Heima er bezt - 01.11.1977, Blaðsíða 22

Heima er bezt - 01.11.1977, Blaðsíða 22
„Svo er það kallað,“ svaraði hann. Spurði hann mig þá margs að vestan, en ég leysti úr því eftir föngum. Reið svo hver leið sma. Þetta fólk mun hafa verið að ríða í skemmtiferð. Fór það lengst að Staðartungu, það frétti ég um kveldið. Fór ég nú til Akureyrar og keypti til sumarmálanna brauð, kaffi, sykur og fleira. Var það hátt í hálftunnu- poka. Reiddi ég hann fram að Staðartungu, kom þang- að seint og gisti. En nú ónáðaði gamla konan mig ekki. Daginn eftir, sem var sunnudagur, var mér fylgt á hestum fram að Myrká. Þann dag messaði þar séra Arn- ljótur á Bægisá. Heyrði ég og sá til hans mörg em- bættisverk. Fyrst söng hann yfir barni. Þar næst hóf hann messugjörð. Þótti mér hann tilkomumikill í messu- skrúðanum, en ekki var röddin fögur. Þá hélt hann stólræðu og talaði blaðalaust, en ég var því óvanur. Þótti mér ræðan þunn og framburðurinn eftir því, en vera má, að ég hafi ekki haft vit á að meta ræðuna. Svo leiddi hann tvær konur í kirkju. Þótti mér snilldarverk á þeirri athöfn. Hafði hann líka gott efni til þess, því að önnur átti barnið, sem hann söng yfir, en barn hinn- ar lá dauðveikt. Að síðustu spurði hann börn, og frædd- ist ég þar af honum. Ég gisti um nóttina á Myrká. Daginn eftir fór ég að Ásgerðarstöðum, sem er stutt dagleið. Hafði ég áætlað að ganga vestur Hörgárdalsheiði. Þann dag var dimmt í lofti og hríðarútlit. Ég fór á fætur um aftureldingu um morguninn á Ásgerðarstöðum. Var þá koldimm logndrífa, en frostlítið. Bóndinn sagði að vitlaust væri að leggja af stað í þessu útliti. En ég kvaðst ei fara nema að Flöguseli, ef ekki birti til. Þá voru mér lánuð létt skíði og negldar á þau fjalarspækjur. Batt ég pokann þar ofan á. Hélt ég nú af stað, en gekk seint og þótti þungt að draga, því að snjórinn hnoðaðist fyrir sleð- ann. Komst ég nú fram hjá Flöguseli, sem er stutt leið. Þá birti töluvert til, svo að ég sá til heiðarinnar í svo nefndan Heimari-slakka. Það er há brekka og er tíðast farin á vetrum, en er brött mjög og erfið, ekki síst þá snjór er, en skemmra þar upp á heiðina. Ég hélt því áfram. En er ég kom talsvert langt fram fyrir Grjótá, dimmdi að aftur. Lagði ég nú með hálfum huga á brekkuna. Gat ég ekki dregið sleðann fyrir bratta og snjó. Tók ég því pokann og lagði á bak mér og hélt annarri hendi í opið, en hinni í sleðataugina, en fönn- in í hné og mitt lær, sums staðar. Ekki fór ég lengra í einu en tvo til þrjá faðma, því að pokinn var þungur. Svona mjakaðist ég áfram, þótt hægt gengi, þar til ég náði brekkubrúninni. Þá hvíldi ég mig dálitla stund. Þá tók að birta í lofti og hætti að hríða. Lagði ég nú pokann á sleðann. Fljótlega sá ég, er vestur kom á heiðarflóann, að lítið eða ekkert hafði hríðað, er vest- ur dró. Gekk mér vel vestur að Víkingsá. Fór ég það- an frá eftir Norðuránni vestur eftir á rifahjarni, og var þar hvergi vök, allt að Skútagili. Þar er árgilið farið að dýpka. Þorði ég ekki að aka lengra, ef vakir væru á ánni eða hún kannske auð. Stakk ég því skíðasleðanum '570 Heinhi er bezt niður í skafl, lagði pokann á bak mér og hélt heim að Illagili. Sæmilega gekk mér ofan í gilið eftir götunni, en í vestari barminum var há og snarbrött hjarnhengja. Sá ég, að alófært var að komast þar upp. Tók ég þá það til ráðs að reyna að fara upp gilið, sem er víðara nokkru ofan við götuna, og var þó hættusamt, því að þar var nóg af hjarni og svellklambri. Staulaðist ég áfram með því að spora mig, með stafinn í annarri hendi, en dró pokanna með og kippti honum smám saman á eftir mér. Náði ég loks grashöfða litlum. Batt ég þá snæri um pokann, en skreið á fjórum fótum, það sem eftir var, dró ég svo pokann til mín á snærinu. Varð ég nú feginn, er þessi för mín endaði svona vel, því að þetta var hættuför. Hefði ég misst pokann, og þess heldur, ef mér hefði skrikað fótur, var allt komið ofan í ár- gilið og þá að líkindum saga mín ekki orðið lengri. Gekk ég nú vestur heiðina með poka minn á bak- inu. Fór ég langt fyrir ofan Klifið. Var þá gangfæri gott. Þegar ég kom að Hálfdánartungum, var rétt nón. Þar bjó þá Magnús Guðmundsson, góður drengur. Hvíldi ég mig þar á þriðja klukkutíma og fékk hress- ingu góða. Vigtaði Magnús poka minn. Var hann fullir 7 fjórðungar að þyngd. Hann furðaði á, að ég skyldi orka því að komast með svo þunga byrði. Eftir góða hvíld í Hálfdánartungum, rölti ég út og ofan að Norðurá. Óð ég hana neðan við Prestselshöfð- ann. Var hún mér meira en í klof, því að hún hafði dregizt um daginn. Gegg ég svo ofan að Valagilsá. Hana treysti ég mér ekki til að vaða með pokann, því að hún var svo ströng og stórgrýtt. Skildi ég þá pokann eftir, lagði í ána laus og gekk furðu vel yfir. Fór ég svo að Kotum. Tók hest minn þar og sótti pok- ann fram eftir. Skipti ég svo farangri mínum í tvo poka. Settist ég á bak og var nú hress í bragði. Á leið- inni kom ég að Sólheimum. Þurfti ég að skila boðum frá Helga bónda þar til Jóhönnu konu hans, en Helga hafði ég hitt norður í Staðartungu og var hann þá á leið til Akureyrar. Vildi Jóhanna, að ég gisti þar. Var þá kominn háttatími, en ég vildi hafa mig heim. Allir voru í svefni, þegar ég kom í Djúpadal. Gerði ég ei vart við mig, fór í rúm mitt og sofnaði fljótt, því að ég var þreyttur orðinn. Um morguninn var ég vakinn með kaffi. Voru þá bæði hjónin við rúmstokk minn með hjartans þakklæti fyrir dugnað minn. Valgerður systir mín var ætíð þakklát fyrir verk þau, er voru unnin henni, Jón kallaði á mig fram í stofu og gaf mér tvö staup af brennivíni. Hafði Ari á Flugumýri sent honum eina flösku til sumarmálanna. Þennan dag kom faðir minn að Djúpadal. Hann átti þá heima á Höskuldsstöðum. Var honum sagt af ferð minni. Sagði þá karl, að þetta væri til að herða þá, þessa ungu menn. Svona var hans vorkunnsemi, og var hann J>ó hræðslugjarn um aðra. En móðir mín kvaðst hafa verið hrædd um mig, er hún frétti, að ég lagði einn norður, og beðið Guð að styrkja mig- (Framhald í næsta blaði).

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.