Skírnir - 01.01.1932, Page 204
198
Um lok þrældóms á íslandi.
[Skírnir
sagt, að þrælahald hafi þá verið gersamlega horfið hér á
landi. Grágás, sem öll er færð í letur eftir 1100, hefir mörg
ákvæði um þræla, einkum í Vígslóða, Baugatali og Ómaga-
bálki, en liklegt er, að öll þau ákvæði séu leifar eldri lög-
gjafar. Öðru máli kann að gegna um ákvæði í kristinna
laga þætti (I. a. 18, 31; II. 40; III. 19, 34), sem virðast benda
til, að þrælahald hafi enn tiðkast á árunum 1122—1133, er
kristinna laga þáttur var saminn. í því sambandi má einn-
ig minnast á lagastaðina I. a. 191 og II. 396. þar sem refs-
ing er lögð við, ef dróttinn vegur þræl sinn á langaföstu
eða löghelgum tíðum. En þar sem kirkjuleg löggjöf þó var
til áður en kristniréttur hinn forni var saminn — t. d. lög
um refsingu fyrir galdra frá 1032 (Grettis s. 87) og tiund-
arlögin 1096 — þá er alls ekki óhugsandi, að öll þessi
ákvæði séu nýmæli frá 11. öld. En hvað sem því líður, þá
má telja það víst, að hér hafi verið aðeins örfáir þrælar á
strjálingi eftir 1100, ef þeir þá hafa ekki verið horfnir úr
sögunni með öllu.
Flestum norrænum fræðimönnum kemur saman um, að
þrælahaldið hafi horfið fyrir áhrif kristindómsins (sjá t. d.
Munch: Det norske Folks Hist. III. 963; Brandt: Retshistorie
I. 73; Steenstrup í Det danske Folks Hist. II. 178). Satt er
það og, að þó að kirkjan væri í meira lagi veraldleg á
þessum öldum, þá gleymdist henni þó aldrei með öllu að flytja
sitt mikla erindi um að allir menn væru bræður og börn
guðs. í Noregi virðast kirkjunnar menn hafa gengizt fyrir
því, að sett var i lög, að á lögþingi hverju skyldi gefa
einn þræl frjálsan árlega, og slíkt hið sama skyldi í fylki
hverju einn þræll leystur úr ánauð á jólum (Brandt: Rets-
hist. I. 72—73). Ekki veit ég til, að norska kirkjan hafi
gert aðrar beinar ráðstafanir til afnáms þrælahalds, og hér
á landi voru engar slíkar tilraunir gerðar af kirkjunnar
hálfu. Það má og telja víst, að þrælar hafi verið farnir að
týna tölunni til muna hér á landi fyrir árið 1000, og hefir
það þó ekki verið fyrir kirkjunnar áhrif. Orsakirnar til
þess, að þrælkun lagðist svo snemma niður hér á landi,