Skírnir - 01.01.1932, Page 248
Rit Jónasar Hallgrímssonar.
I, 1. Ljóðmæli, smásögur o. fl, Rvik 1929, 313 bls.
II, 1. Sendibréf, umsóknir o. fl., Rvik 1932, 304 bls.
ísafoldarprentsmiðja gaf út.
Fá íslenzk skáld eiga slíkum vinsældum að fagna sem Jónas
Hallgrímsson. Enda þóft heil öld sé á milli hans og hinnar yngri
kynslóðar manna, sem nú lifir, sér þess engin merki, að skáldskap-
ur hans sé að missa hylli almennings. Kvæði Jónasar eru enn lesin
og lærð af æsku þessa lands og munu enn verða það um langa
framtið. Hann skipar fast öndvegissæti meðal þeirra skálda þjóðar-
innar, sem bezt eru talin, og engar líkur eru til, að honum verði
hnekkt þaðan, meðan smekkur manna má heilbrigður teljast og ekki
eru höfð alger hausavixl á hlutunum.
Það er langt orðið síðan áformað var að gefa út öil rit Jón-
asar Hallgrimssonar, þótt það hafi ekki komizt i framkvæmd fyrr
en nú. Bókmenntafélagið lét vinna allmikið að þeirri heildarútgáfu,
en hætti síðan við hana og hóf útgáfu miðaldakvæða. Nú hefir ísa-
oldarprentsmiðja tekið að sér útgáfuna og hefir fengizt til hennar
nokkur styrkur frá Sáttmálasjóði og Bókmenntafélaginu. Eru nú likur
til að útgáfan verði leidd til lykta. Tvö hefti eru þegar komin og er
þeirra getið hér að ofan. í 3. bindinu verða náttúrufræðiritgerðir
Jónasar, dagbækur frá rannsóknarferðum hans o. fl. Loks á að
fylgja æfisaga skáldsins og skýringar við kvæði hans og ritgerðir.
Verður eftir það óliku hægra að kynnast Jónasi frá ýmsum hlið-
um og mynda sér skoðun á honum. Um útgáfuna sér Matthias
Þórðarson þjóðminjavörður, og ber hún vott þeirrar vandvirkni og
nákvæmni, sem honum er lagin.
í 1. bindinu eru öll kvæði Jónasar og þar á meðal nokkur,
sem ekki hafa verið prentuð áður. Aftast í bindinu eru smásögur,.
svo sem Grasaferðin og hinn einkennilegi samsetningur, Salthólms-
ferð. í síðara bindinu eru sendibréf, umsóknir og ritgerðir, þar á
meðal hinn frægi ritdómur um Tristansrímur. Annars hefir fátt verið
prentað áður af þvi, sem i því bindi er. Felst i þessum bréfum
margvislegur fróðleikur um skáldið.
Útgefandi á skilið þakklæti fyrir útgáfu þessa og þess er að
vænta, að þjóðin taki ritum hins vinsæla skálds fegins hendi, kaupi
þau og lesi. En mætti ég bæta einu við i tilefni af því, sem nú var
sagt. Finnur ekki einhver hvöt hjá sér til að gefa þjóð sinni kost á
að eignast góða og handhæga útgáfu af ljóðmælum Grims Thom-
sens? Allar hans ljóðabækur eru löngu uppseldar, en þar er skáld,.
sem á erindi til þjóðarinnar ekki siður en Jónas Hallgrimsson, þótt
harpa hans kveði nokkuð við annan tón.
Guðni Jónsson.