Skírnir - 01.01.1932, Blaðsíða 64
58
Draugasaga.
[Skírnir
að þeirri tilhugsun, að Endi skyldi taka svari mínu gagn-
vart Ólafi. Hvað það gladdi mig! Jafnframt miklaðist ég af
hatri hans til mín. Ég var þýlyndið sjálft klætt holdi og
blóði. Og þótt undarlegt mætti virðast, — ég get þess, svo
að mönnum skiljist betur, að það er engan veginn einungis
hið góða, heldur og hið illa, sem gefur mannssálinni sigur-
þrótt, — það var svo undarlegt, að það var hatrið, sem
frelsaði mig og lyfti mér upp úr þrællyndinu. Það gerði
mig sjálfstæðan og styrkan. Hatrið, góðir hálsar, upprætti
vanmáttarkennd mina og gaf mér stærilæti og þor. Það
bjargaði mér út úr vesaldóminum.
Ég minnist þess sumars betur en nokkurs annars, síð-
asta sumarsins, er við vorum samtíða. Það stendur mér
skýrar fyrir hugskotssjónum en nútíminn. Ég var ofsóttur
og kvalinn miskunnarlaust og slóttuglega af hinum fagra
keppinaut mínum. En það var meinabótin, að þeim mun
meir, er hann ofsótti mig, þvi reiðari varð Endí honum.
Hann fór lika svo klaufalega að ráði sínu, að þetta varð
öllum augljóst. Endí litla smáþroskaðist, en hún elskaði
Ólaf aldrei. Ég held, að hún hafi tekið að fyrirlita hann
að lokum. Svo skildi hann það á sinn hátt. Ég vissi, að
hann ímyndaði sér, að hún elskaði mig. Þetta kitlaði metn-
að minn, þótt ég vissi fullvel, að svo væri því i raun-
inni alls ekki farið. En hvílík ánægja var mér ekki að því
að vita, að þessi hugarburður hans skyldi valda honum
slíkra þjáninga! Hið takmarkalausa mikillæti hans var sært,
það gladdi mig. í einrúmi hló ég og gerði gys að hinni
taumlausu reiði hans, einkanlega eftir að hann hafði beðið
hennar og fengið hryggbrot. Það var einhver ánægjuleg-
asti dagur, sem ég hefi lifað!
Hann bað hennar með slíkri frekju, sem honum var
eiginleg, hræddi hana og ógnaði henni svo að lokum, að
hún þorði aldrei framar að vera ein með honum, nema
aðrir væri nærri. Ég heyrði allt af tilviljun, og raunar var
það engin tilviljun, því að ég stóð á hleri. Ég hafði ekki
virðingu fyrir sjálfum mér þá. Þetta bar við um mið-
sumarskeið.