo það var engin
furða þó hún liti til með Völu, en svo hét telpan.
Á Hamri bjuggu faðir telpunnar og stjúpa ásamt
átta börnum þeirra. Faðir hennar hafði aldrei sýnt
henni nokkra hlýju og aldrei getað litið hana réttu
372 Heima er bezt