Kirkjuritið - 01.01.1955, Blaðsíða 10
8
KIRKJURITIÐ
Hjartahreinir — heilir, einlægir menn munu Guð sjá.
Þá léttir til í þokunni, sem grúfir yfir hafinu.
Þá vitum vér, að jafnan er bjart ofar skýjum, og að
þessi heimur er Guðs heimur, sem hann elskar og sendi
son sinn, til þess að hver, sem á hann trúir, glatist ekki,
heldur hafi eilíft líf.
Þá sjáum vér sólstafi, er birta oss Guðs ríki fram
undan.
Þá skiljum vér, að það er vantrú að örvænta um hag
jarðar vorrar.
Sú kemur tíð, að sumar rennur yfir djúpið í mætti og
dýrð, sumar sátta og friðar.
Fram í Jesú nafni.
I bæn, trú og kærleika til Guðs og manna.
Kom þú, drottinn Jesús.
Geti eg krafti af guðdóms hreinum
geisla þínum staðizt einum,
sonur Guðs, ó, send mér hann.
Það, sem vér megnum ekki, það getur þú.
Efl veikan vilja vorn.
Tak í óstyrka og fáimandi hönd vora.
Fullkomna á oss og mannheimi öllum það verk, sem
þú hefir hafið.
Vér leggjum allt í þínar hendur, önd og líf.
Meira getum vér ekki.
Blessa oss, ættjörð vora, öll lönd og þjóðir.
Hann var látinn heita Jesús — frelsari.
Gleðilegt nýár í Jesú nafni.
Ásmundur Guðmundsson.