Heima er bezt


Heima er bezt - 01.04.1988, Síða 33

Heima er bezt - 01.04.1988, Síða 33
„Til þess að svala forvitni ykkar, skal ég segja ykkur eins og er,“ sagði Rut í uppgjafartón. „Við vorum saman í sumar, en svo komst ég að því að hann var giftur, og þá hætti ég með honum. Ef þið eruð ánægð núna, vil ég ekki tala meira um þetta.“ „Allt í lagi,“ sagði Þröstur róandi. „Við skulum ekki forvitnast meira. En það gleður mig að þú skyldir sparka honum þegar þú vissir að hann var giftur. Ég vissi að eitthvað hafði komið fyrir þig, en ekki hvað. Fjóla taldi að þú værir í ástarsorg." Rut brosti og skipti um umræðuefni. Stuttu seinna kom Lilja heim. Þröstur og Fjóla heilsuðu henni vingjarnlega. Skömmu seinna kvöddu þau og fóru. Lilja var að enda við að setja kvöldverðinn í pottana þegar síminn hringdi. Hún svaraði og andlit hennar ljóm- aði af gleði þegar hún heyrði röddina í símanum. Það var Svanur að bjóða henni á ball um kvöldið. Hún þáði það og spurði hvort hann vildi ekki koma í kvöldverð. Svanur þakkaði fyrir, en kvaðst vera búinn að þiggja boð hjá móður sinni, en lofaði að koma strax eftir matinn. Lilja gerði sig ánægða með það og lagði tólið á. Hún dansaði inn í eldhús til Rutar. „Hann bauð mér út í kvöld,“ sagði hún ljómandi af gleði. „Ó, hve ég hlakka til.“ „Hver?“ spurði Rut og glotti. „Nú, auðvitað Svanur." „Góða skemmtun.“ „Viltu koma með?“ „Nei, þakka þér fyrir. Ég kæri mig ekki um að vera þriðja hjólið undir vagni.“ „Gott,“ sagði Lilja hlæjandi. „Ég vil alls ekki hafa þig með. Ég spurði bara fyrir kurteisissakir.“ „Ég þóttist vita það,“ sagði Rut og hló. „Þú ert svo einstaklega elskuleg.“ „Ertu fyrst að fatta það núna?“ sagði Lilja og þóttist undrandi. „Já, reyndar.“ „Þetta er nú mógun af fyrstu gráðu. Ég verð bara sár.“ „Láttu Svan kyssa á „bágtið“,“ sagði Rut og beygði sig niður svo borðtuskan, sem Lilja fleygði í hana, lenti á bekknum fyrir aftan hana. Rut sendi tuskuna til baka, sem Lilja greip og lét í vaskann. Þær sendu hvor annarri tóninn í gamni á meðan þær mötuðust, en síðan gekk Lilja frá. Rut var á leið inn í stofu þegar Svanur kom. Hann heilsaði glaðlega og spurði hvort hann mætti ræna Lilju frá henni. Rut sagði að ekkert væri sjálfsagðara. Hún fengi þá frið á meðan. Lilja sendi henni tóninn innan úr eldhúsinu, en Rut hvarf inn í herbergi sitt. Hún lokaði hurðinni á eftir sér og settist við skrifborðið. Hún ætlaði ekki að gera neitt sérstakt, en hún vildi leyfa Lilju og Svani að vera einum. Hún vissi að þau myndu ekki fara inn i svefnherbergi Lilju á meðan hún væri frammi. Þau kynnu ekki við að skilja hana eftir, eina í stofunni. Ég vona að allt gangi vel hjá þeim, hugsaði Rut og horfði út um gluggann. Lilja yrði hamingjusöm með Svani. Hann var þannig maður að fólk fékk traust á honum við fyrstu kynni. Það gladdi Rut að vinkona hennar var ekki eins leið núna og hún var áður en þær fluttu hingað. Lilja truflaði þessar hugsanir með því að koma æðandi inn. „Rut,“ byrjaði hún, en þagnaði þegar hún sá alvöru- svipinn á vinkonu sinni. „Er eitthvað að?“ Rut hristi höfuðið neitandi. „Nei, ég var bara að hugsa,“ sagði hún og brosti. „Vantar þig eitthvað?“ „Ætlarðu að koma með okkur Svan út?“ spurði Lilja. „Nei.“ „Ferðu eitthvað annað?“ „Nei.“ „Viltu þá gera okkur greiða?“ „Það fer eftir þvi hver hann er.“ „Myndirðu vilja passa fimm mánaða gamla stúlku fyrir systur hans Svans?“ spurði Lilja. „Hana langar að fara út í kvöld.“ „Ég get gert það,“ sagði Rut. „Ætlið þið þá að keyra mig þangað?“ „Já, og sækja þig eftir ballið.“ „Samþykkt,“ sagði Rut glaðlega. „Kallaðu á mig þegar þið farið.“ „Af hverju kemurðu ekki fram í stofu. Þér er velkomið að spjalla við okkur, Rut. Komdu nú, en sittu ekki eins og klessa hérna.“ „Ertu viss um að þið viljið ekki vera ein?“ „Já, ég er alveg viss um það. Ef við vildum vera ein, færum við sennilega yfir í Svans íbúð. Ertu þá ánægð, kerl- ing?“ Rut brosti og fylgdist með Lilju fram. „Hún ætlar að passa fyrir Svönu systur þína,“ sagði Lilja og settist við hlið Svans. Hann lagði annan handlegginn utan um hana og brosti til Rutar. „Þakka þér fyrir,“ sagði hann. „Svana verður glöð. Hún hefur svo sjaldan færi á að fara út og skemmta sér núna. Hún er ein með litlu telpuna.“ „Er hún ógift?“ spurði Rut til þess að segja eitthvað. „Já, hún var trúlofuð, en það fór út um þúfur. Hann vildi ekkert með hana hafa þegar hún varð ófrisk.“ Á meðan þau spjölluðu saman skipti Lilja um föt. Hún málaði sig sáralítið að þessu sinni. Svanur hafði einhvern tímann sagt að hann þyldi ekki kvenfólk, sem liti út eins og málverk. Hún vildi ekki tilheyra þeim hópi kvenna í hans augum. Þegar hún var tilbúin gekk hún fram. Þau litu upp þegar hún birtist. „Þú verður fallegasta stúlkan á ballinu í kvöld,“ sagði Svanur af einlægni, og aðdáunin leyndi sér ekki í gráum augum hans. Lilja sendi honum geislandi bros að launum. Rut spurði hvort þau væru að fara, og þegar þau játuðu því fór hún að tygja sig til. Hún tók með sér handavinnu svo henni leiddist ekki. Svanur ók henni heim til Svönu. Framhald. Heima er bezt 141

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.