Æskan - 01.01.1983, Page 22
HJÁLPFÚSA STÚLKAN
væri einmitt eftirlætisréttur prinsins. Haföi hún sjálf komiö meö stærðar trog,
fullt af mjöli í grautinn, fram í eldhús. Stúlkan sá strax að þetta var ekki
venjulegt mjöl, í því var aragrúi af örsmáum, dökkum ögnum, en þær voru svo
margar, að óhugsandi var aö tína tær allar úr mjölinu. Kom henni þá i hug, aö
litlu fuglarnir, sem þegið höföu af henni brauðmolana, mundu ef til vill geta
hjálpað henni. Gekk hún út að glugganum og kallaði, og jafnskjótt kom heill
hópur af litlum fuglum, þeir röðuðu sér að mjöltroginu, og eftir örlitla stund var
allt mjölið orðið tandurhreint og hvítt. Og prinsinn borðaði þrjá kúfaða diska af
grautnum án þess að honum yrði meint af. Hann hafði ekki borðað sig jafn
saddan í mörg herrans ár. En daginn eftir þegar drottningin sá, að prinsinn
hafði aldrei verið hressari og heilbrigðari en einmitt nú, varð hún svo reið, að
hún ætlaði hreint af göflum að ganga. Nú varð hún að finna upp annað ráð til
að losna við hann. Fékk hún nú líflækni sinn til að blanda sterku svefnlyfi í
morgunkaffið hans. Prinsinn sofnaði þegar, og neyddi hún síðan lækninn til að
tilkynna, að hann væri dáinn. Lét hún því næst leggja prinsinn í líkkistu og gætti
þess, að henni væri vandlega lokað, áður en hann vaknaði aftur. Þarna átti
hann nú að dúsa, þangað til allt væri tilbúið fyrir erfisdrykkju hans. Vonaði
drottning, að hann mundi bráðlega deyja, fengi hann hvorki loft né mat. Gætti
hún þess, að þetta færi allt fram með mestu leynd, en bráðlega fékk þó stúlkan,
sem öllum vildi hjálpa, hugboð um ráðbrugg þetta. Minntist hún þá litlu
músarinnar, sem hún hafði gefið fleskbitann forðum. „Komdu hérna, mýsla
mín,“ kallaði hún, og í sama bili var músin þar komin með alla ungana sína, og
voru þeir nú orðnir bæði stærri og fleiri en áður. Sagði hún síðan músunum,
hvernig ástatt var, og um kvöldið, þegar allir voru gengnir til náða nöguðu
mýsnar göt á kistuna, sem prinsinn lá í. Stúlkan náði í brauð og smjör og alls
konar góðgæti frammi í búri, en mýsnar færðu prinsinum þessar vistir gegnum
götin, sem þær höfðu nagað. Gekk þetta þannig nótt eftir nótt. Eftir viku var
loks allt tilbúið til erfisdrykkjunnar. Átti þá að opna kistuna sem snöggvast, til
þess að fólk gæti séð prinsinn í síðasta sinn. Drottningin lék við hvern sinn
fingur, nú þóttist hún þess fullviss, að prinsinn væri dáinn. En þegar kistan var
opnuð, reis hann á fætur hinn rólegasti. Hann var sýnilega í fullu fjöri ennþá, en
drottningin blánaði og bólgnaði af vonsku. Hún reyndi þó að láta sem ekkert
væri, en fór strax að reyna að finna önnur ráð. Stúlkan vissi þegar, hvað hún
hafði i hyggju. Hugsaði hún þá til kóngulóarinnar sinnar, því að hún áleit réttast
að fá hjálp hennar strax. Ekki hafði hún fyrr minnst hennar, en hún kom
þjótandi inn eftir salnum, fram hjá prinsinum og líkmönnunum og réðist
umsvifalaust á drottninguna. Hún tók til að þjóta kringum höfuð hennar og
spinna og spinna án afláts, þráð eftir þráð, þéttar og þéttar, utan um hana.
Vefurinn varð æ sterkari og stríðari, svo að drottning blánaði upp og gat
naumast náð andanum. En kóngulóin kepptist við og spann sem ákafast, og
að lokum féll drottning steindauð fram á gólf. Var hún síðan látin í kistuna, sem
hún hafði ætlað prinsinum og grafin í hans stað.
Nú var ekkert þvi til fyrirstöðu, að prinsinn yrði kóngur, og mikill fögnuður
varð í ríkinu. Hann spurði stúlkuna, sem hafði bjargað honum, hvort hún vildi
hjálpa honum að stjórna ríkinu, því að sig vantaði einmitt drottningu, sem væri
bæði hyggin og hjartagóð. Stúlkunni kom ekki til hugar að segja nei, en kvaðst
verða að sækja foreldra sína, áður en brúðkaupið færi fram. Söðluðu þau nú
hesta sína, prinsinn og hún, og í fylgd nokkurra hirðmanna hans og ráðgjafa
lögðu þau af stað áleiðis heim til hennar. Stúlkan, sem öllum vildi hjálpa og
gera gott, fór í fararbroddi og söng glaðlega:
„Áður en á enda rann
árið, fann ég góðan mann,
sá á jafnvel heila höll.
Hefi ég ekki verið snjöll?"
3. í Sviss eru 25 kantónur (fylki), og
allar hafa þær sinn sérstaka búning!
Mjög algengar eru brúður í stuttum leð-
urbuxum með skrautlega útsaumuðum
axlaböndum og vesti, og linur hattur
með börðum. Svisslendingar eru stoltir
af villtu fjallablómunum sínum og nota
þau gjarna sem fyrirmynd í útsauminn
sinn.
Framhald.
22