Heima er bezt - 01.04.1988, Page 25
fæddur og uppalinn að Hjartarstöðum í Eiðaþinghá. Hann
var búfræðingur frá Hvanneyri, og hafði síðar verið í lýð-
háskóla í Friðriksborg í Danmörku. Hann var um tíma
kennari í Hróarstungu og vann hjá Búnaðarsambandi
Austurlands við plægingar o.fl. Eftir að við stofnuðum
heimili vorum við alltaf með einhvern búskap, enda þótt
við værum í húsmennsku á Hallfreðarstöðum fyrsta árið
(1917-1918) þá vorum við með eina kú og eitthvað af
kindum og alveg út af fyrir okkur. Við vorum á
Litla-Steinsvaði í Hróarstungu árin 1918-1921, en fórum þá
í Hjaltastað í Hjaltastaðaþinghá. Þar er gamalt kirkjusetur
og bjuggum við þar til 1928, en fluttum þá að Vattarnesi í
Fáskrúðsfirði, þar bjuggum við í sex ár, en 1933 fluttum við
til Reykjavíkur, og þar hef ég búið síðan.
Eitt hið fyrsta, sem ég gerði eftir að við komum til
Reykjavíkur var að kaupa prjónavél. Ég tók prjón heim á
Bergstaðastræti 70, en flutti síðan prjónastofuna í Tjarnar-
götu 3. Ég var með 2-3 prjónavélar, og hjá mér unnu dætur
minar og þrjár til fjórar stúlkur. Árið 1934 var Pétur vega-
verkstjóri austur á landi. Hann var þá orðinn heilsulítill.
Síðan vann hann hjá Flugfélaginu við ýmiskonar lagfær-
ingar, en síðustu sjö árin var hann sjúklingur heima. Þá
flutti ég prjónastofuna aftur heim og vann alveg fyrir
heimilinu. Eftir að við fluttum í Úthlíðina hélt ég áfram að
taka prjón og hætti því ekki fyrr en um 1969.
Ég eignaðist átta börn á tíu árum. Þau eru:
Sigríður, fædd 18.8. 1918. Dáin.
Sigrún, fædd 13.3. 1920, húsmóðir. Dáin.
Inga Margrét, fædd 8.5. 1921, húsmóðir í Ameríku.
Ragnhildur, fædd 6.9. 1922, húsmóðir í Reykjavík.
Einar, fæddur 2.11. 1923, húsasmíðameistari.
Rós, fædd 6.6. 1924, húsmóðir.
Bergur Eysteinn, fæddur 8.12. 1926, flugvélvirki.
Dáinn.
Bryndís, fædd 22.9. 1928, leikkona.
Foreldrar mínir
Móðir
Móðir mín var sem fyrr sagði frá Straumi í Hróarstungu.
Hún missti föður sinn, þegar hún var 16 ára, og fór þá Björg
móðir hennar til Eiríks bróður síns á Vífilstöðum í sömu
sveit og dó þar sama ár, en mamma gerðist vinnukona hjá
Eiríki, sem áður hafði tekið af ömmu dóttur í fóstur sem
Málfríður hét.
Á Vífilstöðum lærði mamma að búa til mat og spinna.
Þar var vinnuharka og henni sett fyrir, hvað mikið hún ætti
að spinna á dag. Guðlaug móðursystir mín var ekki fermd
þegar afi dó. Hún fór seinna til Ameríku og átti þar börn,
sem voru ákaflega lík okkur, því að faðir þeirra var systur-
sonur pabba. Hann hét Jón og var góður smiður og komst
fljótt í góða vinnu þegar út var komið.
Foreldrar mínir dóu bæði 1925, pabbi um veturinn en
Bergstaðastrœti 70, Reykjavík.
mamma um sumarið. Hún var þá rétt sextíu og þriggja ára,
en okkur fannst þetta gamalt fólk. Mamma vann mikið, en
aldrei gróf verk. Það var sagt, að Sigmundur færi vel með
konuna sína. En hún hafði fætt af sér 10 börn og þurfti því
ýmislegt að sýsla. Hún spann allt meðal annars í peysuföt
og dúksvuntur, sem hún lét vefa. (Einnig vann hún þessar
fallegu skotthúfur, sem voru þá, ég held fyrir hálfan
hreppinn eða meira). Aldrei var nokkuð tekið fyrir þess-
háttar — ekki í peningum, en það var greiði á móti greiða
og stundum ekkert. Mamma óf ekki sjálf, en pabbi óf
framan af meðan hann þoldi. En svo voru vefarar fengnir á
veturna. Tveir vefstólar voru til heima, en það var aldrei
nema einn upp, hann var uppi í piltahúsi.
Mamma vann í teppi, salúnsvefnað. Þeim vef kom hún í
aðra sveit og þar var það skaftfellsk kona, sem óf. Hún hét
Margrét og var frá Éossi á Síðu. Hún var náskyld þeim
Klausturbræðrum. Allur rúmfatnaður var ofinn heima. Á
sumum rúmunum eins og pabba og mömmu voru salúns-
ofin teppi, í salúnsvefnað var notað íslenskt band. Önnur
teppi voru ofin úr togi, en á þeim var bara venjulegur
vefnaður, þau teppi voru handa vinnumönnunum.
Mamma var mikill tóskaparkona. Hún hafði tvær
Fremri röð f.v.: Rós og Pétur, Guðlaug og Eysteinn. Aftari röð
f. v.: Einar, Sigrún og Inga, Ragnhildur, Sigríður og Bryndís.
Heimaerbezt 133