Skírnir - 01.01.1932, Page 89
Skírnirj
Um skordýrin og breytingur þeirra.
83
óhult á botninum. Hún er nu orðin að púpu, sem hreyfist
lítið eða ekkert og tekur enga næringu til sín. Innilukt í
hylkinu á botni vatnsins breytist lirfan, sem að öllu leyti
var fullkomið vatnadýr, í vængjað skordýr, skapað til þess
að lifa á landi. Þegar púpustigið er á enda, klippir dýrið
gat á hylkið með bitkrókunum og skríður út í vatnið, en
nú er það ekki lengur vatnadýr, heldur fullkomið landdýr,
og því er um að gera að komast sem ailra fyrst upp úr
vatninu, því að annars er dauðinn vís. Ef vorflugan nær í
strá eða þess háttar, klifar hún upp eftir því þangað til
hún er komin á þurt; annars syndir hún rösklega með
miðfótunum, sem eru alsettir hárum (sundhárum), þangað
til hún er komin upp úr.
5. mynd. Vorfluga og vorflugulirfa i húsi úr strábútum.
(B. Sæm.: Dýrafræði.)
Fyrst í stað er vorflugan mjög ósjálfbjarga, en brátt
harðnar hamurinn og vængirnir þenjast út. Þeir eru fjórir.
Vorflugurnar líkjast allmikið fiðrildunum, en eru vanalega
gráar á lit með langa fálmara, en engan sograna, heldur
eru munnlimirnir mjög lítið þroskaðir og líklegt er að dýrið
taki enga fæðu til sín eftir að það er orðið alþroska (orðið
að fullkomnu skordýri).
b. Bjöllur. Allir þekkja járnsmiðinn. En hver þekkir
lirfurnar? Eins og foreldrarnir eru þær rándýr, þær hlífa
engu, sem þær geta ráðið við. Að lögun eru þær nokkuð
langar, með þrenna fætur, en á fótatölunni má sjá að þær
eru skordýr en ekki ormar, þó að þær líkist annars ýms-
um »pöddum«. Liðskifting frambols og afturbols er mjög
greinileg, enda hefir dýrið ekki enn þá öðlazt vængina
6*