Heima er bezt - 01.09.1996, Blaðsíða 11
Edda og Hlynur skála fyrir niðurstöðum úr rannsóknum á Miðhúsa-
silfrinu.
aldrei neinu, hvort sem um er að ræða grös
eða spýtur, bein eða hom eða hvað sem er.
Ég get aldrei tínt mikið af grösum á sama
staðnum, mér finnst mikilvægt að það sé
ekki hægt að sjá að grös hafi verið tínd.
Við þurfum að fara víða yfir og talca lítið á
hvetjum stað, þannig að við spillum engu.
Þetta er ákaflega ríkt í mér. Nú er ég með
stórt verkefni í gangi; penna úr trjágrein-
um. Ég sæki þær út í reitina mína með því
hugarfari að ég sé að grisja. Auðvitað gæti
ég tekið allt sem ég þarf á litlu svæði en
það get ég ekki hugsað mér að gera, ég fer
vítt yfir. Þetta er miklu meiri vinna en
þannig kýs ég nú að hafa það. Ég reyni að
segja fólki að það verði að skynja náttúr-
una; heyra grasið gróa og trén anda, upplifa
sig sem hluta af náttúrunni. Aðeins þannig
er hægt að vinna með þetta efni, nýta nátt-
úruna án þess að skemma hana. Það er auð-
velt ef maður gengur að því með réttu hug-
arfari. Ég tíni talsvert af grösum og það eru
mínar bestu stundir, þegar ég fer ein út í
grasatínslu. Þetta eru ýmis konar jurtir, sem
ég þurrka og set í litla poka, sem ég sel svo. Reyrgresi
tíni ég og nota í umbúðir og það er heilmikil vinna því
hann vex svo dreift. Ætli ég hafi ekki lært þetta af föður
mínum. Hann stundaði veiðar en aldrei meira en við
þurftum á að halda. Menn fleygja alveg ótrúlega miklu af
nýtilegu efni.“
Miðhúsasilfrið
„Þann 30. ágúst 1980 var alveg sérstaklega gott veður á
Héraði, svo gott að það er minnisstætt. Þá vorum við að
byggja húsið okkar og þennan dag fór ég að sækja Hlyn
og Fjölni í mat en þeir voru við smíðar. Fyrr um vorið
höfðum við látið taka ofan af fyrir stétt við húsið en ekki
haft svigrúm til að leggja stéttina. Þarna hafði því verið
talsvert moldrok allt sumarið. Ég rak augun í eitthvað
sem glampaði og hélt að Fjölnir hefði dregið eitthvað
með sér, sparkaði í það en hugsaði svo ekki meira um
það. Krummi hafði setið marga daga uppi á mæninum og
gargað ógurlega og þótti nú ekki vita á gott. Þegar
feðgarnir komu út ákváðu þeir að athuga nú á hvað
krummi sé að garga og þá lá þetta bara þarna í moldinni.
Þeir tóku þetta með sér inn í eldhús og Fjölnir hrópaði til
mömmu sinnar að hann hefði fundið fjársjóð. Við vissum
lítið hvað þetta var en brugðum okkur með þetta niður á
Eskifjörð, þar sem við þekktum mann, sem við treystum
til að hafa á þessu nokkurt vit. Hann hvatti okkur til að
láta strax vita og þegar við náðum sambandi við Þór
Magnússon sagði hann okkur að Kristján Eldjárn væri
hér eystra og myndi líta strax á þetta. Hann kom svo til
okkar um kvöldið og Þór kom daginn eftir. Þeir fóru með
allt suður strax næsta kvöld. Svo vissum við ekkert af
þessu silfri fyrr en fyrir 2 árum þegar vinkona okkar
sagðist hafa frétt af því að suður i Þjóðminjasafni væri
maður, sem héldi að við hefðum búið þetta allt saman til.
Svo fengum við upphringingu og vorum fyrst spurð hvort
við teldum mögulegt að einhver hefði komið þessu fyrir
til að hrekkja okkur. Við botnuðum ekkert í þessu hug-
myndaflugi og svo vorum við spurð hvort við hefðum
búið þetta til. Framhaldið þekkja svo allir. Silfrið var
rannsakað í Danmörku og útkoman úr því var að það
væri eins gamalt og áður hafði verið talið, þó með þeirri
undantekningu að við gerð eins hlutar hefði verið beitt
tækni, sem ekki var vitað að hefði verið þekkt á Norður-
löndunum á þessum tíma. Það var nú allt og sumt. Við
vorum gerð mjög tortryggileg í þessu máli og vegið að
heiðri okkar. Það gekk svo langt að gullsmíðaáhugi
Hlyns fyrr á árum var gerður tortryggilegur og rn.a.s. haft
samband við dóttur gullsmiðsins, sem hann fékk að fylgj-
ast með við vinnu sína, til að spyrjast fyrir um hann. Það
hefur enginn haft fyrir því að biðja okkur afsökunar á
einu né neinu. Steininn tók þó auðvitað úr þegar við
fengum í okkar hendur afrit af bréfi, sem skrifað var á
bréfsefni Þjóðminjasafnsins. Þar er Halldór beinlinis
þjófkenndur og við kölluð þjófsnautar ásamt ýmsu fleiru.
Við gátum auðvitað ekki setið undir þessu og höfum því
höfðað meiðyrðamál. En okkur óraði ekki fyrir því 1980
fyrir hverju krummi var að krunka, hann sagði bæði góð
og ill tíðindi enda höfum við tekið mark á honum síðan.“
Heima er bezt 323